Hvað næst? Virkjanir í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum?

Þegar sú grein laga og reglna um Orkustofnun sem varðar skyldu hennar til að rannsaka alla hugsanlega virkjunarkosti er túlkuð þröngt er augljóslega komið út á braut fáránleikans í virkjanaæði landsmanna, sem ég get ekki ímyndað mér að eigi neina hliðstæðu í öðrum löndum.

Einkum er þetta fáránlegt þegar þess er gætt að rannsóknir og vinna varðandi alla þessa virkjankosti á helstu náttúruverðmætasvæðum landsins kostar mikið fé og vinnu.

Hitt er líka vitað að virkjanafíklarnir hafa stundað það að eyða sem mestu fé í rannsóknir til þess að geta sagt síðar, að úr því að eytt hafi verið svona miklum fjármunum í þetta, megi ekki "eyðileggja" þessar fjárfestingar.

Þetta afbrigði af "túrbínutrixinu" hefur verið notað í áratugi og hefur gefist virkjana- og stóriðjutrúarmönnum vel.

Að setja upp net ígilda Hellisheiðarvirkjunar í Kerlingarfjöllum og við Torfajökul, skrúfa fyrir þrjá stórfossa í Þjórsá, fara með virkjun inn í Þjórsárver og keyra stórar jarðvarmavirkjanir ofan í kokið á Hvergerðingum er alveg á pari við það að virkja í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum.

Vel má hugsa sér "snyrtilega" stíflu við suðurenda Þingvallavatns til að hækka fallhæð og auka afl Steingrímsstöðvar á ódýran hátt, en myndi jafnframt sökkva Þingvöllum.

Ef lög um Orkustofnun eru túlkuð þröngt ætti hún auðvitað að bruna af stað í rannsóknir á þessu og heimta að það fari inn í 3ja áfanga rammaáætlunar og jafnvel mætti hugsa sér að bora "rannsóknarboranir" fyrir norðan Þingvelli til að ganga úr skugga um hagkvæmni jarðvarmavirkjunar þar.

Að ekki sé nú talað um boranir í Öskju og Kverkfjöllum, enda eru Fremri-Námur nyrst í Ódáðahrauni nú á dauðalista stofnunarinnar.

Nú eru litlar líkur á gosi í Eyjafjallajökli og næsta nágrenni hans. Er þá ekki tilvalið að nota tækifærið og "lögbundið hlutverk" til að vaða þangað upp eftir og byrja að bora?   


mbl.is Sinnir lögbundnu hlutverki sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgar í veðurfarinu setja margt úr skorðum.

Hlýnandi lofthjúpur hefur valdið meiri öfgum í veðurfari en áður var að mati Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og þar af leiðandi meiri mótsögnum.

Ein mótsögnin er sú að þrátt fyrir þá meginlínu að íslensku jöklarnir séu að minnka, en afleiðing af því ætti að vera að þeir skili af sér meira leysingavatni en áður, hefur vatnsskortur hamlað rekstri Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar.

Fyrsta áratug þessarar aldar var vatnsbúskapurinn góður og það kom til dæmis fyrir að vatn fór að renna á yfirfalli Kárahnjúkastíflu strax seinni partinn í ágúst.

En síðustu tvö ár hefur þetta breyst. Samt voru snjóalög mikil á vatnasvæði Hálslóns í fyrravor eins og meðfylgjandi myndir eiga að sýna og mikill snjór, sem leystist upp í júní.

Í ár eru það hins vegar vatnasvæði Tungnaár, Þjórsár og Blöndu sem hafa brugðist vegna dæmalausa staðviðra fyrstu mánuði ársins sem sífelldum austlægum áttum, þar sem eystri hluti og suðurhluti Vatnajökuls hafa tekið til sín mestalla úrkomu, sem borist hefur til landsins. 

Svo er að sjá að Hálslón hafi, þrátt fyrir slappa stöðu, bjargað því sem bjargað varð hinum megin á landinu.

Sú spurning vaknar hvort eitthvað hafi vantað útreikninga Landsvirkjunar og / eða upplýsingar um þá.   


mbl.is Tap Landsvirkjunar gæti orðið meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin, sem átti að fara strax.

Trausti Sveinsson bóndi á Bjarnagili í Fljótum barðist fyrir því á sínum tíma að í stað svonefndra Héðinsfjarðarganga yrðu gerð tvenn jarðgöng sem leystu samgönguvanda Siglfirðinga og Ólafsfirðinga í allar áttir í einum pakka, það er, göng milli Siglufjarðar og Fljóta og önnur göng frá Fljótum yfir í Ólafsfjörð, og hann kallaði þessa lausn Fljótaleið.

Trausti taldi þessa lausn ekki dýrari en Héðinsfjarðargöngin, en alþingismenn Norðurkjördæmis eystra einblíndu á þrönga hagsmuni innan síns kjördæmis og af einhverjum ástæðum voru forsendur fyrir Fljótagöngunum gerðar þær að gangamunnarnir yrðu að vera talsvert neðar en á öllum öðrum göngum á landinu, en þannig var hægt að fá þá niðurstöðu að göngin yrðu mun lengri en ella.

Þingmennirnir beittu öllum klækjabrögðum í bókinni til þess að þvinga sitt fram.

Eini gallinn við Fljótaleiðina var sá að leiðin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar yrði 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng ef ég man rétt, en að öðru leyti höfðu Fljótagöngin yfirburði á öllum sviðum, einkum hvað varðaði það að stytta heilsársleiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar um allt að 15 kílómetra og leiðina frá Ólafsfirði til Skagafjarðar líka um minnst 15 kílómetra og gera hana að heilsársleið.

Sem sagt, bestu fáanlegar samöngur í allar áttir og virt sú sérstaða og verðmæti Héðinsfjarðar að vera eini eyðifjörðurinn í þessum landshluta með þeim töfrum, sem því fylgir.  

Nógu umdeilt var það á sínum tíma að fara í Héðinsfjarðargöng og láta göng á Vestfjörðum og Austfjörðum sitja á hakanum í staðinn.

Nú þegar eru komin þrenn jarðgöng á leiðunum að austan og vestan til Siglufjarðar þegar Strákagöng eru talin með, og því miður er hætt við því að enn umdeildara verði nú að fara að bæta við fjórðu göngunum þangað heldur muni menn segja við Siglfirðinga: Þið vilduð fara þá leið sem farin var og þið verðið sjálfir að taka afleiðingunum af því, sem voru fyrirsjáanlegar. 


mbl.is Vill jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband