Áhrifaríkt að koma á slóðir innrásarinnar.

Í tengslum við vinnu mína vegna bókarinnar/kvikmyndarinnar "Emmy, stríðið og jökullinn" fórum við Helga til Normandy 2006 til að skoða vettvanginn þar sem hermenn Bandamanna óðu í land, tókum þar myndir og "uppistönd".

Frakkar standa myndarlega að því að viðhalda sögulegum minjum, söfnum og öðru sem þarf til þess að upplifunin af því að standa þarna í sporum hermannanna verði sem dýpst.

Um alla Evrópu allt norður til nyrstu byggða Noregs,  leggja menn rækt við stríðsminjar í formi bygginga, safna, vígvéla og hvers þess sem haldið getur minningunni um hildarleiki stríðsins á lífi.

Hér á landi hefur þetta verið vanrækt með undantekningu á Reyðarfirði. Með naumindum hefur verið hægt að afstýra því að gamli flugturninn á Reykjavíkurflugvelli yrði brytjaður niður en því miður hefur margt annað verið eyðilagt eða látið drabbast niður.

Í Kaldaðarnesi hefur að óþörfu verið skipulega eytt öllum minjum flugvöll, sem gegndi gríðarmiklu hlutverki á undan Reykjavíkurflugvelli og allt til 1944. Það var til dæmis send Hudson-flugvélin sem klófesti fyrsta þýska kafbátinn, sem Bandamenn náðu á sitt vald í stríðinu.  

Það er dapurlegt og hlálegt í senn að sumum verðmætum minjum frá Reykjavíkurflugvelli og Vatnagörðum skuli hafa verið bjargað í safn alla leið vestur á Hnjót í Patreksfirði.

Á Reykjavíkurflugvelli og við Reykjavíkurhöfn ætti að reisa tvö stríðsminjasöfn, annað um þátt flugvallarins í orrustunni um Norður-Atlantshaf en hitt um þátt Reykjavíkurhafnar og skipalestirnar.  

Ef menn eru í vandræðum með fyrirmyndir ættu þeir að fara til Narvikur í Norður-Noregi og sjá hvernig staðið er málum þar.

Orrustan um Narvik var að sönnu mikilvæg í stríðinu en orrustan um Norður-Atlantshaf þó enn merkilegri, því að umfjöllun um hana er að finna í öllum heildarritum um stríðið þar sem hún er í sama flokki og aðrar stærstu orrustur stríðsins, svo sem orrusturnar, sem kenndar eru við Normandy, Stalingrad, Kursk, Moskvu, El Alamein og Midway, svo að nokkrar séu nefndar.  


mbl.is Normandí þá og í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áberandi gallar í mikilvægri vinnu.

Á fundi á vegum VSO ráðgjafar í morgun um mat á umhverfisáhrifum í 20 ár kom fram, að þrátt fyrir þá miklu framför sem fólst í því að taka upp hliðstæð vinnubrögð hér á landi og tíðkast höfðu erlendis um árabil fyrir 1994, eru enn mörg atriði, sem laga þarf til þess að þau nái alltaf tilgangi sínum.

Misræmið á milli mats hjá Skipulagsstofnun þessi ár og mati Vegagerðarinnar var æpandi í tölum, sem Auður Magnúsdóttir birti á fundinum.

Ég nefndi tvö æpandi dæmi um útkomuna, þegar verkkaupinn, virkjanaaðilinn, kaupir sér þjónustu verkfræðistofu til  að gera mat á umhverfishrifum, sem í besta falli er að stórum hluta fúsk en felur líka í sér blekkingar og ranga mynd.

Annað er mat á umhverfisáhrifum Búlandsvirkjunar. Í mati á umhverfisáhrifum er alveg sleppt þeirri stórfelldu breytingu sem verður þegar Skaftá er tekin úr farvegi sínum þar sem hún fellur framhjá Skaftárdal og rennur núna í einstæðu hraunkvíslaneti og fimm fallegum fossum.

Í matinu er ekki getið um þessi náttúrufyrirbæri, sem eyðileggja á, frekar en þau væru ekki til.

Hitt atriðið er mat á umhverfisáhrifum virkjana við Kröflu.

Í tillögu tveggja Framsóknarráðherra rétt fyrir kosningarnar 2007 var gert ráð fyrir, að vegna einstæðs gildis svæðisins Leirhnjúkur-Gjástykki sem landslagsheildar yrði ekki hróflað við því svæði nema með sérstakri samþykkt Alþingis.

Í mati á umhverfisáhrifum er ekki orð um svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki, heldur aðeins tilgreint að tvær landslagsheildir séu á svæðinu, annars vegar Gæsafjöll, sem eru fyrir vestan það, og hins vegar Kröflusvæðið sjálft, sem fyrir einskæra tilviljun er með sömu útlínur og útvíkkað virkjanasvæði stækkaðrar Kröfluvirkjunar.

Niðurstaða matsins er því sú að ekki verði hróflað við neinni markverðri landslagsheild og að vegna þess að hluti annarrar heildarinnar sé þegar orðið að iðnaðarsvæði, sé í góðu lagi að stúta henni allri.

Í báðum þessum tilfellum er niðurstaða matsins á umhverfisáhrifunum miklu jákvæðara en ella þegar sleppt er mikilvægustu atriðunum eða þau skekkt stórlega.  

Augljós er sá hvati til verkfræðistofa sem felst í því að þær hafa árum saman keppt um að fá stór og dýr verkefni hjá voldugum verkkaupum til að hagræða atriðum og niðurstöðum sem best fyrir verkkaupa.

Sú verkfræðistofa sem best stendur sig í því að gera hvern verkkaupanda ánægðan mun auðvitað fá fleiri verkefni en aðrar verkfræðistofur.    


mbl.is Ósamræmi í mati á umhverfisþáttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband