"Veröldin er söm við sig..."

"Veröldin er söm við sig.

Svíkur margan auður..."

 

Þannig hófst staka sem Andrés heitinn Valberg flutti fyrir 19 árum og hefur marg sannast.

Hér um árið var maður svo barnalegur að halda, að vegna hinnar miklu fræðslu á upplýsingaöld um hvers kyns klæki, spillingu og græðgi myndu atburðir eins og kreppan mikla ekki endurtaka sig.

En þetta reyndist barnaleg tálsýn því að mannlegt eðli heldur áfram að vera jafn ófullkomið og það hefur verið í þúsundir ára.

Þótt það vantaði ekki að Rannsóknarskýrsla Alþingis ætti að koma í veg fyrir að einkenni aðdraganda Hrunsins skytu upp kollinum á ný, sést margt birtast sem minnir á það sem gerðist á árunum 2002-2008.

Vísa Andrésar Valbergs var að vísu ort með tilliti til lífsreynslu hans sjálfs, sem hafði marga fjöruna sopið á lífsleiðinni í fjármálum og fleiru, því að hún var svona í heild:

Veröldin er söm við sig.

Svíkur margan auður.

Allir myndu elska mig

ef ég væri dauður.


mbl.is Ekki svigrúm fyrir svona framgöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki "atvinnuuppbygging".

Næstum því í leyni hefur ein atvinnugrein, ferðaþjónustan, staðið fyrir sköpun þúsunda starfa, líkast til á annan tug þúsunda á fáum misserum, án þess að þess sé nokkurs staðar getið undir hinu fagra heiti "atvinnuuppbygging".

Ég minnist þess ekki að stjórnmálamenn né aðrir noti það orð þegar um stærsta atvinnuveg þjóðarinnar er að ræða.  

Mismunandi notkun þessa orðs segir mikið um þann hugsunarhátt sem enn heldur risaálveri í Helguvík með öllum þeim stórfelldu náttúruspjöllum sem það mun kosta, sem einróma keppikefli núverandi ríkisstjórnar til þess að "stuðla að atvinnuuppbyggingu".

Yfirlýsing þess efnis frá fyrstu dögum stjórnarinnar hefur ekki verið dregin til baka.


mbl.is Barátta um starfsfólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveigjanlegri vinnutíma og fleiri vinnandi.

Nútíma þjóðhættir eiga alveg að geta rúmað meiri sveigjanleika í vinnutíma og möguleika fyrir fleiri vinnandi í hlutastörfum en nú er.

Aðstæður fólks, hæfileikar og þarfir, eru eins misjafnar og fólkið er margt.

Eftir því sem öldruðum fjölgar eykst þörfin á að veita þeim atvinnutækifæri, sem hafa enn starfsorku og finna sig illa með því að vera kippt út úr samfélaginu að miklu leyti og skyldaðir til að hætta að vinna og finnast þeir hafa verið settir utangarðs í þjóðfélaginu, engum til gagns.

Ég er kominn á þann aldur að þekkja fjölda aldraðra, sem myndu þiggja að fá að starfa eitthvað gagnlegt í hlutastarfi, og með því að stytta skyldaða vinnuviku niður í 35 stundir skapast rými fyrir meiri sveigjanleika.

 


mbl.is Vinnuvikan verði 35 stundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband