Töluðu við "skrílinn."

Þegar mótmælin voru sem fjölmennust í janúar í vetur töluðu sumir stjórnmálaleiðtogar um mótmælendur sem "skríl."

Látinn var í ljós efi um að fólkið væri fulltrúar þjóðarinnar og talað niður til mótmælenda. Nú mun sjálfsagt einhverjir tala um "fámennan skríl" eða "örfáa öfgamenn."

Þannig var talað um mótmælendurna sem sýndu aðfáunarvert úthald og þrautseigju, þegar þeir mótmæltu Kárahnjúkavirkjun daglega veturinn 2002-2003.

Talað var háðslega um "örfáa öfgamenn" og "atvinnumótmælendur."

Sérkennilegt orðaval í ljósi þess að þetta fólk var ekki launum eins og hinir raunverulegu "atvinnumeðmælendur" sem fá margir hverjir hálaun á kostnað almennings fyrir það að mæla með þeim aðgerðum og framkvæmdum sem það er í forsvari fyrir.

En þrautseigja "atvinnumótmælendanna" bar þó um síðir þann árangur að við Ráðhús Reykjavíkur var haldinn langfjölmennasti mótmælafundurinn til þess dags, vel á annað þúsund manns komu þangað til að mótmæla því þegar borgarstjórn gaf grænt ljós á mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar.

Aðgerðirnar í dag voru illa auglýstar og á slæmum tíma. Þær gefa alranga mynd af þeirri undiröldu sem er í þjóðfélaginu.

Þegar Jökulsárgangan var farin í september 2006 fóru 15 þúsund manns bónleið til búðar að Alþingishúsinu. Þótt auglýst hefði verið að við húsið yrði afhentur áttblöðungurinn sem borinn hafði verið í gefnum borgina, lét enginn ráðamaður sjá sig þar til þess að tala við "skrílinn."

Í dag létu Jóhanna og Steingrímur þó svo lítið að tala við "skrílinn" við Stjórnarráðshúsið þótt fámennur væri.

Það var skynsamlegt og rétt hjá þeim. Þótt þetta hafi ekki verið margt fólk ber þess að gæta, að það var heldur ekkert svo margt fólk sem kom á fyrstu samkomurnar á Austurvelli, tónleika Bubba og félaga og síðan á sívaxandi mótmælafundi undir forgöngu Harðar Torfasonar.

Ef undiraldan er þung brýst hún um síðir upp á yfirborðið. Ágæt grein Einars Björns Bjarnasonar í Morgublaðinu í dag varpar ljósi á það hve umfang vandans er mikið og í hve miklu tímahraki og mannahallæri stjórnvöld eru.

Það ætti að verða brýning fyrir oddvita ríkisstjórnarinnar sem buðu fulltrúum "skrílsins" inn til sín í dag, brýning til að spýta í lófana.


mbl.is Buðu mótmælendum til viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér þykir mér þú koma með óréttmæta gagnrýni Ómar. Ég hef alltaf dáðst að þér og staðið með þér í baráttunni í umhverfismálum en mér vitandi hefur enginn ráðamaður/kona notað orðið "skríll" síðan Geir Haarde gerði það s.l. haust. Ég hef ekki orðið vör við virðingaleysi frá Jóhönnu eða Steingrím gagnvart almenningi í landinu, þvert á móti.

Hvort úrræðin sem í boði eru hafi verið nógu vel auglýst má deila um, einnig fáránlegt að ekki hafi verið fjölgað fyrr hjá Ráðgjafastofu heimilanna. Hins vegar er rauði þráðurinn í mótmælendum núna að fá skuldaniðurfellingu en ekki tímabundna lækkun greiðslubyrði.

Ég missti vinnuna í oktober s.l. ég er ekki að kaupa húsnæði (hef ekki átt fyrir útborgun og ekki viljað taka 90%-100% lán eins og sumir) heldur bý í leiguíbúð. Ef ég hætti að borga leiguna verður mér hent út! Þeir sem komnir eru í þrot með sín mál vegna erlendra lána eða annara lána býðst að vera áfram í íbúðum sínum sem "leigjendur" - fyrir atvinnulausa er meira að segja í boði að frysta afborganir af lánum í 1-3 ár!! Fjölmörg önnur úrræði eru í boði fyrir þá sem eru í vandræðum en svo virðist sem fólk hafi tekið sig saman um að skoða þau ekki og halda bara áfram að heimta skuldaniðurfellingu.

Fyrr en ég heyri dæmi um fólk sem ekki er með bíl á bílalánum, tók ekki 90%-100% lán vegna íbúðakaupa, er ekki að nýta sér yfirdráttarheimild, er með vinnu, en er samt í greiðsluerfiðleikum, þá get ég EKKI tekið undir mótmæli svokallaðra Hagsmunasamtaka Heimilanna!!

Atvinnulaus (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 14:59

2 identicon

það er alltaf talað um umhverfisspjöl við kárahnjúkavirkjun en á meðan þið voruð að mótmæla þar þá reis á sama tíma hellisheiðarvirkjun og það heirðist ekki múkk í neinum en þaðan er miklil brenisteins meingun sem og sjónmeingun afhverju heyrðist ekkert í þér þá þarna er búið að loka stóru útivistar svæði með hellis heiðarvirkjun en fólk vissi varla hvar kárahnjúkar voru áður en það var virkjað

snorri (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 15:07

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er einmitt að blogga um það á jákvæðan hátt og hrósa Jóhönnu og Steingrími fyrir það að bjóða mótmælendum inn til sín í dag og ræða við þá á jafnréttisgrundvelli. Á slíkt hefur oft skort og margir fleiri en Geir hafa notað orðin "skríl", "öfgafólk", "atvinnumótmælendur." o. s. frv.

Þegar Fljótsdalsvirkjun og Kárahnjúkavirkjun voru á dagskrá var líka á dagskrá að sökkva hluta af Þjórsárverum og að virkja við Kolviðarhól.

Eyjabakkadeilan ein og sér varð mjög erfið og kostnaðarsöm fyrir þá sem mótmæltu henni, og þegar allt hitt bættist við var einfaldlega ekki til mannskapur og þaðan af síður peningar til að berjast á öllum vígstöðvum.

Eftir ósigurinn við Kárahnjúka lá náttúruverndarhreyfingin örmagna og skuldug eftir og menn eins og Ólafur F. Magnússon urðu að horfast í augu við erfiðar persónulegar skuldir vegna baráttunnar.

Allan þennan tíma var hamast á þessu fólki fyrir það að "vera á móti öllu".

Hellisheiðarvirkjun eins og hún var fyrst, var þá ekki orðin að því alltumfaðmandi skrímsli sem hún er nú að verða, næstum tíu sinnum stærri en upphaflega var á borðinu.

Hellisheiðarvirkjun féll í skuggan af stóru baráttunni, henni var laumað inn í skjóli borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gátu hvenær sem er myndað nýjan meirihluta um þessa virkjun ef R-listinn hefði klofnað um málið.

Hún átti að verða umhverfisvæn, endurnýjanleg og hrein orka með hverfandi umhverfisspjöllum miðað við Kárahnjúka og Þjórsárver.

Allt annað hefur nú komið á daginn og hún er ekkert af þessu. Nú eiga að rísa þarna alls fimm virkjanir ef Nesjavellir eru taldir með og við, sem berjumst hatrammlega gegn aðeins einni af þessum virkjunum, Bitruvirkjun, erum talin "öfgafólk, sem vill fara aftur inn í torfkofana, er á móti rafmagni og framförum og á móti atvinnuppbyggingu í byggðum landsins."

Ómar Ragnarsson, 8.5.2009 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband