Öruggasta þota heims breyttist í þá hættulegustu á nokkrum sekúndum.

Þeir Sjónvarpsmenn, sem áttu þess kost að stilla sér upp á besta stað á Keflavíkurflugvelli til þess að ná sem bestum myndum af flugtaki Concorde-þotu þegar hún kom hingað til lands, gleyma því aldrei.

Hvílík fegurð, hvílkt afl, hvílíkt tækniundur!

Aðeins einu sinni síðan hefur svipaður atburður hrifið mig. Það var þegar tækifæri gafst til að vera á besta stað á Canaveralhöfða 1999 á svölum íbúðar forstjóra NASA, til að verða vitni að flugtaki geimferjunnar sem bar Bjarna Tryggvaon út í geiminn.

Engar myndir geta lýst þeirri upplifun vegna þess að hávaðinn, drunurnar, titringurinn og höggbylgjurnar skila sér ekki í gegnum myndatökuvélarnar.

Þær voru að vísu eitthvað magnaðri en frá Concorde, en fegurð Concorde var meiri.

Orsök hins hörmulega slyss árið 2000 var afar einföld og ætti að vera hægt að fyrirbyggja slíkt. Vélin hafði verið öruggasta farþegaþota heims í 31 ár og ætti að eiga möguleika á að verða það aftur.  

Ég hef því aldrei efast um að endurbættur jafnoki hennar muni hefja sig til flugs svo framarlega sem fyrirsjáanleg orkukreppa hefur ekki dunið yfir þannig að enginn hafi efni á slíku.

Það var lengi draumur minn að fljúga einu sinni á ævinni með Concorde frá París til kjötkveðjuhátíðar í Ríó de Janero. Engin goðgá fyrir almúgamann með flugáhuga að veita sér slíkt einu sinni á ævinni að því gefnu að vera búinn að vinna sér inn fyrir því með fábreytni og sparneytni í daglegu lífi.

Hæpið er héðan af að sá draumur rætist, en vonandi rætist hann hjá einhverjum öðrum.  


mbl.is 45 ár frá fyrsta flugi Concorde
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvaldur evrópskrar sögu.

Þegar Seinni heimsstyrjöldinn lauk var ærlega tekið til hendinni í Evrópu til þess að losna við þann bölvald álfunnar sem endalausar deilur og styrjaldir um landamæri og yfirráð yfir löndum hafði ðöldum saman leitt yfir álfuna.

Þetta var gert með hreinni valdbeitingu Bandamanna, sem gekk upp vegna þess að Þjóðverjar voru fyrirlitnir vegna ógnarverka nasismans að þeir fengu engu um neitt ráðið.

14 milljónir mann urðu að flytjast nauðugar af þýsku landi, einkum frá Póllandi og Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu.   

Reynt hafði verið að leysa þetta í Versalasamningunum eftir Fyrri heimsstyrjöldina, en Frakkar og Bretar gátu ekki samþykkt til fulls hugmynd Wilsons Bandaríkjaforseta um að þjóðir álfunnar tækju um þetta ákvarðanir sjálfar á lýðræðislegan hátt í hvaða ríki þær vildu vera.

Með því var safnað í eldsneyti fyrir áframhaldandi deilur sem leiddu til annarrar heimsstyrjaldar, sem í raun var framhald þeirrar fyrri.

Í Slésvík-Holstein fékk fólk að ráða því sjálft eftir Fyrri heimsstyrjöldina hvort það vildi vera innan vébanda Þýskalands eða Danmerkur og íbúar Saar-héraðs fengu að sameinast Þýskalandi eftir atkvæðagreiðslu 1935.

En Austurríki-Ungverjaland var limað í sundur og meðal ríkjanna, sem urðu til, voru Tékkóslóvakía og Júgóslavía með ólíkar þjóðir og þjóðarbrot innan vébanda sinna.

Þar að auki var Þýskaland hoggið í tvennt og Pólland fékk sjálfstæði að nýju með aðgangi að sjó í gegnum hið fyrra Þýskaland.

1938 munaði minnstu að styrjöld skyli á vegna þýskumælandi þegna Tékkóslóvakíu sem bjuggu við landamærin að Þýskalandi og vildu sameinast því.

Með Munchenarsamningnum var þeim leyft að gera það en það kippti fótunum undan möguleikum Tékka til að verja land sitt með heppilegum landamærum frá náttúrunnar hendi og í framhaldinu hernámu Þjóðverjar Tékkóslóvakíu alla aðeins fimm og hálfum mánuði seinna án þess að hleypt væri af skoti.

Þetta kemur upp í hugann þegar svipaðir atburðir eru að gerast á Krímskaga þar sem rússnekumælandi íbúar hans eru í svipuðu hlutverki og Súdetaþjóðverjar voru 1938.

Helsti munurinn er sá að Rússar gáfu Krímskagann viljandi frá sér 1964 yfir til Úkraínu en hins vegar fengu Þjóðverjar og Austurríkismenn engu ráðið um örlög Súdetahéraðanna í Versalasamningnum.

Tító tókst að halda Júgóslavíu saman eftir 1945, en eftir lok Kalda stríðsins sundraðist ríkið í mesta ófriði í Evrópu eftir 1945.

Af því sést hve erfitt er að fullyrða um það að óbreytt ástand geti haldist til langframa í álfunni þrátt fyrir alla viðleitnina til að halda friðinn.

Ýmsar þjóðir Vestur-Evrópu, svo sem Spánverjar, eiga svolítið erfitt með að dæma um málin á Krímskaga vegna þess að svipuð vandamál eru víðar í álfunni.

Á Spáni hafa Baskar lengi barist fyrir sjálfstæði sínu og meðal Katalóníumanna er líka öflug hreyfing sem berst fyrir sjálfstæði hennar.    

Á tímum yfirráða Rússa yfir Krímskaga og á meðan Sovétríkin voru við lýði, leit landsfólkið þar á Krím svipuðum augum og Bandaríkjamenn líta á Flórída.

Til dæmis fengu allir íbúar Rússlands, sem bjuggu norðan við heimskautsbaug eina fría ferð til Krím í gjöf frá ríkissjóði Sovétríkjanna meðan þau voru og hétu.

 

   


mbl.is Gjöfin gæti reynst afdrifarík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamleg fjölskylduíþrótt.

Best er að játa það strax að vera einhver lélegasti skíðamaður og sundmaður landsins. En það breytir því ekki að einhverjar bestu minningar úr lífi fjölskyldunnar voru árin, þegar farið var í fjölskylduferðir á skíði.

Þökk sé Stöö 2, sem ég vann þá hjá, vorum við fjögur, ég, Hemmi Gunn, Linda Péturs og Rósa Ingólfsdóttir skikkuð til þess að læra á skíðum fyrir sérstaka sjónvarpsþætti þar um, að mig minnir árið 1989.

Ég var alger byrjandi og skelfilega klaufskur, hafði reyndar komið mér hjá því allt frá fyrstu ferðinni uppi í Kerlingarfjöll sumarið 1967, að renna mér á skíðum.

Hins vegar hafði ég farið með þrjár yngstu dætur mínar í Kerlingarfjöll um verslunarmannahelgina 1985 og þær orðið forfallnar skíðakonur.

Hvað um það, eftir að maður var orðinn stautfær á skíðum tóku við dásamleg ár þar sem farið var í fjölskylduferðir til hinna ýmsu skíðasvæða.

Skíðaástríðan er svolítið lík golfástríðunni að því leyti, að fljótlega hefst "söfnun" skíðasvæða og skíðasvæðin urðu þessi: Kerlingarskarð, Blönduós, Böggvistaðafjall við Dalvík, Hlíðarfjall, Oddsskarð og öll skíðasvæðin austur af Reykjavík.

Já, meira að segja Blönduós var á listanum, sennilega auðveldasta skíðasvæði landsins en jafnframt það "aumingjalegasta".

Skíðaíþróttin hefur flest það til að bera sem góð íþrótt getur gefið, hreyfingu fyrir unga sem aldna, útiveru, náttúruupplifun, spennu, slökun og síðast en ekki síst, skemmtilega og gefandi samveru í síðaferðalögum, jafnt stuttum sem löngum.

Já, fjölskylduíþrótt af bestu gerð.  


mbl.is Opið í Bláfjöllum og Skálafelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hjóla í manninn en ekki málið.

"Getur nokkkuð gott komið frá Nazaret?", setning úr Biblíunni, er ágætt dæmi um það þegar maður er dæmdur eftir heimkynnum sínum.

"Latte-lepjandi kaffihúsalýður úr 101 Reykjavík" er dæmi sem allir kannast við úr samtímanum, þar sem allir, sem hafa tiltekna skoðun eru felldir udnir ákveðið hverfi í Reykjavík sem með nógu langvarandi síbylju er búið að klína slæmum stimpli á sem heimkynni ónytjunga, sem eru afætur á þjóðinni.

Gildir þá einu hvort viðkomandi eigi heima þar eða sæki kaffihús, hvað þá að hann viti hvað Latte sé.  

Á Íslandi hefur það verið einn helsti bölvaldur skoðanaskipta og rökræðu sem lýsa má með setningunni "að hjóla í manninn en ekki málið."

"Farðu og finndu eitthvað á hann" er dæmi um hvatningu til að gera slíkt, ákveðnum málstað eða tilgangi til framdráttar, en aðferð af þessu tagi hefur fengið heitið "smjörklípuaðferðin".  

Dæmin um þessa tegund rökræðu á Íslandi eru svo mörg og flestum svo kunn að það þarf ekki að tína þau til.

Eitt af því allra síðasta sem er í minni og mætti nefna frá allra síðustu dögum  er það, þegar upplýst var á netinu að maður, sem startaði undirskriftasöfnun á facebooksíðu sinni um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-samninga á undan þeirri undirskriftasöfnun, sem síðan tók yfir, - að þessi maður væri svo vafasamur karakter að söfnun undirstkrifta á hans vegum væri hið versta mál og til skammar fyrir alla sem kæmu nálægt facebooksíðu hans.

Rökin, sem færð voru fyrir þessu, voru þau að hugsanlega væri hægt að rekja tengla frá síðu hans yfir á vafasamar erlendar vefsíður.

Fljótlega spunnust miklar deilur um það hvort aðferðin við að bendla manninn við þessar vafasömu síður væri marktæk, enda væri með "góðum vilja" hægt að gera svipað við fjölmargar aðrar facebooksíður og rekja tengla út og suður.

Þar með var deiluefnið komið víðsfjarrri frá málinu, sem allt snerist um, hvort halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki.  

Smjörklípuaðferðin, að hjóla í manninn en ekki málið, svínvirkaði, jafnvel þótt færð væru rök að því að hún byggðist á rangri aðferð.  

Þessi aðferð, að hjóla í manninn en ekki málið, er svo algeng og almenn hér á landi, að það er erfitt að nefna fylgismenn neins málstaðar, sem ekki hafa freistast til að nota hana.

Kannski er það fámennið hér sem ýtir undir það að ómálefnaleg umræða af þessu tagi er svona almenn og svona þrúgandi.

Það er komið mál til að við förum öll að líta í eigin barm og sameinast um að aflétta þessum ófögnuði, sem fer svo illa með nauðsynlega og hlutlæga rökræðu og eitrar samfélagið.

 


mbl.is Orðræðan einkennist af persónuníði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband