Á að banna júdó, íslensku glímuna o. s. frv.?

Enn er mér í minni þegar ég sá um að útvega skemmtiatriði á Sjómannadeginum í Vestmannaeyjum í áratug og fór þangað með flokk júdóglímumanna úr Ármanni. Þá, eins og nú, átti ný bardagaíþrótt á borð við júdó undir högg að sækja vegna fordóma.

Menn fordæmdu íþrótt þar sem "ofbeldi" væri beitt til að sveifla mönnum harkalega í gólfið, "hengja" þá, "beita fantatökum" og kenna aðferðir til að  "misþyrma fólki".

Sýning júdómannanna gerbreytti viðhorfum áhorfenda því að þar var upplýst um hinar ströngu reglur og aga sem giltu í hinni fornu japönsku íþrótt og og einnig upplýst um það að færni í íþróttinni gæti komið sér vel við að gera ofbeldismenn skaðlausa ef sú staða kæmi upp i daglegu lífi.

Einkum hrifust áhorfendur af því að sjá hvernig júdómönnum væri kennt að falla þannig til jarðar, ef þeim væri skellt á hábragði eða sveiflubragðí, að höggið af fallinu dreifðist á allan líkamann og yrði þannig skaðlaust.

Á þeirri hálfu öld sem liðin er síðan þetta gerðist hafa fjölmargar bardagaíþróttir numið land hér á landi, og þær eiga það sameiginlegt að allur umbúnaður í kringum þær, reglur og agi, á að tryggja að meiðsli í þeim verði ekki meiri en til dæmis í boltaíþróttum og vetraríþróttum.  

Einnig hafa ólympískir hnefaleikar, öðru nafni áhugamannahnefaleikar, verið leyfðir, en það var nú ekki svo lítið af fordómum, sem þurfti að takast á við, til að leyfa þá.

Í þessum íþróttum ganga tveir einstaklingar til leiks í drengilegri keppni af fúsum og frjálsum vilja, og allur undirbúningur keppni, æfingar og rannsóknir og greiningar á sjálfum sér og mótherjunum lýsa sér í að efla vilja og vitsmun, skynsemi, yfirvegun, hugarró, einbeitni og æðruleysi.

Mér er í minni þegar ég lýsti heimsmeistarakeppni í áhugamannahnefaleikum í tvær nætur fyrir 15 árum, þar sem enginn meiddist í viðureignum, sem tóku alls margar klukkustundir, en hins vegar voru tvær konur bornar af velli í íslenskum handboltaleik, sem fram fór kvöldið á undan fyrri lýsingu minni, önnur þeirra steinrotuð.

Bardagaíþrótt Gunnars Nelsons er blönduð úr ýmsum öðrum bardagaíþróttum svo sem kick-boxi og glímum, þar sem mörg brögðin eins og "lásar" og "hengingar" koma kunnuglega fyrir sjónir.

Þau rök, að hugsunin á bak við þessar íþróttir, sé svo slæm, að þess vegna eigi að banna þær, halda ekki þegar grannt er skoðað.

Samkvæmt því ætti að banna skylmingar, því að þær líkja eftir því að ráðast að manni með sverði og reka hann á hol.

Banna þyrfti íslensku glímuna, því að þar beita menn ofbeldi til þess að skella mótherjanum harkalega í jörðina.  

Banna þyrfti skák, af því að allan tímann eru menn ýmist drepnir á skákborðinu eða hafðar frammi hótanir um manndráp og lymskuleg brögð, blekkingar og útsmognar aðferðir við að klekkja á andstæðingnum.

Banna þyrfti þjóðaríþróttina handbolta vegna meiðslatíðni, meðal annars vegna afleiðinganna af því "ofbeldi" að "taka fast á þeim", "taka vel á mótið þeim", orðum sem lýsa sér oft  í því að toga í peysur, ryðjast á menn, gefa þeim högg eða olnbogaskot eða beita öðru fjölbreytilegu "líkamlegu afli til að stöðva mótherja.

Auðvitað er fráleitt að banna framantaldar íþróttir. Í þeim er þess gætt að hafa aga og reglur, sem setja mönnum takmörk og refsa þeim ef út af er brugðið, og eru þannig uppeldisatriði í sjálfu sér og hjálpa til að byggja sig upp, andlega og líkamlega.

Þegar litið er á menn eins og Gunnar Nelson og Ólaf Stefánsson, eftirbreytnisverða framkomu þeirra og frammistöðu, sést hvergi betur en á þeim gildi hins fornkveðna að "íþróttir efla alla dáð, / orkuna styrkja, viljann hvessa."  (Vona að ég fari rétt með)


mbl.is „Þetta er ekki ofbeldi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Gunnar Huseby náttúrulegt "steratröll"?

Ég er ekki sérfróður í læknisfræði og veit ekki hve mikill mismunur getur verið á efnasamsetningu í blóði fólks af meðfæddum ástæðum.

Þaðan af síður finnst mér mögulegt að hægt sé að ráða af andlitsfalli löngu látins fólks hvaða skoðanir það hafði, eins og áhugamaður um listasögu hefur gert varðandi dulrænt og heimsfrægt bros Monu Lisu.

Ýmislegt má tína til við ágiskanir af þessu tagi langt aftur í tímann.

Þar má nefna sem dæmi, að hinn mikli afreksmaður Gunnar Huseby var með ýmis einkenni, sem fylgja steraneyslu, bæði holdafar, óvenjulega líkamlega snerpu og krafta og grófgert útlit.

Gunnar lenti á tímabili í vandræðum sem eru svipuð andlegum einkennum mikils sterainnihalds í blóði en alla jafna var hann ákaflega ljúfur og góður maður sem vann án þess að það færi hátt, afar gott og mikið starf í þágu áfengissjúklinga eftir að hann hætti að drekka sjálfur.

Auðvitað veit enginn hvort Gunnar hafði meira af sterum í blóðinu frá náttúrunnar hendi eða ekki, því að slíkt var ekki mælt á hans dögum, og steranotkun íþróttamanna byrjaði ekki fyrr en fimmtán árum eftir að hann stóð á hátindi frægðar sinnar og afreka.

Að því leyti er þessi pæling mín með álíka mikinn grundvöll og ágiskanir um það hvort Mona Lisa hafi verið feministi.

Samt verð ég að játa að mér fyndist fróðlegt að bera álitamálið varðandi meðfædda stera í blóði undir sérfróða menn.


mbl.is Var Mona Lisa femínisti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynslan er dýrmæt.

Það er misjafnt hvernig fólk tekur því að hætta ábyrgðarmiklum störfum. Sumir setjast í helgan stein og njóta þess að hafa góðan frítíma.

Fyrir suma virðist þetta vera áfall sem þeir komast ekki yfir. Ég minnist þess til dæmis þegar reglur um störf flugstjóra voru mjög ósveigjanlegar og að sumu leyti ósanngjarnar.

Þegar þeir misstu atvinnuflugmannsréttindi 65 ára gamlir urðu þeir að fara langleiðina aftur á byrjunarreit ef þá langaði til að fljúga flugvélum, jafnvel þótt litlar væru. 

Fyrir einstaka menn virtist þetta vera mikið áfall og þeir urðu fráhverfir flugi, enda var með þessu gefin þau skilaboð að öll þeirra mikla og dýrmæta reynsla væri lítils sem einskis metin.

Fyrir nokkrum árum var þessum reglum breytt og atvinnuflugmönnum auðveldað að fljúga áfram eftir 65 ára aldur, jafnvel í takmörkuðu flugi í atvinnuskyni, öðru en því að fljúga í leiguflugi eða í áætlunarflugi.

Mér finnst það fagnaðarefni þegar þrautreyndir menn eins og Sturla Böðvarsson finna sér góðan starfsvettvang þar sem reynsla þeirra og áunnin hæfni koma að góðum notum á hliðstæðu sviði og þeir náðu að komast í fremstu röð.

Sturla gerði margt gott á ferli sínum í landsmálapólitíkinni og ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir það þegar hann reis gegn mjög harðri sókn áhrifamanna til að leggja hraðbrautar-trukkaveg um Arnarvatnsheiði og Stórasand þvert yfir í Norðurárdal í Skagafirði.

Þessi vegur hefði legið upp í 800 metra hæð og sérstaklega illvígt veðravíti, sem varð Birni Pálssyni flugmanni að bana 1973. Í veðri eins og er einmitt í dag þegar þessi pistill er skrifaður, þykist ég vita af margra áratuga reynslu í flugi hvernig væri að vera þarna á ferð, hvort sem væri á landi eða í lofti í hvassri sunnan- eða suðaustanátt, sem er algengasta rok-vindáttin hér á landi.

Hraðbraut þarna yfir hefði auk þess eyðilagt þá dýrmætu stemningu óspilltra víðerna sem er ómetanlegt verðmæti í sjálfu sér.

Hefur þessi hugmynd vonandi verið kveðin niður í eitt skipti fyrir öll.  


mbl.is „Ekki hægt að skorast undan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsröðun í flugi: Nr. 1: Að halda vélinni fljúgandi.

Hver getur verið ástæða þess að þota geti horfið? Þessarar spurningar er spurt í tengdri frétt á mbl.is.

Svarið gæti verið fólgið einu helsta frumatriði flugs sem kennt er strax í upphafi flugnáms, ákveðinni forgangsröðun í stjórn flugvélar. Efst á blaði er það að halda vélinni fljúgandi allan þann tíma sem hún er á lofti og láta hana halda nægum lyftikrafti á vængina til að koma í veg fyrir að hún missi flugið og fari í ofris eða spuna og verði stjórnlaus.

Ef vélin missir samt hæð, þannig að við því verði ekki spornað, til dæmis vegna hreyfilbilunar, er krafan um að vélin fljúgi í stjórnuðu flugi samt efst á blaði, og mikilvægara að hún lendi á jörð í stjórnuðu flugi heldur en stjórnlausu.

Ef aðstæður skapast þar sem hætta er á að missa stjórn vélinni, verður að sleppa því að gera neitt annað en að koma í veg fyrir að vélin missi flugið og láta valdið yfir flugi hennar hafa forgang.

Til lítils er að hafa sent út neyðarkall ef flugvélin verður stjórnlaus og hrapar til jarðar og ferst, og það, að beina athyglinni frá því að halda henni fljúgandi og hætta að stjórna henni, þótt ekki sé nema augnablik, getur einmitt valdið því að allt fari á versta veg.   

Það ástand getur skapast um borð í flugvél, eins og mörg dæmi sanna, að ekki gefist tími til að senda út neyðarkall.

Þetta getur verið ástæða þess að malasíska þotan, sem nú er leitað, hvarf af ratsjá án þess að neitt sé vitað um það hvers vegna það gerðist.  


mbl.is Hvernig getur þota horfið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsprengi sovétkerfisins rísa gegn því.

Á tímum Sovétríkjanna sálugu framleiddi ríkiskerfið afreksfólk í íþróttum á skipulegan hátt. Leitað var að hæfileikum meðal barna og þau "prógrammeruð" til þess að verða afreksfólk, sem varpaði ljóma á Sovétríkin um allan heim í áróðurstríðinu, sem þá geysaði um þjóðfélagsskipan.

Hér á Íslandi eru tveir tónlistarsnillingar, sem teknir voru sem börn í Eistlandi og alin skipulega upp til að verða undrabörn.

Þeir fengu óbeit á þessu og una sér vel í frelsinu í Þingeyjarsýslu sem leiðbeinendur og tónlistarmenn.

Rússneska fimleikakonan Olga Korbut og hin rúmenska Nadia Comanechi lýstu því vel um síðir hvernig þær voru meðhöndlaðar eins og í þrælabúðum til að verða að alheimsstjörnum.

En þessi framleiðsla á stórstjörnum hefur í sumum tilfellum reynst vera tvíbent og snúist í höndum valdamanna.

Þannig flýði píanósnillingurinn Vladimir Askenazy til Vesturlanda og kom Ísland þar við sögu.

Hann, Garry Kasparov skáksnillingur og Vitaly Klitschko fyrrum yfirburðamaður og heimsmeistri í þungavigt í hnefaleikum, eru dæmi um afburðamenn sem hafa snúist gegn spilltum valdhöfum í fyrrum Sovétlýðveldum.

Hefur slíkt stundum verið orðað á þann hátt að segja að skepnan hafi risið gegn skapara sínum.

Þessir menn hafa komið valdhöfunum eystra í bobba, því að á sama hátt og allt hugsanlegt var gert fyrir þá til að gera þá að yfirburðaíþróttafólki, er erfitt að fara að snúa þessu alveg við.

Það er fallegt hjá Kasparov að sýna Bobby Fisher heiður, því að slíkt var ekki sjálfgefið. Á síðari árum var það margt miður fallegt sem Fisher hélt fram og sagði, en hitt verður þó ekki af honum tekið, að þegar hann stóð á hátindi getu sinnar, var hann hugsanlega öflugasti skákmaður allra tíma eða að minnsta kosti jafnoki Kasparovs þegar hann stóð á sínum hátindi.

Og á þessum blómatíma sínum bauð Fisher hinu mikla veldi Sovétríkjanna á sviði skákarinnar byrginn, nánast einn síns liðs.

Kasparov er því að heiðra fyrirrennara sinn í því að hræðast ekki hið mikla vald, heldur skora það á hólm.

Ég hef dáðst að framgöngu Vitalys Klitschko í Ukraínu, einkum vegna þess, að hann er ekki aðeins óhræddur við að ganga á hólm við spillt vald, heldur ekki síður óhræddur við að standa gegn ofstopamönnum í röðum stjórnarandstæðinga.

Hann og bróðir hans Wladimir, tveir langbestu þungavigtarboxarar heims síðustu tíu ára, hafa vakið aðdáun fyrir vitsmuni og menntun og bæði andlegt og líkamlegt atgerfi.

Þessir menn taka áhættu, sem þeir hefðu ósköp vel getað leitt hjá sér að taka með því að hvíla sig á lárviðarsveigum afreka sinna í staðinn.

Þeir vita hins vegar af því hve dýrmætu hlutverki þeir geta gegnt umfram marga aðra, því að jafnvel spilltir og valdamiklir menn hika við að ráðast að þeim vegna þess ljóma sem um þá leikur.

   


mbl.is Kasparov fór að leiði Fischers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband