Þúsundir kei-bíla á Íslandi í 37 ár.

Í frétt á mbl.is um svonefnda "kei"-smábíla í Japan er rangt farið með það að þeir séu aðeins framleiddir fyrir japanskan markað.

Japanskir kei-bílar hafa verið fluttir út frá Japan í fjóra áratugi, og síðustu 16 ár verið kei-bílar sem standast eftirfarandi kröfur verið á markaði í heimalandinu: Hámarkslengd: 3,40m, hámarksbreidd 1,48, hámarksrúmtak vélar 660 cc og hámarksafl vélar 64 hestöfl.

En fyrir erlendan markað hafa Japanir framleitt kei-bíla með hægri- eða vinstrhandanstýri, ýmist óbreytta eða lítt breytta í nær 40 ár og hér á landi hafa slíkir bílar verið allar götur frá því sá fyrsti, Suzuki SJ20 smájeppinn kom á markað 1977 fyrir 37 árum. 

Sá jeppi stóðst afar harðar kröfur um kei-bíla:  Hámörkin voru 2,99 x. 1,30 m lengd og breidd og 360cc vél.

En til útflutnings voru þessir jeppar fluttir með 797 cc 37 hestafla fjórgengisvél og varadekkið var aftan á bílnum í stað þess að vera inni í bílnum eins og í Japan. 

1981 var búið að breyta reglunum í Japan og nú voru hámörkin: 3,20 x 1,40 lengd og breidd og 550 cc vél. En til útflutnings var boðin 970 cc 45 hestafla fjórgengisvél.

Fjöldi svona jeppa voru fluttir til Íslands og nokkrum árum síðar kom 1300 cc útgáfa 63ja hestafla útgáfa með hækkuðu þaki og þessir bílar er ennþá nokkur hundruð í umferð hér á landi.

Síðan voru brettakantar settir á Súkkurnar og öxlarnir lengdir, svo að breiddin varð 1,46 m og nafninu var breytt úr Fox í Samurai.

Síðasta útgáfan undir nafninu Jimny kom 1998 þegar kei-reglunum var breytt í ný hámörk: 3,40 x 1,48 lengd og breidd og 660 cc hámarksrúmtak vélar.

Til útflutnings var bætt utan á bílana samfelldu plastlagi til að breikka bílinn upp í 1,60 og lengja hann í 1,60 og boðin 1300 vél með meira en 80 hestöflum og þeir bílar seljast vel enn í dag, jafnt hér á landi sem annars staðar.

Sama var gert við Daihatsu Terios kid og Mitshubishi Pajero Pinin. Terios var breikkaður úr 1,48 upp í 1,55 með hvimleiðu "fitulagi" úr plasti, sem flestir hafa ryðgað undir, og afturendinn á Terios var lengdur um 20 sentimetra.  

Hér er svo listi yfir kei-bíla, sem fluttir hafa verið inn hér á landi frá 1977 í réttri tímaröð:

Suzuki SJ20

Suzuki Fox.

Suzuki Alto.

Subaru Rex.  

Suzuki Samurai.

Daihatsu Cuore.

Daihatsu Terios.

Mitsubishi Pajero Pinin.

Suzuki Jimny.   

Þetta er myndarlegur listi, þúsundir kei-bíla, sem  hafa verið fluttir hingað til lands allt til dagsins í dag og eru hér enn í umferð og enn í dag eru mörg hundruðJimny jeppar fluttir inn árlega.  

Ef menn telja að ný lög um opinber gjöld á bílum muni fækka kei-bílum í Japan mun það hafa miklar og slæmar afleiðingar fyrir umferðina í stórborgum þess lands, því að tilvist þessara bíla hefur verið grunnurinn að því að koma í veg fyrir algert umferðaröngþveiti í þeim.

Ég hef áður lýst því hvað lengd bíl skiptir gríðarlegu miklu máli í því að losa um rými á götunum, minnka umferðarteppur, greiða fyrir umferð og minnka kostnað við gerð dýrra umferðarmannvirkja.

Bábiljan um öryggið afsannast best með tilveru bíla eins og Fiat nýja 500, Volkswagen Up!/Skoda Citigo, Chevrolet Spark og Kia Picanto.

Toyota IQ er aðeins 2,99 metra langur og fær fimm stjörnur og Smart, sem er aðeins 2,79 m langur gefur margfalt stærri bílum ekkert eftir í öryggi.  

Á þessum bílum sést að hægt er að framleiða bíla með hámarksöryggi, 5 stjörnum, sem eru aðeins 3,50 metra langir og um 1,60 á breidd.  

Með því að lengja kei-viðmiðin um aðeins 10 sentimetra í breidd og lengd , í 3,50 x 1,58, er hægt að ná þessum takmörkum.

Sjálfur lenti ég í því á kei-bíl, Daihatsu Cuore árgerð 1999, að stórum amerískum bíl var ekið aftan á mig kyrrstæðan á 60 kílómetra hraða, og stóðst Cuore-bíllinn þann harða árekstur afar vel án þess að ég hlyti meiðsl af.

Ég ætla að henda inn myndum af kei-bílum á facebook síðu mína þegar færi gefst kvöld.   

 

 

  

  


mbl.is Í stríð gegn smábílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá vitum það: Mikil ást á gíslatöku í umferðinni.

Þegar ökumenn, stundum margir í röð, gefa ekki stefnuljós við beygju á gatnamótum eða í hringtorgum, koma þeir oft í veg fyrir  að aðrir ökumenn geti haldið áfram för sinni, - halda jafnvel langri röð af bílum í raun í gíslingu.

Einkum getur þetta verið áberandi og svekkjandi við T-gatnamót. Hliðstætt þessu er þegar bílstjórar planta bíl sínum þannig þegar aka á inn á gatnamót, að enginn, sem er fyrir aftan þá og ætlar í aðrar átt, komist leiðar sinnar.   

Þessi gíslataka sýnir eindæma skammsýni, því að enda þótt þessir stefnuljósalausu ökumenn tapi sjálfir ekkert á þessari framkomu í augnablikinu, verða þeir sjálfir oftast að gíslum þegar þeir koma á gatnamót í næsta skipti, ef marka má niðurstöður rannsóknar, að  30% ökumanna eru gíslatökumenn í umferðinni.

Hin landlæga hegðun okkar Íslendinga er brot á umferðarlögum, en hins vegar minnist ég þess ekki að nokkurn tíma hafið verið sektað fyrir hana.

Kannski finnst sumum það næg refsing, að menn verði oftar fyrir barðinu á þessu en að þeir valdi því, en þá vaknar spurningin: Hvers vegna í ósköpunum höldum við áfram að koma svona fram hvert við annað til daglegs tjóns og leiðinda?  


mbl.is Þrír af tíu gefa ekki stefnuljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásemd fyrir okkur að gera það, sem Evrópa vill ekki!

Tvö stórkarlaleg fyrirbrigði hafa verið íslenskum stóriðjutrúarmönnum hugleikin á þessari öld, álver og olíuhreinsistöðvar, og mjög gumað af því hve mikil tækifæri bjóðist okkur Íslendingum nú vegna þess að í okkar heimshluta vilja menn ekki reisa nýjar verksmiðjur af þessu tagi, heldur fer álverum fækkandi og engin ný olíuhreinsistöð verið reist í 25 ár.

Í grein í Morgunblaðinu eru tækifæri Íslendinga dásömuð varðandi það að reisa ný álver og fyrir nokkrum árum var sami söngur varðandi olíuhreinsistöðvar.

Í áróðrinum fyrir álverum og hreinstöðvum örlar hvergi á því að útskýra hvers vegna þjóðir í okkar heimshluta vilja bægja álverum frá sér og hafa ekki reist oliuhreinsistöð í aldarfjórðung.  

Það þessi frávísun á sér eðlilegar skýringar, - er til dæmis vegna þess að þessar þjóðir fá aðrar tilfinningu við að heyra orðin "orkufrekur iðnaður" en við. Með síbylju í hálfa öld hefur áltrúin hér á landi orðið að þjóðartrúarbrögðum, þar sem orðin tvö, "orkufrekur iðnaður", sem þýða mesta orkubruðl sem um getur, eru orðin að ígildi guðspjalls.

Aðrar þjóðir í kringum okkur snúa orðunum "orkufrekur iðnaður" ekki á haus eins og við, heldur forðast orkubruðl með tilheyrandi mengun.

Og í þessum löndum vill enginn hafa önnur eins skrímsli og olíuhreinsistöðvar nálægt sér.

En hér á landi er uppi átrúnaður á það, að við skulum sækjast eftir því sem aðrir forðast

Reynt er að koma þessum fyrirbærum, álverum og olíuhreinsistöðvum yfir á fátækar og vanþróaðar þjóðir og svo auðvitað Íslendinga þar sem hægt er að pranga orkuverðinu sem mest niður.

Í greininni í Morgunblaðinu er dásamað hve hraðvaxandi eftirspurn sé eftir áli á heimsmarkaði.

Hins er ekki getið að álverð hefur lækkað síðustu ár og valdið Landsvirkjun búsifjum.

Og að sjálfsögðu ekki gerð minnsta tilraun til að útskýra hvernig aukin eftirspurn geti farið saman við verðfall, enda æpandi mótsögn í því.   


Bloggfærslur 9. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband