Rétt stefna á röngum tíma?

Það kostar annaðhvort peninga eða útsjónarsemi að koma stefnumálum stjórnmálaflokka á framfæri. Nema hvort tveggja sé.

Þetta kemur mér í hug þegar sagðar eru fréttir af því að rætt hafi verið um fjármuni á fundi Borgarahreyfingarinnar, vegna þess að um síðustu helgi sá ég stóra Morgunblaðsauglýsingu í kaffiteríu Flugfélags Íslands.

Hún sést á mynd hér á síðunni. 

Athygli mína vakti forsíðufyrirsögn með stærsta letri um það að stefna þyrfti að auknu lýðræði til að fjalla"" "allt sem þjóðina varðar".

DSCF5184

Einnig, að undirbúa skyldi aðild að ESB.

DSCF5132

Ég hugsaði með mér: Ansi er Borgarahreyfingin lunkin að fá svona risafyrirsögn í sjálfum Mogganum um mál sín, peningalaus flokkurinn. Hvernig í fjandanum fóru þau að þessu?

Þegar ég gætti betur að var þarna verið að fjalla um þörfina á auknu og beinna lýðræði, meðal annars með þjóðaratkvæðagreiðslum og um það að undirbúningur aðildar að ESB ætti að felast í því að vera með samningsmarkmiðin klár og frágengin ef að því kæmi að talið væri rétt að sækja um aðild.

 

En dagsetning blaðsins vakti undrun mína: 15. apríl 2007. Og nú rifjaðist upp við mig viðtal í viðtalaröð við talsmenn þáverandi framboða sem blaðamaður Morgunblaðsins átti við mig í aðdraganda kosninganna 2007 þar sem ég reifaði fyrir honum stefnumál Íslandshreyfingarinnar um breytingar á stjórnarskránni, stóraukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna, jöfnun atkvæðavægis, nýja kjördæmaskipan, auknu valdi þingnefnda, - að ráðherrar mættu ekki vera þingmenn o. s. frv.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að blaðamaðurinn hafði greinilega tekið þann pól í hæðina að gera þetta að fyrirsögnum sínum vegna þess að engin önnur framboð höfðu þessi mál á oddinum og allir vissu hvaða stefnu Íslandshreyfingin hafðí í umhverfismálum.

Fréttamaðurinn var að leita að einhverju nýju og öðruvísi og fann það og birti. Kannski sést þetta betur með því að smella einu sinni á myndina og síðan aftur. 

Skemmst er frá því að segja að enginn áhugi var hjá almenningi né öðrum stjórnmálaflokkum á þessum málum vorið 2007. Aðeins einu sinni tókst mér í ljósvakaumræðum þessarar kosningabaráttu að fá að minnast á þau.

Á borgarafundi í vor sagði Birgir Ármannsson og trúði því sjálfur að ég hefði aldrei haft neinn áhuga á stjórnarfarsbreytingum fyrr en nú í vor.  

Auðvitað fóru þessi mál fyrir ofan garð og neðan fyrir tveimur árum. Allir voru með hugann við peninga og efnahagsmál og bæði Samfylking og VG minntust ekki á umhverfismál í heilsíðuauglýsingum sínum síðustu vikurnar fyrir kosningar.


mbl.is Lítið um völd og ekkert af peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband