Catch-22 í háskólanum og víðar.

Þegar ég sé fréttina um niðurskurðinn í Háskóla Íslands minnist ég tveggja bandarískra kvikmynda þar sem gert var grín að sálfræðiprófum sem þeir þurtu að gangast undir sem teknir inn í herinn.

Ég man ekki í svipinn hvað hin fyrri hét ("Allir komu þeir aftur"?) en leikritið var sýnt í Þjóðleikhúsinu og þar fór Bessi Bjarnason hreint óborganlega á kostum í hlutverki vitgranna hermannsins.

Hann notaði nokkrar setningar úr leikritinu þegar hann skemmti með Gunnari Eyjólfssyni og síðar í Sumargleðinni, einkum setninguna, sem gat verið svo fyndin þegar hún var notuð við öll möguleg og ómöguleg tækifæri: "...Þakka þér fyrir, - hvað á ég að borga."  

Hin myndin hét Catch-22, gerð eftir skáldslögu Joseph Hellers í leikstjórn Mike Nichols, - en þar er eðli og geggjun hernaðar tætt sundur í kolsvörtum húmor, sem kom einkum fram í myndinni þegar flugmaður vildi komast hjá því að fljúga fleiri árásarferðir með því að þykjast vera brjálaður og standast þannig ekki sálfræðipróf hersins.

En það tókst honum ekki því um þetta gilti skilgreiningin Catch-22 sem var nokkurn veginn svona:

"Flugmaður væri brjálaður ef hann flygi fleiri árásarferðir og heilbrigður ef hann gerði það ekki,-  en ef hann væri heilbrigður myndi hann reyna að fljúga þær. Ef hann flygi þær væri hann brjálaður þótt hann þyrfti ekki að vera það."  

Catch-22 komst á æðsta stig í grundvallarskilgreiningu kjarnorkuógnunar Kalda stríðsins, sem hlaut nafnið MAD, sem er skammstöfun fyrir Mutual Assured Destruction, - á íslensku GAGA, Gagnkvæm Alger Gereyðing Allra.  

Þessi grunnforsenda kjarnorkukapphlaupsins felst í því að báðir aðilar verða að haga sér þannig að þeir sannfæri mótaðilann um að þeir muni beita kjarnorkuvopnum ef þeir telja sig þurfa það - þótt það hafi í för með sér margfalda gereyðingu alls lífs á jörðinni og megi því alls ekki gerast !

Í fréttinni af fyrirhuguðum niðurskurði í H.Í. felst nokkurs konar Catch-22:

Það er forsenda að við komumst út úr kreppunni að við skerum niður á öllum sviðum, þ. á. m. í þjónustu H.Í., en sú þjónusta er hins vegar forsenda fyrir því að efla háskólamenntun sem er eitt af höfuðskilyrðum þess að við komumst út úr kreppunni. 

Ég minnist dásamlegs Catch-22 fyrir u. þ. b. 30 árum þegar menn vildu láta gera flugvöll yst í Seyðisfirði.

Sú hugmynd var drepin með eftirtöldum reglum Vegagerðar og Flugmálastjórnar:

Það er forsenda Flugmálastjórnar fyrir gerð flugvallar að þangað liggi vegur sem tryggi það að hægt sé að halda uppi áætlunarflugi á völlinn -  en Vegagerðin setur jafnan það skilyrði fyrir gerð vegar að flugvelli að þangað sé haldið uppi áætlunarflugi !  

 

  

 

 

 

 


mbl.is Stúdentaráð HÍ fordæmir fyrirhugaðan niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nafni minn,

MAD - var það ekki Mutually Assured Destruction? Skiptir ekki máli, fullkomlega 'mad' hvernig sem litið er á málið!

Ómar Valdimarsson (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 00:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Líklegast rétt hjá þér, minn góði nafni ! Gaman að heyra frá þér !

Ómar Ragnarsson, 5.9.2009 kl. 00:33

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sé núna að þetta var innsláttarvilla, samanber fyrra blogg mitt um þetta efni. Leiðrétti þetta hér með.

Ómar Ragnarsson, 5.9.2009 kl. 00:34

4 identicon

Góður pistill. "Catch-22" hugsanavillan er sennilega líka í heilbrigðiskerfinu...

Öndin trítilóða (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 01:09

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eitt sinn ætlaði Vegagerðin hér í útrás í vegagerð og komst að þeirri niðurstöðu eftir útreikninga að best væri að byrja í Kína, því þar væri vegagerð skammt á veg komin og umfang landsins svo svakalegt að allir kínverskir vegir yrðu endalausir í það óendanlega og verkið því gullnáma sem aldrei þryti meðan land byggðist.

Ég stakk þá upp á því að okkar ástkæri vegamálastjóri hefði með sér til Kína, til að liðka fyrir samningaviðræðum, Bókina um veginn eftir Lao Tse í fallega innbundinni íslenskri útgáfu og ritaði jafnframt formála að bókinni.

Það hefði nú verið meira vit í því en banka(koll)steypunni.

Þorsteinn Briem, 5.9.2009 kl. 03:32

6 identicon

Fyrir mér er C22 alltaf bifreiðatryggingar; Þú færð rokna bónus ef þú notar hana aldrei, svona rétt eins og gereyðingarvopnin! ;-)

sr (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband