Það var mikið !

Það var kosningastefna Íslandshreyfingarinnar 2007 að fara strax í ítarlega úttekt á Evrópumálunum sem leiddi til þess að tilbúin væri markviss stefna með samningsmarkmiðum hvort sem sá tími kæmi eða ekki að þjóðin ákveddi sjálf hvort fara skyldi í aðildarviðræður.

Loksins núna hefur stærsti flokkur þjóðarinnar drattast til að vinna hluta af þessu verki þótt svo sé að sjá að samningsmarkmið hafi ekki verið skilgreind í einstökum liðum.

Framsóknarflokkurnn setti fram sín markmið í vetur og Vinstrgræn eru tilbúin til að leggja aðildarviðræður í dóm þjóðarinnar.

Árum saman hefur skort á það að horfa nógu langt fram. Sagt hefur verið að aðildarferlið taki svo langan tíma að ef það klárist loksins verði það of seint.

Aldrei hefur mönnum dottið í hug að horfa lengra fram og líta til þess að því fyrr sem farið er af stað, því fyrr endar ferlið. Norðmenn tóku þetta mál strax út úr flokkaferlinu og létu þjóðina ákveða um málið í tvígang.

Íslenska þjóðin þarf að fá að fjalla sjálf beint um þetta mál og það sem fyrst.

Bendi síðan á það að í tónlistarspilarann er komið lag Íslandshreyfingarinnar sem við sungum í kosningabaráttunni 2007. Þetta var tekið upp á síðustu dögum baráttunnar í miklum flýti í bílskúr Jakobs Frímanns Magnússonar við Bjarkargötu í Reykjavík.

Við skruppum þarna inn með honum, Margrét Sverrisdóttir og ég, og Jakob fékk nokkrar blandaðr raddir í bakgrunn.

Textinn er svona:

Verðmætt landið verjum nú öll !
Vígorð hljómar um dali og fjöll:
Íslandshreyfingin - lifandi land, -
hugsjónir og raunsæi´í bland !

Gimstein heimsins herjað er á.
Honum björgum nú spjöllunum frá !
Íslandshreyfingin - lifandi land,
hugsjónir og raunsæi´í bland !

Orku seljum ei fyrir slikk
í álveramengun, nei þetta er klikk.
Íslandshreyfingin - lifandi land !
Hugsjónir og raunsæi í bland.

Betri leiðir bjóðum við hér:
Að beisla mannauðinn mun betra er.
Íslandshreyfingin - lifandi land!
Hugsjónir og raunsæi´í bland.

Verðmætt landið verjum nú öll !
Vígorð hljómar um dali og fjöll !
Íslandshreyfingin - lifandi land !
Hugsjónir og raunsæi´í bland !


mbl.is Evran komi í stað krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Íslenska þjóðin þarf að fá að fjalla sjálf beint um þetta mál og það sem fyrst," segirðu.

Var Ingibjörg Sólrún að tala utan í þig eða kannski hann Össur?!

Og fræddu mig nú:

1. Hvers vegna ætti íslenzka þjóðin að fjalla frekar um þetta mál heldur en hitt að segja upp EES-samningnum? Hún fekk ekki einu sinni að kjósa um hann í fyrsta falli!

2. Er þjóðin reiðubúin "að fjalla sjálf beint um þetta mál og það sem fyrst"? Er hún nógu uppfrædd um þetta mál? Og finnst þér eðlilegt að keyra á umsókn um inngöngu, ef þjóðin er ekki enn í stakk búin til að leggja dóm á það? Eða viltu bara, að EBé-sinnarnir æstu mæti á kjörstað og ráði málinu og vinni kannski sigur á fullveldissinnum þar?

3. Og með hvaða hætti – þú gleymdir alveg að nefna það – með hvaða hætti viltu láta kjósa um þetta mál? Ertu reiðubúinn að beita þér fyrir því, að ekki verði hafðir linari skilmálar fyrir fullveldis- og réttindaafsali af okkar og löggjafarþingsins hálfu heldur en þeir skilmálar, sem settir voru fyrir uppsögn Sambandslagasáttmálans? (sjá þessa mjög mikilvægu grein mína), þ.e.a.s. að 2/3 þingmanna þyrftu fyrst að samþykkja hina róttæku breytingu, en síðan efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem a.m.k. 3/4 þjóðarinnar yrðu að taka þátt, til þess að hún væri gild, og 3/4 atkvæða yrðu að vera með hinni róttæku breytingu. Þetta merkir þó, að einungis 56,25% þjóðarinar hefðu tekið þessa ákvörðun (75% af 75%), sem þó er afar ólíkt því, sem EBé-sinnar vilja, þ.e. að minnihluti þjóðarinnar geti það (t.d. 51,5% af þeim 55% sem hugsanlega tækju þátt í atkvæðagreiðslunni). Áttarðu þig ekki á því, að menn eru ekki bara að kjósa fyrir sig, heldur kannski allar komandi kynslóðir á Íslandi? (ég þori ekki að segja: allar komandi kynslóðir Íslendinga!).

4. Skelfistu ekki, að 1670 sinnum fólksfleira bandalag gæti beitt hér, eins og annars staðar áður, leynilegum áhrifum sínum í baráttu fyrir því, að atkvæðagreiðslan fari á þann veg, sem Brusselvaldinu þókknast? Veiztu ekki, að misfarið hefur verið með sjóði EBé? Veiztu ekki, að reikningar þess hafa ekki fengizt endurskoðaðir í 14 samfelld ár? Veiztu ekki af öllum boðsferðunum fyrir fólk í atvinnulífi, forstjóra jafnt sem verkalýðsrekendur, til Brussel? Veiztu ekki, að þrjú af þremur dagblöðum landsins eru öll með stefnu sem er EBé í vil, fremur en fullveldi okkar og sjálfstæði?

5. Hvernig lízt þér á að gera Ísland að héraði í Evrópubandalaginu?

6. Var þér nokkuð lofað þingsæti, ef þú færir í það "samlögunarferli" með stefnu Sambræðslufylkingarinnar að lúta gersamlega hennar stefnu í EBé-málum?

7. Hefurðu nokkurn tímann talað við Stefán Jóhann Stefánsson, höfund merkrar greinar um allsendis slappa Samfylkingarpólitík í Evrópumálum, þá sem birtist í Mbl. á Þorláksmessu? Ertu nokkuð til í að samhæfa málflutning þinn með hans, áður en þú kastar fleiri steinum að Sjálfstæðisflokknum vegna ígrundunar hans og varkárrar stefnu í þessum málum?

8. Hvar er minn gamli, góði, þjóðlegi Ómar Ragnarsson? Ekki EBé-tröllunum gefinn, segðu mér það ekki, Ómar!

Jón Valur Jensson, 26.3.2009 kl. 15:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eg er engum tröllum gefinn og samkvæmur því sem ég hef ætíð sagt um nauðsyn á þjóðaratkvæðagreiðslum.

Ég tel að þjóðaratkvæðagreiðlsa hefði átt að úrskurða um inngönguna í NATÓ, EFTA, EES og Kárahnjúkavirkjun.

Í Moggaviðatalnu við mig 2007 valdi blaðamaðurinn þá skoðun mína sem fyrirsögn að þjóðin ætti að ráða stærstu málum sínum beint.

Ég orðaði það fyrstur manna í haust í bloggi að leysa ESB-málið úr sjálfheldunni í flokkunum með því að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort fara ætti í aðildarviðræður, jafnvel þótt þetta kostaði hugsanlega aðra þjóðaratkvæðagreiðslu eftirá, ef farið yrði i viðræðurnar.

VG tók þetta síðan upp síðar. Það er sagt að stjórnmál snúist um það að kjósendur treysti stjórnmálamönnum. Það er aðeins önnur hliðin að mínum dómi. Hin hliðin er sú að stjórnmálamenn treysti kjósendum. Ef þeir gera það ekki ættu þeir ekki að vera guma af lýðræðisást sinni.

Ómar Ragnarsson, 26.3.2009 kl. 16:17

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nánast engu svarar þú hér af spurningum mínum, Ómar. Lokaspurningunni, jú, en ekki nr. 1–7!

Sérstaklega ítreka ég spurninguna, "með hvaða hætti viltu láta kjósa um þetta mál? Ertu reiðubúinn að beita þér fyrir því, að ekki verði hafðir linari skilmálar fyrir fullveldis- og réttindaafsali af okkar og löggjafarþingsins hálfu heldur en þeir skilmálar, sem settir voru fyrir uppsögn Sambandslagasáttmálans? ..., þ.e.a.s. að 2/3 þingmanna þyrftu fyrst að samþykkja hina róttæku breytingu, en síðan efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem a.m.k. 3/4 þjóðarinnar yrðu að taka þátt, til þess að hún væri gild, og 3/4 atkvæða yrðu að vera með hinni róttæku breytingu.

Þú gætir í næsta svari byrjað á því að svara þessu til hlítar.

Með góðum óskum,

Jón Valur Jensson, 26.3.2009 kl. 20:49

4 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Íslandshreyfingin - lifandi land !
Hugsjónir og raunsæi´í bland !

Þetta þykir mér einkennilegur "kveðskapur", Ómar. Ég held nú þú getir gert betur.

Emil Örn Kristjánsson, 26.3.2009 kl. 21:21

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er sammála þér um það að aukinn meirihluta ætti að þurfa á þingi um svona stórt mál, en hins vegar ósammála um 3/4 hluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það eru nefnilega tvær hliðar á atkvæðagreiðslum. Með svona gríðarlega auknum meirihluta er niðurstaðan sú að aðeins 1/4 hluta atkvæða þarf til að taka þá ákvörðun í hina áttina, að standa utan við.

Síðan er ég ekki viss um að svo djúpt eigi að taka í árinni að lönd eins og Danmörk, Svíþjóð, Bretland eða Tékkland séu "héruð í Evrópu."

Mér sýnist þetta vera nokkuð sjálfstæð lönd og sýnist raunar Danmörk, til dæmis vera nokkuð sjálfstæðara en Ísland um þessar mundir sem hefur í raun glatað í raun sjálfstæði sínu í efnahagsmálum, en það teygir anga sína inn á öll svið þjóðlífsins.

Ómar Ragnarsson, 27.3.2009 kl. 00:53

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þarna ertu farinn að temja þér Samfylkingar-tóninn, Ómar, – á ég að óska þér til hamingju?

Danmörk er nú ekki lengur ýkja sjálfstæð í ýmsum efnum, þ.e.a.s. þeim sem hún hefur ekki lengur forræði yfir í löggjöf. Umræðusvið stjórnmála þar og kosningabaráttu hefur þrengzt, því að svo margt kemur einfaldlega frá Brussel. Annars er bezt að vísa þér á hann Gunnar Rögnvaldsson sem getur sagt þér allt um dýrðina í EBé-landinu Danmörku. Annan Danmerkurbúa hitti ég í dag, Halldór Kristinsson tónlistarmann (í gamla Tempó o.fl. hljómsveitum), hann var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og þegar tal okkar barst að Danmörku og EBé, fórnaði hann höndum yfir því, hve ömurlegt það væri fyrir Dani að vera þar inni. (Jafnvel Bretar eru að meirihluta andvígir sinni EBé-aðild.)

Ísland er margfalt smærra land að fólkstölu til en þau sem þú nefndir (smærra en smæsta ríki EBé, þ.e. Möltu með sína 406.000 íbúa), og vegna sjávarútvegsstefnu bandalagsins og þess, hve háð við erum fiskveiðum (eða með öðrum orðum: hve mikils góðs við njótum þó af auðlindum sjávar þrátt fyrir allt Hafróruglið), þá kæmi innlimun okkar lands langtum harðar niður á okkar þjóð en hliðstæð innlimun gerir gagnvart nefndum þjóðum. Við yrðum ekki nema eins og hérað í Evrópu.

Hversu stóran aukinn meirihluta viltu um þetta mál, Ómar? Þú veizt, að ég má krefja þig svara miklu fremur en þú mig, af því að þú ert public figure og býður þig fram til landstjórnarstarfa og þarft að sýna ábyrgð og gera fólki ljóst, að hverju það gengur, ef það á að kjósa þig.

Þú segist "ósammála um 3/4 hluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu" og rökstyður það svo:

"Það eru nefnilega tvær hliðar á atkvæðagreiðslum. Með svona gríðarlega auknum meirihluta er niðurstaðan sú að aðeins 1/4 hluta atkvæða þarf til að taka þá ákvörðun í hina áttina, að standa utan við." – En gættu að því, að við vitum, hvað við höfum, en ekki eins, hvað við fengjum – ekki af því að það sé í raun svo torvelt að vita það, heldur er þjóðin einfaldlega í harla mikilli þoku um það. Það sem verra er: með sífelldri klifan þessa máls, þessarar þráhyggju Ingibjargar Sólrúnar og ástríðu Össurar svila hennar, fer þetta að taka svo hugi margra (ekki endilega rökhugsun þeirra, sumra jú), að þeir gerast gleymnir á þá svölu sem þeir hafa í hendi, gildi sjálfstæðis okkar (lestu Sjálfstæðið er sívirk auðlind eftir Ragnar Arnalds), gildi löggjafarvalds, stjórnskipunar, réttarkerfis, atvinnulífs og velferðarkerfis þess, sem á hinum góðu stoðum er byggt.

Það er mjög eðlilegt, að ætlazt sé til verulega aukins meirihluta, t.d. vegna þess að verið væri að kjósa fyrir margar komandi kynslóðir, en ekki sízt vegna þrýstingsins utan frá. Hann er miklu meiri en á tímum Hákonar gamla, og karlinn hafði sitt fram, þótt það tæki áratugi, en ríki hans var ekki nema 3–4 sinnum fólksfleira en okkar, EBé 1670 sinnum fólksfleira, og þar eru innan borðs aldagömul stórveldi, Frakkland, Spánn, Bretland og Þýzkaland, og frek til fjörsins! Það er ennfremur til þess vinnandi að ætlast til vel aukins meirihluta, því að þjóðin þarf á samstöðu að halda, consensus fremur en sundrungu. Það verður aldrei friður um EBé-innlimun, sem knúin verður fram fram með naumum meirihluta og jafnvel með afli minnihluta kosningabærra manna.

Hættu svo að hlusta á fagurgalann um evrópsku veldin, og gerðu lesendum þínum það gagn að svara nú spurningum mínum nr. 4 og 7 í næsta skammti, ef þú ræður við það. Ég hef þegar fengið svör að miku leyti við spurningum nr. 3, 5 og 8.

Og gangi þér nú vel, Ómar.

Jón Valur Jensson, 27.3.2009 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband