Tvö skammarleg mál gagnvart sannri vinaþjóð.

Engar tvær Norðurlandaþjóðir eru eins nátengdar og Íslendingar og Færeyingar. Og engin Norðurlandaþjóð hefur reynst okkur betri en þeir. 

Þegar allir aðrar þjóðir lögðust gegn okkur í Hruninu spurðu Færeyingar einskis, en gengu strax gegn straumnum og studdu okkur af einstæðum höfðingssakap og af fágætri vináttu.

Illa launum við þeim drengskaparbragðið með því að sýna þeim fádæma tómlæti og stórbokkaskap í tveimur málum.

Annað þessara mála varðandi færeyskt makrílveiðiskip er á allra vörum og margir hafa skammast sín fyrir að vera Íslendingar undanfarin dægur vegna framkomu okkar gagnvart bestu vinum okkar í því.

Hitt málið er það tómlæti og tregða sem við höfum sýnt þeim gagnvart óskum þeirra um að fá að fljúga á milli Voga og Reykjavíkur á Airbus 319 þotum, sem nú hafa leyst BAE 146 þotur af hólmi í flugi Færeyinga. 

Ég gerði það að gamni mínum hér um árið að spyrja fólk, hvaða flugvélar væru þær stærstu sem flygju reglulega um Reykjavíkurflugvöll og fékk nær aldrei rétt svar, sem var, að það væru þotur Færeyinga, sem væru fjögurra hreyfla breiðþotur sem tækju fast að 90 farþegaum í sæti.

Þessar þotur voru svo hljóðlátar og nægjusamar á brautarlengdir að fólk tók varla eftir þeim.

Þegar Færeyingar vildu nota Airbus 319 í staðinn, afar lágværar og hentuga þotur, brá svo við að lappirnar voru dregnar og þeir látnir mæta algerlega óþörfu fálæti. Inn í það hefur kannksi blandast andstaðan gegn notkun Reykjavíkurflugvallar, og sýnir það þröngsýni okkar gagnvart örlátri og sannri vinaþjóð.

Færeyingar eru svo mörgum sinnum fámennari en við, að flug þeirra á milli landanna getur aldrei orðið nema hluti af raunverulegu innanlandsflugi beggja þjóðanna.

Nú eru menn loks að sjá að sér í þessum tveimur málum, en það hefur verið til skammar hvernig lappirnar hafa verið dregnar og einstæð vinátta hinnar litlu bræðraþjóðar lítils metin.  


mbl.is Vandar Íslendingum ekki kveðjurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Býsna stórt fimm mínútna viðfangsefni.

Fréttamaður á visir.is hringdi í  mig á flugi í hádeginu í dag og sagði mér, að í fréttum í hádeginu hefði Kristján Már Unnarsson greint frá því að búið væri að kæra mig fyrir að brjóta flugbann við eldgosið í Holuhrauni. 

Hvað fréttina um kæruna áhrærir er í tengdri frétt á mbl. is rakið skilmerkilega, að slíkt mál séu kærð til lögreglu, enda sé vera loftfars á flugbannssvæði ævinlega refsivert athæfi, sama hverjir eigi í hlut, sem varðað geti sviptiingu flugmannsréttinda og stöðvunvar loftfarsins.

Hefur síðarnefnda atriðið varðandi flugvélina, sem ég hafði leigt mér í þetta flug, verið í gangi í dag, mér til mikillar undrunar, því ég hélt að eigandi hennar bæri ekki ábyrgð á því hvernig aðrir en hann sjálfur flygi henni.

Sjálfur hef ég enn ekki enn fengið kæru eða fyrirspurn vegna þessa flugs frá þeim, sem sagt hefur verið frá að hafi kært mig og undrar mig að það skuli dragast, því að mér sýnist afar einfalt mál hafa verið gert býsna flókið og stórt. Málið snýst nefnilega um þrjú atriði, sem aðeins hefði þurft eitt eða tvö símtöl til þess að upplýsa.

1. Ég gerði flugáætlun um flug að gosstöðinni í Holuhrauni við flugturninn á Egilsstöðum og við Hjalti Stefánsson fórum í loftið á Egilsstaðaflugvelli klukkan 5:14.

2. Klukkan 5:38, 24 mínútum síðar er gefin út tilkynning um umrætt flugbann.

3. Á þeim tímapunkti, klukkan 5:38, erum við Hjalti komnir inn að Sauðárflugvelli á Brúaröræfum, eigum aðeins eftir 10 mínútna flug á gosstaðinn og erum búnir að vera á flugi í 10 mínútur án möguleika á radíósambandi og komumst ekki í aftur í radíósamband við flugturninn á Egilsstöðum fyrr en við erum komnir til baka af gossvæðinu.

Ef ég verð samt ákærður og krafist refsinga fyrir brot, sem mér var tæknilega ómögulegt að vita um að ég væri að fremja, verður það nýjung í íslensku réttarfari að sakfella fyrir að brjóta bann eða lög sem maður á enga möguleika til að vita um að hafi verið sett.   

 

 


mbl.is Ómar: Hafði ekki hugmynd um bannið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vika frá fyrsta bloggpistlinum um nýja sýn á svæðið.

Nú er liðin rétt vika frá því að bryddað var upp á því hér á síðunni að ýmislegt þyrfti að taka til nýrrar skoðunar varðandi umbrotin norðaustur af Bárðarbungu. 

Tilvist Holuhrauns var tilefni daglegra skrifa á síðunni um þetta og strax á fyrsta degi þeirra fór ég í sérstakt klukkustundar langt myndatökuflug yfir Holuhraun til þess að eiga góðar myndir af þessari gígaröð og hrauninu sem rann úr þeim.

Alls konar uppákomur og aðrar fréttir tóku alla athygli vísindamanna og fjölmiðla næstu daga en loks fékkst staðfesting vísindamanns þremur dögum síðar á því að Holuhraun gæti allt eins tengst Bárðarbungu eins og Öskju.

Ekki óraði mig fyrir því fyrir viku að Holuhraun myndi grípa svo hressilega við sér svo skömmu síðar og að þá yrði aðeins 35 kílómetra fjarlægð frá svefnstað mínum til nýs gosstaðar.

Síminn glumdi um miðnætti um eldgos, sem sæist á milu.is en vegna þess hve stjörnudýrð og birta himinsins var mikil yfir Sauðárflugvelli þar sem ég var, var erfitt að sjá hvort öflugur bjarmi, sem sást í vestri, væri af völdum goss eða norðurljósa, sem í þeirri svipan hófu sig upp af fádæma afli og fóru eins og breitt leifturband frá vestri til austurs yfir flugvellinum.

Ég sá ekki rauðan lit í bjarmanum  í vesturátt, - kannski vegna þess hve norðurljósabjarminn var sterkur, og því gat ég ekki staðfest að þessi ljósasýning væri af völdum gossins og náði þar af leiðandi engum myndum af þessu, enda fóru nú að berast í símtölum upplýsingar um að gosið væri að fjara út. 

En þessi næturstund var engu að síður mjög áhrifamikil og eftirminnileg.    


mbl.is Norðurljós yfir eldstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband