Dýrmætt fyrir reynslubankann.

Eitt mikilvægasta verkefni ungs fólks er að reyna að horfa nógu langt fram í tímann þegar gerð eru mistök.

Mistök í upphafi ferils geta verið svo niðurdrepandi, af því að þau verða stór í huga þess sem gerir þau vegna þess hvað þau eru stór hluti af stuttri reynslu.

Þá er gott fyrir hinn unga eða hina ungu að hugsa um það, hve mistökin eiga eftir að verða hlutfallslega miklu minni í samanburði við heilan íþróttaferil upp á allt að 20 ár eftir atvikum heldur en þau eru eftir til dæmis tveggja ára feril.

Þar að auki eru mistök dýrmæt til að setja í reynslubankann.

Og enn má nefna það að mestu meistararnir eru það ekki endilega vegna þess að þeim gekk alltaf allt í haginn heldur enn frekar vegna þess hvernig þeir unnu úr mistökum og ósigrum.

Muhammad Ali tapaði þremur bardögum á þeim tíma ferils síns sem Parkinsonsjúkdómurinn hafði ekki haft veruleg áhrif á hann og í öll skiptin afskrifuðu flestir hann sem útbrunninn íþróttamann, enda var hann orðinn 36 ára þegar hann tapaði heimsmeistaratitlinum til Leon Spninks árið 1978 og þá voru liðin 18 ár síðan hann varð Ólympíumeistari og fór eftir það út í atvinnumennsku.

Þegar hann gekk á hólm við George Foreman 1974 höfðu aðstoðarmenn hans mestar áhyggjur af því að hann yrði fluttur af vettvangi stórslasaður í sjúkrabíl. Annað kom á daginn.  

Aníta Hinriksdóttir er rétt að byrja feril, sem getur orðið sérlega glæstur og hún á alla möguleika og hefur langan tíma til að sanna að hún sé sannur meistari (champion) sem eflist við mótlætið.


mbl.is „Aníta er mjög svekkt út í sjálfa sig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að leggja sjálfan sig í einelti?

Upp hafa komið raddir um það að undanförnu að fjölmiðlar og landsmenn leggi Vigdísi Hauksdóttur í einelti með sífelldum fréttaflutningi af ummælum hennar, gersamlega að ástæðulausu.

Þegar málið er skoðað nánar er þó varla hægt að komast hjá því að velta vöngum yfir því hvort hún sé ekki að leggja sig í einelti sjálf, því að varla líður svo dagurinn sem hún segir ekki eitthvað ssvo dæmalaust og hliðstætt hefur varla heyrst áður.

Að minnsta kosti hef ég aldrei áður heyrt það að á vinnustaðnum Alþingi hafi bæði þingmenn og starfsfólk hér áður fyrr litið svo stórt á Alþingismenn að starfsfólkið leggði ekki í það að dirfast að ávarpa þessa háu, næstum guðum líka herra, hvað þá alþingiskonurnar, drottningum líkar að tign.

Lýsing Vigdísar á hinum horfnu dýrðardögum takmarkalausrar aðdáunar venjulegs fólks á þingmönnum, fær mann til að lygna augum og sjá fyrir sér starfsfólkið þar fá í hnén og vera á barmi yfirliðs þegar hátignirnar voru í nánd.

Og síðan klykkir Vígdís út með því að segja að mikil eftirsjá sé að þessu ástandi á þinginu.

Það virðist hafa verið þar gríðarleg gjá milli þings og þjóðar samkvæmt þessari lýsingu hennar sem Birkir Jón Jónsson samflokksmaður hennar segir ekki í neinu samræmi við sína upplifun af þessum vinnustað, þar sem maður hélt að starfsmenn væru í vinnu hjá þjóðinni.

Þessi ummæli eru þeim mun athyglisverðari að 17. júní hélt forsætisráðherra ræðu rétt fyrir utan þinghúsið þar sem hann mærði hinn sérstaklega litla stéttamun sem hefði löngum verið á Íslandi.

Bara þetta mikla ósamræmi gefur tilefni til umræðna án þess að þeir sem um það ræða séu vændir um einelti á hendur Vígdísi.


mbl.is Ósáttur við ummæli Vigdísar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er von um skynsamlega lausn.

Með nýju hverfi við Hlíðarenda verður varabraut Reykjavíkurfluvallar að vísu lokað. Hún er hins vegar það lítið notuð, en samt á afar mikilvægum dögum, að verði látið staðar numið nú, er áfram möguleiki á að nota hana eða örlítið skekkta braut við lendingar til suðvesturs þannig að hún endi nokkurn veginn þar sem oliustöð hefur verið við enda hennar, enda þyrfti þá að rífa .

Miðað við að völlurinn hefur verið þarna í rúm 70 ár er furðulegur sá asi sem er á mönnum við að raska stórlega við umhverfi hans í stað þess að bíða eftir því að nefnd undir forsæti Rögnu Árnadóttur ljúki starfi sínu.  

Ef brautin yrði endurbætt, þá þyrfti að lengja hana til suðvesturs um minnsta kosti 300 metra vegna þeirrar hindrunar, sem fyrirhuguð húsabyggð við norðausturenda hennar mun skapa.

Ennfremur er enn opinn möguleiki til að gera nýja norður-suðurbraut sem myndi lagfæra þann annmarka flugvallarins að hornið á milli núverandi norður-suðurbrautar og austur-vesturbrautarinnar er of stórt í suðvesturátt og þess vegna hefur verið þörf á litlu varabrautinni.

Frumskilyrði við að breyta flugvellinum í betra horf og gera hann öruggari og stuðla að minni hávaða af honum, en jafnframt að losa byggingarland ef það yrði lokalausnin, er að lengja austur-vesturbrautina til vesturs og gera hana að aðalflugbraut vallarins.

Það þarf að halda vökunni í þessu máli, því að fyrirætlanirnar um að gera nýtt hverfi þar sem suðvesturendi núverandi varabrautar er, mun eyðileggja alla möguleika á því að nefnd undir forystu Rögnu Árnadóttur hafi nauðsynlega valmöguleika í hendi og verða brot á því samkomulagi sem fólst í skipun hennar.

Þess vegna er full ástæða til að halda vöku í flugvallarmálinu.


mbl.is Borgin hafi reynst úlfur í sauðargæru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband