Hjartaáfall við moldunina.

Líf og dauði fara sínu fram, hvar sem er og hvenær sem er ef því er að skipta.

Við jarðarfarir er aðeins einn sem er "í jarðarför", þ. e. líkið. Allir aðrir eru viðstaddir jarðarför og ætla mætti að þessi hlutverkaskipti væru nokkuð örugg.

Faðir minn heitinn mælti þó stundum: Enginn veit hver annan grefur."

Fyrir nokkrum árum var ég viðstaddur jarðarför jafnaldra míns og æskuvinar, Davíðs Helgasonar, sem hafði morgun einn hnigið örendur fram á morgunverðarborðið í hjartaáfalli.

Þegar presturinn bjóst til að molda hinn látna í jarðarförinni, varð heilmikið uppistand á fremsta bekk. Þar hneig einn kirkjugesta niður í hjartaáfalli.

Moldunin var stöðvuð og við tók hlé á athöfninni á meðan hlúð var að hinum sjúka og beðið eftir að sjúkralið kæmi til að flytja hann brott.

Ég hugsaði með mér: Maður er hvergi óhultur, ekki einu sinni sem kirkjugestur í jarðarför. Og mér varð líka hugsað til þess, þegar ég var eitt sinn hætt kominn á hvolfi ofan í ískaldri á um nótt í febrúar þegar ísskör brotnaði undan bíl mínum, alveg óvænt, og bílbelti bjargaði mér á aðeins eins kílómetra hraða.  

Mér komu orð föður míns í hug og til varð staka sem eftir tvær aðrar jarðarfarir vina minna, Bessa Bjarnasonar og Flosa Ólafssonar, varð að miðhluta í eftirfarandi sálmi, sem ég gerði síðan lag við: 

 

LJÚFUR DROTTINN LÍFIÐ GEFUR.  

 

Ljúfur Drottinn lífið gefur, -

líka misjöfn kjör

og í sinni hendi hefur

happ á tæpri skör.

Feigðin grimm um fjörið krefur.

Fátt er oft um svör.

Enginn veit hver annan grefur.

Örlög ráða för.  

 

En ég veit að orðstír lifir,

ást og kærleiksþel.

Sá, sem ræður öllu yfir

æ mun stjórna vel.

Vítt um geim um lífsins lendur

lofuð séu´hans verk.

Felum okkur í hans hendur

æðrulaus og sterk.  


mbl.is Lést fyrir utan kirkjugarðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samúð með "sárhnjáðum" Ronaldo.

Það þarf ekki annað en að virða Cristiano Ronaldo fyrir sér í kyrrstöðu til að sjá það þar fer íþróttamaður með mikinn metnað og ástríðu.

Enn betur sést þetta þegar kappinn tekur sína frægu spretti og sannar af hverju hann var valinn besti knattspyrnumaður heims síðast þegar það val fór fram.

Til er myndband af honum þegar hann etur kappi við afbragðs spretthlaupara í stuttum spretti, sem hefur að vísu betur á beinum spretti, en liggur alveg eftir ef hlaupið er í krókaleiðum um stangir líkt í í svigi á skíðum. Þá hefur Ronaldo yfirburði.

Hraðinn á boltanum í aukaspyrnu Ronaldus þegar hann kemur að markinu í illútreiknanlegum sveig mælist vera 130 km/klst.

En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og einn af þessum hlekkjum eru hnén.

Mjög er misjafnt hve vel þau endast og hnémeiðsl eru oft ólæknanleg.

Maðurinn var einfaldlega ekki skapaður til að hlaupa á sléttu og hörðu undirlagi tímunum saman og með miklu álagi.

Ég hef farið í þrjá uppskurði á hnjánum, einn öðrum megin og tvo hinum megin og þekki þetta nokkuð vel.

Læknirinn sagði mér að hrén væru ekki sköpuð fyrir þá meðferð sem þau hefðu fengið af minni hálfu allt frá unga aldri og gæti ég því sjálfum mér um kennt.

Einkum hefði það hefði verið ótrúleg heimska hjá mér að spila innanhússfótbolta með félögum mínum hjá Sjónvarpinu á steingólfi í KR-húsinu árum saman.

Og enn meiri heimska fyrir það sem Framara að leyfa steingólfi erkifjendanna að leika hnén svona illa!

65 ára höfðu hnén fengið nóg eftir síðasta 100 metra sprettinn á 15 sek og knattspyrnuleik í Eyjum daginn eftir og læknirinn skar mig upp í þriðja sinn og bannaði mér að hlaupa framar.

En hann bannaði mér ekki að læðast hratt, sem ég hef fært yfir í það að hlaupa upp stiga í kapp við klukku, enda ekki verri hreyfing fyrir hén en það að þau hanga ennþá, en þó oft afar aum.

Til þess að þola eymslin betur hef ég leitað að einhverju jákvæðu og fann nýyrðið "sárhnjáður" yfir þessi eymsli. Þegar eymslin eru hvað sárust nægir að segja þetta orð upphátt og það eitt kemur fram brosi og minnkar eymslin.

Ónýt hné eru auðvitað smámál fyrir gamlingja eins og mig miðað við það hvers konar stór-stórmál slíkt er fyrir mann eins og Ronaldo sem hefur hengt alla sína hagi og tilveru á þau.

Ég get því ekki annað en haft djúpa samúð með "sárhnjáðum" Ronaldo, vona að hann komist í gegnum þessa eldraun á HM og skil hann vel að reyna að komast framhjá banni læknis síns.   


mbl.is Ronaldo tekur mikla áhættu ef hann spilar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona lagað sést hvergi nema hér.

Rétt eins og Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum og helstu þjóðgarðasvæði þar í landi og víðar ættu þekktust jarðvarmasvæði landsins og náttúruperlur að vera í eigu þjóðarinnar.

Eftir 14 ár verður liðin öld frá því að Þingvellir voru lýstir þjóðareign sem aldrei mætti selja né veðsetja og voru þeir sem að því stóðu langt á undan sinni samtíð, bæði hvað snertir eignarhaldið og ekki síður eðli þess, varðandi það að þetta væri ekki eign sem mætti selja né veðsetja.

Hvergi í öðrum löndum sé maður það, að fyrst taki landeigendur sig til og byrji að rukka um aðgangseyri áður en sjá megi að fénu hafi verið varið í það sem sagt er að verja eigi því í.

Þvert á móti fá gestir strax í hendur vandaða bæklinga um náttúruverðmætin og umgengni við þau og sjá alls staðar í mannvirkjum og þjónustu að þetta eru sanngjörn viðskipti, þjónusta ðg aðstaða gegn greiðslu.  

Ýmislegt í okkar þjóðfélagi ber enn keim af lénsskipulagi miðalda, bæði hvað varðar réttindi landeigenda og einnig hlunnindin sem Kastljós upplýsti nýlega um að margir prestar landsins njóti án þess að hafa nokkuð til þess unnið.

Ég bryddaði upp á umræðu um þessi mál hjá stjórnlagaráði en augljóst var að miðað við þau miklu úrlausnarefni sem ráðinu var ætlað að leysa úr á örfáum mánuðum yrði ekki tími til að ræða þau, brjóta til mergjar og skila tillögum um breytingar og útfærslur þeirra, því miður.  

 

 


mbl.is Skora á landeigendur að rukka ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgötvaði Hvolsvöll og Hellu 2010.

Gosið í Eyjafjallajökli 2010 varð til þess að ég uppgötvaði hve vel Hvolsvöllur og Hella liggja við samgöngum á Suðurlandi og gagnvart þeim verkefnum sem ég vinn að á hálendinu.  

Að vísu er þungamiðja íbúafjöldans nær Selfossi og þar er góður flugvöllur en í raun er Árborgarsvæðið orðið að hluta af atvinnusvæði höfuðborgarsvæðisins og alþjóðlega  hugtakið VBS, "Virkt borgarsamfélag" (á ensku: FUA, Functional Urban Area) nær frá Akranes í norðri, Suðurnesjum í vestri og Flóanum i austri að miðju Reykjavíkur.

Skilyrðin fyrir VBS eru: Meira en 15 þúsund íbúar og minna en 45 mínútur sem tekur að fara frá jaðri inn að miðju.

Frá Selfossi til sýslumarka við Sandskeið eru 36 kílómetrar en hins vegar meira en 230 kílómetrar að Skeiðarársandi. Hlutföllin eru 36:230

Hvolsvöllur liggur augljóslega mun meira miðsvæðis, ekki síst eftir að ferðamannaumferð hefur stóraukist á öllu Suðurlandi.

Frá Hvolsvelli til Sandskeiðs eru 75 kílómetrar en 190 að Skeiðarársandi. Hlutföllin 75:190.

Hvolsvöllur liggur þar að auki rétt utan við VGS Reykjavík en Selfoss hins vegar inni á því svæði.  

Það eru aðeins 13 kílómetrar á milli Hellu og Hvolsvallar, álíka langt að fara og milli Mosfellsbæjar og þungamiðju íbúðabyggðar og verslunar og þjónustu í Reykjavík og því eru þessi tvö þorp í raun ein byggðarheild.

Hvergi á landinu er eins þægilegt að vera á flugvél og á Hvolsvelli.

Hægt er að leggja vélinni í aðeins 100 metra fjarlægð frá apóteki, bensínsölu, veitingastöðum og stórri verslun, auk þess sem nokkur hundruð metrum frá í þorpinu eru heilsigæslustöð, lögreglustöð og margskonar verslun og þjónusta auk hótels og bændagistinga.   

  


mbl.is Hvolsvöllur í vel sveit settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband