Svona, fáðu þér einn !

Ég er bindindismaður og ek um á bíl með númerið "Edrú". Börnin mín gáfu mér númerið þegar ég varð sextugur.

DSCF3043

Eftir hálfrar aldar feril sem skemmtikraftur er mér fullljós stemningin á bak við íslensku setninguna: "Svona fáðu þér einn!" 

Þessi setning lýsir ákveðinni fjöldasefjun og á því vel við um það þegar áhættu- og kúlulánum var haldið að Íslendingum leynt og ljóst á tímum "gróðærisins." 

Í athugasemd við bloggpistil í fyrradag er beðið um að ég birti texta við lag undir þessu nafni og segir sá sem athugasemdina gerir, að hann hafi heyrt mig syngja þetta lag á skemmtun. 

Ég held textunum sem ég syng á skemmtunum yfirleitt til einkanota en það er svosem útlátalaust í þetta skipti að láta hann flakka svona prívat, þótt ég haldi fast við höfundarrétt minn að honum og einkarétt til flutnings og söngs. 

Mér finnst hugsunarhátturinn í honum eiga svo vel við tímana sem við höfum lifað undanfarin ár. 

 

SVONA FÁÐU ÞÉR EINN ! 

(Með sínu lagi) 

 

Komdu nú og vertu kátur með mér,   /

svona fáðu þér einn !   /

Fylleríisbyrjun oft svona er:  /

Svona fáðu þér einn !   /

Þetta er mjög svo þjóðlegur siður   / 

og þótt margur deyi´eins og steinn  / 

eru síðustu orðin sem að hann man:  / 

"Svona, fáðu þér einn !" 

 

Um allan bæ er bruggaður ágætis bjór   / 

Svona, fáðu þér einn ! 

Og ennþá betri landi, fínn fyrir þjór, - 

svona, fáðu þér einn !  /

En ef löggan kemst í allt þá auðvitað spyr hún:  / 

"Er þetta vínandi hreinn?" 

"Tékkaðu´á því sjálfur", segir bruggarinn þá, -

"svona, fáðu þér einn !"  

 

"Shorta-fáðér-kondara" var sagt um nótt, - 

"svona fáðu þér einn !" 

En fýrinn var slappur þótt hún seiddi hann ótt:  /

"Svona, fáðu þér einn !"

Í hjálpartækjabankann hún hraðaði för 

og við henni tók afgreiðslusveinn

og sagði: "Hérna´eru "draumaprinsarnir", fagra frú, -

svona fáðu þér einn !" 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Skál!

Offari, 2.11.2009 kl. 15:31

2 identicon

Á ekki að fá sér einn fyrir svefninn langa?

DoctorE (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 16:03

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar stundum fer á Frú,
og flýgur næstum því Edrú,
ekki heil er í því brú,
og ósatt það við teljum nú.

Þorsteinn Briem, 3.11.2009 kl. 00:52

4 identicon

Þetta er stórskemmtilegur texti, takk fyrir þetta Ómar!

Stefán Þór Helgason (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband