Afrek innan veggja þinghúsa.

Um áratugaskeið hafa áhrif Alþingis verið skammarlega lítil vegna ofríkis framkvæmdavaldsins. Þetta er bagalegt vegna þess að þegar völdin hafa færst í svona miklum mæli til ríkisstjórnanna hafa þau færst frá kjósendum, þannig að milliliðirnir milli þeirra og valdhafanna eru tveir en ekki einn.

Hægt er að nefna tvo bandaríska stjórnmálamenn sem höfðu fyrst og fremst áhrif vegna frammistöðu sinnar innan veggja þinghússins, þá Lyndon B. Johnson og Edward Kennedy. 

Þótt John F. Kennedy væri glæsilegur stjórnmálamaður og legði sig allan fram sem forseti um að koma réttindamálum blökkumanna í Bandaríkjunum á rekspöl auk fleiri endurbóta var það þó eftirmaður hans, Lyndon B. Johnson, sem náði miklu meiri árangri. 

Það var svo mikill árangur að enn í dag er bið á því að hliðstætt gerist. Barátta Obama fyrir endurbótum á heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum virðist til dæmis ætla að verða harla harðsótt þrátt fyrir færni og hæfileika forsetans. 

Ástæða velgengni Johnsons byggðist ekki á flekklausum ferli, glæsileika né bumbuslætti. Johnson var um margt grófgerður og stundum ófyrirleitinn, ekki vandur að meðulum og hafði ýmsa ágalla. 

Sumir ásökuðu hann um tækifærismennsku, rustamennsku og lýðskrum. 

En um snilld hans í þingstörfum efast enginn. Hann hafði einstakt lag á að ná sambandi við menn úr báðum þingflokkunum og naut þess að ýmsu leyti að vera með næsta venjulegt og alþýðlegt fas. 

Það var andstæða hins yfirstéttarlega glæsileika sem einkenndi Kennedy og hans fylgisveina, sem komu margir úr röðum háskólafólks, leikara, listamanna og þeirra sem betur máttu sín, en vildu samt leggja sitt af mörkum fyrir þá sem minna máttu sín.

Johnson var meistari leikflétta og stjórnmálabragða á bak við tjöldin, - hann var realpólitíkus eins og þeir gerast eindregnastir.

Hann var maður sem spurði að leikslokum, ekki vopnaviðskiptum.

Vietnamstríðið varð Johnson að falli og hefði sennilega fellt hvaða forseta sem var, líka John F. Kennedy hefði hann lifað, þótt aldrei verði það sannað, af eða á, hvort hann hefði breytt um stefnu. 

Nú hefur annar þingsnillingur, Edward Kennedy, safnast til feðra sinna. Ferill Kennedys sýnir að hann var svo sem "enginn engill heldur" frekar en Johnson, eins og segir í Þórsmerkurljóði, og varð hann þess vegna að takast á við erfiðleika, oft sjálfskaparvíti, sem voru stærri en svo að meðalmenn hefðu ráðið fram úr því. 

En í lok ferils hans situr aðeins virðingin eftir, - virðing fyrir þingsnillingi sem með mannkostum sínum tókst að yfirstíga sjálfan sig og ná árangri á mörgum sviðum sem tekur fram því sem ýmsir forsetar hafa afrekað. Hann hrasaði hvað eftir annað en stóð alltaf upp aftur og hélt áfram.

Þingsnilldin fólst í mannlegum samskiptum og því að missa aldrei sjónar á háleitum stefnumiðum. 

Allir menn eru ófullkomnir en Edward Kennedy tókst á við erfiðleikana á sinn hátt svo að eftir verður munað. 

Í sumar hefur þess orðið vart að von er til þess að Alþingi takist að láta meira til sín taka en fyrr. Það væri gott, því að það er einungis tilhlökkunarefni ef við Íslendingar getum eignast þingsnillinga eins og þeir gerast bestir hjá öðrum þjóðum. 

Því verður að hamra áfram járnið um bráðnauðsynlegar og tímabærar stjórnlagabreytingar sem verður að koma á koppinn.  


mbl.is Obama kvaddi vin og læriföður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Eigi veit ég svo gjörla um Lyndon B. Johnson en hitt veit ég að hann skrifaði undir lög árið 1964 sem heita Wilderness Act.

Pétur Þorleifsson , 29.8.2009 kl. 20:25

2 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta er snilldaryfirlit hjá þér Ómar-takk fyrir.

Sævar Helgason, 29.8.2009 kl. 21:17

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig á að koma í veg fyrir að stjórnarflokkarnir kjósi í samræmi við vilja framkvæmdavaldsins?

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.8.2009 kl. 22:09

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, á tíma Johnsons byrjaði hugarfarsbreyting í náttúruverndar- og umhverfismálum í Bandaríkjunum, en fram að því höfðu umræðan og rökræðan þar á því sviði verið svipuð og hefur verið undanfarin ár hér á landi.

Þegar ég fór í ferðir mínar til Bandaríkjanna til kvikmyndagerðar og kynna af þessum málum undruðust margir viðmælendur mínir að sjónarmiðum, sem hefðu látið í minni pokann í Bandaríkjunum fyrir meira en þrjátíu árum, væri haldið fram á Íslandi.

Menn litu á mig undrandi og nánast af vorkunnsemi þegar ég hélt því fram sem hefur haldið hefur verið fram hér á landi, að virkjanir séu forsenda fyrir náttúruvernd, stofnun þjóðgarða og aðgengi að þeim.

Ómar Ragnarsson, 29.8.2009 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband