Af hverju kom þetta ekki fram fyrr, - skjalfest?

Síðustu tvær vikurnar hafa verið óróasamar eins og fjölmennir útifundir og heitar umræður innan þings og utan hafa borið vitni.

Fyrir hafa legið skjalfestar yfirlýsingar stækkunarstjóra ESB og Evrópuþingsins um að viðræður við ESB geti legið niðri og verið á ís um ótiltekinn tíma.

Vitnað hefur verið í hliðstætt ástand vegna aðildarumsóknar Sviss á sínum tíma, en það ástand hefur varað í áraraðir.

Ef þessar nýju upplýsingar, sem SDG kastaði af munni fram í Kastljósi í kvöld hafa legið fyrir allan tímann sem deilurnar síðustu vikur hafa staðið, af hverju kom hann ekki fram með þær fyrr?

Væri hægt að fara fram á skriflega staðfestingu hjá SDG á þessum ummælum?  


mbl.is Evrópusambandið vildi skýr svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hægja á "verðbólguhjöðnun" = "minnkandi versnun".

Einu sinni sagði íslenskur ráðmaður þegar efnahag landsmanna hrakaði að góðu fréttirnar væru þær, að nú væri "minnkandi versnun."

Nú er upplýst og flokkað sem "slæmar fréttir" af evrusvæðinu að það hefði orðið "verðbólguhjöðnun".

Það er hálf öld síðan ég lærði þá hagfræði sem þá var kennd í lagadeild H.Í. og kannski man maður ekki allt af því sem þá var kennt en hefur þó á grunni þess lærdóms fylgst eins vel með efnahagsmálum þjóðarinnar og hægt hefur verið.

Síðan 1942 hefur glíman við svonefndan verðbólgudraug verið eitthvert erfiðasta verkefnið í íslensku efnahagslífi og verðbólgan talin okkar mesti bölvaldur.

Síðustu ár hefur verðtryggingunni verið bölvað hástöfum, en hún á að tryggja verðgildi skulda og hækkar þær því meir sem verðbólgan er meiri. Getur það þá verið rétt að bráðnauðsynlegt sé í nútíma þjóðfélagi að auka verðbólguna með öllum tiltækum ráðum.  

Ýmis ráð voru reynd á árum áður hér á landi í viðureigninni við verðbólguna en án árangurs.

1959 var það ráð minnihlutastjórnar Emils Jónssonar að færa niður verðlag og kaupgjald, þ. e. að þvinga fram verðhjöðnun.

Í kringum 1970 var sett á svonefnd verðstöðvun.

Í hvorugt skiptið dugði þetta nema í eitt ár eða svo og nú er staðhæft að verðhjöðnun, stöðugleiki eða "alltof lág verðbólga sé ógnun við efnahagsbatann í Evrópu".

"AGS hvetur ríki á evrusvæðinu itl að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir verðbólguhjöðnun."

"Verðbólguhjöðnun"? Minnir svolítið á það þegar gengisfelling var kölluð "gengissig í einu stökki."

Halló! Hvað varð um ógnina af verðbólgudraugnum? Af hverju leiðir stöðugt verðlag böl yfir efnahagslífið?

Nú væri gaman að fá skýringu góðs hagfræðings á þvi hvers vegna það sé "ógnun" að verðbólgan sé lág og hvers vegna það sé bráðnauðsynlegt að kynda undir báli verðbólgunnar.


mbl.is Lág verðbólga ógnar efnahagsbata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í þá gömlu góðu daga..." aftur?

Er Kiljan gerðist Nóbelskáld og KK blés í sax  /

og Clausensbræður hlupu´og snjóbíll Gvendar var til taks..." 

 Þetta eru upphaflslínur lagsins "Í þá gömlu góðu daga". Snjóbíll Gvendar 

Setningin um snjóbíl Guðmundar Jónassonar vísar til þess að í mars og apríl 1951 voru einhver mestu snjóalög í manna minnum á Norðausturlandi.

Varð meðal annars að nota Glófaxa Flugfélags Íslands og snjóbíl Guðmundar Jónassonar til að flytja allra brýnustu nauðsynjar.

Síðan eru liðin 63 ár en öflugasta snjómoksturstækni nútímans virðist ekki hrökkva til að opna vegi frekar en á sama tíma 1951.

Hins vegar er álitamál hvort orðin snjómoksturtækni nútímans séu réttnefni um þau gömlu tæki, sem til umráða eru við moksturinn núna.


mbl.is Ekki hægt að moka á Mývatnsöræfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100% réttur vitnisburður er ekki til.

Í tímaritinu Time fyrir allmörgum árum var "forsíðugrein" (cover story) sem hét "The total recall" og fjallaði um nýjustu rannsóknir vísindamanna á minninguum og vitnisburðum. Aðalaniðurstaða rannsóknarinnar var það að 100% vitnisburður eða minning sé ekki til, vegna þess að minningin sé eftirlíking af þeim áreitum, sem skynfærin verða fyrir á meðan á atburðinum stendur og að röð áreitanna og fleira geti bjagast eða ruglast.

Þannig finnst stórum hluta vitna af því þegar flugvél hrapar til jarðar og ferst í mikilli sprengingu að vélin hafi orðið alelda á flugi og síðan steypst til jarðar.

Ástæðan er sú, að við úrvinnslu upplifunaratriðanna raðar undirmeðvitundin stundum atburðunum í þá röð sem gefur sennilegasta orsakasamhengið.

Slíkt er alveg ómeðvitað hjá vitninu sem segir eins satt og rétt frá og eftirlíkingin í minni þess gefur því kleyft.

Í máli Pistoriusar verður að hafa þetta í huga.

Gott dæmi sem ég hef áður nefnt er það að í meira en 40 ár hef ég þurft að þræta við fólk, sem staðhæfir það að fyrsti bíllinn sem ég átti hafi verið þriggja hjóla bíll. NSU Prinz

Þegar svo var komið að ég þurfti að þræta við bekkjarbróður minn úr M.R. um þetta fór ég til Tibro í Svíþjóð, keypti þar alveg eins bíl og sýni fólki, sem heldur fram þriggja hjóla bíls minningunni, hvernig bíllinn leit út, sjá mynd hér á síðunni.

Hann var og er með fjögur hjól og meira að segja öll úti í hornum bílsins.

En hvernig getur staðið á svona grófu misminni?  Ástæðan er einföld. Messerschmitt_Kabinenroller[1]

Í fyrsta áramótaskaupinu 1966 var ég fenginn til að aka örbíl inn í upptökusalinn og færa Helgu konunni minni blómvönd í tilefni af 5 ára brúðkaupsafmæli okkar.

Prinsinn hafði þá verið óökuhæfur í mörg ár og því var fenginn þriggja hjóla bíll af gerðinni Messerscmitt Kr 200 kabineroller í hlutverkið.

Þetta var í eina skiptið á ævinni sem ég settist upp í svona bíl, mun mjórri bíl en Prinzinn, sem tók aðeins tvo menn í sæti, einn frammi í og einn afturí, en Prinzinn tók tvo frammi í og 2-3 afturí.

Á þetta horfði nær öll þjóðin og þetta truflaði eftir á allar minningar þeirra þúsunda sem höfðu séð mig á Prinzinum á árunum 1959-63.NSU Prinz aftan frá

Eitt hefur líka ruglað fólk. Eins og sést á neðstu myndinni hérna er Prínzinn með alveg einstöku lagi að aftanverðu. Hliðarrúðurnar að aftan eru sveigðar í boga inn  að afturrúðunni sem er frekar lítil svo að bíllinn sýnist afturmjór, en það var einmitt helsta útlitseinkenni Messerschmitt KR200.

Sjálfur lét ég blekkjast af því að raða í huganum skakkt saman áreitum skynfæranna í vitnisburði vegna þess þegar lítil flugvél missti hreyfilafl í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli og steyptist niður á tún rétt hjá Norræna húsinu.

Ég stóð undir norðugafli flugskýlis á miðjum vellinum og í í minningunni kom vélin furðu hægt fram hjá skýlinu í flugtaksbruninu með hikstandi hreyfil, miklu hægar en venja var í flugtaki, og í flugtakinu þar á eftir náði hún ekki hæð heldur missti lyftikraft og steyptist niður.

Flugmaðurinn bar hins vegar að hreyfibilunin hefði ekki orðið fyrr en eftir flugtak.

Ég hafði verið í lagadeild og lært um vitnisburði og fór að kynna mér þetta misræmi í framburði.

Þá kom í ljós, að ástæða þess að flugvélin kom á svona hægri ferð framundan flugskýlinu var ekki sú að hreyfilinn skort afl, heldur hafði flugmaðurinn fengið heimild til að hefja flugtaksbrun "þvert af" rétt fyrir sunnan skýlið og kom þess vegna á svona hægri ferð inn í sjónsvið mitt.

Þegar þetta lá ljóst fyrir áttaði ég mig á því að við eftirlíkingu af atburðinum í minningu minni hafði undirmeðvitund mín sett áreitin þannig saman að þau gæfu skýringu á því hvers vegna flugvélin fór svona hægt.

Eina skýringin, sem undirmeðvitund mín hafði í höndunum, var hikstið í hreyflinum, og ómeðvitað var framburður minn, gefinn eftir bestu vitund, með bjagaðri tímalínu.   


mbl.is Reeva „hefði ekki getað öskrað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland viðundur meðal þjóða Evrópu.

Meira en 15 ár eru síðan þjóðir Evrópu, allt vestan frá Spáni og Portúgal austur til Lettlands lögleiddu svonefndan Árósasáttmála sem kveður á um lögvarða hagsmuni almennings og samtaka hans vegna framkvæmda sem snerta umhverfismál og náttúruverndarmál.

Ísland hefur þumbast gegn því að lögleiða sáttmálann, og loks var það þó gert í fyrra en þó ekki fyrr en að þáverandi stjórnarandstaða hafði þvælt málið sem allra mest og náð með lagaklækjum að útvatna svo sáttmálann, að hann virðist ekki vera pappírsins virði.

Af þeim samtökum þúsunda náttúruverndarfólks, sem fóru fram á lögbann á vegaframkvæmdir í Gálgahrauni, voru tvenn samtök, Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands með hunduð félagsfólks sem hefur yndi af útiveru og gönguferðum í Gálgahrauni og á öðrum svipuðum slóðum á Suðvesturlandi.

Lögbann er þess eðlis, að það virkar sem nokkurs konar frysting eða frestun óafturkræfra framkvæmda þar til leyst hefur verið úr deilu- og álitamálum fyrir dómstólum.

Venjulega þarf Hæstirétttur aðeins stutta greinargerð fyrir úrskurðum sínum vegna svona mála, en í máli náttúruverndarsamtakanna vegna lögvarðra hagsmuna þeirra varðandi lagningu nýs Álftanesvegar dugði ekki minna en 10 blaðsíðna greinargerð Hæstaréttar til þess að sveigja úrskurðinn í þá átt og réttlæta þá niðurstöðu, sem felur í raun í sér að Ísland virðist vera eina landið vestan fyrrum Sovétríkja þar sem Árósasáttmálinn um lögvarða hagsmuni almennings eða samtaka hans er marklaus.

Meira að segja lönd sem áður tilheyrðu Sovétblokkinni og voru með allt niðrum sig í umhverfismálum, eins og Pólland og Lettland hafa tekið sig á og verið með gildandi lög í samræmi við Árósasáttmálann í meira en 15 ár.

Á sama tíma sem ráðamenn okkar úða út úr sér gorti og yfirlæti yfir heimsbyggðina um það að við séum í fararbroddi í heiminum á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála og land okkar sé með fágæta náttúru erum við skammarlegt viðundur á því sviði í raun, höfum staðið við loforðið frá 1995 til álfursta heims um "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" ef fórna skal náttúruverðmætum fyrir stóriðju og erum nú með Hæstarétt sem stimplar lögleiðingu Árósasáttmálans hér á landi sem marklaust og gagnslaust plagg.

Nú hlakkar í yfirgangsmönnum yfir því að hafa á siðlausan hátt hraunað yfir náttúruverndarfólk með blekkingum og beitingu lögregluvalds til að eyðileggja náttúruverðmæti áður en lögbannsmálið hafði verið útkljáð fyrir dómstólum.  

Maður skammast sín niður í tær fyrir það bananalýðveldi og afskræmingu á réttarríki sem blasir við okkur.   


mbl.is Lögbannsmál fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband