Meiri og óþægilegri spenna utan vallar en innan?

Stærstu íþróttamót veraldar skapa oft spennu í umverfi þeirra sem getur ógnað þeim friði og því öryggi, sem ríkja þarf í kringum slík stórmót sem eiga að efla friðsamleg samskipti þjóða og trúarbragða.

Þessi stórmót fóru langt frameftir síðustu öld oftast fram í ríkjum Evrópu eða á norðurhveli jarðar þar sem lítil hætta var á að eitthvað mikið færi úrskeiðis.

Í Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968 vöktu krepptir hnefar sigurvegaranna í 200 metra hlaupinu heimsathygli og gáfu til kynna, að hætta væri á að ýmislegt gæti farið úrskeiðis í heimi harðnandi átaka stétta, kynþátta og trúarbragða.

Hryðjuverkin í Munchen 1972 vöktu menn af værum blundi í þessum efnum og ástæða er til að vera mjög á varðbergi eftir því sem fleiri mót eru haldin í ríkjum þriðja heimsins þar sem ólga vegna mikillar fátæktar og misréttis geta orðið til að sjóði upp úr.

Brasilía er næstum eins stórt land og Bandaríkin og með álíka marga íbúa og Frakkland, Þýskaland og Bretland til samans, vaxandi þjóð og vaxandi efnahagsveldi en líka mikill órói ríkjandi.  

Þar er því allt stórt í sniðum og getur brugðið til beggja vona um að heimsmeistarakeppnin þar heppist vel.  

Þótt spennan vegna úrslita í leikjum keppninnar og mótsins í heild sé mikil er spennan vegna atburða utan vallanna óþægilegri og meira þrúgandi.

Vonandi fer þó allt vel, enda vegur þjóðaríþróttar Brasilíumanna í húfi.    


mbl.is Senda forseta Brasilíu gula spjaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mynd, sem upplýsir kannski of mikið ?

Markaðsfræðingar og markaðssnillingar ráða vafalaust mestu um þróun bílaflota heimsins, sem undanfarna áratugi hefur að miklu leyti byggst á uppbyggingu ímyndar svonefndra sportjeppa, þar sem einni mikilvægustu staðreynd um getu þeirra er leynt, - þeirri staðreynd að þeir síga langflestir niður um 5-8 sentimetra þegar þeir eru fullhlaðnir og verða þá jafnvel með minni veghæð en venjulegir fólksbílar með einn mann innanborðs.

Mér fannst óhjákvæmilegt að geta um þetta mikilvæga atriði við gerð myndarinnar "Akstur í óbyggðum" sem sýnd verður næstkomandi sunnudag í Sjónvarpinu, þótt maður sjái hvergi fjallað um þetta fyrirbæri í skrifum um bíla.  

Já, máttur þeirra sem stjórna markaðnum er mikill.  

Einhver magnaðasta markaðssnilld allra tíma fólst í því, að Iaccoca hjá Ford fann út, að vegna þess að sportgerðin af Corvair, Monzan, seldist miklu betur en venjulegur Corvair, væri GM að lokka fram nýjan markhóp bílakaupenda sem vildu eiga léttan, sportlegan og allmiklu minni bíl en þá töldust vera "bread and butter" bílar Kananna, en þó skyldi bíllinn geta tekið fjóra í sæti þótt þröngt væri í aftursætinu.

Iaccoca var svo viss í sinni sök, að þegar Mustang sló í gegn fyrir 50 árum, seldust 100 þúsund bílar í hverjum mánuði það sem eftir var ársins, eða vel yfir 700 þúsund bílar. Þetta met hefði verið ómögulegt að setja nema með því að hafa fyrirfram tilbúna framleiðslugetu fyrir svona metframleiðslu.

Þegar Lada Niva kom fram 1977 sló þessi fyrsti sérhannaði og fjöldaframleiddi "crossover" eða umskiptingur í heimi í gegn í Austur-Evrópu og á Íslandi.

En annars staðar hamlaði uppruni bílsins og lélegur frágangur sölu. Tími svona bíla var einfaldlega ekki kominn og ágætir "crossover" bílar AMC seldust nógu vel til að eiga framhaldslíf ef undan er skilinn Cherokkee.

1989 settu Japanir Suzuki Vitara og Daihatsu Feroza á markað og seldust þeir nokkuð vel án þess að aðrir framleiðendur tækju við sér.

1990 kom Ford Explorer fram og seldist afar vel og þegar Toyota Rav 4 kom á markað 1994 var ljóst að nýr og rosalega stór markhópur var að byggjast upp.

Á næstu árum varð sprenging í framleiðslu og sölu svonefndra SUV bíla eða crossover-bíla og hefur sú bylgja risið hærra með hverju árinu síðan.

Markhópurinn er eins góður til að græða á og hægt er að hugsa sér, hin stóra og fjölmenna millistétt í nútíma samfélögum, sem hefur efni á að kaupa mun dýrari bíla en láglaunafólk og þar að auki bíla, sem gefa framleiðendunum miklu meiri peninga í gróða fyrir hvern bíl en fyrir ódýrustu smábílana. 

Það þarf ekki að koma á óvart að BMW skuli seljast vel í Noregi og þá einkum BMW X5. Sá bíll er eitthvert besta tákn um smekk þessa markhóps sem hugsast getur, og þjónar eins vel sem stöðutákn og hægt er.

BMW X5 hefur líka verið þróaður og endurbættur af þýskri nákvæmni og metnaði.

Fróðlegt er að líta á hvernig sportjepparnir hafa breyst síðan 1990. Explorer og fleiri slíkir voru háir og klossaðirm soðnir upp úr pallbílum og með nokkuð mikla veghæð.

Þó vakti það athygli mína í upphafi að hæðin undir bensíngeyminn á Explorer var aðeins 18 sentimetrar á óhlöðnum bíl.

Erlendar rannsóknir sýndu hins vegar að nær allur akstur þessara bíla var á malbiki og viðburður ef þeim var ekið á malarvegum eða vegaslóðum, hvað þá í torfærum.

Þegar framleiðendurnir sáu þessar staðreyndir fóru undirvagnar þessara bíla að verða síðari og flatari og sjálfstæð fjöðrun tók við af heilum afturöxli.

Allra síðustu árin hafa margir þessara bíla farið að lækka. Ástæðan er einföld: Því hærra sem maður situr, því meira hreyfist maður til og frá og upp og niður á ójöfnum vegi.

Þetta vita þeir hjá Benz og BMW og þess vegna situr fólk svona lágt í framsætunum í fólksbílum þeirra.

Bílar eins og Subaru XV eru dæmigerðir um það hvernig sportjepparnir fara lækkandi.

Síðustu 15-20 ár hafa bílaframleiðendur hætt því, sem margir þeirra gerðu áður, að gefa upp veghæðina á bílnum fullhlöðnum.

Volkswagen gaf til dæmis upp að hæðin undir Bjölluna væri 15 sentimetrar á fullhlöðnum bíl (beladen), það þýddi að tómur var bíllinn með 21 sentimetra veghæð og hefði á okkar dögum getað verið auglýstur sem jepplingur með mikla veghæð!  

Siðasta bílatímaritið sem ég minnist að hafi gefið upp veghæð á fullhlöðnum bílum  var annað af Consumer bílatímaritum Bandaríkjanna.

Mann grunar að bílaframleiðendum hafi ekki líkað þetta, því að í þessu tímariti var hæðin undir RAV 4 og Honda CRV orðin 13 sentimetrar eða minni en á venjulegum óhlöðnum fólksbíl. Og síðan hvarf þessi uppgefna hæð allt í einu og hefur ekki sést síðan.

Í myndinni "Akstur í óbyggðum" er upplýst um þetta, því að ég veit allt of mörg dæmi um það að kaupendur jepplinganna hafa talið sig svikna og lent í miklu vandræðum á ferðalögum og í ófærð þegar þeir uppgötvuðu þessar takmarkanir sport"jeppanna" sinna.

Ólíklegt er að bílaumboðin og bílaleigurnar séu ánægð með mynd sem upplýsir um þetta, enda heyrði ég sagt í gagnrýni á myndina hjá einum bílaleigueiganda, að óþarfi væri að upplýsa um þetta, - tryggingafélögin borguðu tjónin hvort eð væri.

Kannski er "hæsta bílaleiguverð í heimi" engin tilviljun ? Hver veit ?   

 

  

 


Eitt óhapp í Krossá dýrara en kvikmynd?

Forvarnir þykja oft dýrar og jafnvel of dýrar þótt bent sé á að hvert alvarlegt slys er miklu dýrara en flestir gera sér grein fyrir.

Það sýna dæmi eins og árangur af tvöföldun Reykjanesbrautar, gerð vegriða við Hvalfjörð og nýs vegarkafli í gegnum Svínahraun, en allar þessar framkvæmdir hafa komið i veg fyrir alvarleg slys, sem áður voru á þessum slóðum.

Eitt banaslys á Íslandi kostar með ísköldum útreikningi, án þess reynt sé að meta áhrifin á ástvini og vini, ekki minna en 300 milljónir króna.

Það er hins vegar vafasamt að nefna ofurtöluna 40 varðandi mannslíf, sem bjargað hafi verið síðustu tíu ár með því að tvöfalda Reykjanesbrautina. Í slíka útreikninga vantar áhrif þess að bílaframleiðendur hafa staðið fyrir stórfelldum endurbótum varðandi öryggi bíla, sem út af fyrir sig fækka banaslysum en virðst yfirleitt ekki teknar með í reikninginn.

En nefna má áhrifarík dæmi um það að bætt vegakerfi hafi komið í veg fyrir stórslys. 

Töf á gerð vegriðs á milli akbrauta með umferð í gagnstæðar áttir á Hafnarfjarðarvegi kostaði þrefalt banaslys á veginum. Frumorsök slyssins var að vísu sú að einn hinna látnu fékk hjartaáfall, en hinir tveir hefðu ekki lent í neinu slysi þarna ef vegrið hefði verið komið og enginn öryggisbúnaður í bifreið getur bjargað mönnum í framsæti, ef bíll úr gagnstæðri átt kemur fljúgandi í gegnum framrúðuna eins og í þessu slysi.  

Fyrir beint peningatjón af þessu eina slysi hefði mátt borga upp gerð allra nauðsynlegra vegriða á suðvesturhorni landsins.  

Í hitteðfyrra ákvað ég að breyta um stefnu í kvikmyndagerð minni, þótt ekki væri nema í þetta eina sinn, og gera mynd um íslenska náttúru og málefni tengd henni, sem jafnframt gæti komið í veg fyrir slys, vandræði og umhverfisspjöll.

Myndin, sem heitir "Akstur í óbyggðum", og er 43ja mínútna löng, verður sýnd í Sjónvarpinu næstkomandi sunnudagskvöld 15. júní og fjallar um það hvernig hægt sé í akstri um óbyggðir landsins að ná sem mestri ánægju við að njóta einstæðrar fegurðar og náttúru landsins á mismunandi bílum við ólíkar aðstæður víða um land án þess að lenda í vandræðum eða valda náttúruspjöllum að óþörfu.

Við gerð myndarinnar naut ég dýrmætrar aðstoðar og vinnu Friðþjófs Helgasonar, ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanns og eiginkonu minnar Helgu Jóhannsdóttur.  

Ég er þakklátur þeim og einnig þeim, sem styrktu gerð þessarar myndar, Sjónvarpinu, Landsbankanum, Olís, umhverfisráðuneytin og Tryggingamiðstöðinni, en átti þó ekki von á því að ekki fengist stuðningur eða blanda af samstarfi og stuðningi frá bílaumboðum, 130 bílaleigum eða öðrum ferðaþjónustuaðilum, þannig að eins og er er tap á myndinni.

Hjá tryggingafélaginu skildu menn hvað var um að ræða þegar ég sagði: "Bara það, að geta komið í veg fyrir eitt slys í Krossá, gerir meira en að borga kostnaðinn við þessa mynd."

Nú kann vel að vera að þessi mynd sé misheppnuð hjá mér og að í ljós komi að ekki hefði átt að vera eyða peningum og fyrirhöfn í gerð hennar, heldur í eitthvað annað. 

Um slíkt veit enginn kvikmyndagerðarmaður fyrirfram en veit þó, að ef enginn gerir neina mynd, mun aldrei nást neinn árangur af því að reyna þá aðferð.  

Meðal þess, sem hvatti mig til að gera hana, var að fyrir 35 árum gerði ég sjónvarpsþátt um svipað efni í ferðalagi með Guðmundi Jónassyni og að sá þáttur var endursýndur þrisvar.  Einhver ástæða hefur legið til þess, - kannski það að aldrei hafði áður verið fjallað um málið á þennan hátt.

Búta úr þeim þætti má sjá í þessari nýju mynd.

Nú er fjallað nær daglega um utanvegaakstur í fjölmiðlum, umferð ferðamanna hefur stóraukist um byggðir og óbyggðir, og að því leyti ætti þetta að vera rétti tíminn til að gera heimilda- og fræðslumynd um málið en hún er gerð á annað borð.

Þessa dagana er ég að vinna við að þýða efni myndarinnar og undirbúa það að bjóða hana til sölu fyrir innlenda og erlenda ferðamenn, en til að gera þann pakka meira aðlaðandi og fyllri, verða tvö sjö mínútna löng tónlistarmyndbönd, annars vegar um Ísland og hins vegar um Reykjavík á sama diskinum eða tölvukubbnum ásamt myndinni "Akstur í óbyggðum".

Vona ég að með því fáist góð landkynning fyrir útlendinga, sem kynnu að kaupa þetta efni, og jafnframt fáist tekjur til að komast á lygnan fjárhagslega sjó vegna gerðar þessara þriggja mynda.      

  

 


mbl.is Allt að 40 mannslífum bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband