Bubbi í Bítlum síns tíma: Jón frá Ljárskógum.

Það liðu ekki mörg ár frá stofnun Ríkisútvarpsins þar til hér á landi kom til sögunnar nokkurs konar ígildi Bitlanna að vinsældum, söngkvartettinn M.A. kvartettinn, skipaður kornungum mönnum, rétt eins og Bítlarnir voru 30 árum síðar.

Bítlarnir höfðu Lennon og Mc Cartney og 50 árum síðar höfðu Utangarðsmenn Bubba, en M.A. kvartettinn hafði Jón frá Ljárskógum, skáld, þýðanda og þrumugóðan bassasöngvara, ekki bara vegna þess hve fallega röddin hljómaði þegar hann söng einn, heldur ekki síður hvernig hún "klæddi og umvafði þann hljóm sem kom úr þessum frábæra sönghópi.

Í dag eru hundrað ár frá fæðingu Jóns, sem fékk skæða berkla aðeins 28 ára gamall og lést 31. árs, mikill harmdauði öllum Íslendingum.

Mínar fyrstu bernskumininngar tengjast Jóni, sem var frændi minn í föðurætt, og Bjarna Runólfssyni í Hólmi, sem var ömmubróðir minn, en minningin er klökk, því að báðir létust þeir langt um aldur fram, Bjarni árið 1938 og Jón árið 1945, og báðar ættirnar voru enn í sárum þegar ég man fyrst eftir mér.

Jón tengist mér enn frekar vegna þess að ég var ekki nema 3ja til 4ra ára gamall þegar fullorðna fólkið hafði af því skemmtan að setja mig upp á stól eða borð og láta mig syngja fyrsta lagið mitt sem skemmtikraftur, en það var lagið "Rokkarnir eru þagnaðir".

Að því leyti byrjaðí ég ferilinn sem nokkurs konar "rokk"-söngvari.

Kannski var lagið um rokkana svo hugstætt fyrir mig fyrir ljóðlinurnar sem móðir mín hafði dálæti á, annars vegar "..og láttu þau ekki sjá  / hve augun þín eru / yndisleg og blá.." og  "bráðum kemur dagurinn með birtu og stundarfrið. /  Þá skal mamma syngja um sólskinið."  

Ég man varla eftir þessu, því að ég gerðist alveg fráhverfur svona upptroðslum fyrir fimm ára aldur, var mjög feiminn þótt einhverjum kunni að finnast það ótrúlegt nú.

Með ólíkindum er hve mikið liggur eftir Jón frá Ljárskógum frá jafn stuttri ævi, og margt af því er gott og hefur staðist vel tímans tönn. Þegar ég las ljóðmæli hans öll fyrir nokkrum árum varð ég hrifinn af því hve fjölbreytt þau eru, því að flestir kannast aðeins við sígildu söngvana sem enn eru sungnir.

Til dæmis er ljóð hans um Heimsstyrjöldina síðari sérstaklega vel ort og meitlað.

Ég hneigi höfuðið djúpt í þökk fyrir að hafa átt svo stórkostlegan frænda og þökk til þeirra sem minnast hans á ýmsan veg þessa dagana, þótt ekki gefist mér tækifæri vegna fermingar dóttursonar, til að fara vestur í Búðardal á morgun og hitta ýmis skyldmenni mín og vini.

Sendi þeim mínar bestu kveðjur.   


"Ég var í báli´og blossa..."

"Ég var í báli´og blossa /

á bak við háa krossa,  /

hann kyssti mig átján kossa  /

í kirkjugarðinum..."

 

Þessar ljóðlínur úr gamanbragnum "Ó vertu´ei svona sorró.." söng Alfreð heitinn Andrésson gamanleikari af ógleymanlegri snilld fyrir sjö áratugum í gervi ófríðu nýtrúlofuðu stúlkunnar sem allt í einu gekk út með tilkomu 50 þúsund manna herliðs stríðsáranna.

Þótt kirkjugarðar séu að sjálfsögðu helgir reitir friðar og dýrmætra minninga og eftirsóknarvert að virða helgi þeirra, getur ýmislegt misjafnt átt sér það stað eins og annars staðar.

Svavar heitinn Gests sagði einu sinni gamansögu tengda kirkjugarði á Kútmagakvöldi Lionsklúbbsins Ægis:

"Þeir Pétur og Óli voru aldavinir og miklir gleðimenn en aldurinn fór að sækja að þeim. Einn dag sagði Pétur við Óla: Nú fer að styttast í þessu hjá mér svo að ég ætla að biðja þig einnar bónar: Ef ég fer á undan þér, viltu gera það fyrir vináttu okkar og ógleymanlegar minningar og þakkir fyrir ótal gleðistundir okkar að laumast út í kirkjugarð að gröf minni að lokinni jarðarförinni, eftir að allir eru farnir, og hella úr vískíflösku yfir leiðið mitt ?"  

Óli svaraði: "Já, þetta skal ég gera með ánægju en væri þér nokkuð á móti skapi þótt ég renndi innihaldi flöskunnar fyrst í gegnum nýrun?   


mbl.is Gómaðir við fíkniefnaviðskipti í kirkjugarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um stefnuljósin ? "Friðhelgi einkalífsins".

Líklega eru ein tvö til þrjú ár síðan lögreglan í Reykjavík gerði smá rassíu part úr degi vegna þess ástands, sem ríkir varðandi stefnuljós hjá ökumönnum. En síðan hefur ekki orðið vart við slíkt en miklar fréttir hins vegar fluttar af hraðamælingum, sem er svosem gott og þarft framtak út af fyrir sig.  

En stefnuljósarugl og vanræksla í notkun þeirra, of hægur akstur og önnur atriði sem benda til mikillar áherslu okkar Íslendinga á að njóta lögverndaðrar friðhelgi einkalífsins í umferðinni, virðast fá að blómgast í friði.    

Á hverjum degi veldur ruglingur og kæruleysi um notkun stefnuljósa töfum, vandræðum og hættu í umferðinni því að þetta blasir við á hverjum degi um alla borg í hvert skipti sem ekið er í umferðinni.

Nú síðast í dag beið röð bíla eftir því að taka beygju til vinstri á fjölförnum gatnamótum, sem ég var staddur á. Á móti bílaröðinni kviknað heilt grænt ljós til merkis um að taka mætti beygjuna að því tilskildu að umferðin beint á móti hefði forgang.

Þeir ökumenn, sem komu úr þeirri átt og ætluðu að beygja í sömu átt, gáfu hins vegar ekki stefnuljós heldur héldu bílunum, sem biðu, í gíslingu, algerlega að ástæðulausu, því að um tvær akreinar var að ræða á götunni sem beygt var inn á og því auðvelt að láta umferðina blandast þar.

Enginn í fyrrnefndri röð, sem beið, komst því yfir. Nú kviknaði grænt beygjuljós með ör við hliðina á heila græna ljósinu sem gaf til kynna að bílaröðin fyrrnefnda ætti forgang í að beygja til vinstri.

En ökumaður fremsta bílsins nýtti sér það ekki heldur stóð kyrr hélt allri röðinni fyrir aftan sig þangað til rautt ljós var komið, þannig að bæði grænu ljósin voru einskis virði !

Erlendis, þar sem ævinlega eru gefin stefnuljós, hefðu minnst tveir bílar komist yfir á heila græna ljósinu í þessu tilfelli og minnst fimm á ljósinu með örinni, eða alls sjö. En á Íslandi enginn !

Ökumenn virðast vera hver með sína reglu um það hvenær eigi að gefa stefnuljós og hvenær ekki.

Tvívegis hef ég alveg nýlega ekið á eftir bílum á leið frá Vesturlandi til Reykjavíkur þar sem ökumennirnir gáfu alltaf stefnuljós til vinstri þegar þeir óku inn í hringtorgin. Í sum skiptin gerðu þeir þetta svo snemma, að engu var líkara en að þeir ætluðu að beygja strax til vinstri og aka á móti umferðinni öfugan hring.

Í fyrra skiptið gaf ökumaðurinn sex sinnum stefnuljós til vinstri í röð og virtist með því vera að gefa til kynna að hann ætlaði ekki að beygja til hægri inn á fyrstu götuna sem lá út úr torginu. Samt var hann á innri akrein og í innri hring í torginu!

Síðan gaf hann aðeins þrisvar sinnum stefnuljós til hægri þegar hann beygði út úr torginu til að halda áfram, en þrisvar sinnum gaf hann ekkert stefnuljós í þá átt þótt hann gætti þess vel að gefa alltaf stefnuljós til vinstri þegar hann  kom inn í torgin!

Í síðara skiptið sem ég ók á eftir svona bílstjóra á þessari leið, gaf hann fimm sinnum stefnuljós í röð til vinstri þegar hann kom inn í torgin, en í síðasta torginu gaf hann ekkert stefnuljós og beygði þá til hægri út úr torginu !

Þessir bílstjórar eru greinilega ósammála þeirri skilgreiningu á hringtorgi, að meðan ekið er inni í hringtorgið og ekki skipt um akrein né ekið út úr torginu, jafngildir það því að aka á beinum vegi án akreinarskipta og því þarf ekki og er raunar algerlega órökrétt að gefa stefnuljós til vinstri.

Að gefa stefnuljós til vinstri á vinstri akrein inni í hringtorgi jafngildir því að viðkomandi ætli að beygja upp á eyjuna, enda sér maður svona notkun hvergi erlendis.

Allt þetta rugl veldur öryggisleysi, töfum og óhöppum í umferðinni en virðist ætla að lifa góðu eilífu lífi hér á Klakanum. Enginn græðir á þessu, allir tapa og allir eru óöruggir, ringlaðir og pirraðir, en samt heldur það áfram.   


mbl.is Myndaði brot 139 ökumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband