Línurnar liggja ekki alveg saman.

Í fréttum dagsins var talað um mótmælendur við Bessastaði í morgun. Væntanlega hefur þá verið átt við það að allir sem skrifuðu undir áskorunina til forsetans hafi verið að mótmæla því samkomulagi sem fólst í löggjöfinni um Icesave. 

Þetta er áreiðanlega ekki rétt heldur er hér um að ræða að gamlar skotgrafir hafa áhrif á menn. 

Sumir þeirra sem skrifuðu undir áskorunina hafa verið í hópi þeirra sem hafa árum saman maldað mest í móinn varðandi allar breytingar í lýðræðisátt.

Síðan eru aðrir sem skrifuðu undir áskorunina sem gera það af prinsippástæðum sem hafa ekkert með það að gera hvort Icesavelöginu voru það skásta í stöðunni eða ekki.

Þetta er það fólk sem hefur árum saman viljað meira og beinna lýðræði og umbætur í stjórnarfari.

Annars voru fundarmenn við Bessastaði einstaklega heppnir með veðrið, sem gerði umgerð atburðarins magnaða, en hann naut sín vel þegar horft var yfir hann úr lofti eins og ég gerði.  


mbl.is 4 stjórnarþingmenn skrifuðu undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Er nafnið "Ómar Ragnarsson" á listanum sem afhentur var í blíðviðrinu í dag?

Halla Rut , 2.1.2010 kl. 20:30

2 Smámynd: Axel Guðmundsson

Nei nei. 'Omar Ragnarsson er aldrei á móti engu nema annað komi til.

Axel Guðmundsson, 2.1.2010 kl. 21:06

3 Smámynd: Axel Guðmundsson

P/S Allir hanar gala, allir hanar gala. Vindhaninn galar ei....

Axel Guðmundsson, 2.1.2010 kl. 21:08

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eg skal svara hreint út varðandi listann sem afhentur var í dag.

Þeir sem fylgjast með bloggpistlum mínum geta lagt saman tvo og tvo.

Í viðtali við Morgunblaðið fyrir kosningarnar 2007 valdi blaðamaðurinn setninguna "Allt sem þjóðina varðar" sem yfirskrift viðtalsins en þau orð hafði ég notað um það stefnumál Íslandshreyfingarinnar að stórauka beint milliliðalaust lýðræði og efla sjálfstæði og afl löggjafarvaldsins.

Þetta eintak af Morgunblaðinu hefur hangið lengi uppi sem auglýsing um sunnudagsblað Moggans í Kaffiteríunni í innanlandsflugi Flugfélags Íslands.

Talsvert þarf til að ég telji að Iceasave-málið varði ekki þjóðina.

Það verður að vísu að viðurkennast að sum lög eins og íslensku fjárlögin eru ekki bær til að skera úr um í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En 26. grein stjórnarskrárinnar gerir enga undantekningu í því hvaða lög forsetinn geti vísað beint til þjóðarinnar, heldur setur það í vald þessa eina embættismanns þjóðarinnar sem er kjörinn beint af henni að ákveða hvaða lög verði fyrir valinu.

Samkomulagið um Icesave er á gráu svæði og ef forsetinn undirritar þau verður það líkast til ofarlega á blaði í rökstuðningi hans að erfitt sé að setja mál af þessu tagi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég var fylgjandi því á sínum tíma að vísa fjölmiðlafrumvarpinu beint til þjóðarinnar og afar ósáttur við það að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun, þar sem valdið er gríðarlegri og óafturkræfri eyðileggingu á náttúru landsins um aldir og árþúsund.

Og þá kem ég að svarinu. Ég er í hópi þeirra sem undirrituðu áskorunina til forsetans um að vísa Icesavemálinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í þessari undirskrift minni felst enginn dómur yfir því hvort Iceasave-frumvarpið var skásta lausnin eða ekki og í bloggi mínu að undanförnu hef ég efað að úr því sem komið er sé líklegt að aðalsmiðir hrunsins, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn nái betri samningum.

Það verði væntanlega stöðugt og brýnt verkefni á næstu árum að fá viðsemjendur okkar til að skipta byrðunum af meiri sanngirni milli þjóðanna þriggja og taka tillit til mikils stæðarmunar þeirra.

Forsetinn ræddi um að hafa þyrfti hliðsjón af aðstæðum og afleiðingum þess að setja Iceasave í þjóðaratkvæðagreiðslu og hafði þá vafalaust í huga hnekki trausts og álits á Íslendingum erlendis sem höfnun laganna mun hafa í för með sér og þar með mjög mikla erfiðleika, sem yrðu meiri en þeir erfiðleikar sem Icesave-samkomulagið veldur.

Ég er annað foreldri sjö barna og enda þótt maður reyni að hafa áhrif á gjörðir þeirra til góðs, er ég andstæður of mikilli forsjárhyggju heldur vil frekar að þau efli sjálstæða hugsun og reki sig sjálf á afleiðingar ákvarðana sinna og læri af því.

Ég veit að margir fylgjendur Icesavel-samninganna hafa áhyggjur af því að þjóðin geti farið sér að voða í þjóðaratkvæðagreiðslu með því að fella samningana.

Ég bendi hins vegar á að ef sú reynist raunin að felldir samningar geri stöðu okkar verri en ella sé það þó bót í máli að þjóðin geti við engan sakast nema sjálfa sig ef svo fer.

Við eigum að vera það vel upplýst lýðræðisþjóð að þjóðinni sé treystandi til að ákveða sjálf um helstu má sín.

Fyrirsögnin "Alla sem þjóðina varðar" og lýðræðisumbótastefna Íslandshreyfingarinnar komst aldrei inn í umræðuna 2007. Það ár komst ekkert annað að en gróðærið mikla.

Það þurfti algert hrun til að hreyfa við þessum málum og nú er undiralda risin sem ekki var þá.

Ég tel undirskrift mína nú undir áskorun til forsetans vera í samræmi við mín meginsjónarmið og hugsanlega sjónarmið naums meirihluta Alþings.

Ómar Ragnarsson, 3.1.2010 kl. 00:44

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil bæta því við að ég tel ekki að ríkisstjórnin þurfi að segja af sér þótt Icesave-samningarnir verði felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu, - ekki frekar en sú ríkisstjórn segi af sér sem verður við völd þegar samningar við ESB verða bornir undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel ekki að aðalsmiður hrunsins, Sjálfstæðisflokkurinn, eigi skilið að komast aftur til valda rétt si svona aðeins rúmu ári eftir hrunið, og Framsóknarflokkurinn ber næstmesta ábyrgðina eftir 12 ára slímsetu þau árin sem lagður var grunnur að græðgis- og einkavinavæðingunni sem felldi okkur.

Ómar Ragnarsson, 3.1.2010 kl. 00:55

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er ekkert við það að athuga lengur að þjóðaratkvæði sé viðrað í þessari umræðu. Vandamálið er að það er tafsöm og vandrötuð leið að semja með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Milliríkjamál sem eru einsog þetta á milli skattgreiðenda 3ja ríkja mismunar borgurm tveggja ríkja ef ekki breskir og hollenskir skattgreiðendur fá að segja sitt um samningana í þjóðaratkvæði.

Burt séð frá því þá er atkvæðagreiðslan aðeins um tiltekna breytingu á lögum frá september 2009 sem myndi samt þýða að allt er óbreytt og Íslenska ríkið jafn skuldbundið og þá í raun. + stjórnarkreppa og vesenis vesen áfram.

Það hefði verið hreinlegra að láta þjóðina kjósa 2008 um leið a) sem í stuttu máli er sú leið sem valin vara í nóvember 2009 og þessi ríkisstjórn framfylgir af veikum mætti eða leið b) eða c) sem ég hef aldrei séð nokkurn mann útfæra nákvæmlega og við geturm kallað "ekki samninga leiðirnar". Þá gætum við hætt þessu "bleim geimi" um hverjir voru lélegir samningarmenn og hverjir hefði "hugsanlega" staðið sig betur.

En í alvöru talað það kippir sér enginn hér á blogginu upp yfir því forsetinn segi að dómararstéttin sé pólitískt þý!

Er það svona viðtekið?

Gísli Ingvarsson, 3.1.2010 kl. 01:10

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég efa ekki að samningamenn Íslands lögðu sig alla fram um að ná sem skástum samningum þótt ævinlega megi gangrýna sitthvað þegar um svo flókið og erfitt samningamál er að ræða.

Þrátt fyrir allar upphrópanirnar um að við eigum ekki að semja og gefa skít í að borga sé ég ekki betur en að eini munurinn á stjórn og stjórnarandstöðu sé sá að hinir síðarnefndu telja sig geta náð betri samningum. Þá er eftir spurningin um það hvort það sé líklegt.

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu ef af verður á að vera hægt að rökræða þannig um þetta mál að upplýst niðurstaða geti fengist.

Aðalvandinn er sá að það er svo erfitt að segja til um viðbrögð viðsemjendanna fyrirfram og þar greinir stjórn og stjórnarandstöðu á.

Ómar Ragnarsson, 3.1.2010 kl. 01:55

8 identicon

Það er merkilegt að fylgjast með þessari umræðu á Íslandi. Eftirfarandi hefur m.a. komið fram:

1. Flestir stjórnmálamenn og áhugafólk um stjórnmál virðast taka afstöðu til synjunarvald/málskotsrétt forseta út frá málefninu, en ekki út frá því hvort það er í prinsippinu réttur forsetans. Þannig hafa þeir sem andmæltu ákvörðun forseta hvað harðast árið 2004 barist hvað harðast fyrir því að hann beiti sama valdi núna. Í þeim hópi er jafnvel að finna fjölmarga sjálfstæðismenn, sem töldu þá að málskotsrétturinn væri alls ekki til og/eða að aukinn meirihlutia þyrfti í þjóðaratkvæði og annað miður gáfulegt. Sama fólk efast ekkert um þetta núna, hvetur jafnvel til þess, osfrv. Og öfugt, flestir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar vilja ekki sjá það að forsetinn beiti þessu valdi, en flestum þeirra fannst það hið besta mál í fjölmiðlalögunum. Prinsipp? Ekki beint.

2. Margir andstæðingar synjunar forseta hafa mjög hátt um það viðhorf að almenningi sé ekki treystandi til að greiða atkvæði um þetta mál. Bíddu, hvenær verður almenningi þá treystandi til þess? Fá mál hafa hlotið meiri kynningu en einmitt þetta. Mun sama fólk kannski kveða þjóðaratkvæði um ESB-aðild í kútinn líka? - af því að þjóðinni er ekki treystandi til þess...

3. Til að bæta um betur hafa margir sömu bloggarar jafnvel sagt að þeir sem skrifuðu sig á undirskriftalistana hafi ekki vitað hvað þeir væru að skrifa undir. Um þetta viðhorf má segja margt, en í það minnsta er ekki mikil lýðræðisást þar að baki.

4. Botninum ná þó kannski nokkrir þingmenn VG, sem hafa hingað til barist hvað harðast fyrir beinu lýðræði og fóru jafnvel í kosningar fyrir nokkrum mánuðum með það kosningaloforð að 15-20% landsmanna ættu að geta óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvað sem er. Nú þegar 23% skrifa sig á lista er það samt ekki talið heppilegt og forsetinn jafnvel skammaður fyrir að taka við undirskriftunum! Lengra frá beinu lýðræði og þjóðaratkvæði komast menn varla.

5. Sumir þingmenn VG greiddu auk þess atkvæði á Alþingi á súrrealískan hátt í vikunni; sögðu nei við tillögu um þjóðaratkvæði en réttlættu það með því að segjast skrifa sig á undirskriftalista til forsetans! Til hvers er svona fólk á Alþingi? - ef það telur nóg að skrifa sig á almennan undirskriftalista en kýs svo ekki með sama málefni á þingi...?!

Svona er þetta skrýtið. Aftaða stjórnmálafólks fer eftir málefninu hverju sinni, en ekki hvort þeim finnst almennt rétt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur. Sum málefni eru jafnari en önnur...

Annars bara bestu kveðjur :)

Þorfinnur (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 03:58

9 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er margt gott í ádrepu Þorfinns en hann er eiginlega ekki að ræða málin heldur að taka afstöðu. Ég efast ekki um að allir sem hér hafa skrifað finnist þjóðaratkvæðagreiðsla mál sem þarf prinsipp umræðu. sérstaklega ar sem ekki hefur tekist að framkvæma hana áður um einstök þingmál. Það hefði einmitt hjálpa gríðarlega ef Fjölmiðlalögunum hefði verið skotið til þjóðarinnar. Það hefði verið góð generalprufa. Það var ekki gert. Undirskriftir á netinu eru hins vegar ómarktækar. Það verður að fá undirskriftir fólks með undirritun. Það er hægt með múgsefjun að koma af skriðu "samúðar"undirskrifta sem ég tel vera jafngildi múgæsings. VG-menn hafa tekið undarlega afstöðu til þessa máls á þingi og í raun lagt ábyrgð sína í hendur forsetans sem er einnig umhugsunarefni. Mér finnst það ekki gera ákvörðun ÓRG auðveldari því að afleiðingar synjunar undirritunar verður hann að hafa lagt niður fyrir sig. Ef stjórnarandstaðan ætlar að sundra þjóðinni í þesssu máli þá tekst henni það án hans aðstoðar.

Gísli Ingvarsson, 3.1.2010 kl. 11:42

10 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Gísli;  " ef stjórnarandstaðan ætlar að sundra þjóðinni í þessu máli "  hverskonar málflutningur er þetta eiginlega  ??  Núverandi stjórn ætlar að ganga gegn vilja meirihluta þjóðarinnar (70%) með þessum samningi og fjöldi manns hefur skrifað undir áskorun á netinu - þar á meðal ég - til að sýna andstöðu við þennan samning og ósk um að fá að kjósa um hann.

En þú ferð hér í athugasmedum þínum eins og köttur í kringum heitan graut til að reyna að réttlæta það að forsetinn skrifi undir - og sundri ekki þjóðinni ??

Þetta er slíkt bull að engu tali tekur.

En ég tek ofan fyrir Ómari Ragnarssyni að hafa skrifað undir áskorun til forsetans.  Hann á heiður skilinn og eflaust átt frekar heima á þingi heldur en margur þingmaður VG, sem hafa augljóslega látið KÚGA sig til flokkshollustunnar í Icesave málinu. 

Sigurður Sigurðsson, 3.1.2010 kl. 11:58

11 identicon

flottastur Ómar :-) en fáum við að sjá myndir frá flugi þínu í gærmorgunn ?

Gretar Eir (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 12:45

12 identicon

Eitt þykir mér vanta í alla þessa umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslu.  Það er ljóst að hvert það mál sem yrði lagt í dóm þjóðarinnar varðar varðar hagsmuni sumra meira en annarra.  Þess vegna getur þjóðin ekki búist við hlutlausri umræðu eða nothæfum upplýsingum, heldur áróðri í pólitískum anda, þar sem ein hlið málisins væri dregin fram og fegruð, en hinar faldar.

Og hverjir sjá um þennan áróður?  Auðvitað fjölmiðlarnir, í umboði eigenda sinna.  Þeir sem ráða yfir sterkustu fjölmiðlunum geta mótað skoðanir meirihlutans að vild sinni.  Þetta var gert árið 2004, þegar neikvæð skoðun almennings á fjölmiðlafrumvarpinu fór úr 0% í 74% á nokkrum vikum. 

Niðurstaðan:  Þegar forsetinn synjaði fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar kom hann í veg fyrir að hægt yrði að nota þjóðaratkvæðagreiðslu af nokkru viti.

Hörður

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 13:27

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eitt lítið brot af þessum myndum sást í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi en ég geymi afganginn.

Ómar Ragnarsson, 3.1.2010 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband