Endalaust álitamál og deilu- og ófriðarefni.

Það virðist engu máli skipta hver öldin er, deiluefni eins og þau sem núna eru uppi á Krímskaga, hafa ævinlega verið tilefni deilna, ófriðar og manndrápa og líklega hefur ekkert af þeim ríkjum sem vilja hafa afskipti að Krímdeilunni verið laust við slíkt.

Í Bandaríkjunum var háð stríð sem kostaði hundruð þúsunda mannslífa fyrir tveimur öldum þegar Suðurríkin sögðu sig úr lögum við Bandaríkin og stofnuðu eigið ríkjabandalag.

Það er því hefð fyrir því í ríki Baracks Obama að láta vopn tala til að koma í veg fyrir "stjórnarskrárbrot" varðandi það að hluti ríkisins slíti sig frá heildinni.

Í Kanada hafa aðskilnaðarsinnar í hinum frönskumælandi hluta landsins í Quebeck talað fyrir daufum eyrum ráðamanna þjóðarinnar varðandi aukið eða algert sjálfstæði þess hluta landsins.

Ekki þarf að fjölyrða um ótal deilur og styrjaldir í flestum löndum Evrópu í gegnum aldirnar, nú síðast á Balkanskaga á níunda áratug, þar sem deiluefnin voru mörg orðin 6-700 ára gömul.

Ófriðarástand ríkti á Norður-Írlandi frá 1968 og fram yfir 1980 og í Baskalandi og Katalóníu eru sterkar hreyfingar sem berjast fyrir sjálfstæði.

Í nágrenni okkar Íslendinga er öflug hreyfing í Skotlandi sem gerir spurninguna um sjálfstæði Skota raunhæfa.

Það var að sumu leyti mótsögn fólgin í tillögum Wilsons Bandaríkaforseta í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar um sjálfsákvörðunar rétt þjóða og þjóðarbrota í ljósi þess að alríkisstjórnin í Bandaríkjunum hafði barið niður aðskilnaðarstafnu Suðurríkjanna hálfri öld fyrr.

Ekki er víst að við Íslendingar hefðum fengið fullveldi 1918 nema vegna þess að Danir vildu þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrrum dönskum héruðum í Slésvik og Holstein um það hvað fólkið þar vildi og urðu að sýna það í verki gagnvart Íslendingum að þeir væru ekki í mótsögn við sjálfan sig.

Meirihluti íbúa í Norður-Slésvík kaus að sameinast Danmörku á ný, en í Suður-Slésvík kaus meirihlutinn að vera áfram hluti af Þýskalandi, þótt Danir hefðu ráðið yfir þeim fyrir stríðið við Þjóðverja 1864.  

Það gerir Krímdeiluna erfiðari að Rússar "gáfu" Úkraínu skagann fyrir hálfri öld eftir langvarandi yfirráð sín yfir honum og sjá áreiðanlega mjög eftir því nú. En í ljósi þessa er auðveldara að skilja kröfu hins rússneskumælandi meirihluta Krímverja um að fá að sameinast Rússlandi á ný og verða hluti af rússneska sambandsríkinu.

Sú krafa er ekki ólík þeirri kröfu Úkraínumanna við fall Sovétríkjanna að skilja sig út úr Sovétsambandinu og fá að verða sjálfstætt ríki.   


mbl.is Skýrt brot á stjórnarskrá landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerist svipað og í turnahverfinu ofan Skúlagötu?

Að öðru jöfnu ættu stórar blokkir að vera hagkvæmasta og ódýrasta húsnæðið fyrir tekjulítið fjölskyldufólk og fólk af millistétt og allt umhverfi þeirra að iða fjölbreyttu mannlífi og starfsemi, sem íbúðabyggð fyrir fjölskyldufólk fylgir.

En reynslan af turnabyggðinni ofan við Skúlagötu er þveröfug. Það þarf hvorki leikskóla né grunnskóla í þetta hverfi því að það er steindautt og gersneytt slíku mannlífi.

Enda ekki furða, því að verð íbúða þar er allt upp í milljón króna á fermetrann.

En það þjónar þó ákveðnum tilgangi fyrir þá, sem þar búa og ekkert við því að segja þótt reist séu svona hverfi vel stæðs fólks, því að það mun hvort eð er leita að hentugum stöðum fyrir sig til að búa á.

Hlíðarendahverfið nýja er útaf fyrir sig hið besta mál.

Og ef þetta nýja hverfi verður því marki brennt að verð húsnæðis verði hátt er heldur ekkert við því að segja, ekkert frekar en þegar íbúðabyggðin í vestanverðum Laugarási reis á sínum tíma og fékk í munni almennings heitið "Snobbhill".

Eigendur fjármagns og fasteigna munu ævinlega finna sér hverfi sem hentar þeim.

En fari svo að Hlíðarendahverfið verði mestan part byggt vel stæðu eða ríku fólki verður vaxandi vandi tekjulágra húsnæðiseigenda og venjulegs fjölskyldufólks ekki leystur í Vatnsmýrinni heldur mun það fólk leita í úthverfi og nágrannakaupstaði Reykjavíkur, alveg gagnstætt við yfirlýstan tilgang Hlíðarendahverfisins og turnanna í Skuggahverfinu.

Því að rétt eins og að fólkið í Austur-Þýskalandi "kaus með fótunum" og steymdi til Vestur-Þýskalands og annarra Vesturlanda, mun þetta fólk, sem sárvantar ódýrt húsnæði, "kjósa með hjólunum" í ljósi þeirrar staðreyndar að þyngdarpunktur íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er austast í Fossvogi og stærstu krossgötur landsins þar fyrir austan.

Næst þeim liggja Ártúnshverfi, Árbæjarhverfi, Langholtshverfi, Grensáshverfi, Breiðholt, Mjódd, Fossvogshverfi, austurhluti Kópavogs og Smárinn.

Á meðan heimsmálunum verður þannig háttað að mannkynið sóar orkulindum jarðar með rányrkju á þeim og Bandaríkjaher er nokkurs konar heimslögregla sem fer inn í hvert það land sem ógnar bruðli jarðarbúa með takmarkaðar orkulindir, verður erfitt að hamla gegn afleiðingunum um allan heim, því miður.

Fólkið leitar þangað sem því finnst sjálfu henta að búa og þá gilda lögmál um myndun byggðar sem erfitt er að streitast á móti í frjálsu þjóðfélagi.

Stærsta og mest knýjandi viðfangsefnið í húsnæðismálum okkar er vandi tekjulágra leigjenda og venjulegs fjölskyldufólks. Sá vandi er vaxandi og verður að takast á við hann á raunsæjan hátt.     

   


mbl.is Líkir Hlíðarenda við evrópskar borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný vetrarstemning í mannlífinu í Reykjavík.

Það er að myndast ný stemning allt árið í Reykjavík, líka á veturna, einkum í gömlu miðborginni. Það er mun meiri umferð gangandi fólks en venja hefur verið hin siðari ár, og maður bæði sér á fólkinu og heyrir á því, ef orðaskipti eiga sér stað, að jafnvel í febrúar og mars eru þetta stundum að meirihluta útlendir ferðamenn.

Í góðviðrinu og þurrviðrinu sem leikið hefur um íbúa á sunnanverðu landinu og við Faxaflóa hef ég nær eingöngu verið á ferðinni í litla Fiat-blæjubílnum mínum sem ég ek aldrei um í votviðri, hvað þá í saltpækli vetrarmánaðanna, og þegar ég hef stöðvað bílinn hefur komið til mín forvitið fólk til að spyrja um bílinn og taka myndir af honum.

Má segja að bíllinn sé ágætt hjálpartæki til að taka púlsinn á mannlífinu og fólkinu í gamla miðbænum, því að nær alltaf eru þetta útlendingar, sem undrast að sjá svona bíl á ferð hér uppi á hjara veraldar hvort sem er um hávetur eða á öðrum árstímum.

Í fyrradag var krökkt af fólki á Laugavegi og allt vestur í Austurstræti og þetta voru mestan part útlendingar.

Það hefði verið talið óhugsandi á þessum tíma árs fyrir nokkrum misserum enda orðin rótgróin vissa okkar fyrir því að landið okkar ætti enga möguleika á því að geta nýst fyrir neitt sem flokka mætti sem "eitthvað annað".

En mikil fjölgun gistinátta á hótelum staðfestir hvað sé að gerast.  


mbl.is 36% auking á hótelum í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband