Bjóðum bara lægra lægsta verð, ekki satt?

Þegar efnahagssamdráttur áranna 1991-95 skemmdi fyrir fyrirætlunum um álver á Keilisnesi sáu íslenskir ráðamenn þess tíma leið út úr því.

Þeir létu bara gera glæsilegan bækling sem Andri Snær Magnasson afhjúpaði áratug síðar á eftirminnilegan hátt. Bæklingur þessi var sendur til allra stóriðjufyrirtækja sem líkleg þóttu til að falla fyrir efni hans, sem var ómótstæðilegt: "Lægsta orkuverð og sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum sem engar áhyggjur þarf að hafa af."

Þetta var pottþétt og hreif. Á Íslandi var tryggt að ekki þyrfti að gefa seljendunum, íslensku þjóðinni, upp orkuverðið. Það varð að koma álver, hvað sem það kostaði.

Dæmi um það hve skefjalaus og alger krafan var um álver var að samkvæmt Keilisnes-áætluninni átti álverið að rísa hér syðra en aðeins örfáir að fá framtíðarvinnu við Fljótsdalsvirkjun fyrir austan.

Það skipti Austfirðinga engu máli þá. Aðalatriðið var að fá virkjanaframkvæmdir í nokkur ár sem myndu gefa tímabundin atvinnutækifæri, hækka fasteignaverð nógu mikið til að fólk eystra losnaði úr átthagafjötrum, gæti selt hús sín og flutt suður.

En víkjum aftur til aldamótanna. Stóriðjuáformin voru gerð aðlaðandi með loforðum um umhverfisvæna, endurnýjanlega og hreina orku, sem hægt væri að auglýsa um allan heim til að gefa álverum á Íslandi ómótstæðilegan gæðastimpil með tilheyrandi viðskiptavild, sem hægt var að meta til mikils fjár.

Tryggt var að allir æðstu ráðamenn þjóðarinnar myndu nýta hvern einasta fund eða ráðstefnu um málin til að gylla þetta fyrir umheiminum.

Engu skipti þótt staðreyndin væri sú að mestöll orkan, sem í boði væri á Reykjanesskaganum entist aðeins í nokkra áratugi og væri miðuð að meðaltali við 50 ára endingu, sumt styttra, sumt lengra. Þeirri staðreynd yrði drekkt í skálaglamri kokkteilboða og víðtækri auglýsingaherferð um forystu Íslendinga í sjálfbærri þróun.

Fyrst yrði því lofað að álverin í Helguvík og á Bakka þyrftu aðeins að verða 240 þúsund tonn til að standast hagkvæmniskröfur. Þegar búið væri að komast það langt að ekki yrði aftur snúið, myndin talan hækka um 100 þúsund tonn.

Þess vegna heldur Helguvíkurverkefnið áfram að vera álitlegur kostur í augum álfyrirtækjanna. Íslendingar liggja nú afvelta í afleiðingum eigin gróðafíknar og munu lækka orkuverðið eins og þurfa þykir og sætta sig við stærra álver eftir pöntun álfurstanna.

Jón Gunnarsson og aðrir þingmenn kjördæmisins munu hrópa því hærra á framkvæmdir sem minni líkur verði á að þær verði að veruleika. Við verðum að fá álverið, sama hvað það kostar, sama hvað það verður stórt, sama hvað miklu af náttúruverðmætum verður fórnað, sama hvað álverðið verður lágt, sama hve miklu verður að ljúga um hina endurnýjanlegu orku !

Hægt verður að lækka orkuverðið niður í það óendanlega án þess að það vitnist. Það er viðskiptaleyndarmál hvort eð er og því verður aldrei breytt. Tryggt verður að ekki sé hægt að mynda ríkisstjórn á Íslandi nema annar hvor eða helst báðir mestu stóriðjuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur eða Framsókn verði með úrslitavald í þessum málum þótt Samfylking eða VG sé að forminu til með ráðuneytin sem þetta heyrir undir.

Þetta er svo skothelt !


mbl.is Tap Century 898,3 milljónir dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef við seljum útlendingum orku, þá er hún örugglega á gjafverði. Ef við semjum við Evrópusambandið þá hirð þeir örugglega af okkur allan fiskin úr sjónum og sennilega taka þeir af okkur vatnið líka. Við þurfum ekki að minnast á orkuna, þeir byrja á að taka hana. Heldur þú Ómar að sá dagur muni koma að við hér á landi drögum það í efa að sólin komi upp að morgni. Í þeirri heimskreppu sem við lifum í núna og að fylgjast með verði á áli og gengi bréfa í Century, snúast mínar áhyggjur meira um það hvort slökkt verði á álverunum hér á landi. Ég fagna því að þessi fyrirtæki fengu hagstæðan orkusamning. Orkuverð í heiminum hrynur. Olíutunnan fer að nálgast 30 usdollar á tunnu. Á einhverjum tímapunti verður hagstæðara fyrir álframleiðendur að nota olíu eða kol frekar en rafmagn ef þessi þróun heldur áfram. En ein spurning að lokum. Forsetinn okkar ÓRG hefur gert margt ágætt, eitt af því er barátta hans gegn fíkniefnum. Ólafur hefur sagt að til að útríma sölu eiturlyfja þurfi að eyðileggja markaðinn. Hefur ykkur álantiistum aldrei dottið í hug að snúa ykkur að markaðnum fyrir ál? Ef ekki er markaður fyrir ál þarf ekki að framleiða það.

Egill Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 01:38

2 identicon

Ef einhvertíman mun koma sá dagur að íslendingar munu efast um sólaruppkomu næst dags, þá mun hún einnig eiga erfiða uppkomu um allan þennan hnött.

Hún mun allavega ekki eiga það undir áliðnaðinum.

Þórður Runólfsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 02:23

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Ef nógu vel er að þeim farið, gætum við ekki samt grenjað út eitt álver í viðbót ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 20.2.2009 kl. 02:25

4 identicon

Ál ál ál og aftur ál það eina sem þeir hugsa um er aaál

 ál snemma á morgni og ál seint á kveldi.

Auðvitað er það ekki ál sem skipir mestu máli núna. Það sem skipir máli er matur, hugsið ykkur hvað væri hægt að framleiða ódýrt grænmeti ef raforkan fengist á sömu kjörum og til álfarmleiðslu. 

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 02:28

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Egill Jón. Ál er næstmest notaða efnið í bíla á eftir stáli og allir bílaframleiðendur í heiminum berjast í bökkum vegna heimskreppunnar en ekki vegna einhverra "álantiista". Á hvaða lyfjum eruð þið stóriðjusinnar eiginlega?!

Meirihluti Svía er á móti því að sænska ríkið komi SAAB til bjargar og bandarískir bílaframleiðendur hafa rambað á barmi gjaldþrots en þið stóriðjusinnar hafið að sjálfsögðu ekki tekið eftir því.

Og Úkraína, sem framleiðir og selur mikið af stáli, hefur fengið stórt lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, eins og við Íslendingar.

Við Íslendingar seljum hins vegar ekki ál, heldur rafmagn til framleiðslu erlendra álvera hér, í samræmi við heimsmarkaðsverð á áli í Bandaríkjadölum, og það lækkaði um meira en helming á síðari hluta síðastliðins árs.

Og álfyrirtæki geta að sjálfsögðu orðið gjaldþrota eins og önnur fyrirtæki, til dæmis bílaframleiðendur.

Þorsteinn Briem, 20.2.2009 kl. 02:37

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er nú meiri pistillinn hjá þér Ómar.

"Íslendingar liggja nú afvelta í afleiðingum eigin gróðafíknar og munu lækka orkuverðið eins og þurfa þykir og sætta sig við stærra álver eftir pöntun álfurstanna".

"Aðalatriðið var að fá virkjanaframkvæmdir í nokkur ár sem myndu gefa tímabundin atvinnutækifæri, hækka fasteignaverð nógu mikið til að fólk eystra losnaði úr átthagafjötrum, gæti selt hús sín og flutt suður".

" Við verðum að fá álverið, sama hvað það kostar, sama hvað það verður stórt, sama hvað miklu af náttúruverðmætum verður fórnað, sama hvað álverðið verður lágt, sama hve miklu verður að ljúga um hina endurnýjanlegu orku ! "

"Hægt verður að lækka orkuverðið niður í það óendanlega án þess að það vitnist. Það er viðskiptaleyndarmál hvort eð er og því verður aldrei breytt".

Að lesa svona nokk, er eiginlega þyngra en tárum taki. Manni langar að segja ansi margt, en það yrði bara svo helvíti langt....

Ég ætla að nefna tvennt, það fyrra er rafmagnsverðið. Allir flokkar á Alþingi eiga fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar. Þessir fulltrúar vita orkuverðið og hafa alla útreikninga sérfræðiteymis LV á borðinu fyrir framan sig. Þeir sem lagst hafa gegn tilteknum virkjanaframkvæmdum, eða setið hjá í atkvæðagreiðslum um framkvæmdir, hafa gert það á umhverfisforsendum en ekki á efnahagslegum forsendum.

Menn segja að fyrirtækinu Landsvirkjun, sé att út í rándýrar og óarðbærar framkvæmdir, af kjördæmapoturum á Austurlandi, úr röðum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Vissulega skemmir það ekki fyrir Landsvirkjun, ef pólitískur velvilji er fyrir áhuga þeirra á framkvæmdum, en Landsvirkjun er samt sem áður fyrirtæki sem starfar samkvæmt sérstökum lögum og þau lög kveða á um það að fyrirtækinu beri að afla orku á arðsaman hátt. Ársskýrsla fyrirtækisins er svo væntanlega mælikvarði á stöðu mála en hafa ber í huga að fjárfestingar í virkjunum eru langtímafjárfestingar.

Seinna atriðið er með Keilisnesið og Fljótsdalsvirkjun. Það hefur þótt sjálfsagt baráttumál landsbyggðarþingmanna nú á seinni árum, að orkan sé nýtt heima í héraði. Hjörleifur Guttormsson, barðist fyrir því í Iðnaðarráðherratíð sinni sem Alþýðubandalagsmaður, að orkan sem fengist úr miðlunarlóni við Eyjabakka, yrði nýtt til stóriðju á Reyðarfirði.  Landsvirkjun hefur ekki sett sig upp á móti því að orkan sé nýtt í héraði, vegna þess að það styrkir samningsstöðu fyrirtækisins í orkusölu. Því ódýrara sem það er að koma orkunni til orkukaupanda, því betra fyrir Landsvirkjun.

Ég verð að játa að það kemur mér mjög á óvart ef nota hefur átt orkuna frá Fljótsdalsvirkjun, fyrir álver í Keilisnesi og þetta eru nýjar fréttir fyrir mig. Þarna er um mjög dýran orkuflutninga að ræða og um langan veg að fara. Ég held að þarna hljóti einhver misskilningur að vera á ferð. Ætli það hafi ekki heldur verið horft til Þjórsárvera í þeim bollaleggingum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2009 kl. 08:18

7 identicon

Jú, það er rétt, það átti að nota orkuna frá Fljótsdalsvirkjun í álverið á Keilisnesi.  Það voru allir ánægðir með það og almenn "þjóðarsátt" því álverið átti að rísa á Faxaflóasvæðinu og þar yrði því hin raunverulega atvinnusköpun.

En þá kom babb í bátinn.  Það kom í ljós að mjög dýrt yrði að reisa háspennulínur þvert yfir hálendið (kostaði ca. 30-40 mia.kr. á þávirði 1997) auk þess að ýmsir hálendisfíklar bentu á að nokkur sjónmengun yrði á þessum háspennulínum.

Því var hætt við Keilisnesálverið og ákveðið að það skyldi rísa sem næst virkjunarstað, nefnilega í Reyðarfirði.  Þá varð allt vitlaust yfir þessum áformum, því fyrirsjáanlegt yrði að störf myndu skapast á Austurlandi en ekki við Faxaflóann.

Þess vegna var að berjast gegna Fljótsdalsvirkjunni og Eyjabakkalóninu, enda myndi slík framkvæmd einungis skapa störf á Austurlandi.  "Búin" var til náttúruperla í hugum fólks sem hét Eyjabakkar og landsmenn hvattir til að mótmæla þeim áformum að þar yrði reist virkjun.  Hér mætti einfaldlega ekki spilla "einstakri" náttúruperlu sem yrði ómetanleg fyrir framtíðina.   Þetta leiddi til þess að ekkert varð af þessum framkvæmdum og álverið í Reyðarfirði þurfti að bíða enn um sinn.´

Nú varð "þjóðarsátt" um að vernda Eyjabakka af því að það hefði ómetanlegt gildi.  En ég spyr bara; show me the money? - Hvar eru öll þessi ómetanlegu verðmæti sem þessi vernd Eyjabakka átti að hafa í för með sér?  Alla vegana hefur þessi vernd aukið ferðamannstrauminn til Austurlands og þar með skapað mörg störf í ferðamennsku með tilheyrandi verðmætasköpun. 

Hvernig er t.d. hægt að réttlæta þetta fyrir fiskverkakonu niður á Austfjörðum sem misst hefur vinnuna að þessi vernd á Eyjabökkum hafi skapað verðmæti fyrir hana.  Hvað á hún að nota þessa fullyrðingu til?  Á hún að fara að búa til minjagripi um Eyjabakka til að selja ferðamönnum eða að opna pylsuvagn í grend við Eyjabakka til að selja ferðamönnum heitar pylsur? 

Ég veit ekki til þessa að nokkur ferðamaður hafi komið til Eyjabakka undan farin ár, enda er enginn aikvegur þangað, hvað þá góðar gönguleiðir, þar sem þessi "ómetanlega" náttúruperla er langt frá mannabyggðum og alfararleið.  Svæðið er að auki mýrarsvæði sem er ill yfirfaranlegt, þarna hafa t.d. heilu hreindýrahjarðirnar sokkið niður í þetta mýrarsvæði og drukknað.

Kristinn Óli Þorvaldsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 13:34

8 identicon

Ég ætlaði að segja:

Nú varð "þjóðarsátt" um að vernda Eyjabakka af því að það hefði ómetanlegt gildi.  En ég spyr bara; show me the money? - Hvar eru öll þessi ómetanlegu verðmæti sem þessi vernd Eyjabakka átti að hafa í för með sér?  Alla vegana hefur þessi vernd EKKI aukið ferðamannstrauminn til Austurlands og þar með skapað mörg störf í ferðamennsku með tilheyrandi verðmætasköpun. 

Kristinn Óli Þorvaldsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 13:37

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hætt var við virkjun á stærð við Kárahnjúkavirkjun í Koloradófljóti fyrir 40 árum, svonefndri Marmaragjúfursvirkjun. Lónið þar hefði tekið einn fjórða af ánni á þessum kafla og þeir sem vildu virkjunina sögðu að 200 kílómetrarnir sem væru eftir væru feykinóg fyrir flúðasiglingar.

Nú sigla 11 þúsund manns árlega niður ána, sem er hlutfallslega það sama og að 11 manns færu niður svona á á Íslandi. Samt kemur ekki til greina að virkja í Marmaragljúfri. Sumt er ekki hægt að meta til fjár. Skinnið í íslensku handritunum hefðu kannski getað bjargað einhverjum frá kali fyrr á tíð. Átti þá bara ekki að nota það í fatnað? "Nýta" verðmætin ?

Hvers vegna nægir ígildi ellefu siglara til þess að koma í veg fyrir hina bandarísku Kárahnjúkavirkjun sem hætt var við? Vegna þess að hugarfar annarra þjóða gagnvart náttúruperlum er allt annað en hér á landi.

Ómar Ragnarsson, 20.2.2009 kl. 14:30

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kristinn Óli Þorvaldsson.

Þúsundir Pólverja
vinna hér í fiskvinnslufyrirtækjum. Þau eru verksmiðjur og þar starfar ómenntað fólk, iðnaðarmenn og háskólamenntað fólk, rétt eins og í álverum.

Farðu að vinna í fiski ef þú vilt vinna í verksmiðju.

Búinn verður til minjagripur með kjánasvipnum á stóriðjusinnum.

Hann mun rjúka út.

Þú getur líka unnið við það, ef fisklyktin fer í taugarnar á þér, elsku kallinn minn.

Þorsteinn Briem, 20.2.2009 kl. 15:02

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn í dag virðast vera til menn sem harma það að Eyjabökkum skyldi vera þyrmt. Þó var það nú svo að í ljós kom að engin þörf var á miðlunarlóni þar því að Hálslón eitt gerir mikið meira en að anna þeirri miðlun en þarf.

Og næsta sumar á að sökkva átta ferkílómetrum undir Kelduárlón, sem er gersamlega óþarft nema að að aftur komi kuldaskeið eins og var fyrir nokkrum áratugum. Ef slíkt kuldaskeið kæmi, sem er mjög ólíklegt væri svo sem hægt að sökkva þessu svæði þegar menn stæðu frammi fyrir nauðsyn þess.

En þannig hugsa menn ekki. Það á að sökkva þessu svæði þótt það gefi ekki eitt einasta kílóvatt og harma það að Eyjabökkum skyldi ekki vera sökkt líka !

Þeir sem vilja þetta segjast vera hófsemdarmenn en við, sem andmælum gagnslausum náttúruspjöllum, erum taldir öfgamenn.

Ómar Ragnarsson, 20.2.2009 kl. 15:20

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er algjörlega rangt af þér Ómar, að bera þetta svona saman. Að tala um að 11 flúðasiglarar á Íslandi, sem ígildi einhverrar náttúruperlu í Bandaríkjunum! Eigum við þá ekki alveg eins að finna einhvern stað í veröldinni þar sem einn flúðasiglingamaður er ígildi 20.000 Ameríkana? Helvíti yrði sá valdamikill.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2009 kl. 15:20

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bandaríkjamenn líta á land sitt sem eina heild og mikilvægustu friðuðu svæðin þar eru undir forsjá alríkisstjórnarinnar. Ef þeir vega mikilvægi svæðis eingöngu eftir þeim fjölda ferðamanna sem þar er á ferð í hlutfalli við stærð landsins og mannfjölda verður ferðamannatalan lág miðað við íslensk hlutföll.

Ellefu þúsund ferðamenn er mjög lítill hópur í samanburði við milljónirnar sem koma í hvern þjóðgarð þar í landi.

Ómar Ragnarsson, 20.2.2009 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband