Enn ein ferð norður.

DSCF0662

Ég var að kíkja snöggt á matsáætlun vegna virkjana fyrir norðan, einkum matsáætlun vegna Kröfluvirkjunar II og sé að ætlunin er að gera átta nýja borteiga.

Fimm þeirra verða alveg nýir, þar af þrír í nálægð við Leirhnjúk.

Á myndinni (sem gott er að stækka með því að smella tvívegiis á hana) sést hinn nýi borteigur við Víti hægra megin fyrir miðju og tilheyrandi gufuleiðslur.

Leirhnjúkur, hraunin og gígarnir, eru ofarlega á myndini, Leirhnjúkur við vinstri jaðar hennar, en nær er ljósgult svæði sem þegar hefur verið gert að nýjum borteig.

Tveir nýir borteigar eiga að koma  hægra megin fyrir ofan borinn við Víti.  

Þáverandi ráðherrar iðnaðar- og umhverfismála, Jónína Bjartmarz og Jón Sigurðsson lögðu fram tillögu skömmu fyrir kosningar 2007 um að ekki skyldi virkjað við Leirhnjúk og Gjástykki nema að undangenginni ítarlegri rannsókn og sérstakri atkvæðagreiðslu á Alþingi.

Þetta var básúnað mjög fyrir kosningarnar, augljóslega til þess að draga burst úr nefi nýs umhverfisframboðs.

Tveimur dögum fyrir kosningar, þegar tryggt var að það fréttist ekki fyrr en eftir kosningar, gaf Jón Sigurðsson út leyfi til tilraunaborana í Gjástykki.

Af þessum átta nýju borteigum hef ég í fljótu bragði ekkert að athuga við tvo þeirra suðaustan við Sandabotnafjall.

Er nýkominn úr ferð á Hrafntinnuhrygg til að skoða og taka myndir af því hvernig loforð um að leyfa honum, þessu eftirlæti Jónasar Hallgrímssonar, að njóta sín hafa verið beygð og sveigð stórlega.  

Nú er í fyrsta sinn sýnd staðsetning þriggja nýrra borteiga sem verður að athuga sérlega vel hvort eyðileggi ásýnd eldgosasvæðsins Leirhnjúkur-Gjástykki. 

Nú er hægt að fara eftir slóða sem liggur um austurhluta Vítismós og upp á frábæran útsýnisstað, Hreindýrahól, hægra megin á myndinni hér fyrir ofan, en af honum er sérlega gott útsýni yfir suðurhluta eldgosasvæðsins við Leirhnjúk og norður af honum.

Með nýju borteigunum verður þessi stemning eyðilögð á ferð eftir sjálfum slóðanum og spurning með hvort útsýnið af Hreindýrahól fari sömu leið.  

Þegar hafa verið gerðir aðrir þrír nýir borteigar, einn í kallfæri við Leirhnjúk og tveir, sitt hvorum megin við sprengigíginn Víti,-  annar þeirra í kallfæri við Leirhnjúk. Vísa enn til myndarinnar. 

Það er verið að sveigja stórlega skilgreiningar með því að kalla sókn inn á Leirhnjúkssvæðið Kröflu II.

Loksins nú sé ég að svo virðist sem ekki verði borað norður eftir miðju Vítismós heldur í norðausturhorni hans.

Fyrir  liggur fyrir mig að fara norður og skoða betur staðsetningu fyrrnefndra þriggja splunkunýju borteiga. Einn ein ferðin liggur fyrir en ég er ekki bjartsýnn, samanber lýsinguna á útsýnisleiðinni norður úr. 

Og ég sem hélt að ein ítarleg ferð um svæðið dygði. Nú eru þær komnar á annan tug.   


mbl.is Matsáætlanir vegna virkjana fyrir norðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Stefánsson

Það verður nú að segjast eins og er að þú virðist fara nokkuð frjálslega með sannleikann Ómar minn. Þetta er ekki nýr borteigur sem borinn er á þarna á myndinni, en aftur á móti ný hola.
Á þessum eina borteig er búið að bora fjórar holur og búið að staðsetja þá þriðju. Semsagt.... fimm holur á sama borteig og þannig verður unnið í framtíðinni.

Stefán Stefánsson, 24.9.2009 kl. 19:41

2 Smámynd: Stefán Stefánsson

Staðsetja þá fimmtu meinti ég, en ekki þriðju eins og ég skrifaði.

Stefán Stefánsson, 24.9.2009 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband