Jafnmargar kenningar og um hvarf Amalíu Erhardts?

1937 týndist frægasta flugkona heims á flugvél sinni yfir Kyrrahafi og hefur ekkert til hennar né vélarinar spurst síðan.

Vegna þess að ekki hefur fundist tangur né tetur af vélinni hafa myndast ótal sögusagnir og tilgátur um það, hvað hafi valdið hvarfi hennar og hvað hafi orðið um hana.

Ein kenningin var sú að Japanir hefðu rænt vélinni og jafnvel haft hana í haldi hjá sér árum saman. Í sumum útgáfunum stundaði hún njósnir á flugferðum sínum og lenti í vandræðum út af því.

Þótt sagnir væru af örlögum Hitlers var lengi velt vöngum yfir því hvort hann hefði komist undan frá Berlín og lifað mislengi síðan, allt eftir því hver sögumaðurinn var. 

Svo eru til svipaðar kenningar um lifandi menn, til dæmis ýmsar samsæriskenningar um það að Neil Armstrong og félagar hefðu aldrei komist til tunglsins, þetta hefðu verið tómar lygar og blekkingar.  

Margir neituðu að trúa því að Elvis Presley hefði dáið. Já, "Elvis is in the building".

Um upprisu Krists eru ýmsar kenningar, með og á móti.  

Nú er flugstjóri MH 370 kominn á svipaðan stall og Amalía Erhardt og þau hin. Allt vegna þess að ekki hefur fundist tangur né tetur af þotunni sem hann flaug.  


mbl.is Flugmaðurinn aftur grunaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þökkum fyrir að þeir kaupa ekki 40% minni föt.

1957 fór Björn Pálsson frækilegt sjúkraflug á eins hreyfils flugvél til Scoresbysunds til að ná í tvær sjúkar konur og eitt barn og koma þeim til Reykjavíkur.

Hann var einn um borð í vélinni því að ekki var pláss fyrir fleiri.

Þetta var fyrir 57 árum og það hafa orðið miklar framfarir í björgun mannslífa síðan þá.

Setjum sem svo að opinber nefnd myndi kaupa fatnað á sjúkraflutningamenn og telja sig verða að spara frá því sem áður var og það fyrsta sem hún myndi gera væri að spara á þann hátt að kaupa 40% minni föt á alla. Auðvitað myndi það ekki ganga upp.  

Mjög hörð samkeppni er á milli bílaframleiðenda hvað varðar bíla, sem hentugir eru til sjúkraflutninga.

Nægt innanrými til þess að koma sjúklingum fyrir og geta sinnt þeim er atriði númer eitt og enginn vafi er á því að þegar því hefur verið sinnt almennilega á að vera auðvelt að gera hagkvæm innkaup án þess að ganga freklega gegn helsta skilyrðinu, sem setja þarf.   


mbl.is Keyptu of litla sjúkrabíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítrekað skilningsleysi á þjóðfélagsstraumum

Þegar Íranskeisari féll með brauki og bramli 1979 kom það leyniþjónustu Bandaríkjanna, vestrænum ráðamönnum og heimsbyggðinni mestallri algerlega á óvart.

Öflugustu fjölmiðlar heim höfðu hampað Resa Palevi sem stórkostlegum leiðtoga þjóðar, sem væri á leið inn í hóp öflugustu ríkja heims.

Raddir áhrifamanna í nokkrum nágrannaríkjum um það að í raun væri keisarinn gerspilltur og firrtur, haldinn fáránlegum veldisdraumum, drukknuðu í öllum lofsyrðaflaumnum.

Máttu menn þó vita að undir niðri sveið Írönum það sárt að hafa verið sviptir möguleikanum á því að komast undan áhrifavaldi Bandaríkjamanna og Breta þegar Mossadek var steypt af stóli eftir stríðið af því að hann hafði aðrar hugmyndir um nýtingu auðlinda landsins og uppbyggingu þjóðfélagsins þar.

Allt frá 1979 hafa vestrænar leyniþjónustur og ráðamenn sýnt ítrekað skilningsleysi á þjóðfélagsstraumum víða um heim.

Vietnamstríðið hefði þó átt að kenna Frökkum og Bandaríkjamönnum lexíu af skaðsemi þess að meta ástandið í fyrrum nýlendum eingöngu á mælistiku hagsmuna fyrrum nýlenduvelda með tilliti til stórveldapólitíkur, hvort sem það var í Kalda stríðinu eða eftir það.

Í raun snerist stríðið eins og mörg svipuð stríð um vilja undirokaðrar og arðrændrar þjóðar til að verða frjáls.

Þegar vopnuð átök brutust út á milli Víetnama og Kínverja varð almeningur á Vesturlöndum steinhissa. Honum hafði verið talin trú um að Kína og Vietnam væru í heilagri krossferð kommúnista til þess að ná heimsyfirráðum í krafti svonefndrar "dómínókenningar".

En margra alda togstreita milli Víetnama og Kínverjar er hugsanlega eini fasti punkturinn á svæðinu og enn verða átök þeirra á millum, þótt ekki sé beitt hervaldi. 

Meðan Tító réði ríkjum í fyrrum Júgóslavíu héldu menn að ófriðarefni á Balkanskaga heyrðu til 70 ára gamalli sögu smærri styrjalda á skaganum.

Annað kom í ljós. Tító hafði pakkað ágreiningsmálum í krafti myndugleika síns og valds inn í ramgera púðurtunnu sem sprakk við tilkomu tómarúms valda i Júgóslavíu eftir andlát hans. 

Langflest landamæri í Afríku og Asíu voru dregin af nýlenduveldunum, oft í ósamræmi við eðlileg mörk. Það var rétt hjá Saddam Hussein að Kuveit sem sérstakt ríki var slíkur tilbúningur nýlenduveldistímans.

Sér í lagi hafa menn vanmetið mátt trúarbragða og mismunandi túlkunar þeirra.

Bush eldri lagði ekki í að leggja Írak undir sig af því að ráðgjafar hans vöruðu við afleiðingunum af því að það myndi enda með ófyrirsjáanlegum afleiðingum af átökum Shia og Sunnímúslima.

Í valdabrölti og hagsmunaárekstrum hafa harðsnúnir ofstopamenn oft nýtt sér mátt ofsa- og öfgatrúarhópa eins og nú sést glögglega í Írak í atburðarás, sem enginn á Vesturlöndum virtist geta séð fyrir.

Hugsanlega eru Írak og jafnvel fleiri fleiri lönd á svæðinu að liðast í sundur í áhrifa- og yfirráðasvæði mismunandi trúar- og valdahópa eða að ný landamæri eru að verða til.  

Við siglum inn í öld þar sem valda- og hagsmunapólitík og trúarbrögðum er blandað saman í banvæna blöndu.

Slík átök hafa ekki öll verið jafn fjarri Íslandsströndum og bundin eingöngu við mismunandi afbrigði af öðrum trúarbrögðum en kristinni trú eins og okkur hættir við að halda.

Blanda átaka Íra og Englendinga og kaþólikka og mótmælenda á Norður-Írlandi fyrir örfáum áratugum eru gott dæmi um átök, þar sem mismunandi afbrigði sömu trúar eru notuð til að skipta fólki í fylkingar.  

Og Evrópuþjóðir háðu mörg grimmileg stríð undir formerkjum afbrigða af trúarbrögðum, eins og 30 ára stríðið er kannski hvað besta dæmið um.

Í öllum trúarbrögðum er að finna sterkan undirtón um frið og farsæld. En jafnframt hefur einstökum mönnum og hópum ævinlega tekist að finna sér túlkun á einstökum atriðum í kenningum þeirra,  sem þeir hafa notað til að réttlæta illindi, átök, árásir og styrjaldir.

Þetta er enn ógnvænlegra vegna tilvistar kjarnorkuvopna sem getur eytt mannkyninu og mestöllu lífi á jörðinni. Þau eru lúmskasta og versta ógnin.      


mbl.is Hundruð fallið í átökunum í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undravert "markamínútumark."

Fyrirbærið "markamínútan" hefur stundum verið nefnt og er þá átt við það hve oft mörk eru skoruð á  43. mínútu hálfleiks, eða réttara sagt í blálok hálfleiks eða leiks.

Ástæðan fyrir þessu er vafalaust sú að orkugeymir varnarleikmanna er orðinn nær tómur í lok hálfleiks, snerpa og viðbragðsflýtir á þrotum, og þá er meiri hætta á mistökum en ella.

Hið undraverða portúgalska jöfnunarmark í gærkvöldi var dæmigert fyrir þetta. Skönmu áður en það var skorað voru nokkrir leikmenn bandaríska liðsins að þrotum komnir. Einn þeirra lá örmagna um stund á vellinum rétt áður.

Slíkt jafngildir því að spila einum eða tveimur leikmönnum færri.

Bæði Ronaldo og sá, sem fékk snilldarsendinguna frá honum, voru samt valdaðir, hvor um sig með mann á sér sem áttu að koma í veg fyrir bæði sendingu og móttöku. Vegalengdin á milli sendanda og móttakara var mjög löng. Það átti ekki að vera mögulegt að skora þetta mark.

En hvorugur varnarmannanna sem áttu að valda Portúgalana tvo voru nógu viðbragðsfljótir.

Sending Ronaldos var tær snilld, ekki aðeins það hvernig hún fór á hárréttan stað fyrir framan koll viðtakandans heldur líka það hve snöggt Ronaldo sveiflaði fætinum í spyrnunni.

Aðeins Ronaldo getur gert þetta svona eldsnöggt og nákvæmt og það skapaði sekúndubrotið sem þurfti til þess að boltinn færi framhjá varnarmanninum sem gætti hans og var kannski ekki lengur með þá ofursnerpu sem þurfti til að komast fyrir svo snöggt skot.

Hinn varnarmaður Kananna var kannski líka á síðustu eldsneytisdropunum en jafnvel þótt hann hefði getað náð til boltans hefði það kannski bara orðið sjálfsmark, svo undrahröð og nákvæm var sendingin.

Snilld og heppni skópu þetta magnaða mark. En snilli og heppni fara oft saman og kallast meistaraheppni.  

Bandaríkjamenn eiga erfiðan róður fyrir höndum að mæta Þjóðverjum, því að gömlu stórveldin Þjóðverjar og Frakkar hafa sýnt styrk sinn á mótinu.

En kannski snýst heppnin Bandaríkjamönnum í vil,  - hver veit?  

 


mbl.is Klinsmann: Spiluðum einstaklega vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband