Varasamar hraðamerkingar.

Það vakti athygli mína á leiðinni um Norðurárdal í kvöld að á nokkur hundruð metra löngum kafla fyrir neðan Bifröst voru merki sem sýndu 30 kílómetra hámarkshraða. Þegar komið var á þennan kafla kom í ljós að hann var í engu frábrugðinn öðrum vegarköflum sem eru með 90 kílómetra hámarkshraða.

Þessi fráleita merking olli vandræðum meðað bílstjóra, sem voru eðlilega misfljótir að átta sig á hvers kyns var. Sumir hægðu snarlega á sér og ollu vandræðum fyrir þá sem á eftir fóru og hófu framúrakstur.

Ég hringdi í lögregluna í Borgarnesi og fékk þá útskýringu að verktakar hefðu verið að vinna þarna í fyrradag en væru nú komnir í fimm daga páskafrí. Merkinganna hefði verið þörf fyrir fríið og þeirra yrði aftur þörf eftir fríið.

En hvernig í ósköpunum eiga vegfarendur að vita þetta? Þetta minnir mig á atvik á Hellissandi fyrir mörgum árum þegar aðkomumaður lenti í árekstri á gatnamótum við bíl sem ók á móti aksturstefnunni. Í fyrstu stóð til að dæma manninn í órétti á þeim forsendum að allir á Hellissandi vissu að það færi enginn eftir bannmerkjunum !

Ég ætlaði að gera um þetta frétt en áður en af því yrði var málið leyst á annan veg.

Þegar ég var strákur staddur niðri á höfn varð ég ásamt fleirum vitni að því að kastað var spring úr skipi yfir á bryggjuna og maður, sem átti að taka á móti, steig út fyrir bakkann og féll í sjóinn. Á leiðinni niður kallaði hann: "Það var planki hérna í fyrra ! "

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem verktakar valda vandræðum og hættu í umferð með því að skilja eftir merkingar sem eru í engu samræmi við aðstæður. Ég kaupi ekki svarið: "Það voru menn að vinna þarna síðastliðinn miðvikudag."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ríkir fullkomið kæruleysi um umferðarmerkingar hérlendis eins og alltaf er að sýna sig. Verst er að kæruleysið nær núorðið líka til hönnunar umferðarmannvirkja. Þau eru æði oft orðin útfærð í fullkominni andstöðu við það sem reglur boða.

En það skal hafa verið Borgarverk sem stóð að framkvæmdum við Bifröst. Verri slúbbertar eru vandfundnir í þessum efnum. En kannski má efast um að þeir hefðu sett upp merkingar til að byrja með.

Fimmta valdið (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 08:19

2 identicon

Það er venjan hérlendis að líta á merkingar á vinnusvæðum sem leiðindakvöð sem skipti í raun litlu máli. Það þarf að sýna verktökum miklu meira aðhald í þessu. Aðrir sem þurfa aðhald eru sveitastjórnir og lögreglustjórar víða um land vegna varanlegra hraðatakmarkanna sem oft eru óskiljanlegar. T.d. má nefna þjóðveg 1 um Varmahlíð í Skagafirði þar sem hraði er lækkaður í 70 nokkuð langt fyrir utan þorpið og svo í 50 á nokkuð löngum kafla framhjá þorpinu (ath. framhjá, ekki í gegnum). Í þorpinu er hvergi íbúabyggð mjög nálægt veginum og í rauninni ætti að vera nóg að lækka hraða niður í 70 á þeim kafla þar sem nú er 50 km hámarkshraði. Ég skil það að þessi hraðatakmörk hafa verið sett með öryggissjónarmið í huga en afleiðingin getur orðið þveröfug ef of augljóslega of strangar reglur eru settar miðað við aðstæður. Þá minnkar bara virðingin fyrir hraðatakmörkunum allsstaðar. Fleiri svona dæmi eru allt í kringum landið.

Bjarki (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband