Áburðarverksmiðja? Nei, álið hefur forgang.

Nýjasti möguleikinn sem rekið hefur á fjörur Íslendinga varðandi nýtingu orku landsins er áburðarverksmiðja sem myndi þurfa 350 megavött.

En Helguvík hafa þegar verið ætluð 635 megavött og þessir tveir möguleikar nálgast því 1000 megavött eða eina og hálfa Kárahnjúkavirkjun.

Vafasamt er með orkuöflun handa álverinu og því augljóst að áburðarverksmiðjunni verði vísa frá nema menn keyri áfram og vaði austur í Landmannalaugar, Þjórsárver og Kerlingarfjöll.

Áburðarverksmiðjan er reyndar ekki eins hagkvæmur kostur og gagnaver og aðrir slíkir smærri kaupendur sem þurfa færri megavött á sköpuð störf.

En hún er þó af helmingi skaplegri stærð en álverið og getur skapað svigrúm fyrir aðra kaupendur sem annars þurfa frá að hverfa.

Athyglisvert er að hinn breski blaðamaður Roger Boyes sem rætt var við í Sifri Egils í dag sér hvernig álversstefnan er augljóslega röng jafnvel þótt hann gefi sér þá forsendu að við höfum fram að bjóða nær ótæmandi orku, sem er fjarri lagi.

Eftir að fjármálabólan sprakk er eins og við þurfum að ríghalda áfram í eitthvað svipað og nú er það "hin óendanlega mikla, endurnýjanlega og hreina orka" sem allir buna út úr sér í viðtölum við útlendinga og innan lands, allt frá forsetanum og niður úr.

Roger Boyes hefur greinilega ekki heyrt eða séð neinu öðru haldið fram og þyrfti að lesa Framtíðarlandið og greiningu Sigmundar Einarssonar auk greinargerða innlendra sérfræðinga til þess  að komast að hinu sanna.

Ég hef spurt fjölmarga að undanförnu hvort þeir hafi lesið síðustu grein Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar þar sem endurnýjanleg orka og sjálfbær þróun voru mátuð við jarðvarmavirkjanir okkar.

Enginn hafði tekið eftir því.

Allir hafa hins vegar heyrt mörg þúsund sinnum síbyljuna um gnægð endurnýjanlegra og hreinnar orku Íslands og Roger Boyer harmaði í viðtalinu að við sendum ekki sveit manna til að gera Ísland mest sexý landið á umhverfisráðstefnunni í Kaupmannahöfn. 

Fyrr eða síðar hlýtur blekkingarbólan um hegðun okkar í þessum málum að springa, svo sem sú staðreynd að á Íslandi er mest mengandi bílafloti Vesturlanda.

Ég segi bara: Guði sé lof að við vöðum nú ekki aftur fram, nýhrapaðir, og byggjum upp aðra blekkingarbólu erlendis.

Ég var að vona að fjármálahrunið hefði kennt okkur eitthvað.  

Bo 


mbl.is Boyes: Of mikil áhersla á ál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er hissa á því að þú mælir áburðarverksmiðju bót.  Vissir þú ekki að tilbúinn áburður er mjög mikill umhverfisskaðvaldur?  Og alveg jafn gamaldags iðnaður...  Ég held við ættum kannski frekar að stefna á nýsköpun frekar en gamlar tuggur eins og ál og PKN áburð...

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 17:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tók það fram í pistli mínum að mér hugnaðist ekki áburðarverksmiðja heldur væri hún skárri kostur en álver af því að hún þarf ekki eins óskaplega mikla orku og ryður ekki eins mörgum skaplegum kaupendum frá.

En það, að hún dúkkar nú upp, ásamt mörgum fleiri hugsanlegum kaupendum, sýnir að menn eru alltof bráðir við að selja orkuna á útsölu í stað þess að fara að á yfirvegaðan og skynsamlegan hátt.

Ómar Ragnarsson, 6.12.2009 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband