Ekki fyrstu aðvaranir Gunnars.

513176A

Undanfarna tvo áratugi hefur Gunnar Tómasson gagnrýnt harðlega þá lausbeisluðu fjármálastefnu sem fór eins og eldur í sinu um heiminn á Thatcher-Reagan-tímabilinu.

Hann spáði því að þetta myndi ekki geta staðist til lengdar og varð sannspár.

Um mitt sumar 2008 varaði hann sterklega við því hvert hin gríðarlega skuldsetning Íslendinga myndi leiða þjóðina og varð líka sannspár í því.

Á þeim tíma höfðu hvorki fjölmiðlar né almenningur hugmynd um hve djúpt þjóðin var sokkin. Tölurnar sem Gunnar hafði þá dregið saman voru margfalt stærri en nokkurn óraði fyrir. 

Sú staðreynd er áfellisdómur yfir fjölmiðlum og stjórnvöldum á tímum "gróðærisins".

Gunnar er maður sem vert er að hlusta á og taka mark á.

Hann er ekki óskeikull frekar en aðrir dauðlegir menn og það er oft erfitt að spá fyrir um flókna hluti.

En ferill hans og greining fjármálakerfis heimsins síðustu tuttugu árin auk mikillar reynslu á sérsviði hans gefa til kynna að þarna fari maður sem hafi haft oftar og lengur rétt fyrir sér en nokkrir aðrir.


mbl.is Krónuskuld í gjaldeyrisskuld við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Alþingismenn eru eins og óþekkir krakkar að rífast um það hver eigi sterkasta pabbann. Vandamálin eru yfirþyrmandi en þau leysast ekki með innihaldslausu orðagjálfri og ákvarðanafælni. Mætti ég biðja um að hlustað sé á Gunnar og mark tekið á orðum hans?

Sigurður Hrellir, 20.10.2009 kl. 12:54

2 identicon

Frábært bréf Gunnars er enn eitt dæmið um að menn og konur sem hafa mikla þekkingu og reynslu reyna að miðla af henni til ráðamanna landsins. Það er því miður vonlaust verk og má hafa við orðatiltækið sem faðir minn notaði við okkur börnin þegar við ung sinntum orðum hans einskis,"það er eins og að tala inn í tóma tunnu."

Hollendingurinn Karel Van Wolferen hefur skrifað mikið um Japan og komist að þeirri niðurstöðu að Japan sé ekki lýðræðisríki vegna þess að lykilatriði lýðræðis sé að stjórnvöld og þ.m.t. einstakir ráðamenn verði að gera opinbera grein fyrir aðgerðum sínum. Í lýðræðisríki er ekki hægt að taka ákvarðanir og hunsa síðan eða setja þránd í götu spurninga, eftirgrenslan og upplýsingaöflunar. Í sumum löndum, en bara sumum, er þessi relga höfð við.

Allar götur síðan ég las hugmyndir Van Wolferen hef ég séð Ísland í sama ljósi og Japan. Það er ekkert virkt lýðræði á Íslandi; á Íslandi eru lýðkosningar, sem er ekki það sama og lýðræði.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 12:56

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú! Áttum við að hlusta á Gunnar Tómasson, en loka eyrunum fyrir því sem Davíð Oddsson sagði löngu á undan honum?

"Davíð flutti ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs ári fyrir hrun, 6. nóvember 2007, þar sem hann varaði við ofvexti bankanna og skuldasöfnun þeirra. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma,“ sagði Davíð. „Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar,“sagði Davíð einnig. Hann var þá seðlabankastjóri og varð vitanlega að fara varlega á opinberum vettvangi. Ég sat þá í bankaráði Seðlabankans og var stundum viðstaddur, þegar Davíð hitti menn úr bönkunum, og var hann þá miklu afdráttarlausari í viðvörunum sínum og brýningum til þeirra um að sýna gætni. Ég get þess vegna ímyndað mér, hvernig hann hefur talað við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hann hitti sex sinnum til að vara við ástandinu."

Úr pistli http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/967374/

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.10.2009 kl. 13:00

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Úr sama pistli:

"DV spurði Guðmund Ólafsson hagspeking 17. nóvember 2007 vegna orða Davíðs: „Erum við þá ekki á bjargbrúninni þótt þjóðin skuldi mikið og viðskiptahallinn sé geigvænlegur?“ Guðmundur svaraði: „Nei það er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Þetta er bara vitleysa.“ Guðmundur gerði síðan gys að „bjargbrúnarkenningu“ Davíðs. „Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartar yfir því að almenningur kaupi leikföng.“

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.10.2009 kl. 13:03

5 identicon

Gunnar,

Davíð Oddsson er svo óendalnega "yesterdays news." Hvað Davíð sagði, gerði, eða sagði ekki eða gerði ekki er svo algerlega einskis virði þegar lagt er á ráðin núna að það er meinloka að komast ekki yfir það. Það eitt að tönnlast á þessu eins og t.d. Hannes Hómsteinn gerir er nánast að hæðast að Davíð; það undirstrikar hvað hann sem valda mikill--kannski valda mestur--gat engu áorkað að forða landi og þjóð frá hruninu.

Ég heyrði Lewis Clark herforinjga einu sinni segja á CNN að í flotanum þegar skip strandar þá er kafteinninn dreginn fyrir rétt og spurður tveggja spurninga: tók skipið niðri, og varst þú skipstjóri þegar skipið tók niðri. Ef svarið er já við báðum, þá er yfirheyrslum lokið og skipstjórinn, fyrrverandi, skilur borðana eftir þegar hann yfir gefur salinn.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 13:47

6 identicon

Já, Ómar. 

Ég er þér sammála um, að það er fyllsta ástæða til að hlusta vel og vandlega á ráð Gunnars Tómassonar.

Fróðlegt er samt að lesa tilskrifin hér fyrir ofan um viðvaranir Davíðs löngu á undan varnaðarorðum Gunnars og síðan hæðnisorð "gúrú-hagfræðingsins" Guðmundar Ólafssonar um þau nokkrum dögum síðar í viðtali við DV.

En ég spyr?

Hvað hefur fjölmiðlafólk og aðrir lært af þessu, sbr. þessa setningu hjá þér:

"Sú staðreynd er áfellisdómur yfir fjölmiðlum og stjórnvöldum á tímum "gróðærisins".

Var ekki sami "gúrú-hagfræðingurinn" látinn tæta í tætlur þessi nýju varnaðarorð Gunnars Tómassonar athugasemdalaust hjá þessum blessuðu, einlitu, ósjálfstæðu, eftirhermu kjánaprikum á rás 2 hjá RÚV uppúr kl. 07:30 í morgun?

Kveðja

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 13:53

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar Tómasson varaði við stefnu Davíðs og Halldórs áratug áður en þeir fóstbræður hrintu henni af stað fyrir alvöru með einkavinavæðingu bankanna, húsnæðislánasprengingu og Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdum á suðvesturhorninu, - allt á sama tíma.

Davíð og íslensk stjórnvöld höfðu í samvinnu við erlend stjórnvöld og eftirlitsaðila tök á því að koma í veg fyrirt Icesave-ruglið á útmánuðum 2008 en gerðu það ekki.

Lágvært og varfærnislegt gjamm Davíðs var að sjálfsögðu gagnslaust. Ég er hins vegar sammála Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að Guðmundur Ólafsson ríði ekki feitum hesti frá öllu sem hann sagði á þessum tíma.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2009 kl. 14:05

8 identicon

Úps! Wesley Clark átti það að vera en ekki Lewis Clark.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 14:47

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Davíð og íslensk stjórnvöld höfðu í samvinnu við erlend stjórnvöld og eftirlitsaðila tök á því að koma í veg fyrirt Icesave-ruglið á útmánuðum 2008 en gerðu það ekki."

Erlendir, jafnt sem innlendir "sérfræðingar" hjá virtum matsfyrirtækjum hvöttu Landsbankann til þess að stofna Icesave. Bankinn fékk meira að segja sérstakt hrós þegar þetta ólán var komið á koppinn.

Það er hinsvegar rétt að eftirlitið með þessu brást algjörlega.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.10.2009 kl. 14:54

10 identicon

Ef Davíð væri yfirheyrður af Varnarmálaráðuneyti USA, þá væri það stutt og lagó;

A: Davíð,varst þú einn aðalarkitektinn að einkavinavæðingu bankanna ? (Davíð svarar)   Já ! 

B: Davíð varst þú skipstjóri í Seðlabankanum þegar Þjóðarskútan strandaði ? (Davíð svarar)  Já !

Ekki fleiri spurningar !

Niðurstaðan er einföld; Davíð tak staf þinn og gakk á braut, skilaðu lyklunum að Seðlabankanum eftir að þú hefur tæmt skrifborðið þitt.  Störfum yðar í þjónustu ´´Guðs blessaða landsins - Haarde-style´´ er hér með lokið !

En var það svo, nei ekki aldeilis það þurfti ´´búsáhaldabyltingu´´ á Austurvelli og stjórnarskifti til þess að fjarlægja strípurnar af General Oddsson !

Það er til orðatiltæki á ensku um svona hegðan einstaklings (veruleikafirring) ;

´´Unmitigated goll´´ og gæti útlagst sem ´´takmarkalaus frekja´´ !

Halli (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband