Horft rétt fram á nef sér.

Þegar manni er svo kalt á fótunum að varla er hægt að hreyfa til vinnu utandyra þá getur nærtækasta ráðið verið að pissa í skóinn svo að hægt sé að halda áfram að vinna verk sitt og "koma hjólum atvinnulífsins af stað."

Þetta ráð svínvirkar til að byrja með en síðar verður ástandið verra en ella. Þá kemur í ljós að betra hefði verið að taka sér tíma og nudda hita og lífi í fæturna þurra.

Stóriðjuáformin syðra og nyrðra eru byggð á úreltum sjónarmiðum sem ekki eiga lengur við.

Á fyrstu áratugum stóriðjunnar voru bestu virkjanakostirnir fólgnir í svo stórum vatnsaflsvirkjunum að ekki var hægt að ráðast í þær nema hafa stóran kaupanda.

Fyrirfram var vitað hvað hver virkjun myndi skila miklu afli.

Þessu er öfugt varið hvað snertir jarðvarmavirkjanirnar eins og orkumálastjóri lýsir vel í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Þar er um að ræða virkjanir á mörgum virkjanasvæðum og tugum borholna sem erfitt er að sjá fyrirfram hvað skila miklu og tekur oft mörg ár að átta sig á því.

Augljóslega er því sígandi lukka heppilegust, að virkja rólega og yfirvegað og laða marga smærri kaupendur að.

Fyrir liggur áhugi margra smærri kaupenda að íslenskri orku og því núverandi stóriðjustefna, sem byggist í að leyfa risaálverum að taka heilu landshlutana í gíslingu, beinlínis skaðleg ef menn horfa aðeins lengra fram en fram yfir nokkra daga sem svonefndur stöðugleikasáttmáli verður í gildi eða ekki í gildi.


mbl.is Áform um orkuskatt endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Svartengi hóf raforkuframleiðslu árið 1976 með jarðgufu, og var fyrsta orkuver landsins til að tvinna saman raforkuframleiðslu og orkuvinnslu til húshitunar. [...] Uppsett afl til raforkuframleiðslu allra áfanga er samanlagt um 75 MW. Af raforkunni sem framleidd er í virkjuninni fara um 27,6 MW til Norðuráls í Hvalfirði.

Reykjanesvirkjun
hóf raforkuframleiðslu inn á flutningskerfi landsins í maí 2006. Uppsett afl virkjunarinnar í dag er 100 MW, og er orkan fyrir virkjunina tekin úr 12 borholum af 15 sem boraðar hafa verið á svæðinu. [...] Nær öll framleiðsla virkjunarinnar er seld til Norðuráls í Hvalfirði.
"

Svartsengi og Reykjanesvirkjun - Framleiðsla - HS Orka hf.

Þorsteinn Briem, 28.10.2009 kl. 20:14

2 Smámynd: Offari

Hægt er að byggja margar smáar gufuaflsvirkjanir.  Ég er ekki eins hrifin af gufuaflsvirkjunum og vatnsaflsvirkjunum. Það sem mér finnst hættulegast við þær virkjanir er að þær eru allar byggðar á Eld og skjálftavirkum svæðum. Jarðskjálftar hafa oft stöðvað virkar holur og getur líka vakið upp áður óvirkar holur.

Vatnsaflið er fyrirsjáanlegra þótt vissulega geti veðurfarsbreytingar breytt vatnssöfnunini. Annars held ég að þau mótmæli sem gerð voru útaf Kárhnúkavirkjun hafi beint sjónum manna meir að gufuaflinu.  Það er rétt hjá þér að álverin eru ekki hagkvæmir orkukaupendur nema til að tryggja byggingu stærri virkjana.

Það er frekar eftirspurn álverana sem menn eru að skoða en vissulega væri betra að orkusalan færi í fjölbreyttari verkefni sem gæfi betur af sér hvert um sig en eitt stórvirki sem tekur alla orkuna.   Er hægt að rækta eitthvað í gróðurhúsum sem geta nýtt jarðhitann til upphitunar og gufuna til að framleiða rafmagn í lýsingu?

Bara svo það komi fra er é samt öfgasinnaður stóriðjusinni þótt ég sé opinn fyrir öðrum möguleikum.

Offari, 28.10.2009 kl. 20:46

3 Smámynd: Sævar Helgason

Þegar Búrfellsvirkjun var ákvörðuð uppúr 1966 þá var það fyrst og fremst þörf okkar sjálfra fyrir raforku á hagkvæmu verði sem rak á eftir.

Við bjuggum við raforkuskort.

Virkjun Þjórsár við Búrfell var hagkvæmur kostur.

En hagkvæmasta stærð virkjunarinnar var langt umfram okkar þörf - á þeim tíma.

Þá komu til samningar við Alusuiesse í Sviss um að byggja hér álver og nýta 70% af orkunni en við 30%  til eigin nota

Áliðnaður á Íslandi hófst.

Eins og Ómar fjallar um í þessum pistli- eru byggingaforsendur til raforkuframleiðslu gjörbreyttar með tilkomu jarðvarmavirkjanna.

Þær eru ekki ósvipaðar bæjarlækjunum í upphafi rafvæðingar- fremur smáar einingar en geta samtvinnast ef vill.

Við stöndum því í allt öðrum sporum nú en þegar Búrfell var ákvarðað fyrir 45 árum.

Við getum því byggt smáar jarðvarmavirkjanir til fjölbreyttra nota- og aukið fjölbreytni atvinnulífsins og komið okkur upp fleiri orkukörfum- ekki bara- einni álkörfunni.

Sævar Helgason, 28.10.2009 kl. 21:02

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

28.10.2009 (í dag): Verð á áli hefur að undanförnu verði rétt undir tvö þúsund bandaríkjadölum fyrir tonnið en áður en verðið hrundi í júlí í fyrra var það 3.300 dalir.

Fyrir þremur árum var talið að verð á áli myndi fylgja verðþróun annarra málma en álið hefur hækkað mun minna í verði en þeir og skýringin er stóraukin álframleiðsla í Kína. Þar hafa margar álbræðslur verið reistar undanfarið og þær fá niðurgreitt rafmagn til framleiðslunnar.

Fyrir þremur áratugum var hlutur Kína í heimsframleiðslu áls einungis 3% en í ár er þar framleitt meira af áli en í nokkru öðru landi í heiminum, 35% af heimsframleiðslunni, 40.600 tonn á dag í september síðastliðnum, meira en framleiðslan var mest fyrir hrunið í fyrra.

Framboð á áli hefur því stóraukist á sama tíma og eftirspurnin hefur hrunið vegna samdráttar í efnahagslífi heimsins. Birgðir af áli hafa því hlaðist upp í heiminum og þær eru nú fjórar og hálf milljón tonna, en þær duga heiminum í tvo mánuði.

Þar af leiðandi hefur álverðið ekki hækkað jafn mikið undanfarið og vænst var fyrir nokkrum misserum og litlar líkur eru taldar á að verðið hækki til muna á næstunni.

Þetta veldur því einnig að eldri álbræðslur, þar sem rekstrarkostnaður er  meiri en í þeim nýrri, til dæmis í Noregi og Kanada, hafa hætt starfsemi. Aftur á móti er ætlunin að reisa margar nýjar og tæknilega fullkomnar álbræðslur í löndunum við Persaflóa, þar sem þær fá gas á hagstæðu verði, og álverðið ætti að endurspegla það.

Þar af leiðandi eru litlar líkur taldar á að álverðið hækki verulega á næstunni
, nema gengi bandaríkjadals hrynji eða viðreisn efnahagslífsins í heiminum verði svo öflug að álbirgðirnar hverfi á skömmum tíma.

Í Noregi hefur álbræðslum verið lokað og fleiri lokanir eru boðaðar. Norska álfyrirtækið Hydro, þriðji stærsti álframleiðandi í heiminum, tapaði 25 milljörðum íslenskra króna á þremur mánuðum nú í sumar og haust. Fyrirtækið hefur framleitt árlega um 1,7 milljónir tonna af áli en eftir að fjármálakreppan hófst hefur framleiðsla og sala Hydro á áli dregist saman um 18%.

Strax fyrir hrunið voru uppi áætlanir um að minnka álframleiðslu í Noregi og Þýskalandi og þeim hefur nú verið flýtt. Dregið var úr álframleiðslu í Þýskalandi nú í vor og þar verður álbræðslum einnig lokað á næstunni.

Beinn hlekkur á skrá Spegillinn 28.10.2009 (í dag)

Þorsteinn Briem, 28.10.2009 kl. 21:54

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.10.2009 (í dag): "Tap Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, fyrstu sex mánuði ársins nam 181,6 milljónum dala, andvirði um 22,5 milljarða króna. Er þetta aðeins minna tap en á sama tíma í fyrra, en þá var það 201,6 milljónir dala.

Mjög hefur dregið úr söluhagnaði fyrirtækisins. Sölutekjur á fyrstu níu mánuðum þessa árs námu 642,4 milljónum dala, en á sama tímabili í fyrra námu þær 1.568,6 milljónum dala."

Móðurfélag Norðuráls tapaði um 22 milljörðum króna fyrri helming ársins

Þorsteinn Briem, 29.10.2009 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband