Marklínutæknin sannaði sig. Önnur sjónarhorn blekkjandi.

Í umræðum um umdeilt mark Frakka sem var dæmt gilt með nýrri myndatækni, hafa menn látið leiða sig á villigötur, að venjulegar myndir, sem teknar voru úr af hlið úr báðum áttum, sýndu boltann ekki allan fyrir innan línuna.

En það sjónarhorn er blekkjandi, af því að marksúlan er mun nær myndavélinni heldur en marklínan, þar sem boltinn fór inn fyrir, og sýnist því breiðari miðað við línuna en hún raunverulega er.  

Eina pottþétta og vísindalega sjónarhornið og er að sjálfsögðu nýja kvikmyndatæknin og hún sannaði sig svo um munaði í kvöld.

Á þar með að koma í veg fyrir frekari deilur um svona atriði eins og löngu var orðið tímabært.

Nema við tökum gild þau rök að óvissan um svona hluti gefi knattspyrnunni sjarma, sem ekki hefði átt að vera að ræna af henni.

P. S. Nú er ég búinn að setja inn grófa útskýringarmynd á facebook-síðuna mína.   


mbl.is Benzema og marklínutæknin fóru með Hondúra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta dýra er oft vanmetin.

Hundurinn Hunter er nú hugsanlega að komast á spjöld sögunnar yfir hundelt dýr á Íslandi. Nafn hans hefur nú færst yfir þá þá sem leita hans.

Geta dýra í slíkum tilfellum er oft vanmetin.

Frægast þeirra á síðari tímum er líklega Herdísarvíkur-Surtla, sem var eina kindin sem slapp undan því að vera skorin niður á sunnanverðu landinu, þegar verið var að útrýma mæðiveikinni á fyrri hluta sjöta áratugs síðustu aldar.

Ærin var hundelt vikum saman sumarið 1953 að mig minnir þangað til loks tókst að fella hana.

Þá stóðu yfir miklir flutningar fjár frá Vestfjörðum til þeirra svæða á landinu, sem þar sem átti að skipta um fjárstofn, og man ég vel eftir flutningabílunum sem brunuðu um Langadalinn þar sem ég var í sveit.

Annað dæmi um dýr, sem slapp úr vörslu, var kýrin Sæunn sem átti að flytja í sláturhús, en slapp úr gæslu og synti yfir Önundarfjörð.

Geta dýra til að bjarga sér eða brjótast undan ofurvaldi mannsins er oft vanmetin.

Ég minnist eins slíks tilfellis, sem draga má lærdóm af.

Ég var á leið fljúgandi frá Akureyri til Reykjavíkur og var beðinn um að leyfa konu að fara með mér með lítinn hund sinn.

Ég færðist undan en konan var í tímaþröng og ekki um annan ferðamöguleika að ræða fyrir hana.

Mér var sagt að hunduinn væri eitthvert gæfasta dýr á jarðarkringlunni en ég lét ekki sannfærast.

En loks lét ég undan þegar dýralæknir var fenginn til að svæfa hundinn og deyfa og hann var bundinn rækilega.

Skemmst er frá því að segja að ég var svo heppinn að strax í flugtaki rankaði kvikindið úr rotinu og var svo gjörsamlega tryllt, að bindingarnar á fótunum fór strax að losna.

Ég flýtti mér að taka hring og lenda hið bráðasta og var þeirri stund fegnastur þegar einhvert gæfasta dýr á jarðarkringlunni, sem breyst hafði í hættulegt óargadýr, var komið út úr flugvélinni.

 

P. S. Hábeinn hefur sent mér dýrlega athugasemd varðandi hundinn Lúkas, sem ég af óskiljanlegum ástæðum gat ekki um. En í því máli fór "homo saphiens", hinn viti borni maður, í eðli og andlegu atgerfi talsvert niður fyrir þau dýr sem lökust þykja vera á þeim sviðum.   

 


mbl.is „Allir í rútunni öskruðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1966 ævintýrið virðist fjarri.

Englendinga dreymir alltaf um annað 1966, heimsmeistaraititil þjóðarinnar sem fann upp knattspyrnuna.

Þrátt fyrir ágætan leik þeirra í gær í fjörugri viðureign við Ítali, sem hefur stærri heimsmeistarhefð en Englendingar, er ekki að sjá að enska liðið geti náð takmarki sínu. Það vantar eitthvað sem til þarf.

Englendingar áttu ágæta kafla í leiknum, fengu færi, og eftir að Ítalir komust yfir var eðlilegt að þeir pressuðu meira.

En þegar einhvert flottasta langskot að marki, sem sést hefur, small í þverslá enska marksins skömmu fyrir leikslok og Ítalir voru hársbreidd frá því að vinna 3:1, sagði maður við sjálfan sig: 1966 er ekki í loftinu.

Endursýniningin var mögnuð á skotinu, sem stefndi í fyrstu beint á enska markmanninn, en geigaði síðan um svo marga metra vegna snilldar snúings á boltanum, að markvörðurinn varð að áhorfanda, langt í frá að eiga minnstu möguleika til að ná boltanum.  

Sá hefði mátt fara í netið, þessi !   


mbl.is Balotelli hetja Ítalíu gegn Englandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómetanlegir liðsmenn.

Björk Guðmundsdóttir er líkast til þekktasti Íslendingur vorra tíma. Vigdís Finnbogadóttir er einnig vel þekkt um allan heim. Þessar tvær konur hafa unnið íslenskri náttúruvernd ómetanlegt gagn með skeleggri framkomu sinni þegar þau mál ber á góma.

Björk segist í viðtali í Guardian vonast til að málefnið berist víðar, enda ekki einkamál Íslendinga.

Hárrétt. Við eigum ekki landið heldur höfum það að láni frá komandi kynslóðum og erum vörslufólk þess fyrir þær og mannkyn allt.

Þarn kemur hún að kjarna málsins, því að þeir, sem ákafast sækja að íslenskum náttúruverðmætum í því skyni að gera dýrmætustu svæðin að iðnaðarsvæðum og virkjanasvæðum hafa kappkostað að viðhalda fáfræði um eðli þessa máls bæði innanlands og utan, - viðhalda því sem ég hef kosið að nefna áunna fáfræði.

Kárahnjúkadeilan sem snerist um margfalt stærri óafturkræf umhverfisáhrif en Altavirkjun, fór framhjá heimsbyggðinni. Um Altavirkjunina var hins vegar fjallað í fjölmiðlum um allan heim.

Svo frægt var nafn Bjarkar þó á þeim tíma, að tímabundið mótmælasvelti móður hennar var nokkurn veginn það eina sem sást eitthvað um varðandi Kárahnjúkavirkjun í erlendum fjölmiðlum. Á tímabili mátti sjá setningu um það rúlla neðst yfir skjá á einni erlendri sjónvarpsrás. Hún var þriðja konan sem reyndi að leggja málinu lið þannig að einhver tæki eftir því.

Jón Sigurðsson mun hafa sagt, að Íslendingum væri nauðsyn á að eiga stuðning erlendis fyrir sjálfstæði sínu.

Sama á við um íslenska náttúru. Þess vegna er framlag Bjarkar Guðmundsdóttur svo mikilvægt nú.  

   


mbl.is Náttúruvernd ekki okkar einkamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband