Aftur 1958, 1974, 1979 eða 1989 ?

Staðan núna hjá stjórnarmeirihlutanum varðandi Icesave-málið minnir um margt á ástandið, sem ríkti hjá þremur fyrri vinstri stjórnum á liðinni öld, árin 1958, 1974 og 1979.

Snemmsumars 1958 nötraði vinstri stjórn vegna ágreinings um landhelgismálið, sem var stórmál þess árs.

Þegar stjórninni tókst að sigla í gegnum þennan ólgusjó vonuðu vafalaust margir fylgismenn hennar að framundan væri lygnari sjór. En um haustið sprakk hún út af ágreiningi um aðgerðir í efnahagsmálum.

Veturinn 1973-74 fóru að koma brestir í samstarfið í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. Bjarni Guðnason varð fyrstur til að segja sig frá borði og vonuðu velunnarar stjórnarinnar að fleiri fylgdu ekki á eftir.

Erfitt er að bera saman brottför Bjarna þá og Ögmundar nú, því Ögmundur segist styðja stjórnina þrátt fyrir brotthvarf sitt úr ríkisstjórn.  

En það fór á aðra lund, því að Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson sögðu sig frá stjórninni og Ólafur Jóhannesson rauf þing með miklum hvelli og var hart um það deilt.

Ástandið á útmánuðum 1979 svipaði um flest til ástandsins nú. Allt frá myndun stjórnarinnar haustið 1978 hafði stjórnarsamstarfið verið mjög erfitt með ótal fundum, þar sem ráðherrarnir tókust á um málin.

Ólafi Jóhannessyni tókst að binda enda á þetta ástand á útmánuðum með setningu svonefndra Ólafslaga, sem leiddi í lög verðtryggingu lána, sem að vísu batt enda á gríðarlegt óréttlæti gagnvart sparifjárieigendum og lánveitendum en kom af stað ástandi, sem er sérstaklega erfitt við að etja nú.

Nú virtist sem ríkisstjórnin sigldi lygnan sjó, en um haustið var haldinn fundur hjá Alþýðuflokksmönnum í Reykjavík, sem svipaði um margt fundi Samfylkingarinnar síðastliðið haust, þar sem örlög þáverandi ríkisstjórnar hennar með Sjálfstæðisflokksins voru í raun ráðin.

Fundurinn 1979 kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og vinstri stjórnin sprakk með háum hvelli.

1989 var hér enn vinstri stjórn og virtist að því leyti til valtari en þær fyrri, að hún mátti ekki við því að missa eitt einasta atkvæði á þingi og gat lent í minnilhuta í þingnefndum.

En hún vann öll hlutkestin og fyrir einstaka stjórnunarhæfileika Steingríms Hermannssonar tókst henni að stija út allt kjörtímabilið, fyrst allra vinstri stjórna. 

Á síðari hluta valdatíma þessarar ríkisstjórnar stóðu fimm aðilar að henni, Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Borgaraflokkurinn og Stefán Valgeirsson og því spáðu margir því að hún hlyti að springa vegna þess að reynslan sýndi, að því fleiri sem flokkarnir væru, sem stæðu að ríkisstjórn.

Vitnuðu menn þá til þriggja flokka stjórna sem sátu 1947-49, 1971-74, 1978-79 og 1987-88 og sprungu allar þrátt fyrir ríflegan þingmeirihluta.

Einnig hefði engri fyrri vinstri stjórn hafði tekist að sitja fram að kosningum.  

Allt þetta afsannaði þessi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og þess vegna er ástandið núna svo spennandi, þrátt fyrir allt.   

 


mbl.is Hétu öll stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Fyrst allra vinstristjórna."...býst ég við að þú hafir meint þarna í lokin.

Athygliverð upprifjun. 

Jón Steinar Ragnarsson, 5.10.2009 kl. 23:11

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Nú þurfa báðir þessir hópar VG og Samfó að styrkja "flokksræðið". Þetta er ekki tískuorðið síðustu mánuðina og eftir langa valdatíð Sjálfstæðisflokksins þar sem hefðin er að fylgja línu flokks og formanns. Það er þessi fína lína sem þarf að fara milli grasrótar og skilvirkra vinnubragða þar sem öflug flokksforysta dregur vagninn. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 5.10.2009 kl. 23:40

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Við , íslendingar... ,þurfum greinilega meiri vinstri stjörn!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.10.2009 kl. 23:59

4 identicon

Góð upprifjun nafni. Sannleikurinn er sá að Samfylkingin er eins og líkfyld, þetta er hægfara jarðaför og mun enda eins og fyrri vinstristjórnir, annaðhvort springur hún fljótlega, ellegar fara af stað mótmæli aftur og þeim verður komið frá. Því fyrr því betra. Samfylkingin hefur haft vinstri græna í vasanum með hótunum Jóhönnu, en það er þekktur stíll hjá henni. Nú hafa hinsvegar þjóðhollir þingmenn í vinstri grænum sagt Samfylkingarliðinu að nú sé komið nóg af aðgerðarleysinu og í raun er stjórnin sprungin, og ég segi nú bara "farið hefur fé betra."

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 00:01

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt. Átti að vera "fyrst allra vinstri stjórna" en ekki fyrst allra ríkisstjórna og mér finnst rétt að leiðrétta það núna.

Ómar Ragnarsson, 6.10.2009 kl. 00:06

6 Smámynd: Níels Steinar Jónsson

Það vildi ég að menn með staðfestu Ögmundar hefðu sprengt þá stjórn sem leiddi þessa þjóð inn í myrku öldina.

Níels Steinar Jónsson, 6.10.2009 kl. 06:33

7 Smámynd: Gísli Gíslason

Mjög athyglisverð samantekt.

Gísli Gíslason, 6.10.2009 kl. 07:55

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Grundvallarmunur er á hægri og vinstri stjórnum. Þegar hægri stjórn er, þá talar yfirleitt aðeins einn maður. Hann hefur ráðfært sig við og undirbýr sig vel. Þetta mættu vinstri menn tileinka sér.

Það tekur yfirleitt langan tíma að hlusta á öll viðhorfin á fundum vinstri manna. Þar byggist allt á því að hver og einn hafi skoðanafrelsi og tíma að tjá sig en sjálfsagt mættu margir hafa í huga að það getur reynt mjög á þolrif allra viðstaddra.

Oft er því lýðræðið opnara hjá vinstri mönnum. Hægri menn virðast oft „treysta“ betur þeim sem ráðast til trúnaaðrstarfa en vinstri menn sem oft eru fljótir til að gagnrýna.

Hvort er betra? Meðan forsprakka hægri manna verður ekki fótaskortur þá gengur allt eins og gömul traktorsvél en allt ætlar um koll að keyra ef eitthvað ber út af hjá vinstri mönnum.

Þá má skoða eftirfarandi: Að ráðherra hafi aðra skoðun á máli en ríkisstjórn er ekkert nýtt undir sólinni. Í mars 1970 felldi Eggert G. Þorsteinsson félagsmálaráðherra stjórnarfrumvarp. Ekki breytti þetta neinu í samstarfi þáverandi ríkisstjórnar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 6.10.2009 kl. 12:02

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dæmið sem þú nefnir var eina skiptið í tólf ár sögu Viðreisnarstjórnarinnar sem ráðherra gekk gegn stjórnarfrumvarpi. Þetta stjórnarfrumvarp fjallaði ekki um meginatriði í stefnu stjórnarinnar.

Ómar Ragnarsson, 6.10.2009 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband