Svokölluð "realpólitík."

Bismarck talaði um það á sínum tíma að það vald sem skilaði árangri í togstreitu þjóða sprytti fram úr byssuhlaupunum. Hrein beiting valds eða hótun um beitingu valds er því miður algengasta aðferðin sem beitt er í deilum milli þjóða, hvað sem líður öllu tali um sanngirni og hugsjónir. 

Yfirlýsing Jack Straw um að dæmdum hryðjuverkamorðingja sé gert kleift að fara sem frjáls maður til heimalands síns og vera þar fagnað sem þjóðhetju kemur því ekki á óvart þótt eitthvað sé reynt að bera hana til baka.

Dæmin um svona "realpólitík" eins og hún hefur verið kölluð eru mýmörg og birtast í ýmsum myndum.  

Í lok heimsstyrjaldarinnar fyrri sóttu Danir það fast í samræmi við 14 punkta Wilsons Bandaríkjaforseta að láta íbúa í Slésvík-Holstein ráða því hvort þeir vildu vera innan landamæra Þýskalands eða Danmerkur. 

Ef þeir áttu að vera sjálfum sér samkvæmir hentaði það illa hagsmunum þeirra að standa á móti því að Íslendingar fengju að ráða sjálfir örlögum sínum.

Hagsmunir Dana vógu miklu þyngra í Slésvík-Holstein en á Íslandi og þar af leiðandi fengu Íslendingar fullveldi 1918.  

Þegar leið á heimsstyrjöldina síðari hentaði það hagsmunum Bandaríkjanna og Breta að ná velvilja Íslendinga með tilliti til þess að halda hér opnum möguleikunum til að hafa hér herstöðvar að stríði loknu, þvert ofan í yfirlýsingar um hið gagnstæða.

Þeir höfðu ekki möguleika til að vera hér með her í óþökk þjóðarinnar eftir stríð af því að það hefði verið í mótsögn við kröfur þeirra um að Rússar slepptu hernaðartaki sínu af Austur-Evrópuþjóðunum.  

Þeir fóru þó varlega í sakirnar í stuðningi við Íslendinga til að styggja Dani sem minnst. Strax 1945 sóttust Bandaríkjamenn síðan eftir herstöðvum hér á landi til 99 ára.

Upp úr 2000 stóð Davíð Oddsson í þeirri meiningu að með því að vingast sem mest við George Bush gæti hann fengið því framgengt að herinn yrði ekki látinn fara af Miðnesheiði.

Hann og Halldór Ásgrímsson gengu meira að segja svo langt að ákveða einir í óþökk við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinar að við yrðum aðilar að innrásinni í Írak. Þetta átti að heita realpólitík af þeirra hálfu en reyndist í senn dapurlegur og um leið broslegur og barnalegur afleikur.  

Þetta var misheppnuð realpólitík vegna þess að raunveruleikinn hafði breyst síðan í Kalda stríðinu þegar hið gríðarlega hernaðarlega mikilvægi Íslands gerði Íslendingum kleyft að hóta því að ganga úr NATÓ ef Bretar fengju að beita fullum hernaðarlegum yfirburðum sínum í Þorskastríðunum.

Þannig mætti lengi telja.

Hryðjuverkalögin í Bretlandi áttu að vera tákn um háleitar hugsjónir þeirra til varnar frelsi og lýðræði í heiminum en var síðan beitt af fullkomnu miskunnarleysi gegn lítilli nágrannaþjóð í máli, sem er alls óskylt hryðjuverkastarfsemi. 

Og ekki er liðið ár síðan þessum lögum var beitt af þessu mikla miskunnarleysi þegar breska ríkisstjórnin sér í gegnum fingur sér gagnvart dæmdum hryðjuverkamorðingja vegna viðskiptahagsmuna.  

Með því hafa þeir nú fullkomnað siðleysi sitt og hræsni í utanríkismálum. 


mbl.is Viðskiptahagsmunir höfðu áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er tugga sem maður heyrir aftur og aftur að hryðjuverkalögum hafi verið beitt af miskunnarleysi gegn lítilli nágrannaþjóð. Af hverju þessi dramatik? Með þessum svokölluðu hryðjuverkalögum var verið að stöðva þjófnað íslensku mafíunnar á sparifé breskra borgara og breskra stofnana. Íslenska stjórnsýslan gerði ekkert í málinu, vegna vanmáttar og aumingjaskaps. Svo einfalt er það mál. Hættið þessari sjálfsvorkun.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 11:05

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt hjá þér, Haukur, að ef við hefðum strax fyrir hrunið leitað til AGS og Breta, eins og þeir stungu upp á, hefði hryðjuverkalögunum ekki verið beitt. Sama er að segja um vaklandi framkomu íslenskra stjórnvalda sem sáðu fræjum tortryggni hjá breskum ráðamönnum gagnvart Íslendingum.

Hins vegar óraði engan fyrir því að Bretar myndu beita hryðjuverkalögunum og raunar hefði verið ærlegra há þeim að hóta Íslendingum því strax að gera það.

Ég hef margoft rætt um það í bloggpistlum mínum að við sjálf eigum mesta sök á því hvernig fór og lýsti raunar því hvernig þetta myndi enda í bókinni minni "Kárahnjúkar- með og á móti" þar sem skammtímagræðginni, einni af dauðasyndunum sjö, voru gerð skil.

Ómar Ragnarsson, 5.9.2009 kl. 11:25

3 Smámynd: el-Toro

veit ekki hvort margir viti eftirfarandi.  en breska stjórnin fékk fyrir ekki svo löngu síðan aðvörun frá þinginu um að nota hryðjuverkalögin ekki svona óhóflega.  hryðjuverkalögunum var beitt í nær 200 skipti á síðasta ári (að mér minnir.  allavega fáránlega oft) þar sem ekki var um hryðjuverk að ræða.  ísland er ekkert einsdæmi.

þetta mál með þennan lýbíu mann er farið að vera ótrúlega pirrandi í okkar blessuðu fjölmiðlum.  þessi lýbíu maður er jafn saklaus af lockerbie tilræðinu og ég og þú á icesave ruglinu.  það er til svo mikið magn gagna á netinu um þetta tilræði, að ég er í raun gáttaður á þessum fréttaflutningi um þetta mál.  ástæðan er jú náttúrulega að íslenskir fjölmiðlar ásamt öðrum vestrænum fjölmiðlum stunda svokallaða copy/paste fréttamensku frá stóru fréttaveitunum.

þeir sem vilja kynna sér þetta mál á einfaldan og skilvirkan hátt geta flett þessu upp bæði á google og wikipedia.org .  á wikipedia er mjög sanngjörn umfjöllun í flestum tilvikum.  svo vil ég endilega benda fólki á að horfa á mynd sem heitir maltase double cross.  en stjórnvöld breta og bandaríkjanna börðust harkalega á sínum tíma til að koma í veg fyrir þá heimildarmynd.

til að gefa eitt gott dæmi sem hefur sannast í þessu lockerbie tilræði, þá var þetta flug sem þotan flaug notað af CIA og DEA notuðu til að smygla eiturlyfjum til bandaríkjanna og reindu svo að handtaka kaupendurna í bandaríkjunum.

annað dæmi er að er Botha forseti suður afríku kom á flugvöllin hætti hann skyndilega við að taka þetta ákveðna flug ásamt fleirum.  sumir tóku annað flug á meðan aðrir hættu alveg við að fljúga.  tilviljun?

el-Toro, 5.9.2009 kl. 13:04

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Kosningar í nánd og Straw langar að leiða flokkinn. Tíminn að renna út og Brown situr sem fastast. Brown var búinn að fullyrða að stjórnin hefði ekkert með lausn fangans að gera. Nú er aftur verið að reyna að koma karlinum frá svo flokkurinn eigi sjens í næstu kosningum. Þetta er einn naglinn enn í kistuna hans og vekur um leið athygli á Straw sem mögulegum kandídat. Hann sagði jú af sér á sínum tíma út af Líbanon stríðinu og margir segja að hann hafi þess vegna hreinni skjöld en aðrir foringjar flokksins.

Síðan hvenær hafa bresk stjórnvöld tekið nokkra ákvörðun í sambandi við mið-austurlönd og norður Afríku eftir að Sykes–Picot samkonlagið var gert, sem ekki hafa með Geopólitík og OLÍU að gera?

Og BP,,,var það ekki undirrótin að þessu öllu saman? Áður þekkt sem  Anglo-Persian Oil Company ?

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.9.2009 kl. 16:10

5 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

"...yrðum aðilar að innrásinni í Írak..." - Ertu þá að meina íslenska sjóherinn eða flugherinn? Mér þykir þetta undarleg orðanotkun að þó lýst sé stuðningi við eitthvað að þá séum við orðnir aðilar að því. Ég styð hjálparstarf við fátæka í Afríku en því miður get ég ekki sagt að ég sé aðili að því.

Íslenska þjóðin hafði tækifæri til að fella stjórn þessara manna tveimur mánuðum eftir innrásina en lét það ógert. Síðan aftur fjórum árum seinna fengu flokkar þessara manna meirihluta á Alþingi.

Finnur Hrafn Jónsson, 5.9.2009 kl. 16:29

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Danir reyndu að halda Holstein Slésvík eftir að hafa tapað stríðinu við Prússa 1864 með því að fórna Íslandi. Þær friðarumleitanir sem fram fóru veturinn 1864-65 í Berlín áttu sér því n.k. framhaldslíf eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.9.2009 kl. 20:36

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Davíð og Halldór settu okkur á lista yfir hinar "viljugu og staðföstu" þjóðir, sem stóðu að innrásinni í Írak þannig að við vorum fyllilega jafngildir þátttakendur og hinar innrásarþjóðirnar.

Þar að auki sendum við að minnsta kosti einn hermann þangað sem hét meira að segja Herdís.

Einn eða fleiri hermenn örþjóðar samsvarar þúsundum hermanna af hendi stórþjóðar.

Þátttaka okkar í þessari innrás verður blettur á sögu hinnar friðsömu íslensku þjóðar.

Ómar Ragnarsson, 5.9.2009 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband