Yfir 3 stig 13,5 km frá Kárahnjúkastíflunum.

Fremri-Kárahnjúkur, sem Kárahnjúkastífla, hins stærsta af þremur stíflum Kárahnjúkavirkjunar, er byggð utan í, er eldfjall og stendur á sprungukerfi, sem teygir sig þangað frá Kverkfjöllum. 

Jarðhitasvæði, svonefndar Lindur, var rétt innan við Kárahnjúka, en er nú á botni Hálslóns.  

13,5 kílómetra í suðvestur frá stíflunum, eða rétt við Sauðárflugvöll, kom skjálfti yfir 3 stig í gær.

Við, sem höfum verið þar undanfarna daga, vorum þá farin þaðan til Akureyrar og fundum því ekki fyrir skjálftanum.

En flugumferðarstjóri á Akureyri sagði, að flugturninn hefði skekist til í stóra 5,7 stiga skjálftanum rétt fyrir hádegi i dag.  

Undir stærstu stíflunni við Kárahnjúka voru þrettán sprungur sem þurfti að líma eða þétta á ákveðinn hátt þegar stíflan var byggð ofan á þær.

Það hefur sést á jarðskjálftagögnum að síðasta sólarhringinn eru farnir að sjást skjálftar á línu milli Herðubreiðartagla og Upptyppinga, sem eru á kunnuglegum slóðum frá undanförnum árum, en sprungusveimur eða misgengi liggur frá Kverfkjöllum og norður í Kárahnjúka.en það er nýtt að skjálftar komi fram á sprungusveimnu, sem liggur milli Kverkfjalla og Kárahnjúka, hvað þá yfir 3 stig.

Svo stór skjálfti kom þar ekki í hrinunni, sem byrjaði við Upptyppinga sumarið 2007, stóð fram á næstu ár og hefur siðan komiö upp í litlum mæli við Herðubreið, Herðubreiðartögl, í Krepputungu og Álftadalsdyngju.  

Stærsta stíflan við Kárahnjúka er hönnuð til að standast skjálfta á bilinu 4 til 6 stig, eftir því hvort þeir eru alveg undir henni eða aðeins fjær.

En ekki hef ég séð nein gögn um það hvað gæti gerst, ef einhver af öllum sprungunum, sem liggja undir stífluna, giliðnar eða byrjar að leka.

Stíflurnar hafa lekið mjög lítið og öllu minna en víða gerist, til dæmis við Sigölduvirkjun. Þannig er áin Hrafnkela í Hrafnkelsdal, sem er bergvatnsá, oft aurlituð af vatni sem ábúendur í dalnum segja að komi í hana úr göngunum.

Austar, við svonefndan Þrælaháls, er 5-7 kílómetra breitt misgengi af fjölmörgum gjám neðanjarðar, sem tók meira en hálft ár að bora göngin í gegnum, enda sú stærsta 9 metra breið.

Því er ósvarað hvað myndi gerast ef einhver gliðnun yrði þar.

Lögfræðingur Landsvirkjunar lýsti vel eðli þessara mannvirkja í bréfi sem hann sendi landeigendum á sínum tíma eftir að virkjunin var risin og málaferli hafin, til þess að sýna fram á það að þeir ættu ekki að láta sig dreyma um milljarða framlög vegna vatnsréttinda á svæðinu. Í því stendur orðrétt:

"Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu- og markaðslegu tilliti..." 

 


mbl.is Jarðskjálfti fannst á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt fámenni á þessum árstíma.

Það var óvænt tilfinning sem við þrjú upplifðum tvo sólarhringa á Sauðárflugvelli og komast að því að við værum alein um hásumar á stórum hluta landsins. 

En þannig varð það eftir að við lentum á Sauðárflugvelli og dvöldumst þar í tvær nætur.

Flugvöllurinn er ekki á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum, og til þess að flæða þar yfir, þyrfti hún að renna yfir tvo rana fjalla og hálsa, sem gengur til norðurs úr vestanverðum Brúarjökli og beinir ánum Kverká og Kreppu í Jökulsá á Fjöllum.

Þrjár ár, Sauðá, sem bjó til flugvöllinn, Kringilsá og Jökulsá á Dal sem nú hefur verið drekkt í Hálslóni, eru hins vegar á vatnasvæði á austurhelmingi þessa svæðis.

Ég fékk upphringingu frá einhverjum manni, sem ég þekki ekki neitt, sem skammaðist yfir því að ég hefði brotið gegn ferðabanni, sem þarna væri, því að við Kárahnjúkastiflu væri bannmerki, sem ég hefði ekki virt.

Ég sagði honum að flugleið mín til vallarins hefði í fyrsta lagi ekki legið yfir Kárahnjúka og spurði hann hvernig í ósköpunum ég hefði átt að virða bannmerki í vegakerfinu, sem ég hefði ekki séð, - hvort hann teldi að ég þyrfti að fylgja vegum hvarvetna á flugi mínu í nokkurra feta hæð til þess að gá á öll vegamerkin, reyna að lesa á þau og stöðva til dæmis för og víkja fyrir bílum á einbreiðum brúm.

Þarna uppgötvuðum við það sem sagt, að við mættum ekki aka framhjá bannmerkinu á leið frá bannsvæðinu, heldur yrðum að vera lokuð inni, jafnvel þótt við værum samt ekki á skilgreindu hættusvæði!

Með leyfi yfirmannsins í aðgerðum Almannavarna fengu Lára og Vilhjálmur Þór að aka milli flugvallarins og Egilsstaða í fyrradag, enda sú leið öll tugum kílómetra utan við skilgreint hættusvæði.

Og það var sérkennileg tilfinning að vera þarna þrjú ein á gríðarstóru landsvæði sem annars iðar víða af ferðafólki á þessum árstíma.  

Svona getur nú flugið ruglað margt, til dæmis ef það yrði talið nauðsynlegt vegna smithætttu að banna alla flugumferð til og frá landinu.

Íslenskir farfuglar munu nefnilega fara sínu fram á vorin og haustin, jafnvel þótt þeir bæru óafvitandi einhver óvelkomin efni, smáverur eða pestir til landsins.   

 

 


mbl.is Gera ekki ráð fyrir fleiri ferðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðateygjur, forboði goss eða hluti af löngu ferli?

Ýmsar útskýringar eru á lofti hjá fræðimönnum á því sem er að gerast í skjálftahrinunni sem kennd er við Bárðarbungu.

Ein er sú að stærð skjálftanna þurfi ekki endilega að tákna það að gos sé að dynja yfir, heldur um eðlileg viðbrögð í Bárðarbungu að ræða við gliðnun og kvikuinnskotum á margra tuga kílómetra löngu svæði.

Gæti þess vegna verið hluti af löngu ferli, líkt og átti sér stað við Kröflu í Kröflueldum og að stórir skjálftar gætu í raun verið nokkurs konar hluti af dauðateygjum hrinunnar, sem muni fjara út smátt og smátt á meðan berggangur eða berggangar væru að fyllast af kviku, án þess að hún komi upp á yfirborðið. 

2007 hófst skjálftahrina við Upptyppinga fyrir austan Öskju, sem smám saman færðist til á litlu svæði og fjaraði rólega út á mörgum mánuðum.  

Í upphafi hrinunnar í Bárðarbungu var stundum minnst á það, að mestar líkur væru á stórum skjálftum sem forboða goss, sem væri að bresta á. Þannig kynni það hugsanlega að verða í þetta sinn.

Eins og oft vill verða, kunna allar þessar útskýringar að vera réttar út af fyrir sig. 

Það, ásamt þeirri staðreynd, að fyrr eða síðar muni gjósa þarna, gerir þetta allt svo áhugavert.

Ekki síst vegna þess, að skjálftarnir dreifast út fyrir Bárðarbungu og bergganginn margumrædda.

Þannig má sjá á skjálftakortinu á vedur.is að einn skjálftinn, sem náði 3ja stiga styrk, varð á Brúaröræfum skammt frá Sauðárflugvelli, sem hefur verið aöseturstaður minn í viku.

En völlurinn liggur yfir sprungumisgengi sem teygir sig frá Kverkfjöllum í norðaustur í gegnum Kárahnjúkastíflu og Kárahnjúka, sem eru sofandi eldstöð.   


mbl.is Sá stærsti hingað til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband