Hvað gerist þegar engin gæsla er?

Fréttin af því að danskar þotur hafi "bægt rússneskum orrustuþotum frá" 180 km norðaustur af Íslandi kallar á spurningar sem líklega verður ekki svarað.

1. Hvernig bægðu Danirnir Rússunum frá? Hefðu Rússarnir haldið áfram ferð sinni inn til landsins?

2. Hvaða hætta stafaði af því ef þoturnar héldu áfram?

3. Mikilvægasta spurningin: Hvað hefði gerst ef engin "loftrýmisgæsla" hefði verið? Þannig er nefnilega ástandið við Ísland langstærstan hluta ársins, stundum mánuðum saman, og Rússarnir vita hvenær þetta gæsluleysi er. Hefði vél Landhelgisgæslunnar verð send á móti rússnesku þotunum ef engar orrustuþotur hefðu verið á vellinum ?

Líklegast ekki. Gæsluvélin er svo miklu hægfleygari en rússnesku vélarnar að það hefði verið til lítils að senda hana.

Ég hef áður haldið því fram að ef menn telja endilega þörf á loftrýmiseftirliti með fllugvélum, þá sé hægt sé að halda henni uppi við Ísland allt árið með margfalt ódýrari þotum en notaðar eru nú lítinn hluta úr árinu.

Ég held nefnilega að svona málamyndagæsla sé fyrst og fremst höfð um hönd til að gefa vinaþjóðum okkar færi á að æfa þotuflugmenn sína í víddum Íslands en ekki vegna þess að þetta hafi svo mikið að segja beint fyrir öryggi landsins.

Raunar styður nýleg skýrsla um öryggi Íslands það að fé sé betra varið í aðrar hliðar öryggis landsins en í þessa mjög svo umdeilanlegu gæslu lofthelginnar.


mbl.is Bægðu rússneskum þotum frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Ég er ekki mjög fróð um þessi mál, en er samt ekki nauðsynlegt að hafa einhverja gæslu við landið ? Erum við ekki að bjóða hættunni heim ef henni yrði alveg hætt, þó flestar þjóðir heims viti að við erum ekki með neinn her ?

TARA, 25.3.2009 kl. 19:54

2 identicon

Dettur einhverjum í hug að eitthvað gerist ef ekki væru varnir hér? Þeir mundu kannski fljúga inn í lofthelgina og só? so what? dettur einhvernum heilvita manni að það sé eitthvað hættulegt?

Þetta er bara hlægileg taugaveiklun á hæsta stigi - hvernær réðst eitthvað land inn í annað síðast?

Jú Bandaríkjamenn réðust inní í Irak - ef eitthvað er þá ættum við að óttast þá - Rússar eru sauðmeinlausir.

ÞA (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 20:08

3 Smámynd: Hvumpinn

Og er það bara allt i lagi að herflugvélar Rússa fljúgi hér inní lofthelgi, þess vegna yfir landið án þess að við höfum eitthvað um það að segja?  Svona vélum er bægt frá með því að intercepta þær og fljúga við hlið þeirra með vel skilgreindum aðferðum.

Þarna eru Ómar og ÞA komnir í flokk með Vinstri Glærum...

Hvumpinn, 25.3.2009 kl. 20:19

4 identicon

Getur verið að í einhverjum tilfellum séu rússarnir með kjarnorkuvopn um borð í vélunum?  Gæti komið upp atvik þar sem einhver þessara flugvéla bilar á flugi yfir landinu/landhelginni og þurfi að nauðlenda?  Gæti jafnvel komið upp tilvik þar sem einhver af þessum vélum hlektist á í þeirri nauðlendingu?  Getur verið að það sé þá bara allt í lagi og engin ógn stafi af því fyrir Ísland?  Vitum við eitthvað um erindi þeirra eða farm.  Maður spyr sig.

Ólafur (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 20:22

5 identicon

Kannski að Rússarnir hafi viljað koma 4 milljarða dollara láninu til okkar á þennan hátt, en voru "því miður" stöðvaðir af Dönunum?

Annars finnst mér ansi merkilegt, að þeir fjölmörgu evrópubúar sem ég hef talað við, þykjast vita fyrir víst að Íslendingar hafi fengið stórt lán frá Rússum. Svo er auðvitað ekki, en fréttaflutningurinn í Evrópu af þeim lánaumleitunum var rosalegur á þeim tíma. Og aldrei var minnst í fréttum eftirá að ekkert hafi orðið af þeim samningum. 

Valgeir (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 20:32

6 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Ég er alveg sammála þessum hugleiðingum þínum Ómar, en er svolítið hissa að sjá þig ekkert minnast á að þetta eru skrúfuþotur (þotuhreyfils knúnar tvöfaldar skrúfur) og í raun sprengjuflugvélar en ekki  "orrustuþotur" eins og mbl.is fer kolrangt með.

Kv EJE

Eggert J. Eiríksson, 25.3.2009 kl. 20:34

7 Smámynd: ThoR-E

Við hefðum betur keypt tvær eða þrjár eff sextán orrustuþotur í góðærinu.

Það er augljóst að okkur stafar stórhætta af rússunum. Ef danirnir hefðu ekki verið hérna til að vernda okkur hefðu rússaþoturnar eflaust sleppt sprengjum á Reykjavík.. eða Akranes... já guði sé lof fyrir danina... 

phf.. ef einhver fattaði það ekki að þá var smá kaldhæðni í þessum texta hér fyrir ofan.

Máttu rússarnir ekki fljúga hérna í kring??? hafa þeir gert okkur eitthvað í gegnum tíðina?? Ekki veit ég til þess.

Ég hefði meiri áhyggjur af kananum... jú eða Bretum... við erum jú í þeirra augum hryðjuverkamenn.. í sama hópi og al kaída og talibanar. 

Ótrúleg peningaeyðsla. Hafa einhverjar þotur hérna í æfingarflugi á okkar kostnað. Nær að setja þetta í að hjálpa atvinnulausum hér á landi.. 

ThoR-E, 25.3.2009 kl. 20:35

8 Smámynd: Sævar Einarsson

Það skeður nákvæmlega ekkert ef þær hrapa á landið hlaðnar kjarnorkusprengju annað en að flugmenn og þeir sem verða svo óheppnir að vera fyrir neðan þá láta lífið, það er enginn hætta á að kjarnorkusprengja springi nema hún sé sprengd innanfrá og líkurnar á því að þær rifni og geislavirkt efni leki út við að hrapa á jörðina eru litlar sem engar.

Sævar Einarsson, 25.3.2009 kl. 21:05

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í fréttinni er sagt að þetta hafi verið orrustuþotur og það þótti mér skrýtið því að slíkar vélar hafa yfirleitt ekki verið hér á ferli, enda flugþol þeirra ekki nóg til þess.

Hafi þetta verið vélar af gerðinni "Björninn" þá eru þær það hraðfleygar, þótt þær séu skrúfuþotur, að Landhelgisgæsluvélin á ekkert í þær.

Hins vegar myndu hraðskreiðar einkaþotur geta annast þetta eftirlit allt árið ef við viljum hafa eftirlit sem stendur undir nafni. Þotur sem væru alltaf í viðbragðsstöðu.

Flug rússnesku hervélanna er hvimleitt og þær eru að flækjast um og hafa truflandi áhrif.

Hvað snertir spurningu Ólafs um það að rússnesk vél með kjarnorkusprengjur nauðlendi þá skipta orrustuþotur NATÓ engu máli hvað það snertir.

Og þar með erum við komin að miklu mikilvægari þætti öryggisgæslu við Ísland, sem er stórlega vanrækt en það eru viðbrögð okkar við miklu slysi á höfunum við landið, þar sem olía eða geislvirk efni færu í hafið.

Danskar orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli í einhverjar vikur breyta engu um það.

Ómar Ragnarsson, 25.3.2009 kl. 21:07

10 identicon

Sæll Ómar

Hvað fer mikill peningur Íslendinga í Danina? Ég stóð í þeirri meiningu að þeir borgi allt fyrir sig og sína laun, eldsneyti og þjónustan við þá frá vélvirkjum og flugvirkjum frá Suðurnesjum svo og önnur þjónusta matur og bílar séu allt tekjur inn í landið og er velkomin búbót hingað suðreftir nú á tímum gjaldeyrishafta.

bkv björninn 

Björninn (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:24

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Land- og lofthelgi Íslands nær einungis 12 sjómílur, um 22 kílómetra, út frá grunnlínum landsins. Rússnesku herflugvélarnar fóru ekki nær landinu en 100 kílómetra og því getur danski flugherinn engan veginn fullyrt að rússnesku flugvélarnar hafi ætlað að fara inn í lofthelgi Íslands, enda þótt þær hafi hugsanlega haft þá stefnu um tíma.

Og heræfingar, til dæmis Rússa, eru leyfilegar fyrir utan 12 sjómílna land- og lofthelgi Íslands, á og yfir svokölluðu úthafi (res communis), samkvæmt alþjóðasáttmálum. Herskip og herloftför lúta aldrei lögsögu erlendra ríkja á og yfir úthafinu. Danski flugherinn hefur því ekkert leyfi til að skipta sér af rússneskum herflugvélum 100 kílómetrum frá landinu.

Og erlendum kafbátum er heimil ferð innan 12 sjómílna landhelginnar ofansjávar en þeir skulu þá auðkenndir með fána. Refsilögsaga strandríkis nær almennt ekki til erlendra skipa sem fara eingöngu um landhelgi ríkisins og strandríkinu er óheimilt að hefta friðsamlega ferð erlendra skipa um landhelgina.

Efnahagslögsaga Íslands nær á hinn bóginn 200 sjómílur út frá beinum grunnlínum landsins og því gæti Landhelgisgæsla Íslands tekið rússneskan togara sem stundaði ólöglegar veiðar innan efnahagslögsögunnar.

"Danski flugherinn, sem sinnir nú loftrýmisgæslu yfir og í kringum Ísland, bægði eftir í hádegi í dag tveimur rússneskum sprengjuflugvélum frá, en þær stefndu þá inn í íslenska loftrýmið. ... Rússnesku flugvélarnar snéru við þegar þær voru um það bil 100 km fyrir norðan Ísland og héldu til bækistöðva sinna á Kólaskaga."

Þessi "frétt" er því tóm steypa frá upphafi til enda, enda er Mogginn kominn út í Móa.

Þorsteinn Briem, 25.3.2009 kl. 21:34

12 identicon

Ég held að ÞA sé eitthvað að klikka í sögunni því það er mun styttra síðan rússar réðust inn í annað land en það var auðvitað til að aðstoða minni máttar.

Sigurður (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:54

13 identicon

Við borgum uppihald fyrir þá, veit ekki með eldsneytið.

karl (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:56

14 identicon

Er það ekki rétt hjá mér að þeir einu sem hafa ráðist inn í landið eru Bretar? Réðust þeir ekki inn í landið á sínum tíma með þá afsökun að vera að "vernda" okkur fyrir Rússum? Ég ætla ekki að dæma þá aðgerð en finnst samt rétt að benda á að það var innrás, ekki satt?

Burkni (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 22:40

15 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Geisp og gap. Meira tuldrið í þessu fólki. Ég held að þessar komur Rússa séu sauðmeinlausar svo langt sem það nær. Auðvitað er samt tilgangur með þessu flugi og það verður að taka á því á einhvern hátt.

 Tu-95 eru merkilegar og stórskemmtilegar vélar. Þær voru teknar í notkun um miðjan 6. áratug síðustu aldar og það er áætlað að nota þær fram undir miðja þessa öld. Svipaðar áætlanir eru reyndar uppi með hina amerísku B-52 en þessar tegundir eiga engan sinn líka. Þetta er auðvitað alveg stórmagnað því að það eru þá líkur á að þær verði búnar að vera í notkun í 75 - 80 ár þegar þeim verður lagt. Hugsið ykkur bara ef Wright Flyer-inn (flugvél Wright bræðra) hefði verið í notkun fram á 9. áratuginn.

Svo held ég að það sé svipað kikk fyrir vestræna orrustuflugmenn að sjá þessa dreka  og það er fyrir okkur borgarana að sjá krómslegin bensínskrímsli 6. áratugarins á sunnudagsrúntinum.

Lesið hef ég að hávaðinn frá skrúfublöðum Bjarnanna sé slíkur að þeir verða varir við hann inni í orrustuþotunum gegnum hjálminn, þykkt glerið og vindgnauðið á yfir 700 km hraða.   

Guðmundur Benediktsson, 25.3.2009 kl. 22:47

16 identicon

Reyndar réðust Bretar hér inn til að fyrirbyggja að Þjóðverjar gætu einfaldlega valsað hingað og þannig umkringt Bretlandseyjar. "Innrás" Breta hefur stundum verið kölluð friðsamlegasta hernaðaraðgerð í sögu þeirra og þar til Bandaríkjamenn tóku við voru hér allt upp í 60.000 Breskir hermenn ef svo gerðist að Þjóðverjar skildu reyna innrás.

Brynjar Björnsson (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 23:00

17 Smámynd: Hlédís

Sveitahundar "bægja" oft ökutækjum frá bæ sínum með gelti og hamagangi - og eru stoltir af.

Hlédís, 25.3.2009 kl. 23:46

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta atvik um að danskar þotur hafi fælt Rússana frá minnir mig svolítið á atvikið í Skugga-Sveini þegar Jón sterki sagði: "Sáuð þig hvernig ég tók hann?!"

Ómar Ragnarsson, 25.3.2009 kl. 23:58

19 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Steini Briem hefur eflaust rétt fyrir sér með þetta allt.

Eitt gleymist þó í allri þessari umræðu hérna, en það er að við Íslendingar höfum yfir ansi stóru "flugumsjónarsvæði" að gæta, og það svæði þótt ég viti ekki tölur er nær líklega lengra og víðar en efnahagslögsagan amk sunnan við landið.

Gallinn við svona flug hjá Rússum og öðrum er sá að þeir að sjálfsögðu tilkynna ekkert um flugáætlun, flughæð né stefnubreytingar og eru þess vegna frekar ógn, truflun við flugumferð en að þeir ætli raunverulega að varpa sprengjregni á "Dumme Islendingene"

Kv EJE

Eggert J. Eiríksson, 26.3.2009 kl. 03:27

20 identicon

Er hugsanlegt að Rússarnari hafi verið með báðar vélarnar fullar af kjarnorkusprengjum og ætlað að láta þær falla á landið? Mér virðist sumir halda að svo hafi verið. Guði sé lof fyrir Danina að bægja þessari skelfilegu ógn frá okkur! En hvað gerist svo þegar þeir koma aftur.? Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörund við tilhugsunina.

Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 09:54

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fljúgandi kom furðuhlutur,
fínn var á honum skutur,
og óður vildi aftanfrá,
okkar Bíbí tak'ann þá.

Þorsteinn Briem, 26.3.2009 kl. 10:22

22 identicon

Það er eins og Ómar kemur inná stórmál ef þessar vélar enda í sjónum hjá okkur.   Þetta er væntanlega æfingaflug hjá þeim og þeim gengur eflaust ekkert illt til.  Hugsanlega hefði jafnvel verið hægt að ná einhverskonar fjarskipta sambandi við þá og biðja þá um að fljúga eitthvað annað.

Held að orrustuþoturnar séu til lítils.  Ef þær þyrfti að nota myndi enda á versta veg af öllu vélarnar með hugsanlegum geislaefnum hefðu getað endað í sjónum.

Annars þykir mér það ólíktlegt að þeir kíki á rúntinn með kjarnorkusprengjur um borð í vélunum.

Held að við höfum svosem ekkert að gera með að eyða peningum í að fá Dani hingað í heimsókn með vélarnar sínar.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 10:35

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Íslenska flugstjórnarsvæðið er um 5,4 milljónir ferkílómetra að stærð, nær frá Greenwich-lengdarbaugnum í austri og vestur fyrir Grænland, frá Norðurpólnum og suður fyrir Færeyjar, langleiðina til Skotlands."

Þorsteinn Briem, 26.3.2009 kl. 11:50

24 identicon

Gummi Ben: Þristurinn verður líklega langlífari en báðar þessar vélar, það er farið að styttast í 100 ára afmælið hjá honum :-)

karl (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 16:46

25 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Það er að sjálfsögðu hin mesta óhæfa að hafa ekki minnst á Þristinn í þessu sambandi, biðst innilegrar afsökunar Kalli minn.

Guðmundur Benediktsson, 26.3.2009 kl. 21:19

26 identicon

Maður veltir því fyrir sér hvort þeirra nenni eitthvað yfir höfuð að koma hingað þegar það er enginn flugher hérna. Er ekki einmitt pointið að valda viðbrögðum

Egill (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband