Kominn tími til.

Það var kominn tími til að orð í líkingu við afsökunarbeiðni forsætisráðherra í dag yrðu sögð. Þótt fyrr hefði verið.

Afsökunarbeiðni felur ekki aðeins í sér að biðja sér griða. Hún þýðir játningu á því að hafa gert mistök eða gert rangt.

Hún verður líka að fela í sér iðrun og yfirbót. Þess vegna er það oft svo erfitt að biðja afsökunar. 

Afsökun og fyrirgefning eru eitt af grundvallaratriðum kristinnar trúar og þróaðrar siðferðisvitundar, sem ber í sér kærleika og velvilja.

Ég var að koma af frumsýningu á mynd Helga Felixsonar, "Guð blessi Ísland"  og tek ofan fyrir honum og samstarfólki hans. 

Ef einhvern tíma var þörf á svona heimildarmyndagerð á Íslandi var það á þessu ári, sem liðið er frá hruninu.

Helgi fer þá ágætu leið að segja söguna að mestu í gegnum þrjár persónur, Evu Hauksdóttur, Sturlu Jónsson og Dúna Geirsson.

Í myndinni úir og grúir af minnisverðum myndskeiðum og Helga tekst að laða fram hið mannlega, jafnt í hversdagslífinu sem í mögnuðum atburðum búsáhaldabyltingarinnar.

Við sjáum fólk í nýju ljósi í samskiptum þess við sína nánustu.  

Fyrsta myndskeiðið af Geir Haarde þögulum áður en hann byrjar að tala í myndavélina er afar sterkt. Maður fær samúð með honum sem manneskju, finnur hvað honum er mikið niðri fyrir og hugsi yfir því sem á honum og öllum hefur dunið.  

Þetta upphafsmyndskeið gefur tóninn.

Ýmis ummæli í myndinni eru minnisverð svo sem þegar Björgólfur Thor Björgólfsson segir að það sé misskilingur þegar fólk spyr, hvert allir þessir peningar hafi farið, rétt eins og þeir hafi farið af einni hönd yfir á aðra. 

"Peningarnir fóru ekki neitt", segir Björgólfur, - "peningarnir hurfu bara."

Jón Ásgeir Jóhannesson lýsir því ágætlega hvernig hinir íslensku útrásarvíkingar voru komnir inn í samfélag skæðustu peningamanna heimsins og drógu dám af þeim.

Hann segir að hrunið hafi aldrei þurft að verða en í þeim ummælum tel ég hann vera ósamkvæman sjálfum sér.

Hinir íslensku nýliðar fengu glýju í augun í því alþjóðlega umhverfi blindrar gróðahyggju og áhættufíknar, sem þeir soguðust inn í.

Þetta gat aldrei endað nema með hruni. Ef það er rétt hjá Björgólfi að peningarnir hafi horfið, voru þeir að mestu leyti aldrei til og slík blekking gat aldrei endað nema á einn veg.   

 

 

  


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Hún verður líka að fela í sér iðrun og yfirbót"

Ekkert segir mér að slíkt fylgi beiðninni. Einungis vinsældakaup hjá auðkeyptum jákór

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2009 kl. 20:46

2 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Takk fyrir góðan pistil Ómar :). Þú ert ein dýrmætasta auðlind Íslands.

Kristbjörg Þórisdóttir, 6.10.2009 kl. 22:54

3 Smámynd: Þór Ólafsson

kaupa sér vinsældir með því að biðjast afsökunnar á mistökum sem aðrar ríkisstjórnir bera meiri og þyngri ábyrgð á? Það er óskaplega auðvelt að biðjast afsökunnar fyrir hönd annarra aðila og fær hún engin sérstök prik í minni bók fyrir afsökunarbeiðnina þó að hún hafi fyrir löngu verið tímabær.

Þór Ólafsson, 6.10.2009 kl. 23:51

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég ætla að sjá þessa mynd, frændi, en mun ekki getað komið því við, fyrr en um næstu helgi.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.10.2009 kl. 00:34

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Þór segir m.a..."kaupa sér vinsældir með því að biðjast afsökunnar á mistökum sem aðrar ríkisstjórnir bera meiri og þyngri ábyrgð á?"

Vil benda honum á að engin ríksistjórn sem hefur framið ódæði hefur sjálf beðist afsökunnar á því! Hitler bað engan afsökunnar til dæmis....

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 7.10.2009 kl. 02:08

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Jóhanna er meiri persóna að mínu mati eftir að hafa beðið þjóðina afsökunar.  Að kaupa sér vinsældir, ekki held ég að hún hafi lagt það í vana sinn um dagana að gera slíkt. Hún er að játa það fyrir sína hönd og annarra ráðamanna undanfarinna ára að mikil mistök hafi verið gerð.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.10.2009 kl. 03:01

7 Smámynd: Þór Ólafsson

Það er alveg rétt Anna og það var í rauninni ekki það sem ég var að benda á, heldur var ég að benda á að ég efaðist um að hún hefði verið gefin út með það fyrir augum, eins og Gunnar segir, að kaupa vinsældir. Þegar ríkisstjórnir biðjast afsökunnar á yfirsjónum og misgjörðum fyrri ráðamanna þá boðar það gjarnan stefnubreytingu frekar en annað. Það má að vísu túlka sem einhverskonar atkvæðaveiðar, en sé breytingin til batnaðar.. eigum við þá að dæma hana ónothæfa vegna þess eins að mögulega sópast inn einhver atkvæði fyrir vikið?

Þegar Ástralir báðu frumbyggjana formlega afsökunnar þá boðaði það breytta tíma í samskiptum hvítra og frumbyggja í Ástralíu, ekki bara hjá ríkjandi valdhöfum heldur til frambúðar, hver sem við völd væri.

Þá er bara að vona að í þessari afsökunarbeiðni felist með sanni eins og hún segir að "..koma í veg fyrir að hrun af þessu tagi endurtaki sig."

Þór Ólafsson, 7.10.2009 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband