Reist verða tvö gömul álver !

Þrjú álver eru nú á Íslandi, í Straumsvík, Hvalfirði og Reyðarfirði. Þetta hélt ég að væru gömlu álverin og að órisin álver hlytu að vera ný álver í samræmi við ný áform.

En þannig er það ekki að mati núverandi ríkisstjórnar. Órisin álver í Helguvík og á Bakka falla í skilgreiningu iðnaðarráðherrans í kvöld undir gömul áform um álver.

Í stað þess að í fyrstu ríkisstjórninni, sem Vinstri grænir eru í, verði hægt á stóriðjustefnunni, sem hún lofaði að stöðva í kosningunum síðast, á stóriðjuhraðlestin að bruna áfram á mesta mögulega hraða, með stækkuðum risaálverum bæði í Helguvík og á Bakka. Kolbrúnu Halldórsdóttur er hent fyrir hraðlestina þar sem hún mun væntanlega berjast hetjulegri en gersamlega vonlausri baráttu við ofurefli þeirra sem standa fyrir hernaðinum gegn landinu.

Bæði í Helguvík og á Bakka kyngja vinstrigrænir mun stærri álverum en þeir sögðust berjast á móti fyrir síðustu kosningar.

Fyrir norðan mun það eyðileggja heimsundrið Leirhnjúk-Gjástykki og líkast til kosta virkjun Skjálfandafljóts og jafnvel jökulsánna í Skagafirði.

Fyrir sunnan á að pumpa miklu meiri orku, alls um 1000 megavöttum, upp úr svæðum, sem aðeins afkasta þriðjungi þessarar orku og verða til þess að barnabörn okkar verði að finna 1000 megavött einhvers staðar annars staðar, til dæmis í Kerlingarfjöllum, við Torfajökul, Þjórsárver og Langasjó.

Og í samræmi við það að segja að ný álver séu gömul munu menn halda áfram að ljúga því að jarðvarmaorkan á Reykjanesskaganum sé bæði endurnýjanleg og hrein. Þetta verður leikur einn fyrir vinstri græna !


mbl.is Álver í Helguvík en ekki á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er kominn tími til að Ómar Ragnarsson segi fólki satt og rétt frá. Nóg er komið af rógburði og ímyndun. Vegna ummæla um orkunýtingu í Þingeyjarsýlsu liggur fyrir að orka fyrir hugsanlegt álver á Bakka við Húsavík mun koma af háhitasvæðum í Þingeyjarsýlsum, hvorki úr Skjálfandafljóti né jökulánum í Skagafirði. Víða eru heimsundrin en það er sorglegt viðhorf Ómars og hans líka að íbúar þessa lands sitja ekki allir við sama borð. Við íbúar á Norðausturlandi gerum þá kröfu að nýta þá orku sem hér býr í iðrum jarðar okkur til framdráttar, í atvinnusköpun og tekjusköpun fyrir fólkið sem hér býr. Ummæli Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra eru sönnun þess að fólk útan höfuðborgarsvæðisins er annars flokks. Hún hyggst styðja álver í Helguvík en ekkert verður gert á Bakka. Hér á að beisla orkuna og bjarga suðvesturhorni landsins með því að flytja orkuna þangað og nýta hana til atvinnusköpunar.

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 19:48

2 Smámynd: Offari

Æ ég sem var hlyntur því að reist yrði nýtt álver á Bakka.  Þar brugðust þær vonir. 

Málið er að Húsvíkingar eru bundnir þeim samning sem gerður var við alcoa um undirbúning og hagkvæmniskönnun á álveri á Bakka. Það er kannski þér til huggunar að ástandið á álmarkaði er ekki bjart og mér þykir ólíklegt að þar birti meðan umhugsunarfrestur alcoa rennur út.

Ég tel ólíklegt að í heiminum verði byggt nýtt álver næstu tíu árin, nema´líklega verði haldið áfram í Helguvík. Í dag eigum við að leggja meiri áherslu á matvælaframleiðslu því fólk mun aldrei hætta að borða.

Offari, 2.2.2009 kl. 19:56

3 Smámynd: Kristján Logason

Hjálmar

Sem íbúi þessa lands og meðeigandi í náttúruperlum þess þá krefst ég þess að fá að nýta orkuna ekki.

Hljómar sérkennilega ekki rétt. Jafnt og þín ummæli.

Það þarf að hugsa Ísland upp á nýtt og það þarf að hugsa það með hagsmuni heildarinnar í huga og þeirri hugsun að við ætlum okkur að eiga hér framtíð 

 Sú álvers stefna sem hér hefur vaðið upi hefur skilað litlu og men t.d í Canada hafa furðað sig á þessu, þar til þeir áttuðu sig á því að þeir höfðu neitað sömu aðilum og við höfum dregið til okkar með undirboðum, að eyðileggja land og menga. 

Minnistæðust eru mér þó orð manns sem var háttsettur innan Alvers kerfisins á Reyðarfirði þegar hann leit ósköpin augum.

Guð minn góður þetta fók veit ekkert hvað það hefur kosið yfir sig. Þvílík hörmung og eyðilegging.

Þetta var maður sem barist hafi fyrir byggingunni.

 Það er ekki allt fengið með álinu og í raun fátt eitt nú þegar heimsmarkaðsverð hefur hrunið. 

Hvað varðar álverið í Helguvík,Ómar,  þá held ég að menn óttist lagalegu hlið mála þar. Veit það þó ekki. 

Kristján Logason, 2.2.2009 kl. 19:58

4 Smámynd: Kristján Logason

E.S vill benda á stórgóða grein Indriða Þorlákssonar um efnahagsávinning af álverum.

http://inhauth.blog.is/blog/inhauth/entry/792595/ 

Kristján Logason, 2.2.2009 kl. 20:03

5 identicon

Grein Indriða hafði ég lesið og hún er bæði mjög fróðlega og ekki síður gagnleg. Ég er ekki talsmaður álvera sérstaklega. Álversframkvæmdir við Bakka hafa verið ákveðin lausn í þeim vanda sem hefur steðjað að byggð á þessu landsvæði. Mér finnst skorta verulega í grein Indriða eru afleidd störf og þróun byggðar. Greinin er afar góð og yfirdrifsmikil. Öllum er ljóst að halda landinu í byggð en þegar atvinnuöryggi er ekkert og enga vinnu að fá, þegar fólk situr uppi með verðlausar eignir, þegar fólk fer til mennta og kemur ekki aftur vegna þess að enga vinnu er að fá. Þegar fólk fær ekki þá grunnþjónustu sem allir eiga rétt á nýtur ekki, þegar fólk þarf að berjast fyrir sjálfsögðum hlutum aðeins vegna þess að það kýs að búa þar sem það býr. Það sem manni gremst mest er að íbúar þessa lands sitja ekki við sama borð. Fólk utan höfuðborgarsvæðisins er annars flokks. Fólk eins og Ómar Ragnarsson talar landið sífellt niður og vill það helst ekki í byggð. Hann bendir á atvinnumöguleika sem eru mjög skammt á veg komnir í þróun, hann vísar í ferðaþjónustu sem virkar í þrjá mánuði á ári. Á hverju á fólk að lifa? Þess vegna er það dapurlegt að stjórnvöld, hvaða nafni sem þau heita skuli flokka íbúa þessa lands eftir því hvar atkvæðin eru. Með þeirri ríkisstjórn sem nú var að setjast að held ég að við höfum verið að fara úr öskunni í eldinn.

Kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 20:44

6 identicon

Bara röksemdir Indriða einar og sér segir mér að við eigum að reyna af öllu afli að byggja á einhverju öðru en álveri. Öllu öðru en álveri.

Og Hjálmar Bogi, af hverju segirðu að ferðaþjónusta virki bara þrjá mánuði á ári? Það er stöðugt að aukast ferðamannastraumurinn hingað að vetri til. Og ekki spillir gengið fyrir. Ég held að þú vitir það líka jafnvel og ég að reynslan fyrir austan af afleiddum störfum er ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Það er heldur ekki rétt hjá þér að íbúar utan höfuðborgarsvæðisins séu annars flokks. Það þarf meiri dugnað og hörku að búa úti á landi heldur en í höfuðborginni. Þessvegna kemur það á óvart hvað framtaksleysið þar virðist vera landlægt. Er það kannski minnimáttarkennd? Þeir sem búa úti á landi hafa miklu meiri möguleika en við hér á suðvestur horninu. En þeir verða að nýta þá. Hvers vegna kemur ekki unga fólkið aftur heim og framkvæmir það sem það hefur áhuga á? Tíu eða hundrað rekstrareiningar geta skilað miklu til þjóðarbúsins, jafnvel meiru en álver. En það þýðir náttúrlega ekkert að sitja með hendur í skauti og bíða eftir tilskipunum að sunnan.

Nýtt Ísland og við gerum það bara sjálf, takk fyrir!

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 21:04

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Heimsundrið Gjástykki á að skila 30 megavöttum af orku sem skapa 20 mönnum störf í 70 kílómetra fjarlægð.

Nú síðast bloggar Indriði G. Þorláksson í svipaða veru og aðrir kunnáttumenn um það að virðisaukinn af álframleiðslunni er aðeins þriðjungur af því sem verður í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

Gjástykki á sem sé að skapa ígildi 7 starfa. Gefum okkur að við Leirhnjúk fáist önnur 30 megavött, eru þetta samt grátlega fá störf miðað við það að með því að varðveita svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki væri hægt að skapa fleiri störf og það í byggðinni þar sem náttúruundrin eru.

Ég er ekki meira á móti landsbyggðinni en það að ég er að leggja til meiri verðmætasköpun, fleiri og betri störf og þá viðskiptavild og heiður sem því fylgir að fara þá leið sem ég legg til.

Þar að auki felur mín tillaga í sér að byggðin sjálf, Mývatnssveit, njóti góðs af.

Ómar Ragnarsson, 2.2.2009 kl. 21:07

8 Smámynd: Offari

Hjalmar Bogi.   "Fólk eins og Ómar Ragnarsson talar landið sífellt niður og vill það helst ekki í byggð."  Ég held að þú sért að misskilja Ómar tölvert mikið. Hann hefur verið á móti ýmsum virkjunum en alltaf bent á aðra valkosti. Ómar er landfriðunarsinni en ég get ekki túlkað það á orðum hans að hann sé á móti því að fólkið hafi atvinnu.

Hann einfaldlega metur náttúruna meira virði en fólkið sem vill fórna fyrir stóriðjum. Hann er alla vega duglegri en aðrir stóriðjuandstæðingar að benda á aðrar leiðir. Hver hefur rétt á sinni skoðun ef við skoðum ekki aðrar leiðir er hætt við að við festumst í stóriðjudraumnum og segjumst ekki geta lifað án draumsins.

Offari, 2.2.2009 kl. 21:10

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Grein Indriða er táknræn fyrir það hvernig komið er fyrir þjóðfélaginu.Hann var einn af æðstu embættismönnum landsins.Það sem stendur á vefsíðu Indriða og á ég þá við allt sem þar stendur ,líka tilvísun í ákveðið þingskjal, ætti að vera skyldulesning í öllum framhaldsskólum og háskólum landsins.Landsbyggðin öll fær tækifæri í næstu kosningum til að nota kosningarétt sinn til að verja þann rétt sinn að ákveða sjálf hvað er fólki á landsbyggðinni fyrir bestu, og hafna frekju fólks á höfuðborgarsvæðinu að ætla að stjórna lífi fólks á landsbyggðinni.Ekki er annað vitað en öll sveitarfélög á Suðurnesjum,það er Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði styðji byggingu álvers á Bakka,og hefur ekkert komið fram um annað

Sigurgeir Jónsson, 2.2.2009 kl. 21:19

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á sama tíma og gefin er út yfirlýsing um það að orkan til stækkaðs álvers á Bakka muni koma frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum liggur fyrir að heimamenn stofnuðu félag með Orkuveitu Reykjavíkur um virkjun Skjálfandafljóts. Hvers vegna ef engin þörf er fyrir það ?

Stækkun álversins á Bakka þýðir augljóslega að það verður að minsta kosti að virkja á svæðinu Leirhnjúkur-Gjástykki og jafnvel að bæta Skjálfandafljóti við.

Ekki verður hægt að bjarga Leirhnjúki-Gjástykki nema fórna Skjálfandafljóti. Og öfugt.

Þetta stækkaða álver, sem á að verða jafn stórt og álverin í Reyðarfirði, mun þurfa meira en 600 megavött. Álverið í Reyðarfirði þarf 690 megavött.

Ég hef heyrt heimamenn guma af því að hægt sé að pumpa upp 1000 megavöttum af háhitasvæðunum. Þá er greinilega byggt á því að hægt sé að ganga eins skefjalaust og ábyrgðarlaust að orkunni og gert er á Reykjanesskaganum með þeim afleiðingum að öll þessi svæði verði ekki aðeins undirlögð af tugum, ef ekki hundruðum borholna, heldur tekið svo mikið upp að orkan verði uppurin á fáum áratugum.

Ég vil síðan andmæla því kröftuglega að ég sé fylgjandi hervirkjunum sem unnin eru hér á suðvesturhorninu. Samfelld barátta mín gegn þeim og skrif um þau ættu að sýna hvar ég stend í þeim málum.

Ómar Ragnarsson, 2.2.2009 kl. 21:29

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Mjög skammt komnir á veg í þróun." Þetta er algert öfugmæli varðandi þá möguleika sem ferðaþjónustan á í löndum eins og Íslandi. Í útlendum þjóðgörðum og þeim mjög afskekktum eins og í Yellowstone, eldfjallaþjóðgarðinum á Hawai eða í Lapplandi, er byggt á margra áratuga reynslu sem við getum haft til fyrirmyndar.

Til Lapplands koma fleiri ferðamenn á veturna en allt árið til Íslands, sem þó er styttra frá löndum Vestur-Evrópu en Lappland.

Í Lapplandi selja þeir fernt: Kulda. Myrkur. Þögn. Ósnortna náttúru.

Ég hef ferðast um Lappland að vetrarlagi og Ísland hefur yfirburði yfir Lappland sem ferðamannaland á hvaða árstíma sem er.

Ómar Ragnarsson, 2.2.2009 kl. 21:34

12 Smámynd: Haukur Baukur

Við eigum ótrúlegar auðlindir á fleiri stöðum en bara í fallvatni og jarðvarma.  Tökum sem dæmi sjávarföll.  Mikill þungur straumur í Gilsfirði, og ef við viljum vera framkvæmdargeðveik, gætum borað göt í gegnum firði og nýtt mun á sjávarhæð.  Golfstraumurinn er sírennsli, og flóð og fjara tvisvar á sólarhring.   Getum raðað niður hundruðum túrbína í öllum stærðum.  Sigla þeim á réttan stað og sökkva þeim.  Allt neðansjávar og sjónmengun núll!!!

Svo verður fjandi hvasst og vel hægt að nýta það.  Kannski hægt að gera Vestmanneyjar sjálfbærar með myllum á Stórhöfða :)

Umhverfisráðherra á að gefa vel inn í nýsköpun og virkja mannauðinn.  

Haukur Baukur, 2.2.2009 kl. 22:00

13 identicon

Ljóst er að Ómar Ragnarsson er með lausn á þeim vanda sem íbúum svæðisins standa frammi fyrir, tekjumissi, atvinnumissi, lækkandi fasteignaverð, skerta þjónustu o.fl. Svo virðist sem Ómar Ragnarsson hafi lausnir við þessum vanda og glaður vildi ég að hann myndi flytja sig norður um heiðar og hrynda þeim í framkvæmd. Hér er nóg af þögn, myrkri, kulda og ósnotinn náttúru. Geti hann komið þessu í verð og tryggt tekjur fólks, atvinnu þess og fjölgun íbúa þá skal ég taka honum fagnandi. Ég er ekki talsmaður álvera heldur atvinnuuppbygginar íbúunum til hagsbóta. Það er bara ekki nóg að skrifa um það fínar greinar, fjalla um málið í blöðum og sjónvarpi heldur þarf að koma hlutum í framkvæmd. Hér eru ferðaþjónustuaðilar í rekstri einn til fimm mánuði á ári. Fólk hér getur ekki lagst í dvala þess á milli. Ákvörðunartaka á SV-horninu hafa verið þessu landsvæði í óhag og hreinlega er staðið í vegi fyrir atvinnuuppbygginu svo ég tali nú ekki um ef færa á opinber störf utan Reykjavíkur. Það er þess vegna dapurleg afstaða umhverfisráðherra að hér megi svo sem virkja en ekki nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar. En aftur, Ómar hefur greinilega lausn á þessum vanda og ég vona að hann geri meira úr því en að gapa á fundum, skrifa greinar eða mynda náttúruruna. Það þarf aðgerðir ekki hjal.

Kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 22:09

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er alsæll með þessa yfirlýsingu Kollu - bara meira af þessu frá VG og Samfylkingu 

Síðan legg ég til að VG skoði ummæli Hjörleifs Guttormssonar alvarlega varðandi friðun Dreka svæðisins  

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.2.2009 kl. 22:32

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Indriði vitnar í grein sinni í Þorstein Siglaugsson og Sigurð Jóhannesson, menn sem hafa verið inni á gafli hjá náttúruverndarsamtökum, og allir vita hvernig málflutningur þeirra hefur verið á undanförnum árum.

Þorsteinn gerði fræga arðsemismatsskýrslu fyrir Landvernd, í baráttu þeirra samtaka gegn Kárahnjúkavirkjun. Guðmundur 'olafsson hagfræðingur dró þá skýrslu sundur og saman í háði með faglegri úttekt og sagði m.a.

"Um skrif  Þorsteins Sigurlaugssonar, “Lokaorð um aðferðir” , síðastliðinn miðvikudag,  er ekki ástæða til að fjölyrða mikið. Í útreikningum sínum á lækkun álverðs velur hann verð í tveim tímapunktum, 1. janúar 1989 og 31. maí 2001 og  fær þar með lækkun á álverði. Ekki er skýrt hvers vegna ekki er reiknað með 1 október 1991 til 31, maí 2001 sem gefur stórfellda hækkun á áli. Á fundum um útreikninga sína hefur hann sagst nota leitnilínur og teiknar þær inn á línurit sín til skýringar, en hleypur nú allt í einu frá því, þegar sýnt hefur verið fram á að sú aðferð er rugl. Segist hann nú hafa notað aðferð sem er enn verri ef eitthvað er. Vonandi má treysta því að um sé að ræða “lokaorð” hans um þetta". Guðmundur Ólafsson hagfræðingur

Sjá HÉR   og HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2009 kl. 02:40

16 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Ég hef fyrir satt, og leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál, að hvert starf í álverinu fyrir austan hafi kostað 260 miljónir. Um er að ræða kostnaður ríkisins vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Þá er ótalinn byggingarkostnaður álversins sjálfs í Reyðarfirði. 

Síðan getur hver fyrir sig velt því fyrir sér hvað mörg störf gætu orðið til á Húsavik ef sendar veru þangað 260 miljónir, nú eða jafnvel 620 miljónir til atvinnuþróunar. 

Hvaðan ættu þær að koma kynni þá einhver að spyrja. Það má vel hugsa sér að það kæmi úr ríkissjóði (Þó vissulega sé þar ekki mikið til skiptanna um þessar mundir). Þá vísa ég til þess að framlög ríkisins í rannsóknir, kynningar og annað sýsl við að koma álverum á koppinn skiptu hundruðum miljóna, svo hver er munurinn?

Guðmundur Gunnarsson, 3.2.2009 kl. 18:04

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur Gunnarsson.

Heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun verður vart undir 146 milljörðum króna
, samkvæmt upplýsingum sem Landsvirkjun sendi frá sér í janúar í fyrra, en hAlcoa Fjarðaáli eru 383 stöðugildi, samkvæmt heimasíðu álversins.

Og 146 milljarðar króna deilt með 383 stöðugildum eru 380 milljónir króna á hvert stöðugildi.

Þorsteinn Briem, 3.2.2009 kl. 20:52

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Störf vegna álversins á Reyðarfirði eru í heildina um 1000. Þrátt fyrir það er kostnaður á hvert starf um 150 miljónir. Allur kostnaðurinn (líka kostnaðurinn við Kárahnjúka) er greiddur af Alcoa og þegar allt hefur verið greitt upp í topp, þá eiga Íslendingar skuldlausa fjárfestingu upp á 150 miljarða að núvirði.

Ekkert af kostnaðinum vegna framkvæmdanna fyrir austan er greiddur úr ríkissjóði. Ekkert er tekið frá öðrum verkefnum ríkissjóðs. Þetta er algjörlega sjálfbær framkvæmd sem borgar sig upp á ca. 30 árum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.2.2009 kl. 00:53

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Afsakið, gleymdi að taka með kostnaðinn vegna álversins. Heildarkostnaður per starf er um 300 miljónir. En niðurstaðan er sú sama. Ekki er verið að taka fjármagn frá öðrum verkefnum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.2.2009 kl. 00:55

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Störfin í álverinu eru 400 og einhverjir eru ennþá á launum jhá undirverktökum (Launafl) en slíkt er u.þ.b. að líða undir lok.

Af þessum 400 störfum eru tæplega 100 skrifstofustörf og yfirgnæfandi meirihluti þeirra starfsmanna hafa háskólagráður af fjölbreyttum toga, s.s. verkfræðingar á ýmsum sviðum, tæknifræðingar, lögfræðingar, sálfræðingar, mannauðsstjórnendur, matvælafræðingur, bókasafnsfræðingur, stjórnunarfræðingar, kennarar, stjórnmálafræðingur.... o.fl.

Meðal framleiðslustarfsmanna í kerskálunum eru bókstaflega öll svið menntunar í iðnaði, teljið það bara sjálf upp í huganum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.2.2009 kl. 01:04

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar Th. Gunnarsson.

Landsvirkjun er alfarið í eigu íslenska ríkisins og það ber því ábyrgð á fyrirtækinu.

Skuldir Landsvirkjunar voru 3,75 milljarðar Bandaríkjadala um mitt síðastliðið ár, um 440 milljarðar króna á núvirði.

Af þeirri upphæð þarf Landsvirkjun að greiða tugi milljarða króna í vexti árlega til útlanda og vextirnir hafa hækkað mikið undanfarna mánuði,
þar sem lánshæfismat íslenska ríkisins versnaði mikið í haust og lánshæfismat Landsvirkjunar hefur verið lækkað jafn mikið og ríkissjóðs.

Vextir af erlendum lánum voru um 7% 1. október í haust, en ári áður voru þeir 4%, og 7% ársvextir af 440 milljarða króna láni eru um þrjátíu milljarðar króna.

Þorsteinn Briem, 4.2.2009 kl. 01:47

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Allur kostnaður vegna Kárahnjúka er greiddur af Alcoa. Er erfitt að skilja það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.2.2009 kl. 02:00

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Ertu að drekka gamlar birgðir af Sinalco?

Kárahnjúkavirkjun er í eigu Landsvirkjunar sem er alfarið í eigu íslenska ríkisins.

Fjarðaál í Reyðarfirði er hins vegar í eigu Alcoa, sem kaupir rafmagn af Landsvirkjun í samræmi við heimsmarkaðsverð á áli hverju sinni, og Alcoa er ekki íslenskt fyrirtæki.

Er erfitt að skilja það?

"Landsvirkjun var stofnuð þann 1. júlí 1965. Eigendur voru Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg. Árið 1983 bættist Akureyri í hóp eigenda. Frá fyrsta janúar 2007 yfirtók Íslenska ríkið eignarhlut Reykjavíkur og Akureyrar í fyrirtækinu sem er nú sameignarfélag í eigu ríkisins."

Aflstöðvar Landsvirkjunar eru til dæmis Kárahnjúkavirkjun, Kröflustöð og Sultartangastöð.

Skuldir Landsvirkjunar (ekki Alcoa) voru 3,75 milljarðar Bandaríkjadala um mitt síðastliðið ár, um 440 milljarðar króna á núvirði.

Af þeirri upphæð þarf Landsvirkjun (ekki Alcoa) að greiða tugi milljarða króna í vexti árlega til útlanda og vextirnir hafa hækkað mikið undanfarna mánuði,
þar sem lánshæfismat íslenska ríkisins versnaði mikið í haust og lánshæfismat Landsvirkjunar hefur verið lækkað jafn mikið og ríkissjóðs.

Vextir af erlendum lánum voru um 7% 1. október í haust, en ári áður voru þeir 4%, og 7% ársvextir af 440 milljarða króna láni eru um þrjátíu milljarðar króna.

Þorsteinn Briem, 4.2.2009 kl. 04:02

24 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Allur kostnaður vegna Kárahnjúka er greiddur af Alcoa. Er erfitt að skilja það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.2.2009 kl. 11:18

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar minn. Hvað ertu að reykja þarna fyrir austan, elsku kallinn minn?

Þorsteinn Briem, 4.2.2009 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband