Mistökin að velja versta kostinn á versta tíma.

Viðræður við ESB eru búnar að "malla" í rólegheitum meira en ár. Hjá nokkrum ríkjum í Evrópu, svo sem Sviss og Möltu, hefur slíkt "mallað" mismunandi lengi.

Forystumenn stjórnarflokkanna mátt vita af áratuga langri reynslu í íslenskri og erlendri pólítík, að ástandið í landsmálum getur haft veruleg áhrif á byggðakosningar.

Dæmin frá 1958, 1978 og 1994 hefðu átt að nægja.

Þeir ákváðu hins vegar að fara í hasar í stórmáli í aðdraganda byggðakosninganna nú í stað þess að lofa því máli að malla að minnsta kosti fram yfir kosningar.

Eftir kosningar gátu þeir síðan skoðað í rólegheitum möguleika til þess að hafa tilbúna áætlun um viðræður við ESB, þar sem ópólitískum sérfræðingum yrði falið að leiða þær, líkt og gert var í Icesave samningunum.

Þegar slík áætlun var tilbúin, gátu þeir efnt kosningaloforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu og sömuleiðis staðið við það sem þeir sögðu fyrir kosningar, að enginn "ómöguleiki" þyrfti að koma í veg fyrir svona málsmeðferð.

Þeir misreiknuðu áhrifin af þessu frumhlaupi, vilja þjóðarinnar og það að þeir eru kosnir sem þjónar hennar, en ekki öfugt, og að kröfunni um möguleika á meira beint lýðræði veg ásmegin.

Það ætti enn að vera mögulegt að finna lausn á þessum máli, og hvað stjórnarflokkana snertir, hljóta áhrifin á byggðakosningarnar að vega þungt við að finna slíka lausn sem bjargar því sem bjargað verður.


mbl.is „Það hefur ekkert verið ákveðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjan þarf sitt.

80% raforkuframleiðslu á Íslandi fer til stóriðju og það veldur því að jafnvel 10% skerðing á raforku til hennar jafngildir hvað orkumagn snertir 40% skerðingu allrar þeirrar orku, sem fer til annars í landinu.

Talað er um að það verði að reisa risaháspennulínur á milli landshluta til þess að auka afhendingaröryggi til okkar sjálfra. Það stenst ekki, því að aðeins vegna hins rómaða "orkufreks iðnaðar" verður að hafa línurnar svona risastórar og umhverfisspjöllin af þeirra völdum svona mikil.

Eftir sem áður héldi áfram vanræksla á héraðslínunum, sem farið hafa verst út úr óveðrum síðustu ára.

Talað er um að sæstrengur til Evrópu myndi hafa breytt stöðunni núna, en þá er því sleppt að svona orkuskortur hér á landi kemur yfirleitt ekki í ljós fyrr en á útmánuðum, en þá er líka mesta orkunotkunin í Evrópu og orkuverðið hæst.

Nú barma íslensk fyrirtæki eins og Frostfiskur sér yfir háu orkuverði vegna orkuskorts, en orkan, sem fengin yrði frá Evrópu um sæstreng, yrði seld hingað á hæsta verði hvers árs ef um algerlega frjálsa orkuverslun yrði að ræða, og einnig á allt að helmingi hærra verði en nú er allt árið.


mbl.is Orkuskortur setur 190 störf í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur óvenju margar spurningar. Rænt án vitneskju áhafnar?

Dularfullt hvarf Amailiu Erhardt 1937 vakti ótal spurningar og vekur enn í dag. Kenningarnar um það sem gerðist voru fjölbreytilegar og meðal annars var því velt upp hvort Japanir hefðu rænt henni.

Eins og oft vill verða þegar um dáð og heimsþekkt fólk var að ræða, voru meira að segja uppi kenningar um að hún kynni að vera á lífi mörgum áratugum eftir hvarfið.

Nú eru á sveimi vangaveltur um tengingu hvarfs vélarinnar við þjóðfélags- og stjórnmálaástandið í Malasíu.

Við Íslendingar þekkjum það, hve mikil viðurkenning okkur þótti það vera fyrir sjálstæði okkar og þjóðarheiður þegar okkar flugfélögum gekk vel í samkeppni við flugfélög stórþjóðanna.

Einkum þótti uppgangur Loftleiða rós í hnappagat okkar.

Svipað hefur átt sér stað um ýmis lönd, sem talin hafa verið vanþróuð.

Eþíópía er eitthvert fátækasta land heims og afar vanþróað. Þar ríkir í raun einræði, sem meðal annars byggist á því að halda vinfengi við Bandaríkin.

Í landinu, þar sem búa 250 sinnum fleiri íbúar en á Íslandi, eru samtals aðeins um 20 flugvélar sem ríkisflugfélagið Ethiopian Airlines á ekki og grimmar hömlur hafa ríkt um allt flug þar í landi.

Hins vegar er Flugfélag Eþíópíu eina nútímalega fyrirbrigðið sem þessi þjóð gertur státað af, sannkallað þjóðarstolt.

Öll flugtækni í Eþíópíu hefur komið frá Bandaríkjunum, en þangað hefur verið leitað til að skapa flugstarfsemi sem gefi ekkert eftir því besta sem tíðkast í öðrum löndum.

Svipað hefur átt við um flugstarfsemi í öðrum ríkjum, þar sem er fátækt og lélegt og óróasamt stjórnarfar, að reynt hefur verið að hafa starfsemi flugfélaganna þar, oftast aðeins eins flugfélags í hverju landi, þannig að fullt traust alþjóðlegt traust hafi skapast á því.

Rannsóknin á hvarfi malasísku þotunnar hefur hins vegar leitt í ljós bresti, sem varpa skugga og efasemdum á flugöryggi í landinu og starfsemi flugfélagins sjálfs.

Meðan ekkert meira kemur í ljós en að flugvélinni hafi líklegast verið rænt af einhverjum um borð, jafnvel flugstjórunum sjálfum, eru möguleikarnir á því og ástæðum þess næstum óteljandi.

Hugsanlegt kann til dæmis að vera að átt hafi að fljúga vélinni til einhvers lands og að þegar farþegarnir um borð hafi áttað sig á því hafi orðið uppreisn meðal þeirra og þeir reynt að grípa í taumana, svipað og gerðist í einni af þotunum, sem rænt var 11. september 2001.

Þessar örvæntingaraðgerðir farþeganna mistókust og þotan hrapaði til jarðar í Pennsylvaníu og fórst með manni og mús.  

2001 leiddu farsímasamtöl óttasleginna farþega atburðarásina í ljós, en þess ber að gæta, að þotan var yfir Bandaríkjunum og því afar gott farsímasamband.

Annað kann að hafa verið uppi á teningnum ef malasíska þotan hefur verið komin langt út á haf. Hún hafði víst sjö tíma flugþol og vegna þess að alllangt flug var hvort eð er fyrir höndum gat hún verið komin ansi langt þegar farþegunum varð ljóst að ekki væri allt með felldu.

Hafi flugstjórinn, annar eða báðir, staðið fyrir því að fljúga af leið, gátu þeir gert það án þess að aðrir í áhöfninni yrðu þess varir og miðlað fölskum upplýsingum til farþega.    

 


mbl.is Rannsaka flughermi flugstjórans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband