Höfðum erindi sem erfiði.

Það er rétt hjá formanni Samfylkingarinnar að norska leiðin varðandi ESB liggi beinast við, það er, að sækja um aðild, ná sem hagstæðustu samkomulagi og leggja síðan borðliggjandi niðurstöðu í dóm þjóðarinnar, sem samþykkir aðildarsamninginn eða synjar honum.

Að þessari leið frárgenginni liggja hins vegar fyrir tveir aðrir möguleikar. Annars vegar óbreytt ástand vegna þess að ekki næst samkomulag um það í næstu ríkisstjórn að fara beint í aðildarviðræður og hins vegar sú leið sem bæði VG og Sjálfstæðisflokkurinn hafa opnað möguleika á, sem sé að þjóðin ákveði fyrst aukalega hvort sótt sé um.

Óbreytt ástand er versti kosturinn og ef að því kemur að í næsta stjórnarsamstarfi fáist ekki samstaða um annað en millileiðina, er hún þó skömminni skárri til þess að koma þessu máli á hreyfingu.

Íslandshreyfingarfólkið sem var á þessum landsfundi hefur fengið ákúrur fyrirfram frá sumum um að hafa lagt í vonlausan leiðangur.

Annað kom á daginn á þessum landsfundi. Okkur var vel tekið af öllum, ekki síst samherjum okkar í umhverfismálum og sjávarútvegsmálum og við komum fjölmörgu fram í öflugu og einstaklega ánægjulegu samstarfi við skoðanasystkin okkar í þessum málaflokkum og öðrum.

Í þessum málum var bryddað upp á nýjum hugmyndum sem fela í sér stefnubreytingu á ýmsa lund.

Í einu mjög mikilvægu máli réði atbeini okkar úrslitum þegar fellt var með aðeins 14 atkvæða mun tillaga um að Íslands sækti um undanþágu frá mengunarkvótum á næstu alþjóðaráðstefnu þar um.

Við komum líka að stefnumarkandi yfirlýsingum um að í endurreisn íslensks efnahagslífs skyldi stefnt að grænu hagkerfi sem gefist hefur vel í ýmsum löndum.

Margrét Sverrisdóttir fékk flest atkvæði í kjöri fimm fulltrúa í framkvæmdaráð flokksins.

Landsfundurinn sannfærði mig um það að það var rétt skref að Íslandshreyfingin gengi í Samfylkinguna. Við höfðum erindi sem erfiði og hefðum ekki með neinu öðru móti átt þess kost að ná viðlíka árangri eins og við náðum þarna með samherjum í stærsta flokki landsins.


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla tilgangslítil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En nú þegar þú ert kominn í Samfylkinguna, ertu þá ekki til í að viðurkenna, Ómar, að það var Íslandshreyfingin sem gerði það að verkum að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur héldu meirihluta í kosningunum 2007?

Eyjólfur (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 19:28

2 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Glæsilegt kjör Margrétar Sverrisdóttur í framkvæmdastjórn var verðskuldað. Frábært að fá ykkur í flokkinn - það styrkir okkur umhverfissinna sem fyrir voru. Atkvæðagreiðslan um mengunarkvótann fór vel og það er líka fagnaðarefni. Velkomin!

Svala Jónsdóttir, 29.3.2009 kl. 19:41

3 Smámynd: Sævar Helgason

Það munar um að fá jafn öflugan hóp sem Íslandshreyfinguna inn til samstarfs í Samfylkingunni.  Það munaði um Margréti Sverrisdóttur í málefnahópnum (70 manns) um sjávarútvegsmál, Og síðan sest Margrét nú í framkvæmdastjórn. Umhverfismálin hafa verið fyrirferðamikil í Samfylkingunni- nú margfaldast hinn græni þáttur- það er vel.

Sævar Helgason, 29.3.2009 kl. 19:58

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Síðasta skoðanakönnunin fyrir kosningarnar 2007 sýndi að stærsti hópurinn í einstaklingum talið sem ætlaði þá að kjósa okkur kom úr Sjálfstæðisflokknum og að við tókum heldur meira frá þáverandi ríkisstjórnarflokkum og Frjálslynda flokknum (3ði stóriðjuflokkurinn) en frá flokkunum vinstra megin við okkur.

Enda veiklaðist stjórnin svo mjög að hún treysti sér ekki áfram.

Þar að auki bættumst við þá við stjórnarandstöðuflokkana og lögðum henni lið í að sækja að stjórninni og héldum umhverfismálunum inni í umræðunni fram á kjördag, en án okkar hefðu þau verið horfin hálfum mánuði fyrr.

Við gerðum gagn, og flestar kannanir sýndu, að meðan við vorum inni með þingmenn féll stjórnin.

Ég viðurkenni að þetta stóð tæpt og aðstæður núna voru að dómi yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna okkar miklu tvísýnni en 2007 og erfiðari til að bjóða fram ein og sér en og miklu meiri hætta á að gera ógagn nú en þá.

Niðurstaðan er glæsileg, til dæmis það, að í umhverfisályktun Samfylkingarinnar nú er meðal annars túlkaður vilji hennar til að stækka Vatnajökulsþjóðgarð þannig að friðað verði hið eldvirka ósnortna svæði milli Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls, en á því svæði hefur verið þrýst á Bjallavirkjun, Skaftárvirkjun (Landisjór) Torfajökulsvirkjun og Markarfljótsvirkjun.

Ég fullyrði og get rökstutt það að bara þessi hluti hálendisins stendur sjálfum Yellowstone framar að gildi og því yrði það dýrmætt veganesti inn í stjórn með VG að þetta næði fram að ganga.

Ómar Ragnarsson, 29.3.2009 kl. 21:02

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka fyrir orð eins og "flott hjá ykkur" en minni á, að þær niðurstöður sem ég er að ræða um, byggðust á samstilltu átaki með frábæru fólki sem við gengum til lið við í Samfylkingunni.

Ég tel það þeim flokki til mikils sóma að hafa til dæmis samþykkt umhverfis- og auðlindaályktunina og sjávarútvegsstefnuna án átaka á þinginu eftir að þessir málaflokkar voru leiddir til lykta í viðkomandi nefndum.

Hingað til hafa annað hvort Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur eða báðir saman haft úrslitaáhrif í hverri stjórn á þessi mál.

Þetta myndi gerbreytast með meirihlutastjórn núverandi stjórnarflokka því að þá verða flokkarnir samstíga í ofangreindum málum og enginn Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur til að setja stólinn fyrir dyrnar eins og þeir flokkar hafa gert til þessa í krafti þingmeirihluta síns.

Ómar Ragnarsson, 29.3.2009 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband