Grundvallaratriði fyrir borð borin.

Eins og ég hef áður komið inn á, eru helstu þjóðgarðar og þar með náttúruvermæti Bandaríkjunum, "ríki frelsisins", í eigu ríkisins. Vandamál, lík þeim sem nú virðast í uppsiglingu um allt Ísland, hafa því ekki verið til lungann úr síðustu öld í Bandaríkjunum.

Í öllum þjóðgörðunum vestra kemur ferðafólk að myndarlegum og fallegum inngönguhliðum, borga þar fyrir aðgang og fá samstundis í hendur fallegan og ítarlegan, en fyrirferðarlítinn kynningarbækling með upplýsingum um þjóðgarðinn eða friðaða svæðið og náttúruverðmæti hans, og í bæklingnum eru líka nauðsynlegustu leiðbeiningar um það hverng best sé að njóta þess, sem borgað hefur verið fyrir.

Auðséð er að á öllum þessum umbúnaði að ferðamaðurinn fær strax að finna og sjá, hvað hann er að borga fyrir, fyrst með aðbúnaðinum og þjónustunni í innganginum og með bæklinginn í höndunum og síðan með öllum öðrum ráðstöfunum, afturkræfum göngustígum og fleiru, sem blasa við honum og hann notar á ferð sinni um svæðið.  

Ekkert af þessu virðist vera á döfinni varðandi þá bylgju sem nú rís vítt og breitt um landið varðandi gjaldtöku. Menn virðast ætla að æða af stað með ekkert í höndunum. En grundvallaratriðið ætti að vera að áður en gjaldtaka byrjar sé sé búið að gera nógu mikið á svæðinu til þess að öðlast velvilja ferðafólksins.

Við Geysi hafa risið óbein þjónustumannvirki, svo sem hótel, safn og sjoppa, sem landeigendur hljóta að hafa fengið tekjur fyrir í gegnum árin. Það hlýtur að vera hægt að búa svo um hnúta, annað hvort á vegum þeirra sjálfra eða í samvinnu við ríkisvaldið, að hægt sé að uppfylla þau grundvallarskilyrði, sem nefnd eru hér að ofan, ef loka á Geysissvæðinu og hefja þar gjaldtöku.  

Mörg náttúruverðmæti í öðrum löndum, líka í Bandaríkjunum, eru að vísu án gjaldtöku og girðinga, eftir því sem aðstæður kalla á.

Þannig er hægt að að skoða Laatefossinn og Væringjafossinn í Noregi án gjaldtöku, en hins vegar verður ferðafólk að borga fyrir salernis-, hreinlætisaðstöðu á þessum svæðum, ef hún er notuð, og við Væringjafoss er vinsælt hótel og veitingastaður, svipað því sem er við Geysi þar sem fólk borgar fyrir þá þjónustu sem er í boði.

Eitt vinsælasta ferðamannasvæðið í Bandaríkjunum, Minnismerkjadalurinn (Monumental valley) er án hliðs eða gjaldtöku, en á svæðinu er i boði ýmis þjónustuaðsstaða, sem þeir borga fyrir, sem þurfa á því að halda.

En alls staðar gildir einfalt lögmál viðskipta, að ef þú lætur peninga af höndum, færðu eitthvað í hendurnar í staðinn, eitthvað meira en bara það að þú fáir að rápa og glápa.  

 


mbl.is Heimilt að loka Geysissvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Túrbínutrixin" hlaðast upp.

Síðan árið 1970 hafa sífellt komið upp mismunandi afbrigði af "túrbínutrixi" sem þar var notað til að stilla mönnum upp við vegg gagnvart gerðum hlut, sem var sá að kaupa alltof stórar túrbínur í Laxárvirkjun og kenna öðrum um það að það vantaði rafmagn til að knýja þessar túrbínur.

Nýjustu "túrbínutrixin" eru þau, að enda þótt nýbúið sé að bæta við raforkukerfið heilli stórvirkjun, Búðarhálsvirkjun, við, þurfi enn fleiri virkjanir og risaháspennulínur um landið til þess að "bjarga" raforkunotendum.

Með því að keyra stóriðjuæðið áfram umfram getuna til að afhenda raforku, er mönnum stillt upp við vegg og heilu landshlutarnir teknir í gíslingu.

Maður hefði haldið að stækkun stærstu virkjunarinnar sunnan fjalla, Búrfellsvirkjun, væri efst á blaði.

Ó, nei, það eru auðvitað sóknaráformin inn í Þjórsárver, dráp þriggja stórfossa og gerð "mannvirkjabeltis" virkjana, vega og háspennulína norður Sprengisand, sem eru efst í forgangsröðuninni, af því að þannig virkar túrbínutrixið best og veldur mestum náttúruspjöllum þar sem mönnum er stillt upp gagnvart gerðum hlut.

 


mbl.is Virkja meira og bæta kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að snúa á "Stóra bróður". Kallar á endurbætur.

Í öllum flugvélum, sem notaðar eru í atvinnuskyni, og flestum einkaflugvélum eru svonefndir ratsjársvarar (transponder), sem í nútíma flugi eru ein mikilvægustu siglinga- og öryggistæki vélanna.

Ratsjársvarinn er sérbúnaður, þannig að enda þótt önnur fjarskiptatæki rofni eða flugmenn hafi ekki tök á að senda út neyðarkall um talstöð eða hafa önnur talstöðvarsamskipti, sendir ratsjárrvarinn út sérstakt merki fyrir viðkomandi flugvél þannig að flugumferðarstjórar geti séð hvar hún sé og hagað flugumferðarstjórn í samræmi við það.

Þar að auki er ratsjársvarinn neyðartæki að því leyti, að sé reynt að ræna vélinni, getur flugstjórinn látið hann senda út sérstakt neyðarkall.

Alvarlegt flugslys varð hér um árið þegar tvær vélar, Boeingþota og Embraer smáþota rákust saman yfir Amazon í Brasilíu. Ástæðan var sú að aðstoðarflugmaður í smáþotunni rak tána óvart í rofann, sem kveikir og slekkur á ratsjársvaranum, og slökkti á honum án þess að verða þess var, einmitt á versta augnabliki áður en vélarnar nálguðust og smáþotan datt út af ratsjá, þannig að forsendan fyrir notkun sérstaks aðvörunarkerfis í báðum vélunum, sem gefur aðvörun ef þær stefna of náægt annarri, brast algerlega.

Breytt var um hönnun smáþotunnar eftir slysið til að koma í veg fyrir að þetta gæti gerst aftur þegar slík vél ætti í hlut, en sú vél var af alveg nýrri gerð hjá Embraer verksmiðjunum.

Það er yfirleitt öllum í hag bæði í lofti og á jörðu niðrir að ratsjársvarar séu í notkun. En Murpyslögmálið segir, að ef eitthvað geti á einhvern hátt farið úrskeiðis, sama hve litlar líkurnar séu, muni það gerast.

Og það virðist hafa gerst í þessu tilfelli, því að í öllum flugvélum, smáum og stórum, er það flugmaðurinn sem kveikir á ratsjárvaranum, stillir hann inn á fyrirfram ákveðna stillingu, sem er táknuð með fjórum tölustöfum, getur stillt hann á þrjár stillingar, "standby", sendingar án upplýsinga um hæð, eða sendingar með upplýsingum um hæð flugvélarinnar og staðsetningunni líka.

Langlíklegast virðist að einhver hafi slökkt á ratsjársvara malasísku vélarinnar og hvort sem það hefur gerst eða ekki, er ljóst, að nú verða að koma til nýjar reglur um notkun þessa gríðarlega mikilvæga grundvallar öryggistækis, að minnsta kosti í öllu atvinnuflugi og á fjölförnum svæðum, sem tryggja, að ekki sé hægt að slökkva á ratsjársvara flugvéla meðan þær eru á flugi.

Kannski hafa menn haft í huga að koma ekki á umhverfi "Stóra bróður" í fluginu með því að flugmenn sjálfir önnuðust notkun ratsjársvaranna, hver í sinni flugvél.

En nú hefur Murphyslögmálið sýnt, að stórslys geta orðið ef óvart slokknar á ratsjársvara eða viljandi er slökkt á honum. Það kallar á endurbætur.  

Ýmsar sögur hafa verið á kreiki um flugstjóra malasísku þotunnar, til dæmis að hann hafi smíðað sjálfur eftirlíkingu af stjórnklefa og sýnt það á netinu og boðið mönnum inn í stjórnklefa á flugi, en það er bannað hjá viðkomandi flugfélagi.

Því er ekki hægt að útiloka að einhver af "vinum" hans í gegnum netið hafi auðveldað sér flugrán með því að láta bjóða sér inn í flugstjórnarklefann, þótt það virðist afar fjarstæður möguleiki.

En við rannsókn svona atvika er grunnatriði, að enginn möguleiki sé útilokaður fyrirfram, heldur séu allir skoðaðir og þannig séu möguleikar útilokaðir, einn af öðrum, þar til þeir raunverulegu liggja fyrir.


mbl.is Erfið leit orðin enn erfiðari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband