Ósamkvæm sjálfri sér. Eru kosningarnar þá ósigur hennar?

Hanna Birna Kristjánsdóttir er heldur betur ósamkvæm sjálfri sér þegar hún segir annars vegar að minna fylgi Bjartrar framtíðar en Besta flokksins séu mikið áfall fyrir Jón Gnarr, en að hins vegar sé metfylgi Samfylkingarinnar eingöngu að þakka miklu fylgi við Dag B. Eggertsson.

Jón Gnarr og Besti flokkurinn voru einfaldlega ekki í framboði í þessum kosningum í borginni og fólk eins og Óttar Proppé er farið af vettvangi.

Þegar Hanna Birna fór sjálf úr embætti borgarstjóra byrjaði fylgi Sjálfstæðisflokksins að dala og eftir að hún fór úr borgarstjórn yfir í landsmálin hefur næstum helmingurinn af fylgi flokksins hrunið af honum og er það lang lægsta sem um getur í borgarstjórnarkosningum.

Ef Hanna Birna væri samkvæm sjálfri sér myndi hún segja að úrslitin væru mikið áfall fyrir hana.

En það segir hún ekki.

Úrslitin núna eru hvorki áfellisdómur um hana né Jón Gnarr í embætti borgarstjóra.

Raunar tel ég að á þeim stutta tíma sem Hanna Birna fékk til að gegna stöðu borgarstjóra hafi hún gert það afar vel við einhverjar erfiðustu aðstæður, sem nokkur borgarstjóri hefur fengið í fangið.

Jón Gnarr fékk síðan hrun OR í fangið og miklar hrakspár um væntanlegar ófarir hans og borgarstjórnarmeirihluta hans gengu ekki eftir.

Jón kom inn í borgarmálin með ferskan og nauðsynlegan gust, sem hristi upp í stöðnuðum stjórnmálum og þarf ekki að kvíða dómi framtíðarinnar um sitt framlag.  

Ég sé þau Hönnu Birnu og Jón Gnarr sem borgarstjórana tvo sem reistu borgarmálin úr rústum á grundvelli hæfileika sinna til að innleiða mannleg samskipti, sem löðuðu fram samstarf og jákvæðni eftir illindi og fádæma ólgu og óreiðu.

Arfleifð þeirra að því leyti eru því báðum til sóma en ekki "áfall" sem þau þurfi að skammast sín fyrir.   


mbl.is Úrslitin mikið áfall fyrir Jón Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá sem ræður vettvangnum ræður miklu.

Þá virðist það ljóst: Framsókn og Sjallar geta ekki myndað meirihluta í Reykjavík nema að fá Bjarta framtíð yfir til sín því að útilokað er að Vg og Píratar fari með þeim. Samfylkingin mun því líklega mynda meirihlutann og Dagur B. Eggertsson verða borgarstjóri.  

En í annað skiptið með árs millibili tókst Framsóknarflokknum að snúa kosningaúrslitum stórlega sér í hag með því að nýta sér eitt elsta bragð í allri baráttu, hvort sem er í hernaði, deilum, íþróttum eða stjórnmálum, að sá sem ræður vettvangnum / bardagasvæðinu / umræðuefninu, ræður miklu meiru en nemur styrk hans að öðru leyti.

Með valdi yfir vettvangnum og stjórna með því umræðunni, næst oft frumkvæði, að ekki sé minnst á athyglina. Í flokkaíþróttum felst þetta oft í því að ráða bardagaaðferðinni, til dæmis því hvort spilið verði hratt eða hægt, og að geta "spilað sinn leik" en koma í veg fyrir að andstæðingarnar geti spilað sinn leik.  

Framsóknarflokknum tókst að láta Alþingiskosningarnar 2013 snúast nær eingöngu um sitt aðalmál, aðgerðir í skuldavanda heimilanna. Allir þátttakendur í þeirri kosningabaráttu neyddust til að fara inn á þann vettvang og berjast þar og gefa Framsóknarflokknum þar með jafn mikla eða jafnvel meiri athygli en öllum hinum til samans og láta Sigmund Davíð stjórna umræðunni.

Til að þetta væri hægt þurfti málatilbúnaður flokksins að vera svo nýstárlegur, stórtækur og snerta svo marga, að það sætti óhjákvæmilega mestum tíðindum í kosningabaráttunni. Flokkurinn stjórnaði umræðunni.  

Frjálslyndi flokkurinn reyndi að gera svipað haustið og veturinn 2006-2007 með því að setja innflytjendamál á oddinn.

Bragðið hefði heppnast fullkomlega ef flokkurinn hefði ekki gert þau mistök að setja málið of snemma á flot, þannig að enda þótt fylgi hans þrefaldaðist í fyrst í skoðanakönnunum, fjaraði smám saman undan því fram að kosningum, og eftir kosningarnar og í Hruninu hvarf flokkurinn smám saman.

Stundum fær framboð ekki færi á að málefnið, sem vakið geti athygli, beri upp á réttum tíma frá kosningum.

Þannig urðu umhverfismál í brennidepli þjóðfélagsumræunnar vegna íbúakosningar um stækkun álversins í Straumsvík í mars 2007, 10 til 6 vikum fyrir kosnginar, en um  leið og málinu lauk í marslok, var eins og tappað hefði verið af þessum málaflokki og 10 dögum fyrir kosningar gátu stóru flokkarnir slakað á, tekið umhverfsmál algerlega út af dagskrá og sett gamla góða peningaveskið og velferðarmálin á oddinn.

Sveinbjörn Birna Sveinbjörnsdóttir kom til skjalanna algerlega óþekkt hæfilega skömmu fyrir kosningar til þess að hún vekti óhjákvæmilega mesta athygli allra oddvitanna. Áður hafði Guðni Ágústsson ná allri athyglinni með óvæntu og fréttnæmu útspili sínu, þannig að flokkurinn átti umræðuna og athyglina samfellt í meira en tvo mánuði fyrir kjördag. Ekki veitti af, fylgið var komið niður í 2,9 % og flokkurinn langt, langt frá því að koma inn manni.  

Hæfilega skömmu fyrir kjördag kom síðan stóra moskubomban sem varð að aðalmálinu og umræðuefninu í kosningunum og Sveinbjörg Birna hælist nú réttilega um yfir því að það mál hafi fengið mesta athygli í fjölmiðlum hvern einasta dag fram að kjördegi. Í annað sinn á einu ári tókst sama trixið hjá flokki hennar.

Það er óþarfi að þakka fjölmiðlum einum þetta, því að eins og glögglega sást á öllum netmiðlum og almennri umræðu, var þetta lang heitasta umræðuefnið meðal almennings alla þessa daga, - og fyrir þá, sem vilja "kenna fjölmiðlunum um" er það ósanngjarnt, - fjölmiðlar endurspegla aðeins umræðuna í þjóðfélaginu og eiga ekki að þagga hana niður.

Ég birti tvær glannafengnar og hálfkæringslegar limrur hér á bloggsíðunni þegar málið kom upp, en þá var fylgi Framsóknar enn sáralítið og margir búnir að afskrifa hann sem dauðan í borginni. 

Önnur limran var eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson og endurspeglaði vel tilfinningaþrungin viðbrögð margra við mosku-útspili Framsóknar, sem gerðu það eitt að moskumálið varð að heitasta málinu, en það þjónaði Framsókn best:

 

JÁKVÆÐ HEIMSENDASPÁ.

 

Þegar jörðin i sæinn er sokkin

og sólin af standinum hrokkin

þó er þar leið, -

þungbær en greið

til að losna við Framsóknarflokkinn.    

 

Ég svaraði Ragnari í svipuðum hálfkæringi, og efni svarsins reyndist verða spá um það hvernig fór:

 

VANMETUM EKKI FRAMSÓKNARFLOKKINN

 

Við skulum spara að spotta´hann

með spánnýjan oddvita´og flottan.

Þótt leggist gröf í

hann lifnar á ný

og lifir allt af eins og rottan.  

 

Og þannig fór það. Þess ber að geta að ég ber mikla virðingu fyrir rottunni, því að hún er eina spendýr jarðarinnar, annað en maðurinn, sem er að finna hvar sem er á jarðarkringlunni. Alls staðar þar sem maðurinn er, þar er rottan.

 

 

 


mbl.is Sveinbjörg þakkaði fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegasta talning, sem ég man eftir í 62 ár !

Þegar þetta er skrifað, klukkan 01:53, er ljóst, að maður hefur verið hafður að fífli varðandi úrslitin í Reykjavík það sem af er nóttinni, og að best hefði verið að leggja sig rétt fyrir tólf og vakna aftur einhvern tíma í fyrramálið til að sjá raunhæfar og réttar úrslitatölur.

Sveiflurnar sitt á hvað, til dæmis á fylgi Sjalla og Samfó, eru hrikalegri en ég man nokkur dæmi um í neinni atkvæðatalningu frá því að ég fór að fylgjast með slíku í forsetakosningunum 1952.

Það eina, sem nokkurn veginn var ljóst, var fylgi Framsóknar, sem þó hefur sveiflast upp og niður um þriðjung.

Hvað er eiginlega að gerast niðri í ráðhúsi?  


mbl.is Meirihlutinn fallinn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn á netið með kosningar samtímis gamla laginu !

Það hefur komið á daginn sem ég setti fram í bloggpistil í gær varðandi það, að andrúmsloftið við þessar byggðakosningar og minnkandi áhugi kjósenda væru áberandi.

Þetta hefur afleiðingar, til dæmis þær að niðurstöður skoðanakannana reynast mun lengra frá raunverulegum úrslitum en áður hefur þekkst, því að það er auðveldara og minni fyrirhöfn að svara í síma heldur en að hafa fyrir því að fara á kjörstað.

Þessi gamaldags aðferð að þurfa að fara á kjörstað er í mínum huga nátttröll á öld nets og tækni, bjagar lýðræðið og er til tjóns .

Andmæli varðandi það að margt fólk, til dæmis eldra fólkið, muni líða fyrir það að eiga ekki eins auðvelt með netkosningu og yngra fólkið, eru engin afsökun, því að til að byrja með mætti vel bjóða upp á tvo kosti á kjördegi, bæði þann gamla og hinn nýja.

Það er brýn nauðsyn á því að auka beina þátttöku almennings í stjórnmálum á alla lund, því að síminnkandi þátttaka er ógn við lýðræði, mannréttindi og lifandi og réttlæti í þjóðfélaginu.   


mbl.is Dagur: Vona að meirihlutinn haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband