Ekki sá fyrsti sem íhugar svipaða aðgerð.

Þegar mér varð ljóst að svo væri málum komið við Kárahnjúka að ég yrði að taka afstöðu gegn því sem átti að gera þar íhugaði ég síðasta árið fyrir drekkingu Hjalladals ýmsa möguleika á því sem hægt yrði að gera við að vekja athygli á þessu máli. Einn var sá að skilja flugvélina TF-FRÚ eftir á lendingarbrautinni, sem ég notaði á botni dalsins, og taka myndir af því þegar hún sykki. Hér eru tvær myndir af flugvélinni á þessum stað. Á neðri myndinni stendur hún uppi á lendingarstaðnum hægra megin á myndinni. 

DSCF0219

Þetta yrði táknrænn gerningur um hið ofboðslega mikla tjón sem menn ætluðu að valda á ómetanlegri náttúru Íslands og sýndi hve mikil alvara mér væri með því að fórna í þágu málstaðarins grip, sem ég var bundinn miklum tilfinningaböndum við.

Raunar var flugvélin sáralítils virði, orðin gömul, þreytt og lúin, nær verðlaus, en það var ekki aðalatriðið heldur tilfinningaratriðið, og það að kallmerkinu TF-FRÚ yrði fórnað í eitt skipti fyrir öll.

Mér varð hins vegar ljóst að þessi gerningur yrði lagður út á versta veg, - ég sakaður um að menga umhverfið og standa að eyðileggingu þess.

DSCF0212

Allir myndu skilja það en færri átta sig á milljón sinnum stærra tjóni þegar hafið væri það verk að fylla upp með auri 25 kílómetra langan dal með mögnuðum náttúruverðmætum.

Ég hætti því við þennan gerning þegar Paul Cox skaut þeirri hugmynd að mér að sigla um lónið á báti með nafninu "Örkin", bjarga lífi og steinum af botninum og taka myndir af eyðileggingunni.

Þetta reyndist rétt ákvörðun því að ég var kærður fyrir umhverfisspjöll sem gætu varðað tveggja ára fangelsi með því að tylla þessari sömu TF-FRÚ niður lendingarstaðinn í lónstæðinu, og hafði ég þó fengið leyfi Náttúruverndarráðs til þess á meðan ekki var búið að aflétta friðun af hluta dalsins.

Í hönd fór hálfs árs málarekstur, rannsókn og yfirheyrlsum hjá rannsóknarlögreglu og fleiri aðilum sem endaði með því að ekki fannst að neitt saknæmt hefði verið aðhafst.

P1010171

Með þessum pistli fylgir ljósmynd, sem ég tók í fyrradag af jaðri flugbrautar Sauðárflugvallar.

Þessi lendingarstaður er einn af meira en 20 slíkum, sem hafa verið á hálendinu, allt frá því að Agnar Koefoed-Hansen fann Sauðárflugvöll árið 1939.

Spurningin er: Hvorum megin við máluðu steinaröðina er flugbrautin sem átti að fela í sér svo mikil náttúruspjöll? Svar birtist síðan væntanlega á morgun.


mbl.is Biður nágranna afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ég tel að gjörningurinn á Álftanesi vekji meiri athygli en athyglin sem þú hefðir fengið ef þú hefðir drekkt frúni. En það er vissulega ekki hægt að segja til um það með óorðna atburði og atburði sem aldrei gerðust.

Offari, 18.6.2009 kl. 20:19

2 Smámynd: Einar Steinsson

Það hefði verið synd að fórna Frúnni, gott að þú gerðir það ekki. Annars væri gaman ef þú kæmir einhvertíman með "Frúarsöguna", þ.e. hvaða vélar hafa borið þetta kallmerki hjá þér og hvað varð um þær. Síðan minnir mig að þú hafir líka átt TF-HOF og TF-GIN, er það misminni og ef ekki áttu þær ennþá?

Einar Steinsson, 18.6.2009 kl. 20:32

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar það er hægt að vekja athygli á mismunandi hátt. Tel að þú hafir staðið þig vel að koma þínum málstað á framfæri. Jarðvegurinn í þjóðfélaginu var einfaldlega ekki til staðar, til þess að endurskoða þessi áform. Myndatakan kemur sennilega til að hafa meiri áhrif til lengri tíma.

Sigurður Þorsteinsson, 18.6.2009 kl. 20:49

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tel að ákvörðunin hafi verið rétt þótt þessi gerningur hefði sýnt, að missir kærs vængjaðs förunautar var smotterí miðað við hinn hrikalega missi lands sem eyðilagt var.

FRÚrnar eru alls orðnar fimm, en þessa, sem ég á nú, hef ég átt tvisvar, fyrst 1979-80 og síðan 1998 til dagsins í dag.

Ein þeirra er nú í Suður-Afríku og er víðförlasta íslenska eins hreyfils einkaflugvélin, eftir að hafa þjónað Helga Hróbjartssyni trúboða í Eþíópíu og fara síðan þaðan til Suður-Afríku.

Auk þess að lenda á nokkrum mögnuðum og frumstæðum lendingarstöðum í Eþíópíu lenti hún á jafn ólíkum stöðum á Íslandi og á Bárðarbungu, við Dynheima á Akureyri, í Surtsey og á Esjunni (nauðlending)

TF-GIN var fyrsta flugvélin mín 1968 - 71 og aftur 1985-1991. Hún er nú á Selfossi.

TF-HOF átti ég 1976-87. Henni varð ég að leggja og er hún nú orðin ónýt.

"Skaftið", eins manns fis, hef ég átt síðan 1990, en það hefur hangið uppi í lofti á byggðasafninu á Skógum síðasta áratug. Það er víðförlasta eins manns fisið hér á landi.

Ómar Ragnarsson, 18.6.2009 kl. 21:55

5 Smámynd: Heimir Tómasson

Þar sem þú ert nú penni góður Ómar minn, þá finnst mér sem þú mættir nú pára niður sögu þessara farkosta þinna og gefa út. Ég myndi fjárfesta, ekki spurning.

Heimir Tómasson, 19.6.2009 kl. 00:17

6 Smámynd: Ellert Júlíusson

Já Ómar, það hefði verið óskandi að fleiri hefðu hlustað á þig þegar þú varst að mótmæla þessari virkjun. Nú stendur hún eftir eins og myllusteinn á baki þjóðarinnar, minnisvarði um óstjórnlega græðgi og sáralitla hugsun.

Ellert Júlíusson, 19.6.2009 kl. 11:33

7 identicon

Uppraðaðir málaðir steinar. Óspjölluð náttúra? Ósnortin náttúra? Til fyrirmyndar og eftirbreytni? Varla.

Gunnar Geirsson (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband