Friðarverðlaun til helstu stjórnmálaleiðtoga stórvelda orka oft tvímælis.

"Allt orkar tvímælis, þá gert er" mun hafa verið eitt af eftirlætis orðtökum Bjarna heitins Benediktssonar forsætisráðherra. 

Fáir stjórnmálaleiðtogar lögðu sig eins mikið fram um að viðhalda friði í Evrópu og Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta en hefði hann fengið Friðarverðlaun Nóbels hefðu það þótt mistök eftir á þegar skipbrot stefnu hans blasti við. 

Það var meira en hæpið að látra Obama Bandaríkjaforseta fá þessi verðlaun, og enda þótt Angela Merkel hafi sýnt aðdáunarverða viðleitni til þess að sigla álfunni út úr stórhættu vegna átakanna í Úkraínu og flogið á tímabili eins og þeytispjald um álfur til þess að reyna að fá aðra þjóðarleiðtoga til þess að sýna hófstillingu og reka raunsækispólitík, er það engin trygging fyrir því að málin skipist þannig að hún verði eftir talin verðug þessara verðlauna. 


mbl.is Fær Merkel Friðarverðlaun Nóbels?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn er óhultur fyrir hlerunum.

Magnús Ver Magnússon segist hafa orðið kjaftstopp og hissa þegar hann fékk það staðfest að sími hans hefði verið hleraður og komið fyrir hlerunarbúnaði í bíl hans. 

Hann hefði ekki þurft að verða hissa. 

Sumarið 2005 varð ég líka hissa þegar það blasti við að sími minn og hvers sem væri í þjóðfélaginu gætu verið hleraðir og að svo virtist sem inn í þessar hleranir blönduðust menn af stjórnmálalegum ástæðum eða þeir sem hægt væri að tengja á beinan eða óbeinan hátt við umhverfis- og náttúruverndarmál. 

Þegar ég sagði frá þessu síðar á blogginu vakti það nánast engin viðbrögð. 

Ári síðar var greint frá því í bókinni "Framtíðarlandið" eftir Andra Snæ Magnason að NATO hefði í heræfingunni Norður-Víkingi 1999 notað bannsvæði á hálendinu til þess að æfa notkun fullkomnustu sprengju- og orrustuþotna heims í því að gera árásir á umhverfis- og náttúruverndarfólk. 

Slíkt gat vart hafa gerst á annan veg en þann að íslenskir ráðamenn hefðu lagt það til eða að minnsta kosti samþykkt það. 

Þetta vakti engin viðbrögð, hvorki 2006 né síðar. 

Í hitteðfyrra kom í ljós að Bandaríkjamenn hleruðu símtöl leiðtoga vinaþjóða sinna í Evrópu. Út af því urðu margir hissa og töldu þetta reginhneyksli. 

Símamál mitt og fleiri 2005 benti til þess að ENGINN gæti talist óhultur fyrir símhlerunum hér á landi en enginn minnist á orðið hneyksli í því sambandi.  


mbl.is „Varð kjaftstopp og hissa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stærsta stórsýning veraldar".

Þegar Skaftárhlaup verða er oftast horft mjög þröngt á það fyrirbrigði og það ekki sett í samhengi við margfalt stærri náttúruhamfarir sem endurtaka sig með nokkurra alda millibili. 

Í gangi er nefnilega sjónarspil sem kalla mætti "stærsta stórsýning veraldar" eða "the greatest shov on earth".

Þessi stærsta stórsýning skiptist í meginatriðum í tvo kafla:

Annars vegar eldgosakafla og hinsvegar sandburðarkafla.

Báðum þessum fyrirbrigðum stjórnar jarðeldurinn undir Vatnajökli og svæðinu þar suðvestur af.

Síðasti eldgosakafli var 1783 þegar næststærstu hraun jarðar á sögulegum tíma runnu niður í Landbrot, Meðalland og Fljótshverfi.

Það hraun rann yfir land, sem sandur og annar jarðvegur höfðu farið langt með að þekja milli áranna 934 og 1783, eftir eldgosakaflann 934 þegar stærsta hraun jarðar á sögulegum tíma rann ennþá lengra en Skaftáreldahraunið og skildi meira að segja eftir gervigígana Landbrotshóla.

Ef rétt væri á spilum haldið hefði ekki verið hætt við að setja fé fyrir tveimur árum í öflugt safn um þetta sjónarspil á Kirkjubæjarklaustri. 

Slíkt safn hefði sett strik í einbeittan brotavilja virkjanafíkla gegn þeim fádæma náttúruundrum sem eru á þessum slóðum og geta eflt frægð, ferðamannastraum og fjárhagslega afkomu heimafólksins. 

Í staðinn er þrýst á að reisa virkjanir á báðum hraunrennslissvæðunum og einskis svifist til að blekkja og fela, til dæmis með ótrúlega röngu mati á umhverfisáhrifum Búlandsvirkjunar og Hólmsárvirkjunar þar sem þess er meira að segja alls ekki getið um tilvist nokkurra fallegra fossa og sérstaks hraunhólmasvæðis Skaftár . 

 


mbl.is „Rosalegar hamfarir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil orka í fjarskyld verkefni.

Stóraukin umferð ferðamanna til og frá landinu og um allt land kallar á miklar framkvæmdir í samgöngukerfinu, sem lenda á herðum opinberra fyrirtækja sem fá til þess fjárframlög frá skattborgurunum. 

Í húfi eru gríðarlegir fjármunir fyrir efnahagslífið sem tekjur af ferðamönnum skila eins og meðal annars kom vel fram í blaðagrein Skúla Mogensen um aðkallandi framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll, sem geta skipt fjárhæðum fyrir efnahagslífið svo hundruðum milljarða króna skiptir.  

Mér er kunnugt um það að fyrir nokkrum árum gafst einn stjórnarmanna upp á setu í stjórn þar á bæ og sagði sig frá störfum vegna þess að honum blöskraði það að á hverjum fundi eftir annan fór mestöll orka og tím manna í þref um einstakar verslanir og aðstöðu fyrir þær í Leifsstöð á sama tíma og aðkallandi umræða um flugvallarmannvirki komst ekki að.

Sjá má þær skoðanir viðraðar hér á blogginu að kröfur forstjóra Wow-air um betri og markvissari vinnubrögð á þessu mikilvæga sviði opinbers reksturs feli í sér frekju auðmanna sem krefjist þess að ríkið mylji undir þá.

Þetta er furðuleg og fráleit sýn á verkefni þeirra stofnana sem falið er að nota fé skattborgaranna til að standa sem best að uppbyggingu og rekstri samgöngumannvirkja.   


mbl.is „Ríkið á ekki að selja nærbuxur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband