Mikill heiður fyrir Andra Snæ og þjóðina.

Andri Snær Magnason hefur fengið glæsileg menningarverðlaun, ein þau virtustu í Evrópu og er ástæða til að fagna því, því að það ekki á hverjum degi sem slíkt gerist.

Ég hélt satt að segja að allir myndu samgleðjast honum og þjóðinni en það sýnir hve heiftúðugir margir eru hér á landi vegna umhverfismála, að í athugasemd Sigríðar Laufeyjar Einarsdóttur er farið hinum verstu orðum um þetta.

Andri Snær er sakaður um "umhverfisverndariðnað" og "gróðabrall" og að hafa viðhaft tilfinningasemi og slegið á skynsemi og rök.  

Hið síðastnefnda er algert öfugmæli hvað snertir bókina "Framtíðarlandið". Gildi þeirrar bókar var ekki hvað síst frábær rannsóknarblaðamennska þar sem einmitt komu fram staðreyndir og rök sem framsett voru af djúpri skynsemi. 

Í bloggskrifum gærdagsins um annan og mikinn heiður, sem Andra hefur hlotnast, mátti sjá sams konar heift og andúð.  

Andri Snær hefur skrifað fleiri bækur, meðal annars hina víðfrægu bók "Bláa hnöttinn" en samt eru sumir virkjanafíklar svo heitir að þeir bannfæra Andra Snæ og ófrægja hann. 

Þessi heift virðist vera meiri en heiftin sem ríkti um það leyti sem Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin og þjóðin skiptist í gagnstæðar fylkingar Kalda stríðsins vegna deilna um NATÓ-aðild og andstæð þjóðfélagsform. 

Halldór hafði þá verið og var heitur Stalínisti, einn helsti og öflugasti liðsmaður íslenskra kommúnista og deilur landsmanna einhverjar þær hörðustu sem um getur.

Engu að síður gátu Íslendingar allir unnt honum þess að fá sín bókmenntaverðlaun, viðurkennt hann sem listamann og samfagnað með honum.

Því virðist ekki að heilsa nú og satt að segja finnst mér það áhyggjuefni að heift virkjanafíklanna skuli ganga svo langt. 

Ég verð sorgmæddur við að verða vitni að þessu. 

 

 


mbl.is Andri Snær hlýtur Kairos verðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Verst að þjóðin kann ekki alls kostar að meta hann, en það kann þó að vera að breytast.

Til Hamingju Andri

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.12.2009 kl. 20:24

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Bláa hnöttinn hef ég nú ekki lesið Ómar, en Draumalandið las ég. Það er bara ekki sérlega góð bók. Alveg sama hvaða mælikvarða skal nota. Þú nefnir til sögunnar rannsóknarblaðamennsku, sem aðrir myndu kalla áróðursblaðamennsku. Er ekkert skrítið að veita glæsileg menningarverðlaun fyrir áróðursrit? Það er augljóslega eitthvað bogið við þessa verðlaunaveitingu. Fyrir utan það að Andri Snær er nú enginn Laxness. Eiginlega hálfgerð Fíatlús í samanburði við Kádílák.

Gústaf Níelsson, 2.12.2009 kl. 22:46

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í Draumalandinu komu fram ótal nýjar upplýsingar svo sem ítarleg úttekt á virkjana- og orkumöguleikum landsins og því, hve mikið álverin þurfa.

Nú, þremur árum síðar, eru þetta staðreyndirnar sem mönnum er svo illa við.

Andri Snær varð fyrstur til að upplýsa um hinn dæmalausa bækling, sem íslensk stjórnvöld á hnjánum sendu öllum helstu stóriðjufyrirtækjum heims með loforðum um "lægsta orkuverð" og "sveigjanlegt umhverfismat" sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af.

Þetta voru upplýsingar en fyrir þá sem þessar staðreyndir komu illa við var eina svarið: "Áróður."

Margir bændur vændu Halldór Laxness um "áróður gegn bændum" í bókinni Sjálfstætt fólk.

Hálf þjóðin varð ævareið og sakaði hann um áróður í Atómstöðinni.

Stór hluti þjóðarinnar ærðist þegar hann dirfðist að nýta Fóstbræðra sögu í Gerplu og töluðu um ófrægingaráróður gefn Íslendingasögunum.

Salka Valka var auðvitað tómur kommúnistaáróður að ekki sé nú talað um Gerska ævintýrið.

Allar þessar bækur voru á vogarskálum þeirra sem gerðu þær að bókmenntum í heimsklassa.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2009 kl. 01:21

5 identicon

Ómar. Staðreyndarvillur í Draumalandinu sem bent var á áður en að kvikmyndin kom út voru ekki leiðréttar eða dregnar til baka. Svo níddi hann alla íbúa heils bæjarfélags og úthrópaði þá sem vont fólk og heimskingja. Og fyrir það er hann nú verðlaunaður.

Varðandi Laxnes, þá voru bókmenntir hans skáldskapur og talað undir rós þótt svo að áróður skíni í gegn. Bók Andra Snæs er hins vegar gefin út sem einhverskonar fræðibók og þar með hefur Andri Snær lesendur sína að algjörum fíflum. Það er munur á hreinni blekkingu og tali undir rós. Og þetta kokgleyptu svo íslenskir bókaútgefendur og verðlaunuðu hann líka.

Kristinn (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 02:52

6 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ágæti Ómar. Því miður er vonlaust verk að tala við virkjanafíkla með rökum. Í þeirra augum eru allir náttúruverndarsinnar úrtölufólk og rugludallar. Við skulum halda baráttunni áfram og sannarlega er gott að eiga forustumann eins og þig í þeim efnum. Ég sendi Andra Snæ bestu hamingngjuóskir með verðlaunin.

Sigurður Sveinsson, 3.12.2009 kl. 03:23

7 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég tek undir þetta, Sigurður og óska Andra Snæ hjartanlega til hamingju. Sorglegt að virkjunar- fíklarnir skulu alltaf vera við sama heygarðshornið og eiga erfitt að taka rök. Hver sagði þetta nú aftur að spámaðurinn gildir ekkert í sínu heimalandi? Ég mat einmitt í bókinni "Draumalandið" hve hreint og beint höfundurinn gekk til máls og að hann talaði ekki dulmál heldur nefndi hlutina réttu nafni.

Úrsúla Jünemann, 3.12.2009 kl. 09:41

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst ekki að hægt að láta sem ekkert sé vegna ábendingar Vilhjálms Arnar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.12.2009 kl. 10:30

9 identicon

Bók Anda Snæs, Draumlandið, er umhverfisklámrit.  Það sama verður sagt um myndina upp úr bókinni.  Þar níðir hann niður landsbyggðarfólk og setur það fram sem hálfvita.  Allt er skrumskjælt að látið líta fáranlega út.

Í Draumalandinu kemur hann með engar lausnir, heldur skrumskælir hann og oftúlkar ýmis mál tengd virkjuninni fyrir austan.  Samt er hann sá maður sem hefur grætt mest á framkvæmdunum fyrir austan.   Hann má með öðrum orðum þakka þessum framkvæmdum alla þá frægð sem hann hefur hlotið á undanförnum árum, því án þessara framkvæmda hefði honum aldrei skotist svona hátt á stjörnuhimininn. 

Andri Snær er maður sem eyðir meiri tíma á kaffihúsum í Reykjavík og í ferðir til útlanda, heldur en í að vera úti á landsbyggðinni sem hann þykis vilja vernda.  Borgarsamfélög virðast því vera hans náttúrulega umhverfi, en ekki náttúran sjálf.   

Ef dæma á út frá kvikmynd hans, Draumlandinu, þá fyrirlítur hann fólk úti á landi og telur það vitleysinga upp til hópa.  Hann ætti að biðja fólk á landsbyggðinni afsökunar á því hvernig hann lýsir því.

Hermann St. Ólason (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 14:37

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar rökin þrýtur er gripið til kaffihúsatalsins, sem kemur umræðuefninu ekkert við.

Jónas Hallgrímsson dvaldi meira á kaffihúsum Kaupmannahafnar en í heimalandi sínu þar sem landar hans hírðust í torfkofum. Mikill óþurtarmaður, Jónas?

Andri Snær fór víða um virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar, nokkuð sem aðeins örfáir heimamenn gerðu.

Bókin Draumalandið fjallar ekkert frekar um landsbyggðarfólk en þéttbýlisfólk heldur þá Íslendinga í heild sem ráðið hafa ferð í virkjanamálum.

Það verður hins vegar ekki hjá sigla fram hjá því hvar stærstu og mestu umhverfisspjöllin eru unnin eða stendur til að vinna.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2009 kl. 20:06

11 identicon

Ómar, stærstu og mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar hefur verið útþensla Höfuðborgarsvæðisins um allar þær náttúruperlur sem voru umhverfis Höfuðborgarsvæðið, með tilheyrandi stórborgarmyndun og mengun af völdum mini-ávlera í gervi ofur-jeppa.

Alfreð M. Jóhannsson (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband