Skynsamleg og óumflýjanleg ákvörðun.

Sú ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að gefa upp á bátinn áform um að bjóða sig fram til að halda áfram starfi sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins er skynsamleg og hún færir gild og skynsamleg rök fyrir henni.

Þessi ákvörðun var þegar orðin óumflýjanleg og hún hreinsar andrúmsloftið. 

Í sérhverju vali ræður miklu hverjir eru í framboði. Væru ekki sjáanlegir sterkir frambjóðendur innan Sjálfstæðisflokksins aðrir en Hanna Birna, gæti það hafa verið athugandi fyrir hana að sjá til aðeins lengur. 

En þannig er það ekki.

Ólöf Nordal, sem áður var varaformaður flokksins, hefur staðið sig vel í embætti innanríkisráðherra og styrkt stöðu sína svo mjög innan flokksins, að hún ætti að eiga góða möguleika á því að verða kosin á ný sem varaformaður. 

Einu sinni sagði íslensk stjórnmálakona, sem tapaði formannskosningu í flokki: "Minn tími mun koma!" 

Það þótti flestum ólíkindatal, já, næstum eins og óráðshjal, - en 15 árum síðar varð hún samt forsætisráðherra.

Engin leið er að spá fyrir um það hvort svo ólíklega saga eigi eftir að endurtaka sig hjá annarri konu.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. 

 


mbl.is Hanna Birna gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökkrið og svalinn færa okkur haustlitina.

Hauströkkrið og sú staðreynd, að meðalhitinn um mánaðamótin september-októbef er kominn niður í sex stig, veldur því að það geta komið dagar eins og nú eru framundan, með hálku á fjallvegum og snjókomu í fjöllum og á hálendinu. Hvalvatns-fjörður, innst, haust

Á móti kemur sérstæð fegurð haustlitanna, sem sést á myndum, sem teknar voru í myndatökuferðalagi fyrir Ferðastiklur og á leiðinni til Reykjavík. 

Litfegurðin getur verið býsna mikil.Hvalvatns-fjörður innst í dalnum

Og þegar Norðlendingar hafa fagnað hlýjasta mánuði ársins, september, en margir víða um land eru óhressir með rok og rigningu, verður að muna, að það þarf ansi mikinn suðlægan vind til þess að færa hlýjuna svona langt norður á hnettinum. 

 

Víð um land má sjá hvernig skógrækt er að breyta ásýnd landsins og auka fjölbreytni hennar auk þess að sem skógar mynda skjól og aðstæður til útiveru og náttúruskoðunar. 

Þó er það umdeilanlegt sum staðar hvar og hvernig er gróðursett. Borgarfjðrður, haustlitir

Myndin úr Borgarfirðinum hér á síðunni er tekin þar sem trén njóta sín vel í brekku án þess að skyggja enn um of á hamarinn á bakvið, en síðan má sjá einstaka stað í Borgarfirði, þar sem tré eru gróðursett þannig að þau hafa þegar skyggt algerlega á falleg hamrabelti að baki þeim eða munu kaffæra slíkt landslag þar sem klettar eru í stöllum. 

En slíkt klettalandslag er ein höfuðprýði á stórum svæðum í Borgarfirði.

Vanhugsuð skógrækt hefur þó einn stóran kost; - það er hægt að höggva trén ef mönnum snýst hugur. 


mbl.is Hálka og kuldi næstu daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í algerri mótsögn við glæsilegt upphaf framleiðslunnar.

Viðskipti byggjast á gagnkvæmu trausti viðskiptaaðila. Þegar Volkswagen verksmiðjurnar hófu rekstur á rústum stríðsins var nánast ekkert sem benti til þess að Bjallan yrði mest seldi bíll veraldarsögunnar.

Að vísu hafði hún þann kost að vera sett saman úr miklu færri hlutum en aðrir bílar þess tíma og að á þeim forsendum gæti hún orðið ótrúlega ódýr.

En í upphafi þótti sumum ekkert athugavert við það þótt sumir hlutar bílsins, svo sem helstu slitfletir, yrðu úr ódýru og endingarlitlu efni svo að bíllinn gæti orðið enn ódýrari.

Fyrsti forstjórinn, Nordhoff, hafnaði slíku hins vegar eindregið og krafðist þess að allar legur og slitfletir yrðu úr besta fáanlega hráefni, þótt það kostaði eitthvað meira, og sömuleiðis krafðist hann hámarks vöruvöndunar og frágangs.

Þetta lagði grunn að dæmalausri velgengni framleiðslunnar, því að Bjallan varð fljótt fræg fyrir eindæma góða endingu og lága bilanatíðni sem kom notendum þægilega á óvart og keppinautum í opna skjöldu.

Í viðbót við þetta var gríðarmikil áhersla lögð á að bæta bílinn og gera hann betri á allan mögulegan hátt. 

Þegar þessi forsaga Volkswagen verksmiðjanna er skoðuð stingur enn meira í augu sú algera andstæða sem felst í þeim vörusvikum, sem þær hafa orðið uppvísar að. 

Nordhoff myndi snúa sér við í gröf sinni við að verða vitni að þeirri niðurlægingu og tjóni sem óskabarn hans verður nú að þola. 

 

 


mbl.is VW innkallar 120 þúsund bíla í S-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langmesta mengunin vegna borgarumferðar.

Langmesta loftmengunin af völdum jarðarbúa er vegna borgarumferðar og þar liggja því bestu sóknarfærin til að láta fara fram skipti á orkugjöfum. 

Flutningar með skipum og flugvélum koma þar langt á eftir, og eins og er, er aðeins að vænta skipta á orkugjöfum í skipum. 

Vonandi finnst síðar lausn fyrir flugvélarnar. 

Mesti árangur Íslendinga felst augljóslega í að koma landflutningafarartækjunum yfir í notkun annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis. 

Ef við getum komist í fararbrodd þjóða hvað þetta varðar og látið það koma fram í því að erlendir ferðamenn noti meira slík farartæki hér á landi en í nokkru öðru landi fellur sú fullyrðing um sjálfa sig að ferðaþjónustan sé ekki valkostur miðað við stóriðju.

Þar að auki koma langflestir ferðamennirnir frá Evrópu til að skoða eldfjallanáttúru Íslands. 

Ef gera á sérstakt átak til að fæla þá frá því að koma til Íslands, þurfa þeir að fara þrefalt lengri leið, alla leið til Yellowstone, til að upplifa svipað og hér á landi, og menga þar með þrefalt meira á leiðinni þangað og til baka en ef þeir færu til til Íslands. 

Þegar sagt er að ferðaþjónustan sé ekki valkostur miðað við stóriðjuna er augljóslega verið að halda stóriðjunni fram, rétt eina ferðina enn, og ekki furða að útdrátt úr erindi prófessors um þetta sé að finna á vef Samorku því að í ferðaþjónustunni sjá orkufyrirtækin helsta keppinautinn um nýtingu náttúruverðmæta landsins. 

Nýting ferðaþjónustunnar byggir á því að hin einstæða náttúra sé sem ósnortnust, en orkunýtingin á áframhaldandi eyðileggingu fossa, hverasvæða og víðerna. 

Svo mikið þykir liggja við til að halda stóriðjunni til streitu á umhverfisdegi atvinnulífsins, að mælt er sérstaklega gegn og gert lítið úr þeim atvinnuvegi sem hefur staðið undir efnahagsbata og atvinnu síðustu árin og er orðinn stærsti og gjöfulasti atvinnuvegur þjóðarinnar.   


mbl.is Náttúruverndin hrökkvi skammt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband