Lyfjafíkn, hættuspil við dauðans dyr.

Fíkniefni bjóða upp á hættuspil við dauðans dyr þegar þau hafa smám saman gert fíkilinn ófæran um að forðast þau.

Tvenns konar tilfelli eru miklu fleiri en fólk gerir sér grein fyrir hvað snertir fíkniefnanotkun:

1. Lygilega margt fólk hefur sloppið naumlega við að fara yfirum.

2. Dánarorsökin hefur ótrúlega oft verið beinlínis vegna lyfjamisnotkunar.

Þetta er feimnismál fyrir alla aðila. Ég hef alla tíð verið afar smeykur við notkun lyfja og fíkniefna og ek á bíl með einkanúmerinu "EDRÚ" til þess að senda öðrum skilaboð um þetta.

Allir lenda þó í þeim aðstæðum að ekki verður komist hjá notkun lyfja eða efna, sem geta orðið vanabindandi.

Ég játa að ég er fíkill á tvö af lúmskustu fíkniefnum nútímans: Hvítasykur og koffein. Hvort tveggja fæ ég með því að drekka Cola-drykki og þarf að vera á tánum á hverjum degi vegna þessarar neyslu.

Súkkulaði er lúmskt fíkniefni, inniheldur bæði mikla fitu og sykur, og á gríðarlega mikinn þátt í offitu fólks sem er eitthvert dýrasta heilbrigðisvandamál heimsins.

Ég hef á síðustu fjórum mánuðum létt mig um 5-6 kíló með því að taka í lurginn á súkkulaðineyslunni en játa að ég þarf að standa mig betur ef ég vil ná enn betri árangri.

Í fyrra varð að nota sterkasta sýklalyfið, Augmentin, til þess að stöðva hættulega sýkingu í baki mínu, og kostaði það spítalavist og tók alls sex vikur.

Í framhaldinu fékk ég lifrarbilun vegna áhrifa sýklalyfsins, sem varð til þess að í þrjá mánuði glímdi ég við svonefnda stíflugulu og ofsakláða sem rændi mig svefni.

Ein áhrifamesta pyndingaaðferð í nútíma fangabúðum er að ræna fangana svefni og eftir reynsluna í fyrra af svefnleysinu í þrjá mánuði skil ég vel angist Michaels Jacksons, sem varð háður svefnlyfjum þegar hann brenndist illa í upptöku á auglýsingamyndbandi.

Hann var andvaka nóttina áður en hann dó þrátt fyrir lyfjagjöf og ljóst er að hann stefndi rakleiðis í átt til þess að líkaminn einfaldlega gæfist upp, orðin nánast aðeins skinn og bein.

Svefnleysið veldur þyngdartapi (ég léttist um 16 kíló á þremur mánuðum), blóðmissi og þrekleysi og standi þetta ástand nógu lengi missir viðkomandi smám saman vitglóruna.

Þegar menn eins og Jackson og Presley eru komnir á efsta stig hinnar botnlausu og óviðráðanlegu fíknar neyta þeir allra bragða til að útvega sér lyf og ég veit af dæmum hér heima að læknar eiga oft mjög erfitt með að varast slægð þessara sjúklinga þar sem allt snýst orðið um að taka lyf, stundum ótrúlega mörg, til þess að beita þeim gegn aukaverkunum hvers annars.

Ef í ofanálag er drukkið áfengi ofan í þetta er voðinn vís.

Sjúklingarnir eru oft búnir að koma sér í sambönd við marga lækna, nýta sér það til hins ítrasta og spila á þá.

Svefnleysi er lúmskur kvilli sem getur stigmagnast. Ég vil deila reynslu minni með ykkur, sem þetta lesið, til þess að upplýsa og vekja umræðu.

Það getur stundum verið erfitt að glíma við andvökur, en með skipulagningu á svefni sínum og störfum á hverjum sólarhring má ná árangri.

Meðan engin lyf eru tekin er þetta kannski það eina sem ég get sagt um þetta vandamál:

Eina leiðin án lyfja við svefnleysi er að vaka. Fara jafnvel kannski framúr rúminu og vinna eitthvað góða stund til að verða þreyttur og sofna.

Láta sig hafa það daginn eftir að hafa átt erfiða nótt í þeirri vissu, að að því kemur að þreytan sér um það að venjulegur svefn náist.


mbl.is Lát Jacksons úrskurðað sem manndráp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góð hugleiðing, Ómar

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.8.2009 kl. 00:44

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk.

Ómar Ragnarsson, 29.8.2009 kl. 00:49

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Fyrir ótalmörgum árum las ég viðtal við sálfræðing eða geðlækni sem sagði að eina ráðið við andvöku væri að fara fram úr. Andvaka fólk mætti alls ekki liggja í rúminu og bylta sér. Það mætti ekki tengja rúmið við slíkar raunir - það ætti að tengja það við hvíld, svefn og góðar tilfinningar.

Hann gaf andvaka fólki það ráð að fara úr rúminu og gera eitthvað - hvað sem er - bara ekki liggja í rúminu og láta sér líða illa. Þetta ráð hefur reynst mér mjög vel á stundum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.8.2009 kl. 01:09

4 Smámynd: Kalikles

Það er rétt að fara framúr í ca. 10-15min. til að "bjóta" mynstrið sem að hugurinn er fastur í, og stoppa hugarröddina! ath. hugurinn streitist á móti í viðleitni til að viðhalda ástandi og forðast kerfisbreytingu. stöðuleiki er markmiðið óháð jákvæðu eða neikvæðu ástandi; verkfæri huganns er innri röddin, sem verður að þaggna, eða allavegana niður á lægra orkustig.

Til að stoppa röddina þarf að hugsa um ekkert. þetta er erfiðara en margur heldur; þvi að hugurinn streitist á móti! Ég mæli með að endur taka hugtakið ekkert-aftur og aftur-, því að þegar maður hugsar um ekkert, kemst ekkert að!

Vona að þú finnir eitthverja bita í þessu blaðri sem hjálpa.

Kveðja Kalikles. 

Kalikles, 29.8.2009 kl. 14:24

5 identicon

Gott að skella inn einu bloggi ef maður er andvaka... og edrú ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 17:33

6 identicon

Til að ná því að sofna þarf maður að vera þreyttur og hafa ekki lagt sig yfir daginn. Hinsvegar skulum við ekki fordæma vísindin of mikið, því til eru mjög góð svefnlyf, t.d. Dormicum (Midazolam) eða Hypnosedon, Rohypnol (Flunitrazepam), sem einnig gengst undir nafninu „data rape drug“. 4 mg af Dormicum eða 1 mg af Rohypnol, og maður sefur eins og baby. Hinsvegar skal forðast að nota svefnlyf lengi eða reglulega. Það vita líka allir læknar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 17:58

7 Smámynd: Kalikles

Haukur minn, ómar er að reyna að komast hjá lyfjum; af góðri ástæðu. "fluni" er ekki gott lyf fyrir fólk með "fíklaðann" persónuleika; maður myndar hratt þol sem tekur svefnþörfina í burtu, en situr eftir kafdópaður. coke eða kaffisopi gerir hið sama við flest bensodiazepam lyf td.flunitrazepam, nitrazepam(mogadon),rivotril, stesolid(valium) o.s.frv.  homopatar hafa betri efnalausnir en lyfjaframleiðandinn sem græðir meira á að halda niðri einkennum en að leysa vandann.

Kalikles.

Kalikles, 29.8.2009 kl. 20:03

8 identicon

Ekki alveg sammála Kalikles. Leo Sternbach uppgötvaði lyfjagrúppuna Benzodiazepine í kringum 1955. Fyrsta lyfið var Librium. Þetta var eitt af merkustu afrekum í lyfjaefnafræði síðustu aldar og Leo Sternbach var valinn „the man of the year“ hjá Time Magazine eitt árið. Ég kynntist Leo, sem var frá gyðingur frá Pólandi. Frábær maður.

Uppgötvun hans gerði fyrirtækið Hoffmann La Roche, Basel, eitt af ríkustu fyrirtækjum heims og gerði líf miljónir manna léttar. OK, Ómar og Kalikles (ertu Grikki?), auðvitað eiga menn að reyna að komast hjá lyfjum, ef þeir þola þau ekki, eða hafa „fíklaðann“ persónuleika, eins og þú orðar það. En að coke eða kaffisopi gerir hið sama og benzodiazepine lyf er bull. En minn kæri Kalikles, ég ráðlegg þér að gleyma Homeopatie, það er hókuspókus.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband