Hvaða áhrif höfðu verkföllin á brottfallið í heild ?

Það er þekkt staðreynd að brottfall úr framhaldsskólum er meira hér á landi en í öðrum löndum. Fróðlegt væri að vita hvort tíðni verkfalla í þessum skólum sé ekki líka miklu meiri.

Og af því leiðir að líka væri fróðlegt að vita hvort fylgni sé með þessu tvennu og til dæmis, hvort brottfallið hafi verið meira á sama tímabili og verkföllin voru tíðustu.

 Ummæli Óttars Proppé á Alþingi í dag hafa vakið verðskuldaða athygli og margt vitlausara hefur verið gert en að kafa niður í þessi mál, að ekki sé nú talað um að koma þessu fári af okkur.  


mbl.is „Þýddi að ég leiddist út í pönk og pólitík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hálfvitunum" fjölgar.

Það er ekki út í hött að kalla turninn við Höfðatorg "Hálfvitann", fyrir að ryðjast inn í sjónlínu innsiglingarvitans í turni Sjómannaskólans og skerða gagn sjófarenda af honum.

Svona "hálfvitar" virðast njóta vaxandi vinsælda fyrst annar á að rísa við Skúlagötu og ryðjast líka inn í sjónlínu Sjómannaskólavitans.

Spurning er, hvort ekki hefði verið rétt að láta þá sem reisa nýja hálfvita borga kostnaðinn af gerð nýs innsiglingavita fyrir Sjómannaskólavitans.

Þegar Hálfvitinn reis við Höfðatorg var sagt að ekki væri hægt að gera neitt varðandi tilvist hans eftir á.

Nú verður líklega það sama sagt um nýja hálfvitann og fer þá að verða verkefni að finna heiti yfir þá, sem bera ábyrgð á þessu eða hliðstæðum fyrirbærum. Eða að finna líka heiti yfir þá sem hafa smám saman komið því svo fyrir að enginn beri helst ábyrgð á einu eða neinu.


mbl.is Nýr turn kallar á nýjan vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvarf malasísku þotunnar er að verða einsdæmi.

Þau hvörf fólks, flugvéla, skipa og annarra farartækja verða fréttnæmust og mest umrædd, jafnvel áratugum og öldum saman, þar sem ekki finnst tangur né tetur af neinu og slysstaðurinn getur verið á afar stóru svæði.

Ef ekkert finnst, sem getur leyst gátuna um hvarf malasísku vélarinnar, stefnir hvarf hennar í það að verða hið magnaðasta í sögu flugsins.

Það hafa orðið stór hvörf þar sem ekkert hefur fundist þegar flugvélar eða skip farast, svo sem hvarf togarans Júlí með 30 mönnum á Nýfundnalandsmiðu, í febrúar 1959, en frásagnir skipverja á öðrum skipum þar í grennd í lífshættulegu ofsaveðri útskýrir hvarf Júlís sem og síðustu fjarskiptin við hinn dauðadæmda togara.

Þótt beinar orsakir fyndust ekki fyrir hvarfi sovéskrar flugvélar á leið frá Keflavík 1970, er nokkurn veginn vitað hvar hún hvarf, af því að brak fannst úr vélinni.

Svipað gerðist 2009 þegar AF 447 týndist á Suður-Atlantshafi í þrumuveðri og tveimur árum síðar voru orsakir þess slyss upplýstar að fullu.

Hvarf Amalíu Erhardt á flugi yfir Kyrrahafið 1937 hefur lengi trónað á toppi listans yfir stærstu hvörf flugsögunnar, en það er fyrst og fremst vegna frægðar þessarar frægustu flugkonu allra tíma.

Vitað var fyrirfram að svo langt flug yfir stærsta úthaf jarðar væri áhættuspil og langlíklegast er að því hafi valdið einhvers konar bilun í vélinni eða þá "elsta bilun í heimi", eldsneytisleysi.

Nú má telja alla von úti um að malasíska þotan sé einhvers staðar í felum eða heil og óskemmd vegna þess að um er að ræða stærstu tveggja hreyfla farþegaþotu heims, sem er tvisvar sinnum stærri vél en Boeing 757 þotur Icelandair og þyrfti því stóran flugvöll til þess að fela hana á.

Það er alltaf óþægilegast þegar engin minnstu merki finnast um hvarf fólks eða farartækja. Þess vegna lifa sagnir um slíkt áratugum og öldum saman svo sem hvarf séra Odds á Miklabæ og hvörf Guðmundar og Geirfinns.

Stórkostlegt öryggi í flugsamgöngum okkar tíma byggist á rannsóknum á slysum, sem hafa leitt til umbóta í öryggisátt. Meðal annars þess vegna er svo erfitt að sætta sig við það að ekkert liggi fyrir um afdrif malasísku þotunnar með hátt á þriðja hundrað manns um borð.

Svo mörg atriði, ein og sér eða mörg saman í óvenju fjölbreytilegu samhengi, koma til greina í leit að útskýringum, að einstakt er, og á okkar tímum er líka einstakt hvað svæðið er stórt sem kemur til greina varðandi það, hvar flak vélarinnar er að finna.  

Af hverju barst ekkert neyðarkall?

Margar ástæður geta legið til þess.

Forgangsröð í flugi er að flugstjórinn hverju sinni sé með það númer eitt í forgangi að fljúga vélinni, þ. e. að sjá til þess að vængirnir haldi lyftikrafti og hafa stjórn á henni eftir því sem unnt er, sama á hverju gengur, til dæmis ef vélin hefur misst afl og hæð.

Það gæti verið ástæðan til þess að flugmennirnir sendu aldrei út neyðarkall.

Ef aðdragandinn var sá flugræningjar létu fljúga vélinni í lítilli hæð eða flygju henni þannig sjálfir til að felast, gátu möguleikar á að ná sambandi verið litlir sem engir.

Og það hefði líka átt við um farsímasamband ef farþegarnir reyndu að ná sambandi eins og gerðist 11. september 2001 í aðdraganda þess að ein af rændu þotunum fórst án þess að komast í færi við Hvíta húsið. Þar að auki er vélin í langflugi að nóttu til þegar farþegar vilja helst sofa, en 11. september 2001 var vélin á flugi um hábjartan dag yfir byggðu landi.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um sjólag, ef vélin hefur lent í sjónum, en þess má geta að í eina skiptið sem ég sigldi, þá aðeins 14 ára, til Kaupmannahafnar, var sjórinn spegilsléttur frá Færeyjum til Hafnar.  

Og fræg nauðlending á Hudsonánni í New York fyrir nokkrum árum sýnir, að vél getur nauðlent á vatni eða sjó, án þess að brotna.

Sé svo, er veik von að hægt verði að finna flakið með sónar.

Hafi hún splundrast er líka veik von að brak finnist.

En hafi hún lent með vængenda fyrst í sjónum, kann hún að hafa brotnað þannig að lítið sem ekkert brak finnist úr henni og að erfitt verði að finna einstaka hluta hennar á hafsbotni.

Ég tel ekki ólíklegt að hvernig sem fer, verði í framtíðinni búið svo um hnúta að ratsjársvarinn í flugvélum, sem er alveg óháður öðrum fjarskipta- og siglingatækjum, fari sjálfkrafa í gang við flugtak í farþegaflugi og slökkvi ekki á sér fyrr en flugvélin hefur lent.

Reynist það vera til bóta fórst malasíska vélin ekki alveg til einskis jafnvel þótt málið verði stærsta gátan af sínu tagi.   

 

   


mbl.is Vél á leið frá Keflavík hvarf 1970
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stopp! - Gætum garðsins!

Eftirminnilegt síðdegi og kvöld eru að baki, frumsýning á stórmyndinni um Nóa, þar sem íslenskt landslag naut sín vel og síðan glæsilegir tónleikar í Hörpu.

Á slíkum degi hreyfir margt við huga manns og þetta spratt fram:

 

Stopp! - Gætum garðsins,

grassins og móabarðsins,

blómanna´og yndisarðsins

af útsýni fjallaskarðsins !

 

Stans! - Gætum fossa og flúða

með fegursta regnbogaúða

sem bylgjast um bergrisa prúða

og breiður af rósanna skrúða !

 

Djörf - grípum glaðbeitt til varna,

þótt grimm muni baráttan harðna !

Vort líf, það sé leiðarstjarna

landsins framtíðarbarna !

 

Heyr - Íslands herlúðra gjalla,

sem heita á landvætti alla

og lýð milli fjöru og fjalla

að friða -  í stað helgispjalla !

 

Kom  - í dýrð íssins og eimsins

í unaði bláfjallageimsins

og algleymi andlega seimsins

á Íslandi, gersemi heimsins !


mbl.is Sungu fyrir náttúru Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband