Vel að þessu kominn.

Það fer vel á því að Gunnar Þórðarson sé valinn borgarlistamaður Reykjavíkur.

Þótt hann sé fæddur í Strandasýslu og haslað sér fyrst völl þar, þjóðfrægur sem frábært tónskáld og hryggjarstykkið í Hljómum frá Keflavík, hefur hann mestallan starfsaldur sinn starfað í Reykjavík, orðið hluti af menningarlífi borgarinnar og náð hámarki sem listamaður með hinni margverðlaunuðu óperu Ragnheiði.

Gunnar er fyrir löngu orðinn Reykvíkingur og sum laga hans eru svo sannarlega reykvísk eins og Við Reykjavíkurtjörn, Gaggó Vest og Reykjavíkurljóð svo að dæmi séu nefnd.

Samfellt og mikið samstarf okkar Gunnars hefur staðið 50 ár og ég hef lengst af þeim tíma aðeins ávarpað hann "maestro" og það ekki að ástæðulausu, enda er hann einstaklega gefandi og ljúfur einstaklingur.   

  

 


mbl.is Gunnar Þórðarson valinn borgarlistamaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsljóð.

ÍSLANDSLJÓÐ.  

(Með sínu lagi)  

 

Langt í norðri laugað bárum rís  /

landið, þar sem ég á mínar rætur.  / 

Miklar öfgar magna eld og ís,  /

myrka daga, bjartar sumarnætur.  /

Ástarorð mín hljómi´um hlíð og fjöll !  /

Heitorð mín í gjúfrum fossinn syngur:  /

:,: Stöðugt skal ég standa um þig vörð,  /

stoltur af að vera Íslendingur :,: /

 

Landið mitt er hvítt og kalt að sjá.

Krapahríðar lemja, stormar belja.

Mörgum finnst það muni vera á

mörkum þess sem byggilegt má telja.  

Þegar stórborgirnar laða ljúft,

lokka menn og trylla má ei gleyma

að :,: þó að landið okkar þyki hrjúft

þá er hvergi betra´að eiga heima :,: 

 

Vafin geislum vakir byggðin mín

vinaleg í faðmi brattra fjalla.

Unaðsleg hún ól upp börnin sín

er þau hlupu´um strönd og græna hjalla.   

 Meðan jökultind við blámann ber;

björgin kljúfa hvíta öldufalda

:,: ævinlega´er efst í huga mér

æskuslóðin kæra, landið kalda :,:   

  

  

 

 


mbl.is Lýðveldið var ekki sjálfgefið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoltur af Mist.

Á mínum aldri er það gangur lífsins að við hin eldri þurfum oft á tíðum að takast á við erfiða sjúkdóma, sem yngra fólkið á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af.

Þess vegna er þungbært þegar upp koma tilfellli þar sem þetta snýst við, og fréttin um að Mist, bróðurdóttur mín, þurfi að glíma við óvænt veikindi, einmitt þegar hún blómstrar hvað best í íþrótt sinni, snertir alla í fjölskyldunni.

Í nótt var ég að horfa á fyrsta Íslendinginn, sem leikur í HM í knattspyrnu í kjölfar jafnteflis kvennalandsliðsins í knattspyrnu gegn gömlum "erkifjendum" okkar, Dönum og maður fyllist ánægju yfir því þegar glæsilegt afreksfólk eins og Mist ber hróður landsins út um lönd.  

Við í fjölskyldunni vissum um veikindi Mistar þegar landsleikurinn var að bresta á og hugur okkar var hjá henni þegar hún þurfti að takast á við svo óvenjulegt og erfitt verkefni sem þessar tvær stóru áskoranir voru fyrir hana.   

En eins og hennar var von og vísa eru þau viðbrögð, sem hún sýnir í tengdri frétt á mbl.is, okkur öllum til eftirbreytni og uppörvunar. Ég er afar stoltur af æðruleysi hennar, hugrekki og viljafestu.

Fleiri systkinabörn mín og börn mín hafa áður þurft að standa frammi fyrir "verki, sem þau hafa þurft að klára" eins og Mist orðar glímuna við sinn óvænta sjúkdóm, og staðið sig eins og hetjur.

Það er ómetanlegt að eiga slíkar fyrirmyndir þegar á bjátar í lífsins ólgusjó.  

 


mbl.is Verk sem ég þarf að klára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjartsýnir bílstjórar fyrr og nú.

Dauðadrukkinn bílstjóri undir stýri á Skeiðaveginum þykir fréttnæmt fyrirbæri. En margur Íslendingurinn hefur sýnt álíka bjartsýni um eigið ágæti í akstri, þótt við dyr áfengisdauða væri.

Þegar ég var smástrákur ók pabbi vörubíl og var akstur varnings fyrir herlið Bandamanna frá Reykjavíkurhöfn einna drýgstur.

Bílarnir voru eitt sinn síðdegis á föstudegi í röð á Ægisgarði og biðu eftir að komast að undir skipskrananum svo að hægt væri að hífa heysin upp og setja á bílpallana. Bílarnir áttu að fara með hlössin eftir gamla Keflavíkurveginum, sem var krókóttur og mjór malarvegur, sem þræddi Vatnsleysuströndina.

Einn bílstjórinn var ansi drykkfeldur og var oft orðinn ansi slompaður þegar leið að helgi.

Eitt sin þegar bíll hanns stóð á bryggjunni meðan hlassið var híft á á hann, urðu nokkrar tafi í hífingunni.

Loksins var allt hlassið komið á og verkamaður bankaði í frambrettið á bílnum til að láta bílstjórann vita af því að hann mæti aka af stað.

En hann hreyfði sig ekki vitund og rótaði sér ekki í ökumannssætinu, þótt bankað væri á ný, bæði á brettið og síðan á hurðina.

Verkamaðurinn reif þá hurðina upp en brá í brún þegar bílstjórinn reyndist ofurölvi og valt út úr bílstjórasætinu svo að minnstu munaði að hann félli í fang verkamanninum.

Honum var stjakað aftur til baka og rak hann þá bílinn í gír og gerði sig líklegan til að aka af stað.

"Heyrðu" Heyrðu!" hrópaði verkamaðurinn. Ætlarðu virkilega að aka stað?"

"Já, auðvitað, svaraði bílstjórinn.

"Ertu vitlaus, maður?" spurði verkamaðurinn. "Hvernig ætlarðu að aka svona á þig kominn alla leið til Keflavíkur?"

"Það er enginn vandi," drafaði bílstjórinn. "Ég fylgi bara ströndinni."  

 


mbl.is Dauðadrukkinn undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband