Tilhlökkunarefni.

Það veitir ekki af góðum fréttum þessa dagana á borð við þá að myndin Draumalandið verði sýnd. Ég hef fengið tækifæri til að sjá grófklipptan stóran hluta hennar og hún verður mögnuð. Bókin var það líka og hefði átt að fá verðlaun eða í það minnsta tilnefningu sem besta blaðamannaverk ársins á sínum tíma auk bókmenntaverðlaunanna.

Auk Andra Snæs, Þorfinns og fleira góðs kvikmyndagerðarfólks stendur hljóður hugsjónamaður á bak við þessa mynd, Sigurður Gísli Pálmason, framleiðandi hennar. Það er lítils að skrifa bækur og kvikmyndahandrit ef ekki fæst neitt fjármagn til að koma því á framfæri. Þess vegna á Sigurður Gísli sérstakar þakkir skildar.


mbl.is Fyrsta sýnishorn úr Draumalandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt V. Warén

Til hamingju með þetta framtak. 

Geti þess hér í leiðinni, að verkefni við "að gera eitthhvað annað" í ferðaþjónustunni og afþreyingunni á Héraði er í miklu uppnámi núna.  Þetta er verkefnið að reka farþegaskip á Lagarfljóti. 

Frá því að skipið Lagarfljótsormurinn hóf siglingar, hefur þetta verið barátta upp á líf og dauða, og hefur tapast talsvert fé heimamanna í þetta verkefni m.a. vegna furðulegra vinnubragða Ferðamálasjóðs, sem betur fer er nú dauður og grafinn.

Byggðastofnun, sem í upphafi sveik gefin loforð við stjórnendur verkefnisins, treystir sér núna ekki til að koma að þessu verkefni og styðja við bakið á núverandi eigendum, til þess að reksturinn fáist áfram þrifist og fari ekki í gjaldþrot.

Núna, þegar ferðaþjónustan á að vera sá vonarpeningur sem frambjóðendur tala mikið fyrir í kreppunni,  er það nöturleg tilhugsun að þessi starfsemi leggist af.  Sér í lagi er það umhugsunarvert, að þeir sem kenna sig við græna ímynd og náttúruvernd, hafa fram að þessu, lítið sem ekkert stutt við þetta framtak. 

Það er miður, - mjög miður.

Benedikt V. Warén, 12.3.2009 kl. 13:52

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef ég man rétt þá fékk þessi draumórabók Andra, verðlaun í flokki fræði eða heimildarrita íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem var auðvitað hneiksli. Auk þess fékk bókin verðlaun frá ungum Sjálfstæðismönnum. Þeim þótti víst ástæða til að hrósa Andra fyrir að benda á í bókinni, að einkaframtakið væri betur til þess fallið að sjá um framkvæmdir hverskyns, m.a. í sambandi við virkjanir..... ef ég man þetta rétt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2009 kl. 16:00

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Verkefnið Lagarfljótsormurinn hefur auðvitað ekki þótt nógu stórt til að ná athygli þeirra sem völdin fara. Nú um stundir eru 450 störf í 360 til 400 þúsund tonna álveri það eina sem nær athyglinni.

Yfirgnæfandi meirihluti erlendra ferðamanna segist koma til landsins vegna hinnar einstæðu náttúru og ósnortins lands.

Í Evrópu og nágrannalöndunum má finna mörg vötn sem hægt er að sigla á í svipuðu umhverfi og er umhverfis Löginn. Nóg er af skógum í nágrannalöndunum og því er Hallormsstaðaskógur ekkert sérstakur í augum útlendinga þótt hann sé það í okkar augum.

Gildi Lagarins og skógarins er fólgið í því að hann er tilbreyting í íslensku landslagi.

Yfirleitt gengur best að selja það í viðskiptum sem er einstakt eða stendur framarlega í samkeppninni.

Eins og ég hef lýst er umhverfið á siglingaleið Lagarfljótsormsins ekki einstakt og í ofanálag hefur gengi krónunnar verið svo hátt undanfarin ár að samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu hefur í raun verið skert um 30-40%.

Þegar skilningsleysi yfirvalda er bætt við er í raun ótrúlegt hvað reksturinn hefur þó gengið lengi þótt nú virðist komið í óefni.

Það er því hastarlegt að einmitt þegar samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar hefur nú loksins batnað stórlega vegna breytts gengis krónunnar virðast allar dyr lokaðar fyrir starfsemi sem hefur byggst á þeim dugnaði og bjartsýni sem hefur verið aðall útgerðar Lagarfljótsormsins.

Dugnaður og drifkraftur á sem flestum sviðum er einmitt það sem mest er þörf á núna.

Ómar Ragnarsson, 12.3.2009 kl. 16:37

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ferðamönnum á Austurlandi hefur fjölgað mikið eftir að verkefnið við Kárahnjúka komst á koppinn, þvert ofan í spár þeirra sem harðast börðust gegn virkjuninni. Landvernd lét gera fyrir sig skýrslu þar sem "sérfræðingar" í ferðaþjónustu gerðu sig að ómerkingum með bulli og órökstuddum fullyrðingum um að ferðamönnum myndi fækka um 50% á svæðinu ef af framkvæmdunum yrði og um 30% á landinu öllu, vegna "skaðaðrar ímyndar", eins og það var orðað.

Lagarfljótsormurinn hefur barist í bökkum (ekki þó árbökkum) frá upphafi, en þið "eitthvað annað" lið viljið náttúrulega ríkisstyrkja þessi störf sem eiga að koma í staðinn fyrir álversstörfin. Aumkunarverður málflutningur sem stórskaðar alla umræðu um raunverulega og ábyrga náttúruvernd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2009 kl. 18:24

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Auk þess eru störf tengd álverinu, beint og óbeint, vel yfir 1000, en ekki 450

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2009 kl. 18:25

6 Smámynd: Benedikt V. Warén

Skýringin er flóknari en Ómar setur fram.  Þetta var löngu fyrir álver og virkjun og kemur þeim verkefnum ekkert við.

Það var árið 1997 sem við fengum augastað á þessu skipi í Svíþjóð.  Vorið 1999 var skipið komið á Lagarfljótið. 

í millitíðinni hafði Siglingastofnun gert það sem í hennar valdi stóð, að hindra þennan innflutning, m.a. vegna þess að skipið uppfyllti ekki ströngustu kröfur stofnunarinnar um siglingu í Barentshafi um hávetur. 

Nýsköpunarsjóður gat ekki verið með, vegna þess að þeim fannst þetta vera í samkeppni við aðra ferðaþjónustu á svæðinu?!?!

Byggðastofnun sveik svo hlutafjárlofoð, vegna þess, að sögn Guðmundar Malmquist þáverandi forstjóra, að lögum hefði verið breytt og ekki mætti lengur leggja hlutafé í fyrirtæki.  Það hindraði hins vega ekki þá sömu stofnun að legga, að mig minnir, 280 milljónir, sem hlutafé inn í útgerðafyrirtæki á Vestfjörðum.  Ef til vill hafði það einhver áhrif að á þeim tíma var Kristinn H Gunnarsson stjórnarformaður Byggðastofnunar.

Aðgerðir Ferðamálasjóðs, undir stjórn Snorra Tómassonar, voru ekkert annað er hryðjuverk í skjóli fjármálaráðuneytisins og þeim sjóði og ráðuneyti til hneisu.

Sérstaðan er sú, það er verið að sigla á jökulvatni úr stærsta jökli í Evrópu, á vatni sem frægasta skrímsli Íslandssögunnar býr.  Því miður litu margir á þessa siglingu sem ferðalag, - ekki upplifun. 

Við gerðum einnig okkar mistök í upphafi, en eftir þrjú ár vorum við komin með ýmsar lausnir sem ekki voru keyptar af blíantsnögurum, sem ekki sáu að það gæti þrifist líf í ferðageiranum á Austurlandi. 

Þetta svæði var nánast ekki með í ferðabæklingum og aðeins staður til að stoppa á, létta á sér, éta og hvílast.

Benedikt V. Warén, 12.3.2009 kl. 18:34

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar, Benedikt. Þetta með stærsta jökul Evrópu er það sem getur gefið þessari siglingu sérstöðu.

Gunnar, framkvæmdirnar vegna álversins fengu margra milljarða króna fyrirgreiðslu og niðurfellingar eða lækkun gjalda. Impregilo fékk til dæmis gefins rafmagna allan tímann á við framleiðslu Lagarfossvirkjunar. Þetta heitir víst ekki að "ríkisstyrkja þessi störf."

Ómar Ragnarsson, 12.3.2009 kl. 19:09

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þar fyrir utan er álverð orðið svo lágt að það er verið að borga með Kárahnjúkum, eftir því sem ég best veit. Það hlýtur að mega kalla það ríkisstyrki.

Villi Asgeirsson, 12.3.2009 kl. 19:57

9 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Skipið Lagarfljótsormurinn og Benedikt og Ómar koma við sögu í þessari mynd, Kóngum.

Pétur Þorleifsson , 12.3.2009 kl. 20:52

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessir "ríkisstyrkir" sem þú nefnir svo Ómar, eru ekki útgjöld úr ríkissjóði, heldur hagnast ríkissjóður á framkvæmdunum. Ekkert er tekið af framkvæmdasjóði ríkisins, þvert á móti þá renna gjöld í hann.

Hún er athyglisverð myndin sem Pétur vísar í. Reyndar fjallar myndin um framkvæmd sem aldrei varð, hvorki virkjun né álver. Það var líka augljóst, sem ég hef oft bent á á undanförnm árum, að ýmis myndskot sem sýndu náttúrufyrirbrigði sem ekki hefðu orðið fyrir áhrifum hins fyrirhugaða lóns. Einnig voru athyglisverð rök Kolbrúnar Halldórsdóttur, um að 60% heiðargæsastofnsins ætti griðland á Eyjabökkum þegar hann fellir fjaðrir. Staðreyndin er hins vegar sú að um 8% þessa stofns á þar fellistöðvar. Þess má líka geta að stofninn er að margra mati ofvaxinn í dag og fyrir um 30 árum síðan þegar hann var í jafnvægi, þá sáust ekki gæsir á þessu svæði. Hún talaði einnig um að þetta væri mikilvægt beitiland fyrir hreindýr, sem er algjör firra. Það er talað um ómetanlega náttúru og óþrjótandi möguleika í "auðlindinni" Eyjabökkum. Það hljóta þá að streyma inn penningar úr þeirri auðlind í dag og fullt af fólk að nýta þau tækifæri sem þar bjóðast.... er það ekki?

Þegar sýndar eru í myndinni stórvirkar vinnuvélar að störfum við Hágöngur, þá var spilaður undir dramatískur og kolmyrkur dauðasálmur. Hvaða áhrif hefði þessi hluti myndarinnar haft, ef spilaður hefði verið undir fjörugur vals í ætt við síldarvalsana?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2009 kl. 23:25

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var ekki ég sem átti hugmyndina af því að flokka fyrirgreiðslu við mál eins og Lagarfljótsorminn sem "ríkisstyrki." Það varst þú sjálfur, Gunnar.

Með sömu röksemdafærslu og þú beitir er hægt að segja að skipið sé ekki baggi á ríkinu heldur skili því gjaldeyristekjum af ferðamönnum.

Og ég get engan veginn skoðað stórfellda gjöf á rafmagni til Impregilo öðruvísi en "ríkisstyrk" samkvæmt skilgreiningu þinni, Gunnar. Þetta snýst um að allir sitji við sama borð. Það hefur Lagarfljótsormurinn ekki fengið að gera.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2009 kl. 01:30

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Myndin fjallar um framkvæmd sem aldrei varð" segir í athugasemd og á að vísa til þess að myndin hafi verið óþörf. Samkvæmt því var snilldarverk Kubriks með Peter Sellers í þremur aðalhlutverkum óþörf af því að það varð aldrei neitt kjarnorkustríð.

Þegar myndin Kóngar var gerð stóð Eyjabakkadeilan sem hæst. Kvikmyndagerðarmaðurinn gat ekki vitað það þá að fallið yrði frá því að sökkva Eyjabökkum en í staðinn sökkt meira landi annars staðar og reist margfalt stærri virkjun með margfalt meiri umhverfisspjöllum.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2009 kl. 01:34

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Landsvirkjun gerði verktakasamning við Impregilo. Það hefði örugglega verið hægt að láta þá borga rafmagnið en þá hefði sjálfsagt þurft að greiða hærra verð fyrir verkið á móti. Það þarf ekkert að vera neitt óeðlilegt að hafa samninginn með þessum hætti.

En hvar eru hugmyndirnar um að nýta Eyjabakka sem náttúruparadís? Þetta svæði er ófært með öllu 9-10 mánuði á ári og illfært í 2-3 mánuði. Auk þess mætti sjálfsagt ekki trufla ófleygu gæsirnar á þeim tíma. Hvernig átti að nýta svæðið? Átti kannski að gera það með aðdráttarlinsum ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanna og sýna svo myndirnar í bíósölum í 101, Reykjavík?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2009 kl. 02:14

14 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Gunnar - Þessi ferðamannaþvæla um álverið er sjálfgefin í örfá ár vegna þess að Íslendingar flykkjast rétt eftir að búið er að eyða í þetta 150 milljörðum og nauðga landinu.

Langar þig að gera það um allt land til að fá heimakæra höfuðborgarbúa úr atvinnuleysisröðinni út á land. Þetta er svo mikill kjánaskapur hjá þér að þú ættir að skammast þín.

Rúnar Þór Þórarinsson, 13.3.2009 kl. 12:58

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er röklaust og ómálefnalegt bull í þér þórarinn. Hver hefur haldið því fram að álverið sé aðdráttarafl fyrir ferðamenn? Samgöngubæturnar að Kárahnjúkum hafa hins vegar gert það að verkum að svæðið, þ.m.t. að Eyjabökkum, er aðgengilegra almenningi. Þær vegaframkvæmdir hefðu verið óraunhæfar með öllu ef ekki hefði orðið að framkvæmdunum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2009 kl. 13:22

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar, munt þú sjá að aðeins þarf að hafa með sér stígvél eða vaða kvíslar berfættur til að komast þangað sem fegurðin er mest við Eyjabakka. Jeppafært er nógu langt í áttina að þeim beggja vegna.

Myndirnar sem ég sýndi 1999 eftir gönguferð að vestanverðu sýna, að það þarf engar aðdráttarlinsur.

Ég hef aldrei átt heima í 101 Reykjavík og er minnsti kaffihúsamaður Íslands og kemst þar hvergi nærri Fjölnismönnum, sem stunduðu kaffihúsin í 101 Köben og voru því réttdæmdir fáráðar um íslenska náttúru.

Ég fór líka í fyrrasumar að Eyjabökkum austan megin og tók þar myndir í "Örkina" og þú munt vonandi eiga möguleika á að sjá þær, þó með þeim fyrirvara að við verðum báðir lifandi þegar myndin um Örkina verður sýnd því að sú kvikmyndagerð er stopp og ég mun kannski ekki lifa það að myndin verði sýnd.

Það skiptir ekki öllu máli heldur hitt að þetta einstæða myndefni skuli vera til og geta nýst afkomendum okkar til þess að átta sig á helstu afreksverkum okkar kynslóðar.

Þið þarna fyrir austan virðist dæma svæði eftir því hvort það sé nánast malbiksfært inn að þeim. Samkvæmt ykkar skilningi er Ramsar-sáttmálinn um verndun votlendis bara rugl og hið besta mál að ræsa fram og þurrka frægustu fenjasvæði heims á borð við Everglades í Flórída.

Gera þarf gangskör að því að þurrka upp og gera aðgengilegar Forirnar í Ölfusinu sem eru illar yfirferðar vegna bleytu, en það kannast ég við eftir að hafa verið í sveit við þær austanverðar.

Þegar Forirnar hafa verið þurrkaðar upp ásamt þeim 3% votlendis Suðurlands, sem enn hefur ekki verið stútað, munuð þið sem góðir framkvæmda- og framfaramenn á Íslandi geta fagnað, líkt og virkjanamenn dreymdi um í áætlunum um að drekkja gervöllum Þjórárverum, álverum og sköpun 2% starfa í íslensku vinnuafli til dýrðar.

Síðan var skemmtilegt að heyra viðhorf kunnugrar manneskju til hinnar 15 kílómetra löngu Fljótshlíðar íslenska hálendisins, Hálsins, sem drekkt var í Hálslón. Hún hafði smalað þarna sem unglingur og formælti Hálsinum fyrir það hvað hann væri auðveldur yfirferðar og þurr.

Það var vegna þess að henni var strítt með því að láta hana smala fénu af þessu stóra svæði þar sem féð þreifst líkega á best á urðum og grjóti ef marka má síbyljuummælin um þau svæði sem sökkva þarf fyrir virkjanir.

Það var nefnilega lítillækkandi í gamla daga að smala Hálsinn. Hún sagði að hann hefði verið kallaður "Skussastykkið" vegna þess hvað smölun og yfirferð væri auðveld og unglingarnir því lítillækkaðir með því að senda þá þangað.

"Huh", sagði hún. Ég held það megi skok sökkva Skussastykkinu, landhreinsun að því."

Ómar Ragnarsson, 13.3.2009 kl. 13:37

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Þær vegaframkvæmdir hefðu orðið óraunhæfar" segir þú um vegabætur inn Kárahnjúkum. Þetta er órökstutt með öllu og gefin sú forsenda að hvergi sé hægt að leggja vegi fyrir ferðamenn nema að landið sé fyrst tekið undir virkjanir.

Aldrei fékkst ráðrúm né var áhugi á að skoða hvernig hægt væri að nýta svæðið á annan hátt en að umturna því vegna virkjana.

Vegaframkvæmdirnar sem ég hef séð í 25 þjóðgörðum erlendis voru og eru allar raunhæfar og ekki þurfti að virkja einn einasta hver af 10 þúsund hverum í Yellowstone eða fossaaflið þar til þess að fá fram nýtingu svæðisins sem tekur langt fram virkjunum að hagkvæmni og arði.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2009 kl. 13:42

18 identicon

Það er stórmerkilegt að landeyðingarfíklar eins og  þessi Gunnar virðist vera, geti engan veginn metið neitt nema í störfum og peningum. Það höfðu allir vinnu á Austurlandi, flestir áttu bíl og sumir alltof dýra, allir sem ég þekki höfðu þak yfir höfðið, hvað vantaði ? Var þetta ekki bara minnimáttarkennd gagnvart Rvík af því að þar voru miklu  stærri verslunarhallir, hærri blokkir og margir ,margir lúxusjeppar ? Lífsgæöi eru ekki fólgin í hversu margir búa í byggðalagi, kveðja úr 701 Egs.

Daus (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 14:15

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ní ósanngjarnt að kalla mig "landeyðingarfíkil"

Ómar, rökstuðningurinn fyrir því að það hafi verið óraunhæft að leggja í vegabætur á Fljótsdalsheiði, heitir arðsemismat. Kostnaðurinn við vegabæturnar hefði aldrei staðist slíkt, en auðvitað á að taka af vegafé í slík gæluverkefni sem litlu sem engu skila. Það virðist vera vilji fólksins sem talar um að gera "eitthvað annað", en sem betur fer þá ræður það fólk ekki för.

Ég vona að þér auðnist að klára "Örkina", Ómar. Ég lýsi samt áfram eftir hinum óteljandi möguleikum sem eiga að felast í Eyjabakkasvæðinu. Staðreyndin er auðvitað sú að þangað hafa fáir áhuga á að þvælast, hvað þá að þurfa að borga fyrir það.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2009 kl. 17:07

20 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt hugmyndum Gunnars um arðsemismatið hefði aldrei verið lagt í að leggja veg í Yellowstone eða aðra þjóðgarða heimsins.

Samkvæmt hugmyndum virkjanaaðdáenda ætti að sjálfsögðu ekki að leggja heilsársveg að Dettifossi nema í tengslum við virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Arðsemismat þessa tímamótavegar, þá loks hann kemur, byggist á því að áætla þær tekjur, beinar og óbeinar, sem hægt er að fá af ferðum ferðamanna að fossinum allt árið.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2009 kl. 21:50

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það eru margir, m.a. sérfræðingar frá Vegagerðinni sem hafa áhuga á að bæta hið almenna vegakerfi í landinu, sem vilja frekar í aðrar framkvæmdir en Dettifossveg. Það er auðvitað ekki alltaf hægt að forgangsraða í vegagerð út frá arðsemismati því það þarf að tengja byggðir saman, líka þær fámennu. Umferð er hins vegar mjög lítil um Dettifossveg á árs grundvelli og ekki er verið að tengja saman byggðir með kostnaðarsömum vegabótum á þessum vegi.

En hvernig má það vera að vegagerð í Yellowstone stenst ekki arðsemiskröfur? Er ekki mikil umferð þar allt árið um kring?

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.3.2009 kl. 04:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband