Hver vill vera í hlutverki Óla skans? Enginn.

Vafasamt er hvort nokkurn tíma verður upplýst um tíðni heimilisofbeldis kvenna gagnvart körlum.

Þetta verður áfram óupplýst stærð og óráðin gáta.

Það er feimnismál fyrir karla að vera undir járnhæl kvenna sinna, samanber vísurnar gömlu um Óla skans sem var "ógnar vesalingur" og var alger andstæða við Völu, konu sína.

Um það skass var sungið: "Vala hans, Vala hans, veit nú hvað hún syngur."

Sem sagt ekki aðeins líkamlegir yfirburðir heldur fyrst og fremst andlegir yfirburðir.

Vala niðurlægði Óla á allan hátt og lét hann heyra það að að hann væri nautheimskur:

"Þú ert naut, þú ert naut, /

þannig hóf hún tölu. /

Óli gaut, Óli gaut /

augunum til völu.

Óli, Óli, Óli skans. /

Voðalegur vargur er hún Vala, kona hans.

Hvaða karlmaður vill viðurkenna að vera í hlutverki Óla skans? Auðvitað enginn. Hann verður hafður að háði og spotti eins og vesalingurinn Óli.

Ég minnist myndskreyttrar útgáfu af textum þar sem var mynd af þeim hjónakornunum.

Mér er enn minnistæð teiknimyndin af þeim hjónum, -  ofsahræðslan við Völu sem skein út úr vesalingnum Óla þar sem hann horfði í angist upp til hinnar stórvöxnu konu sinnar.

Það verður varla nema um eitt tilfelli að ræða ef menn leita að játningu karls um það að kona hans beiti hann heimilisofbeldi.

Það verður skýrsla Óla skans og ekkert hægt að gera með hana því að þau hjón eru bæði löngu dauð.  

Í Gísla sögu Súrssonar örlar fyrir játningu á því að á bænum þar sem kerlingin, kona Refs bónda, leyndi Gísla undir sér í rúmi sínu, svo að leitarmenn fyndu hann ekki og dræpu hann, hafi hún verið orðlagt skass og vargur sem lét alla í kringum sig finna til tevatnsins ef því var að skipta, - í þetta skipti þá sem komnir voru undir alvæpni að leita að Gísla. 

"Veitti hún þeim ágauð (gauð, no. dregið af sögninni að geyja, gelta) svo mikla að þá mátti minni til reka" segir í sögunni.

En í allri hinni óborganlegu lýsingu af einstæðri frekju, vargskap og ágengni kerlingar eru mál þeirra hjóna gerð upp í dásamlega stuttorðri lýsingu sem maður veit ekki enn í dag hvort var háð eða sannleikur: "Með þeim Ref var jafnræði."!

Sem sagt: Aldagamalt feimnismál.  

  


mbl.is Heimilisofbeldi gegn körlum óþekkt stærð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hlutfallslega jafn margar konur og karlar beita líkamlegu ofbeldi:

„Most Canadians do not physically abuse their partners. However, a report that came out in 2004 shos that it does happen. In the report, about eight per cent of women and seven per cent of men said their heterosexual partners had abused them in the past seven years.“ (Þessi 1% munur er væntanlega innan skekkjumarka.)

Abused by Women in Intimate Relationships

Þorsteinn Briem, 12.7.2009 kl. 19:08

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Er vandinn ekki sá Ómar að alltof mikið af þessum félagsvísindum nútímans er illa ígrundað húmbúkk og skoðanir, sem eru lítt byggðar á skilningi og innsæi í mannlegt eðli?

Gústaf Níelsson, 15.7.2009 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband