Væri óhugsandi í Bandaríkjunum.

Það væri gersamlega óhugsandi í Bandaríkjunum að opinber stofnun, hvað þá einkafyrirtæki, fengi leyfi til að eyða fjármunum í að rannsaka virkjanakosti í helstu þjóðgörðum landsins.

Sá sem myndi minnast á virkjanir í Yellowstone myndi vera álitinn genginn af göflunum, svo almenn er viðurkenning Bandaríkjamanna á því að sá þjóðgarður með allri sinni óhemju jarðvarma- og vatnsorku væri "heilög vé" eins og einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í jarðvarmavirkjunum orðaði það.

Þó hefur nú komið í ljós að hinn eldvirki hluti Íslands er mun meira virði sem náttúruverðmæti en frægasti þjóðgarður Bandaríkjanna.  

Orkustofnun kastar sér á bak við ákveðna túlkun orðalags varðandi það að leita eftir sem ódýrustum útfærslum á virkjanakostum.

Þetta gengur ekki. Eyða þarf allri óvissu, til dæmis með lagabreytingum um það að hægt sé að halda til streitu fjárútlátum og áformum um virkjunum á borð við virkjanir Detttifoss, Gullfoss, Geysis, Kerlingarfjalla, Torfajökulsvæðisins og annarra svæða, sem eru í verndarflokki.


mbl.is Segja aðgerðir Orkustofnunar vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmennustu "vesalingar" heimsins.

'Gunnar Hansen, leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur upp úr miðri síðustu öld, var framsýnn maður og stórhuga. Hann lét sig ekki muna um það að skrifa leikgerð að Vesalingunum eftir Victor Hugo og færa þetta stórvirki á svið í þessu litla leikhúsi.

Sýningin tók meira en þrjár klukkustundir og var óhemju flókin og erfið.

Gunnar ákvað að gera götustráknum Gavroche góð skil í leikritinu, og lét hann, þegar tjaldið var dregið frá eftir hlé, standa uppi á götuvígi og flytja þrumu hvatningarræðu til stúdentanna og uppreisnarmannanna sem unnu við að hlaða það.

Gunnar rökstuddi það ítarlega fyrir mér, aðeins tólf ára þá, hve þetta hlutverk væri mikilvægt, því að af vesalingum heimsins, þeim sem minna mega sín, væru götubörnin verst sett, og með stækkandi borgum myndi þeim fjölga mest.

Hann reyndist sannspár, því að á okkar tímum eru götubörnin í fátækrahverfum stórborganna að verða stærsti einstaki þjóðfélagshópurinn sem líður hungur og neyð.

Þetta ástand getur ekkert nema versnað á þessari öld sem ber því miður með sér öll merki komandi hnignunar, nema algert kraftaverk komi til.


mbl.is „Villibörn“ fundust í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnignun fleiri auðlinda á þessari öld.

Þótt vatn og orka séu miklar og mikilvægar frumauðlindir fyrir mannkynið mun fara að ganga alvarlega á fleiri auðlindir á þessari öld. Einn þeirra er fosfór, sem er afar mikilvægt efni á mörgum sviðum, svo sem í landbúnaði.

Í frétt frá Sameinuðu þjóðunum er talað um "aukinn fólksfjölda og vaxandi hagkerfi" sem orsök yfirvofandi alheimskreppu.

Eins og fjallað var um í bloggpistli hér á síðunni fyrir tveimur dögum, eru "aukinn fólksfjöldi og vaxandi hagkerfi" trúarbrögð í löndum heims, nú síðast á kynningarfundi Landsnets, þar sem lögð var þung áhersla á að þetta tvennt þyrfti að auka og að það væri forsenda fyrir byggð í landinu og því takmarki að lífskjör hér yrðu aftur eins og þau voru 2007, hin bestu í heimi.

Hvergi er að sjá þótt leitað sé með logandi ljósi viðleitni til að finna leið B í efnahagsmálum heimsins, þar sem ráðist er gegn orsökum yfirvofandi hruns, fólksfjölgun og veldishlöðnum hagvexti.

Dagur vatnsins mun öðlast hækkandi sess eftir því sem árin líða. Það var ekki út í hött að Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð á þeim degi 2007 og á því sjö ára afmæli í dag.

Fáir dagar eru betur til þess fallnir að varpa ljósi á mikilvægustu viðfangsefni mannkynsins.

 

.


mbl.is Framtíðina mun skorta vatn og orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíll sem vekur ólíkar tilfinningar í mismunandi löndum.

Frambyggðir Rússajeppar af gerðinni UAZ 452 vekja vægast sagt ólíkar tilfinningar í mismunandi löndum.  Rússabrauð

Bíll af þessari gerð boðar ást og frið í anda hippatímabilsins fyrir utan félagsheimilið Hvolsvelli.

Við Íslendingar eigum afar góðar minningar um þennan notadrjúga, einfalda og ódýra bíl, sem í heimalandinu fæst með innréttingu sem rúmar allt að ellefu manns í bíl, sem er aðeins 4,36 metra langur, eða álíka langur og fólksbílar í svonefndum Golf-stærðarflokki. Rússabrauð 1

Ég held mikið upp á einn slíkan, þennan gráa sem myndin er af hér fyrir neðan en hann geymi ég sem kandidat fyrir Naumhyggjubílasafn.

Eins og sést, eru glugggatjöld fyrir gluggum, hans,  því að hann er ódýrasti húsbíll landsins og dugði mér vel sem "hótel Norðausturland" við kvikmyndagerð í þeim landshluta á árunum 2008-2011.

Þessir bílar eru byggðir á sömu megingrind og undirvagni og hinir rómuðu Rússajeppar, GAZ 69, sem komu fyrst til Íslands 1956 og urðu geysivinsælir fyrir undramjúka blaðfjöðrun, þá langbestu í heiminum, skynsamlega hönnun og afar góða torfærueiginleika. GAZ´69´66

Einn þeirra geymi ég norður við Mývatn, enda voru þetta ódýrustu jepparnir á markaðnum hér frá 1956 fram undir 1970, þegar yfirbyggingunni var breytt en undirvagninn áfram sá sami og bíllinn hlaut heitið UAZ 469.

Hann er framleiddur enn í dag, en síðustu árin undir heitinu UAZ Hunter og er með nýrri yfirbyggingu.

Upp úr 1970 komu síðan frambyggðu UAZ 452 bílarnir til skjalanna og urðu mjög vinsælir sem skólabílar úti á landi og verktakabílar.

 Þeir eru enn framleiddir eins og jeppinn sjálfur og eru enn í dag einir af burðarásum rússneska hersins. uaz_469_a1273815021b3632295[1]

Þar af leiðandi eru þeir ekki alls staðar vel þokkaðir, heldur þvert á móti.

Því kynntist ég óvænt á þeim árum sem Pólverji einn á bílaverkstæðinu Knastási sá einna helst um viðhald á Fiat 126 örbílum mínum, sem bera heitið "Maluch" í Póllandi og gegndu svipuðu hlutverki þar í landi og Trabant í Austur-Þýskalandi.

Eitt sinn kom ég á "Rússabrauðinu" og átti von á því að Pólverjin yrði mjög hrifinn. En mér til mikillar undrunar gerbreyttist viðmótið hjá þessum ljúflingi og hann varð sár, móðgaður og reiður.

"Ég vil ekki sjá þetta helvíti hér!" hrópaði hann, "og í guðanna bænum láttu aldrei sjá þig aftur á honum hér!"

Ég hváði og spurði hvers vegna þessi bíll vekti svona hörð viðbrögð hjá honum.

"Skilurðu það ekki!" hrópaði hann. "Þessi andskotans bíll er tákn um kúgun Rússa í Póllandi á árum Kalda stríðsins. Þeir komu á svona bílum til að fremja ofbeldisverk sín! Þeir kalla fram mjög slæmar minningar! "

Skyndilega rann upp fyrir mér ljós og ég sá fyrir mér allar fréttamyndirnar frá aðgerðum Sovétmanna í Afganistan og fleiri löndum, þar sem frambyggði Rússajeppinn lék stórt hlutverk.

Rússajepparnir eru enn framleiddir nokkurn veginnn óbreyttir í Rússlandi að undanskilinni vélinni gormafjöðrun á framöxlinum.

Nú eru þeir sennilega að fá á sig svipaða mynd í augum Úkraínumanna og í augum fleiri nágrannaþjóða Rússa.  

 


mbl.is Ást og friður á Hvolsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband