Sviptingar og gerjun hjá Bretum.

Furðulegar sveiflur birtast í skoðanakönnunum í Bretland um þessar mundir varðandi afstöðu þeirra til verunnar í ESB. Á dögunum sýndi könnun að talsvert fleiri vildu vera áfram en segja sig úr, en nú hefur þetta allt í einu snúist við.

Manni dettur í hug hvort framsetning og fjöldi spurninga hefur haft áhrif, því að í seinni könnuninni var spurt fleiri spurninga, til dæmis varðandi það að "kíkja í pakkann" eins og það hefur verið kallað hér á landi.

Var þá leitað eftir áliti spurðra á því hver langt Bretar gætu komist í samningum við ESB.

Sumir Bretar gæla enn við gamlar hugmyndir um evrópskt stórveldi sem stæði utan við ESB og væri skipað Bretum og EFTA-þjóðunum.

Spurningin er hins vegar hve miklu EFTA-þjóðirnar fengju að ráða í slíku sambandi þar sem Bretar yrðu augljóslega lang stærsti aðilinn. Að minnsta kosti er hæpið að margir þeir, sem nú kvarta mest undan veldi Þjóðverja í ESB myndu sætta sig við hlutfallslega miklu meira veldi Breta í stækkuðu EFTA.

Síðan er tæknilega spurningin þess efnis að Bretar myndu gerast aðilar að EES.

En þá er hætt við að óánægja þeirra með að áhrif þeirra séu of lítil í ESB yrði enn meiri við það að komast alls ekki að samningaborðinu í Brussel.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvað Bretar gera á næstu árum, því að það hlýtur að hafa áhrif á stöðu ríkjanna í norðanverðri Evrópu.  


mbl.is Fleiri Bretar vilja úr Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HM litla mannsins.

Fram að þessu hefur það verið eitt af aðalsmerkjum HM í knattspyrnu hvað lið þjóða, sem ekki var spáð sérstöku gengi, hafa blandað sér hressilega inn í baráttuna, valdið miklum tiðindumog orðið til þess beint og óbeint að "stórlið" hafa farið hrakfarir..

Fyrirfram var búið að bóka helstu þjóðirnar sem myndu komast í undanúrslitin, stórveldi í knattspyrnunni á borð við Spánjverja, Ítali, Brasilíumenn, Argentínumenn, Þjóðverja, Frakka og Englendinga, - allt þjóðir sem höfðu hampað heimsmeistaratitlum.

Dæmin um óvænt úrslit eru of mörg til a vera talin upp, en bara í gær fengu Argentínumenn stig á silfurfati þar sem Íranir voru rændir vítsspyrnu og Þjóðverjar máttu þakka fyrir úrslitin í leiknum við Ghana.

"Litlu mennirnir", frá þjóðum sem hingað til hafa ekki verið í "stórveldaklúbbnum" í knattspyrnunni hafa sýnt fjör og leik- og baráttugleði sem hafa glatt heimsbyggðina.

Fagnið hjá Ghanabúum og gangan inn á völlinn í gær voru gott dæmi um HM litla mannsins.  


mbl.is HM í beinni - sunnudagur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafði allt til að bera til að skera sig úr.

Michael Schumacher hafði svipaða hæfileika og sumir af allra fremstu og frægustu afreksmönnum heims, ekki aðeins það að skara fram úr á sínu sviði, heldur einnig það að ná þeirri stöðu að allir þekktu hann, engum var sama um hann og heil íþrótt hékk nánast á honum einum hvað snerti vinsældir og áhorf.

Hann var ekki aðeins dáður fyrir snilli sína heldur ekki síður fyrir það hve umdeildur hann gat verið og hve margir elskuðu að hata hann.  

Að þessu leyti gegndi hann svipuðu hlutverki fyrir íþrótt sína og Muhammad Ali lék fyrir hnefaleikana.  

Ástríða hans virtist eiga sé fá takmörk. Einu sinni sá ég stutt myndband af honum í góðgerðakeppni í knattspyrnu og einnig þar skar hann sig úr.

Hann vann sig upp úr nær engu, fyrst á gokart og meðal eigna hans er eldrauður gamall Fiat 500 sem hann þeysti á í blábyrjun ferils síns.

Skíðaíþróttin er að mörgu leyti mjög skyld bílaíþróttum og skiljanleg er sú nautn sem Schumacher hefur fengið út úr því að stunda hana.

Efast ég ekki um að hann hefur verið snjall á því sviði og haft unun af að reyna á þolmörkin.

En einnig þar láu slysahættan og óheppnin í leyni og hið ófyrirséða gerðist á einu augabragði.   


mbl.is Stærsta áskorun heimsmeistarans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband