"...að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."

Ég ætla að leggja fyrir ykkur próf. Prófið þið að lesa ofangreinda setningu á eðlilegum hraða. Ég gat það ekki fyrstu atrennu. Féll á prófinu.

Á hverjum degi göngumst við undir það próf sem lífið sjálft er. Öll veröldin morar í prófum og kröfum um hæfni. Hjá þeim verður ekki komist, hvorki í skólakerfinu né annars staðar.

En prófin og námsefnið þurfa að vera þannig að jafnræðis sé gætt milli nemenda og skólanna innbyrðis.

Aðalatriðið í skólastarfi er að vekja áhuga nemenda og mikilvægi góðra kennara verður seint ofmetið. Það getur skipt öllu máli hvernig námsefni er sett fram og matreitt.

Öll börnin mín hafa einhvern tíma verið kennarar í skólum og bróðir minn og móðir mín gengu samtímis í Kennaraskólann á sinni tíð. Maður er umkringdur kennurum, því að allar fjórar dætur mínar hafa kennaramenntun og þrjár hafa það að aðalstarfi.

Jónína, dóttir mín, sýndi mér nýlega eftirfarandi setningu úr námsefninu. Það varðar æxlun dulfrævinga.

Fyrri áfangi hennar felst í því "að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."
Ég endurtek: "...færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."

Prófið þið sjálf að segja þetta á eðlilegum hraða: "...að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."

Dásamleg setning en dæmigerð fyrir margt af því sem börnin okkar þurfa að læra. Síðar meir þegar komið er út í lífið veður nær óskiljanlegur, tyrfinn og oft órökréttur kansellístíll uppi mörgu hámenntuðu og gáfuðu fólki þegar það er komið út úr verksmiðjum skólakerfisins.

Minn magnaði fréttastjóri, Emil heitinn Björnsson, henti einu sinni í mig frétt sem ég hafði skrifað með þessum orðum:

"Nú hef ég eytt tuttugu mínútum af dýrmætum tíma mínum til þess að reyna að leiðrétta og koma einhverri hugsun í þessa óskiljanlegu þvælu, sem þú leggur fyrir mig! Sérðu hvernig fréttin lítur út núna! Ég er búinn að pára hverja leiðréttinguna af annarri út um allt og strika út, bæta við og strika aftur út!

Og þú hefur væntaleg eytt býsna löngum tíma til þessa að vinna þetta verk til einskis. Við hér á fréttastofunni höfum annað og þarfara að gera í tímahraki okkar og mannfæð en að stunda svona vinnubrögð.

Bæði fréttin þín og vinnan mín eru handónýt! Farðu fram og komdu aftur með þessa frétt skrifaða á máli sem fólkið skilur! Og komdu aldrei aftur til mín með annað eins rugl og bull !

Þetta hreif og ég verðð ævinlega Emil þakklátur fyrir þann íslenskuskóla sem hann leiddi okkur fréttamennina í.

Ég geymi enn í huga mér nokkrar gull-bull setningar, sem blaðamenn hafa skrifað og gauka þeim kannski að ykkur síðar. Eins og upphaf þessarar fréttar höfðu þær þó einn kost: Það gat verið skemmtileg ögrun að læra þær utanbókar.


mbl.is Inntökupróf slegin af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst frekar skuggalegt að leggja niður samræmdu prófin. Í vinsælustu framhaldsskólana veljast nemendur eftir árangri úr þessum prófum. Einkunnir úr vorprófum nemenda í grunnskóla samanstanda oft af prófinu, hversu vinnusamur nemandi kennarinn telur hann vera, getur gilt alltað 20%, og jafnvel mætingu.Tungumálaprófin sjálf eru til dæmis oft að hluta til háð mati kennarans. Þetta gefur kennaranum alltof mikið matsvald yfir hverjum einstökum nemanda, og flestir muna nú eflaust eftir að hafa einhverntíma haft kennara sem var illa við sig. Ég var til dæmis með kennara í öðrum bekk í gagnfræðaskóla sem pirraði sig mikið á mér. Hún sagði að ég væri með neikvætt hugarfar og mætti illa í tíma(satt hjá henni), og því ætti ég ekki skilið að ná þessum sagnfræðiáfanga. Í lokaeinkunn fékk ég því 4,5. Einkuninn samanstóð af prófinu sem ég var hæst í og fékk 9,8 (krossapróf óháð mati sem betur fer), og svo hennar mati á því sem ég áður nefndi og fékk greinilega núll í. Mér leið mjög illa á þessum árum og fjölskyldan í upplausn (ætla ekki að útlista nánar). Nú ef skólapróf giltu til inngöngu í framhaldsskóla hefði ég hvorki þá ,né nú, komist í kvennaskólannn þar sem ég varð nemandi. Allavega ekki ef svona útreikningar væru móðins. Ég er alfarið á móti þessu nýja kerfi, og myndi gjarnan vilja heyra álit annarra.

Með bestu kveðju

Dísa (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 14:05

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Upphaf pistils míns ber með sér að miklu varði jafnræði milli nemenda og skóla og að hvort eð er verði í því alþjóðasamfélagi sem við lifum í komist hjá því að hafa próf.

Eitt þeirra prófa sem ég hef tekið á lífsleiðinni og varðar mjög miklu um velferð þeirra sem það tengist eru réttindi atvinnuflugmanns.

Eðli málsins samkvæmt verður að vera til staðar ákveðin lágmarks reynsla og þekking hjá flugmönnum í grundvallaratriðum sem varðað geta líf eða dauða þegar svo ber undir.

Í þessum prófum gildir tímasókn eða velvilji kennara núll en frammistaðan á prófinu er algild.

Ef mönnum þykir sálfræðiþátturinn eða persónuleikinn vera mikilvægur er það metið sér en ekki verið að rugla því saman við frammistöðuna í einstökum greinum.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2009 kl. 14:48

3 identicon

það verður skýjahnoðri í norðri þótt síðar verði....

ari (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 05:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband